Rétt um daginn las ég „í einum spreng“ tvær bækur eftir Jón Hjartarson. Önnur þeirra, Fyrir miðjum firði, kom reyndar út fyrir ári síðan en hin, Veislan í norðri, er nýútkomin. Skemmst er frá því að segja að hér er í báðum tilvikum um sannkallaðan yndislestur að ræða.
Fyrir miðjum firði segir frá uppvexti Jóns í Kollafirði á Ströndum um miðja síðustu öld, á nýbýlinu Undralandi, milli tveggja Fjarðarhorna, þess stóra og litla. Bókin bregður upp skýrum svipmyndum af lífi íslensks alþýðufólks, harðri lífsbaráttu þess við erfiðar aðstæður, en einnig leikjum og hugmyndaheimi barnsins, þar sem náttúran, jafnt harðneskjuleg sem undurblíð, er í aðalhlutverki.
Veislan í norðri segir frá þátttöku Jóns í síldarævintýrinu mikla á 7. áratug liðinnar aldar en hann vann hjá Síldarverksmiðjum ríkisins á Raufarhöfn í sex sumur á þroska- og námsárum sínum, frá 1961 til 1966. Frásagnaraðferðin í þessari bók er svipuð og í hinni fyrrnefndu, brugðið er upp svipmyndum af lífinu „í síldinni“, bæði af fólki, starfs- og staðháttum á síldarplönum og í verksmiðjunni, og þorpsbragnum.
Saman eru þessar bækur þroskasaga höfundarins og sýna með skýrum hætti þann grunn sem lífsskoðun og viðhorf hans byggir á æ síðan.
Jón Hjartarson er ritfær í besta lagi. Texti hans er á fallegu íslensku máli, skýr og skorinorður og laus við allt prjál og málalengingar, svolítið í anda Íslendingasagnanna sem hann drakk í sig í æsku. Textinn líður þó vel fram og er afar læsilegur – þetta eru engar skýrslufærslur – lifandi og skemmtilegur stíll sem fellur einstaklega vel að efninu svo lesandinn er alltaf með á nótunum. Ekki er farið í grafgötur með neitt, og lýsingarnar svo myndrænar að efnið stendur ljóslifandi fyrir hugskotssjónum.
Stíllinn er líka afar einlægur, manni fer ósjálfrátt að þykja vænt um þennan pilt. Því veldur ekki síst það að sá sem heldur um penna er mannvinur – allar lýsingar á fólki eru umvafðar virðingu og skilningi á aðstæðum þess og mannlegum breyskleika, höfundurinn fylgir samferðamönnum sínum við hverjar aðstæður í blíðu og stríðu, og fellur aldrei í þá algengu gryfju að setjast í dómarasæti yfir þeim sem kanna að hafa orðið hált á lífssvellinu.
Eitt megineinkennið á báðum þessum bókum er sterk félagsleg vitund höfundarins. Hann horfir til baka, fullorðinn maður, metur þaðan stöðu fólks og samfélags á barns- og unglingsárum sínum og rýnir í atburði frá félagslegum sjónarhóli. Að því leyti eru bækurnar báðar greinandi og í sjálfu sér hápólitískar. En það kemur síður en svo að sök, hvergi örlar á innrætingu eða pólitískri rétthugsun: þetta eru ekki pólitísk boðunarrit, heldur svipmyndir úr þroskasögu, annars vegar einstaklings og hinsvegar lýðveldis, sem bæði eru að stíga sín fyrstu skref á langri vegferð.
Þetta eru höfuðkostir beggja bókanna; hin skarpa, öfgalausa samfélagsgreining, lifandi og myndrænn stíll og síðast en ekki síst mannúðin og virðingin sem skín úr hverju orði.
Okkur sem þekkjum Jón Hjartarson kemur það ekki á óvart.