Hér er saman komið safn tækifæriskveðskapar á árinu 2022. Safnið er alveg óritskoðað og í því eru u.þ.b. 210 vísur af ýmsu tagi, misjafnar að gæðum, en vonandi einhverjar birtingarhæfar.
03.01.22
Endi stakan enn mér hjá
utan hrakin vega,
innra kvakar eftirsjá
alveg svakalega.
05.01.22
Úr ljótu trýni lægðin hrín
langa píningsþulu.
Yfir gín nú allófrýn
í appelsínugulu.
09.01.22
Haldin eru títt um vetur veðramót,
vill mörg lægðin á þau, sem og þorrablót.
Roggnar koma þær og reka oss
rennblautan koss.
Það er lítið gaman mest er gengur á,
gusast yfir brimgarðana sjónum frá.
Hviður eflast og þá flettist við
allt malbikið.
Nú fýkur mold og grús og falla gripahús,
og fólkið úti, það er illa statt.
Ef tekst, þá er það plús, að bjarga manni’ og mús
en mikið getur lognið farið hratt!!!
Eftir djúpar lægðir gjarnan léttir til,
lífið kemst í skorður, svona hér um bil.
En ekki boða veðurfréttir vægð;
VÁ! Nýja lægð!
Æ, nýja lægð!
Hyldjúpa lægð!
11.01.22
Ef mig hrjáir amstur dags,
öskugráir skuggar,
af mér bráir alveg strax,
illu frá þú stuggar.
13.01.22
Blakkir kólgubakkar.
Brokkur ólgu strokkar.
Frakkur dólgur flakkar.
Flokkur bólginn skokkar.
19.01.22
Kjartan bóndi í Haga laumar að mér fyrripörtum þegar við bræður og frændur komum þar í hrossaragi. Ég skulda honum nú tvo botna og set þessa upp í skuldina:
Kjartan:
Heldur var ég höggvagjarn
hníflum títt að ota,
Ég:
sálin köld og hrjúf sem hjarn,
hæf til engra nota.
…..
Kjartan:
Bjarni hestum einkum ann,
á honum sést þó skína
Ég:
að hann meira meta kann
Möggu, konu sína
21.01.22
Við Ari áttum góðan dag í hesthúsinu. Þrjú hross komin á járn og fleiri bíða; eitt á dag kemur skapinu í lag! Hann gekk á með dimmum hryðjum og við fengum eina í andlitið á heimstíminu:
Á bóndadag kom „þorraþeyr“,
þá er helsta fréttin
að kátir fríðleiksfeðgar tveir
fóru skeifnasprettinn.
24.01.22
Íslensk þjóð að aldagömlum vana
í augun komin var með glýju
svo landsliðinu láðist, fyrir hana,
að leggja’ að velli Króatíu
26.01.22
Nu slår man om sig på Molboernes sprog!!!
En velkendt floj på mig flense,
så frihed er nødt til at grense.
Om Kóvíð, er klart,
men helvede hart,
må ej af gåløse glense.
27.01.22
Margur er æstur af ölinu
og ólgandi þjóðernisbölinu.
Á sjálfa þá fellur
öll froðan sem vellur.
Það er maðkur í íslenska mjölinu
Stefnuskrá þjóðrembingsins:
Fyrst yfir danskinn ég drulla.
Það er dyggð að ragna og bulla.
Næst Morgan Kane,
hinn norska svein,
mun svívirðingum á sulla
31.01.22
Ef andleysið er orðið bert,
efahyggjan lúmsk og sterk
traustur vinur getur gert,
gott betur en kraftaverk.
Traustur vinur stoð er sterk,
stendur uppi, þó sé svert,
tekur viljann fyrir verk,
varast gaspur opinbert.
03.02.22
Ríkir vetur, róminn fretur brýnir,
einskis metur ýlustrá,
úlpan betur duga má.
Skefur fönn í skafla, mönnum leiða.
Nem í önnum napran gný,
nístir tönnum kinnar í.
Vetrarhindurvitni, sindur mjallar
við leiða myndar lokasvar.
Logann kynda útreiðar.
Undir gnestur, ísinn hestur skeiðar.
Lífsins bestar lausnir finn
er legg ég mesta gæðinginn
06.02.22
Það er von á vetrarlægð,
verstu í langan tíma
sem mun enga sýna vægð,
svæðið best að rýma.
Most popular prices,
then public crisis.
When morning rises
Rogan apologizes
08.02.22
Bylur óf í blindukóf,
bóndann gróf að nafla.
Ákaft skóf, sér ei kann hóf
upp að hrófa’ í skafla
09.02.22
Ekki er þorrinn brúnablíður,
byrstir sig gramur og snýtir hríð.
Þó snæþakinn vangur sé fádæma fríður
má fara að koma betri tíð
því dag er að lengja og lekur mér úr
löngun að komast í útreiðartúr.
Þó láti mig annars ýmislegt hafa
ekki er staðan björguleg,
fer út þegar dúrar, ei velkist í vafa
að veðrið er rysjótt og færðin treg,
óruddir stígar, það hleðst í hóf
og hellist svo yfir blindakóf.
Upp til fjalla hugurinn heldur,
þá hverfur úr vitund daglegt streð,
öræfakyrrðinni ofurseldur,
uni þar sáttur reiðhesti með,
nýt þess að æja í lítilli laut
og leggja höfuð í móðurskaut.
Alltaf er ljúft að láta sig dreyma,
landshorna milli að komast á flakk,
margar perlur úr minninu streyma:
maður og drösull með beisli og hnakk.
Við þetta löngum má stytta sér stund
er stórviðrabálið þýtur um grund
…
Út um ljóra friður fór,
flaug öll glóra héðan.
Að bíða rór er blessun stór,
blunda órar meðan
13.02.22
Hvergi yfir drögum dul
dýrleik fiskislóðar
en áfram verður Guggan gul
og gullið sameign þjóðar
15.02.22
Ákaft ég samgleðst að svon-
a sigraði baráttukon-
an. Efling mun senn
sýna að enn
á verkalýðshreyfingin von
19.02.22
Þorrinn víst er þræsinn mjög,
þyrlar lögum snjóa.
Að lægðagangi leggur drög,
með látum kemur góa
22.02.22
Nú er úti veður vont,
vart út hund’ að siga
(skynsamlegt að skipt’ um font
og skrifa innan sviga)
…
Finnst í skjól nú fokið öll,
ferðast gjólan víða.
Til Angóla Hamarshöll
held’r en sólar bíða
01.03.22
Mælir fullur fyrir rest,
fantabullan galin.
Drepist, með sull, úr píningspest
Pútín, drulluhalinn
02.03.22
Finnst mér rétt að flagga strax
og fagna öllum saman
18 bræðrum öskudags.
En hvað það er gaman!
19.03.22
Í rigningu og roki
ríð ég út.
Eins og ullarpoki
með uppblásinn kút
29.03.22
Heldur en leggja vandann á vog
þó vísnaharðæri geisi
yrkir skáldið af skilningi og
skorti á úrræðaleysi
30.03.22
Við inniseturnar iða mér,
úti í huganum þeysi.
Svikalaus gleði, því gamanið er
gert í óleyfisleysi.
01.04.22
Fólk er af ilminum ölvað,
andar að vorinu sér.
Allt er samt illt og bölvað
ástand í veröldu hér
04.04.22
Virðing þingsins fer vítt um svið
þó verði því oft á í messu.
Það eru hefðbundin viðbrögð að við
(hin) verðum að læra af þessu
05.04.22
Ástand hjá bændum er helvíti hart,
heldur er faðmurinn kaldur
og innyflaráðherrann sér bara svart
svo snúinn er framsóknar galdur
…
Lagið hið fegursta flutt,
fuglum af greinum svo rutt.
Ilmur og ylur
svo öskrandi bylur.
Verst hvað vorið er stutt
…
Þó vélin vilji ei starta
og vorið snjókögri skarta,
mannheimur molni í parta
„maður á aldrei að kvarta“.
07.04.22
Vini og ættingja arta
svo ekki þeir þurfi að kvarta,
bankann því búta í parta,
í bita þeim leyfi að narta.
Gagnsæisgleraugum skarta,
Guð, hvað það yljar um hjarta
…
Ef flokkinn skal fiðra og tjarga
í fenjum spillingardíkisins,
Bjarna af sundi mun bjarga
Bankasýsla ríkisins.
12.04.22
Vindsalur víður og fagur,
á vorið loks kominn er bragur.
Klárinn af kæti
kann sér vart læti.
Mikill dásemdardagur.
15.04.22
Fjölskyldunnar föst er stoð.
Á föstudaginn langa
19 manna matarboð.
Merlar tár á vanga
18.04.22
Heldur fer batnandi hagurinn,
hærri og glaðlegri bragurinn
fuglunum hjá,
fagnaðarþrá.
Enn einn dásemdardagurinn
19.04.22
Skal oss senda skilaboð,
skýr, en ekki þvælin
þó landinn get’ ei lært það hnoð
að lesa fyrirmælin.
…
Árin síðan alfyrst leit
augun björtu, hlýju,
þau eru orðin, það ég veit,
39.
21.04.22
Fjalladýrðin fangar mig,
í ferðir tekur þyrsta,
þegar harpa sýnir sig
sumardaginn fyrsta
22.04.22
Birtan nærir, lifnar lund,
léttist kæra sporið.
Liti hrærir, ljómar grund,
leiðir blærinn vorið
25.04.22
Þegar heyri hófaglaum,
heiðargötu duna
og hrossið leikur létt við taum,
lifi hamingjuna
26.04.22
Þegar halla í heimi fer
heldur undan fæti
er alltaf gott að ylja sér
við eld af fornri kæti.
01.05.22
Tekið hefur þjóð í þurrt,
því ei getum unað.
Drekkum saman bjarnaburt,
bragðið vekur munað.
06.05.22
Engan heyri þrastaþyt,
þagnað blessað vorið.
Á þessu er ég alveg bit,
aftur þyngist sporið
09.05.22
Vor af svefni vaknar stillt,
velgir morgunsopa,
grundu svo, í geði milt,
gefur tíu dropa,
spóinn vellur, vængjum fer,
vagar gæs í móa,
hrossagaukur hraðar sér,
hreiðrar um sig lóa
…
Um hagann gola himinblíð,
þar haldin listaþingin.
Legg því á og alsæll ríð
Arnarstaðahringinn
24.05.22
Kærar þakkir fyrir fjölmargar afmæliskveðjur. Deginum ver ég í skólaheimsóknir á Ítalíu.
Enn skal þakka að ég fæ
að iðka lífsins glímuna.
Ef fullorðnast, þá fyrst ég næ
að fella niður grímuna.
29.05.22
Lestin brunar hraðar, hraðar,
heldur viljug suður á.
Sveitir landsins baðar, baðar
birta gullin sólu frá
07.06.22
„Ég nýt mín í regni og roki“,
sagði Runólfur stórfýlupoki
en skreið svo í skjól
þegar ský huldi sól
og lá þar í væli og voki
10.06.22
Nagar rótina naðurinn.
Níðingalundur er staðurinn.
Viltu gleymskunnar suð?
Gas eða stuð?
Margur er siðblindur maðurinn
…
Mikið djöfull er magnað
að mylja undir sig hagnað
af sameignarlind
og lauma fyr’ vind.
Í fjölskyldum nokkrum er fagnað.
13.06.22
Svo ei á kerfið komi rót
og karlinn freki sitt fái dót
sýna verður viðbrögð skjót.
Veisla fyrir hal og snót,
í Valhöll, er alþekkt bragarbót
ef blessun streymir eins og fljót.
Vítt um hreppa sér mæla mót,
og maddömunni drekka blót.
En þetta dugar ei hætishót,
húsbóndinn kaldur eins og grjót.
Hringar sig þá við hægri fót
Hreyfingin-framboð – til að blíðka þrjót
21.06.22
Hvert ferðalag gefur skin og skúr
og skiptingin alla vega
en félagar góðir í teymingatúr
taka því mátulega
13.07.22
Líkt og Verbúð undin úr
almenn þjóðarsáttin.
Einhver núna ansi múr-
aður fer í háttinn.
14.07.22
Að vakna í kofa víst er sælt
og volgan eta grautinn.
Og það er sem í draumi dælt
er dynur undir brautin
…
Prúður o’ní pokann skríð,
paradís í kofa,
og á morgun meira ríð,
mín ef örlög lofa
16.07.22
Kaldur og hrakinn lengi ég lá
sem lík undir rofabarði,
rúst eina brennda reisn mína sá,
rýr orðinn hluturinn skarði,
en núna í beðin mín blómstur vil fá,
svo blikni ei skúfurinn harði,
af frjósamri mold, svona milljarða þrjá,
moka úr nágrannans garði
17.07.22
Hún Margrét Stefánsdóttir á afmæli í dag og er orðin tvítug, hvorki meira né minna. Við amma Anna María sendum þessari dásamlegu alnöfnu föðurmóðurlangömmu sinnar kveðju með loftstraumunum:
Liðnir eru tugir tveir,
tíminn burtu æðir.
Þó árin hverfi, alltaf meir
okkar hjörtu bræðir.
Þú ert yndi, Margrét mín,
men úr kærleiks baugum,
Gleði tær og gæfa skín,
glóð í þínum augum
20.07.22
Við Anna María fórum á Ingjaldssand og lentum þar í þoku á Sandsheiði. Gróðursælt er þar í dalnum en eyðilegt í mannabústöðum. Þar sem vegurinn út Dýrafjörð norðanverðan beygir inn Gerðhamradal eygðum við vegarslóða og ákváðum að leggja land undir fót, gengum fram á eyðibýlið Arnarnes. Falleg ganga og þægileg. Enduðum daginn ofar skýjum á Bolafjalli, Djúpið fullt af lopa.
Svalt er á Ingjaldssandi,
sígur lopi af egg,
grænljóma gróðurbandi
girt, undir klettavegg.
Býlin í eyði, en andi
ennþá frá meyju og segg,
landsins hinn forni fjandi
færði þeim vetrarhregg.
Skælt, undir Skagafjalli,
skýlir sér Arnarnes,
allt komið alveg að falli,
útkjálkasöguna les.
Hvað varð af bústangsins bralli?
Bændur sig drógu til hlés
svo allt er nú orðið að gjalli.
Alveg er þetta spes.
24.07.22
Viltu ekki vera bráð
vanans sára leiða?
Við því best það reynist ráð
að ríða upp til heiða
26.07.22
Fjöllin allan efla mátt,
andans glóð að báli.
Á stóru sviði stendur hátt
Stöngukvíslarskáli.
…
Alveg draumur, fljót í för,
fótaglaumur tíður.
Létt við taum og ör er Ör,
eins og flaumur stríður.
Þvalan næðing þéttast finn,
þokuslæðum hnýttar
forarhæðir, Funi minn,
fimur þræðir grýttar.
Einhver kann sér una best
í ógnar stórum höllum
en gamla skálans munað mest
ég met á Hveravöllum.
28.07.22
Afi minn varð, alls ófús,
að eigra milli bæja.
Hent var í ‘ann hungurlús
sem hann varð láta nægja.
04.08.22
Blessað veðrið Íslands er
á alla vegu.
Því ekki breyti, og samt fer
í útilegu.
05.08.22
Það þykir voða sniðugt (og sjálfsagt um aldir alda) að kenna einhverju, sem m.a. kallast skrattinn sjálfur, um útbrot á yfirborði jarðar. Að „hann“ sé að hita undir pottunum eða eitthvað í þá áttina. Þessi hlægilega hugmynd um djöfulinn í iðrum jarðar (og þarafleiðandi eitthvert guð í himinhvolfinum) bergmálar nú í kveðskap hagyrðinga sem aldrei fyrr. En þeir skuli athuga þetta …
Niðrí möttli eldheitt er,
ólga spýjur harðar,
út og suður allt þá fer,
iðar skorpa jarðar.
Og himni koma ofan af
ógnir miklar þegar
sólin kyndir svörð og haf
sífellt hræðilegar.
07.08.22
Anna María er á ferðalagi um landið.
Illt um heiminn út- er lit,
ei um slíkt þó hirði
þegar ástarsæll ég sit
í sól, í Mjóafirði.
14.08.22
Stúlkan mín á afmæli í dag.
Vakin, sofin, veitir mest,
um-vefur fólkið þitt.
Þú ert yndið allra best,
elsku hjartað mitt.
16.08.22
„Þetta er óttalegur ræfill“.
Um grýtta mela móður fer,
svo máist af mér brosið
er vesæll ræfill mætir mér;
Meradalagosið.
Það voru blendnar tilfinningar meðal starfsfólks fangelsisins þegar ég mætti til vinnu minnar í skólanum á Litlahrauni í morgun. Órækt vitni um að sumarið sé liðið:
Haustboðinn hrjúfi
um Hraunið nú fer.
Sem grámyglan grúfi
er Gylfa að ber.
Í lífsins arga ólgusjó,
sem á mér stundum brjóta lætur,
alltaf veit að á ég þó
yndislegar tengdadætur.
Sjálfsagt er mikils meta
máttinn að lina krísu.
Þó væri gott að geta
gengið að því sem vísu
18.08.22
Í hægindastólinn mér hlamma,
hef svo upp raust mína’ og skamma
konur og karla
sem kunna sig varla
en syngja og dansa og djamma
21.08.22
Ansi margt er á oss lagt,
ekki finnum réttan takt,
gæðin eru gefin skakkt,
af gróðafíkn, svo það sé sagt.
26.08.22
Eftir viku iðjutörn
undir kötlum velgi.
Ei leggst í neina nauðarvörn,
nú er komin helgi
…
Legg að vanga votan klút
og vikna annað slagið,
munda símann, mæli út
og mynda sólarlagið.
27.08.22
Sá á Netinu að sala á „rúnkmúffum“ væri í sögulegu hámarki og kvíði því þess vegna að allt verði uppselt eftir helgi
…
Draum um múffueign ég el,
ef með fylgir sleipigel.
Nafnið þó ei þjóðlegt tel:
þetta kallist mjaltavél.
28.08.22
„Finnst mjög óheillandi þegar ég er ekki dýrkuð og dáð“
Ég er fögur og fjáð,
fótsporin rósblöðum stráð,
við hjartarót innst
mér heillandi finnst
ef ég er dýrkuðu og dáð.
Tengdadóttir mín á afmæli í dag. Af fordæminu sem ég setti við síðasta sambærilegt tilefni um daginn verð ég að reyna að standa mig í stykkinu. Og geri það vitaskuld með gleði í hjarta.
Stendur í stafni og skut,
í stórsjó ei gefur sinn hlut.
Heillandi, fríð,
hógvær og blíð.
Til hamingju, Rebekka Rut.
29.08.22
Það mætti nú einhver kunnugur hnippa í Lilju og útskýra fyrir henni hvað auglýsing er. Svo hún gæti hugsanlega litið á þennan „menningargeira ríkisstofnana“ í aðeins „stærra samhengi“. Þó alls ekki væri gerð krafa um hið ómögulega – að koma henni í skilning um að líf gæti hugsanlega fundist utan framsóknarflokksins, þó vísindamenn leiti þess nú vongóðir í öðrum sólkerfum.
Hornrétt er hugsun og skýr,
heimurinn flokksær og kýr.
Svo blessunin Lilja
á bágt með að skilja
hvað í orðinu „auglýsing“ býr.
…
Alltaf er ögrun að þramma
utan hins viðtekna ramma.
En ótvírætt er;
aðeins fær hver
„eina ævi og skamma“.
30.08.22
Núna haustið kom með hvell,
kalda raust og spýju.
Um það braust með org og rell,
alveg laust við hlýju.
13.09.22
Á oss dynur auðvaldsbreim,
ógn við mannúð sanna.
Skrapar innan, holar heim
harðstjórn verðleikanna.
…
Logn að kalla, læðist blær
ljúft um fjallavanga.
Ljóma stallar, lautin hlær,
liljur vallar anga.
15.09.22
„Enn tefst Íslandsbankaskýrsla“
Margt sagt sem alls ekki meinum
og margt sem við ekki frá greinum.
Þó nefnd marga skipum
og niður margt hripum
skýrsla mörg liggur í leynum
Auglýsing: „Tjónamtasfulltrúi eignatjóna“
Ljónatemjari ljóna
og tjónamatsfulltrúi tjóna
tóku æðiskast æðis
við sæðisgjöf sæðis
á hjónanámskeiði hjóna.
17.09.22
Jafnt þó fólk glamri og grínist,
grafið í sjálfu sér týnist,
lifi í draumi
eða líði með straumi:
ekki er allt sem sýnist.
25.09.22
Allir hugsa’ um sjálfa sig,
við sitthvað að bralla.
Afsakið á meðan mig,
ef mig skyldi kalla.
…
Víða foktjón varð um land,
í verstu rokuhviðum.
Stærihroki storms í bland
við storðar lok á griðum.
…
Sóley er orðin 19 ára, segi og skrifa! Afi og amma Anna María senda bestu afmæliskveðjur.
Er Sóley heldur samkvæmið
svignar af kræsingum hlaðborðið
og að gömlum, góðum sið
gestum býður í afmælið.
Hún er yndi, sem elskum við,
áform háleit, skýr stefnumið,
kona ung sem kemst á skrið
með kærleikann ávallt sér við hlið.
25.09.22
Lífsins er langbesta gjöf,
og lítil mun verð’ á því töf,
í freistni að falla
og í ferskeytlum svalla
út yfir andlát og gröf.
…
Gegningamaðurinn gagnfúsi
var gómaður óvart í vagnhúsi.
Um það skal ei fást.
En fljótlega sást
að mæddi töluvert á Magnúsi.
04.10.22
Nú er kyrrt um lög og láð,
í leynum firrtur kraftur.
Að hausti syrtir, svalt er gráð,
seinna birtir aftur.
…
Er máninn skein yfir skarður
urðu skuggarnir þjóðsagnaarður.
Skaust draugur við hól?
Undir dalanna sól
er fallegur, grjóthlaðinn garður.
Er máninn skín yfir skarður
eru skuggarnir stórbokkaarður
því við sjóndeildarhring
allar sveitir um kring
er geggjaður vindorkugarður.
…
Boldangs er Brynleifur kall
með bjargsneyptan haus, eins og hnall,
og granstæðið vítt.
En hann gagnaðist lítt
við meira en drullu og mall.
…
Alltaf í boltanum, Bessi,
af bræðrunum talinn „sá hressi“
en svo brotnaði tá
og trúðurinn lá
lengi í líónel messi.
…
Gleði og von skein af Guggu,
hún kom gul eins og sól inn úr muggu.
En blánaði öll
þegar bað hennar tröll
tyggjandi margþvælda tuggu.
07.10.22
Ef þau, skjálút, öskugrá
oní klofið hímdu
afrita vísu þessa þá
og þinn á vegginn límdu.
08.10.22
Fátt hér gleður fyrirséð,
forlög kveða, hæðin.
Allt er skeður óvíst með,
eins og veðurfræðin.
– – – – – – –
Sumri vísa veröld frá,
vetrar nýsi drögin
en fresta kýs að falli á
fyrstu ísalögin.
09.10.212
Andinn rís og ólgar þrá
eða frýs í horni
og því lýsa alltaf má
í einu vísukorni.
– – – – – –
Ef ég mætti upp á dekk,
og mér þætti skipta,
myndi’ ei hætta’ í miðjum flekk
mín svo rættist gifta.
13.10.22
Finnst að vetur færist nær,
foldu setur hljóða.
Haust á fleti fyrir rær
frost og hret að bjóða.
– – – – –
Sagt var frá því í fjölmiðlum að við borðiðum „fjórfalt of mikið af kjöti viðað við danskar ráðleggingar“
Einokun var ástarkoss
atlot sem fram þvingar.
Dável hafa dugað oss
danskar ráðleggingar.
15.10.22
„Nú er ég engu að nenna“
enda niður minn kveikur að brenna.
Alls hlakka til
enda ég skil
að eigi má sköpum renna.
18.10.22
Fögur sýnir foldin nekt.
Friðsæld gleður.
Það er alveg þolanlegt,
þetta veður.
Í flokkum sveigja fuglar grein,
fjaðrir ýfa,
og mig lokkar löngun hrein
um loft að svífa.
20.10.22
Katla skelfur, kannski gýs,
kolsvört móðan rís.
Jökulelfur, gneistar gnýs,
gríðarflóð með ís.
21.10.22
Þó ei líki veröld við
vísur mínar bjagaðar,
andleg fró er megin mið
og mér til dundurs lagaðar.
22.10.22
Elsku Soffía Sif átti afmæli í fyrradag og bauð til veislu í dag. Orðin 17 ára, segi og skrifa, framhaldsskólastúlka semtekur námið með trompi eins og allt annað og fær bílprófið á næstu dögum! Já, þannig týnist tíminn. Afi og amma Anna María geta vart á heilum sér tekið yfir blessuðu barnabarnaláninu og senda meðfylgjandi kveðju:
Hæglát stúlka og hugljúf er,
í hjarta mild og kærleiksrík
en skýrt úr augum skín að hér
er skörungskona, engri lík,
sem arka mun á efsta tind,
í öllu besta fyrirmynd.
23.10.22
Sumar metið sóun stór,
á sunnu letibragur.
Sat á fleti fyrir rór
fyrsti vetrardagur.
24.10.22
Brátt mun sarga ellin á
okkar bjargarstrengi.
Verður margs að minnast þá,
mikið þvargað lengi.
– – – – –
Marga þvælu heyrt ég hef,
hryggðarskælur sárar,
hatursbrælu, hefndarstef,
heimur stælur párar.
Fagurt sælan syngur mér,
sorgir fælir héðan.
Við mig gælir gæfan hér,
gleði dælir meðan.
– – – – –
Hið háa Alþingi kvað fyrirhuga að ráða „framtíðarfræðing“ sem helst mun eiga að draga upp sviðsmyndir á nefndasviði.
Ef ráða á framtíðarfræðing
er fullkomin sviðsmyndavæðing
til flótta frá efndum
í aldauðum nefndum
að finna sér framsóknargæðing.
26.10.22
Hugsa gott til glóðar mér,
gleði mottó ragsins,
og einhvern vott af sumri sér
í sólarglotti dagsins.
28.10.22
Blíðu meður heillar haust,
huga gleður krangan.
Dýrðarveður, dæmalaust,
daginn kveður langan.
– – – – –
Máske veitir Bjarna ben
og bjarnargreiða mikinn
Gulli honum gerir, en
gæti verið svikinn.
29.10.22
Fólk sem er vel birgt af góðum tengdadætrum þarf ekki að örvænta. Við Anna María erum, að því er talið er, í fremstu röð hvað þessi lífsgæði varðar. Ég hef áður haft orð á þessu en endurtek hér og nú, enda aldrei fullþakkað. Tilefnið er enda ærið því ein tengdadóttirin á afmæli í dag. Hún er yndisleg í alla staði, og hefur komið með sitt fólk eins og engill inn í fjölskylduna, hispurslaus, hlý og skemmtileg og er líka „svo dæmalaust góð við manninn sinn“ og börnin hans. Það er sannarlega betra en ekki að hafa þessa eldkláru og ákveðnu konu í horninu hjá sér í róti lífsins.
Þegar um þetta ég ræði,
þá finnst mér rétt að ég fræði
um einkunnarorðið,
set allt upp á borðið:
Jóhanna Guðrún á „GÆÐI“.
– – – – –
HJÁLPUM ÞEIM
Gleymd´ ekki þínum besta bróður
sem brauðmola færir að.
Hann er svo gríðarlega góður,
gullslegin mynt í hjarta stað.
Í von og trú á vin, er styrkur,
sem veiðiskipin gerir út,
upp lýsir slíkur maður myrkur,
burt mokar slor og grút.
Á skjánum magnast myndir
og mörlandinn þannig fréttir
að hjálpi mútur margri þjóð,
menn, konur og börn merki dauðann,
án máans eigi litla von.
Búum til betri heim,
með bómull nú strjúkum þeim
sem eiga undir sér,
auðmenn ei skatta ber.
Eflum því eignarhald,
af auðlind ei tökum gjald.
Hjálpum þeim!
31.10.22
Logi rígur lífs á stíg,
lánið hnígur, brunnið.
Tíminn flýgur, fyrir gýg
flest, ef lýgur, unnið.
02.11.22
Grána öll hin gömlu fjöll,
gljá í hjöllum sjáum,
höfuð sköllótt, visinn völl,
vang með föllnum stráum.
– – – – –
Birgir Ármannson er sannarlega haukur í horni fyrir íhaldsöflin í forsetastól Alþingis. Vísir.is: „Birgir neitar að afhenda skýrslu um félag Fjármálaráðuneytisins“. Lindarhvoll ehf. og skýrsla ríkisendurskoðunar um sölu Íslandsbanka til vildarvina og fjölskyldumeðlima.
Allt til vinnur, ekki syrgir
oft þó ginni lýðinn.
Skýrslur inni Birgir byrgir,
Bjarna sinnir hlýðinn.
03.11.22
Guðlaugur Þór tilkynnti framboð gegn Bjarnaben:
Hjá Gulla og Bjarna byrjað er
í bakið hinn að stinga
en tunglið bara tyllir sér
á tippinn Selfyssinga.
– – – – –
Stöðugt er níðst á flóttamönnum, og þeir sendir öfugir úr landi á vit örbirgðar, vonleysis og jafnvel dauða:
Megi verða áhrínsorð,
þið illu stjórnarfjandar,
að þið fallið fyrir borð,
af fólsku eigin handar.
– – – – –
Mörg er ást í meinum
og morgunljóst nú að
oft er ljúft úr leynum
lag í hjartastað.
04.11.22
Upp á skaftið mjaka mér,
mikið kjaftinn belgi.
Þegar kraftinn kenni er
komin aftur helgi.
Heitur pottur gerir gott,
gjarnan dotta’ í honum.
Við saklaust spott og sæluþvott,
sér í glott, að vonum.
05.11.22
Hvað er nýjast? Hvernig fer?
Hvert skal núna halda?
Tækifærin taka ber.
Ei tjóni öðrum valda.
– – – – –
Jóhanna Vigdís, fréttamaður Sjálfstæðisfokksins á RÚV, spyr einn landsþingsfulltrúa flokksins í sjónvarpsfréttunum:
Gengdu, hvernig getum við
gengið sterk af þessum fundi,
andstæðingnum gefið grið
og greyið Bjarna dregið upp af sundi?
– – – – –
Haustið á í hjarta stað,
þá hugarró má finna.
Samt ég verð að segja að
ég sakna hesta minna.
07.11.22
Gegn flóttamönnum fer á kreik,
færa heim skal sanninn
að íhald spilar ljótan leik,
leggur beint í manninn.
Kafna brátt í römmum reyk
ráðherrar að tjá sig.
Mannréttindavaktin veik,
vaffgé skítur á sig.
Engin prinsipp, enn á ný,
í öllum vanda gatar.
Framsókn hylur skolgrátt ský,
og skríður undir radar.
– – – – –
Þegar brestur þrekið mig,
þagnað flest í höllu,
þá er best að bæla sig,
bara fresta öllu.
09.11.22
Stjórnvöld æiggja undir ámæli vegna mðeferðar á flóttamönnum og harðræði við „brottflutning“:
Muldra vegna mannorðsglæpa,
meðvirk, samkvæmt vana,
en kannski eitthvað telja tæpa
„tilhögun brottvísana“.
Mörgu snara má í lag,
mannúð fjarar undan.
Eldinn skara’ að allra hag,
vort eina svar, og stundan.
– – – – –
Nú styttist í hið árlega og landsfræga karlakvöld Karlakórs Hreppamanna, bara rúm vika í föstudaginn 18. nóvember. Því er vissara að fara að þefa uppi kórfélaga til að grátbiðja um að skrá sig á þátttökulistann góða til að tryggja sér sæti við veisluborðið. Og athugið að …
Verðið er gjafir, ei gjöld,
grínið fer sögu- á spjöld.
Þétt verður setið,
þjórað og etið,
afburða karla- er kvöld.
12.11.22
Á Akureyri: Landnemar. Jónas Jakobsson, 1957.
Standa uppi’ á stalli,
stara suður fjörð.
Allt frá fjöru að fjalli
við frjósöm blasir jörð.
– – – – –
Út að borða, ástin mín,
okkar bönd að styrkja.
Yfir vakir, upplýst skín,
Akureyrarkirkja.
15.11.22
„Við (og á þá við „okkur Íslendinga“ en ekki „okkur í ríkisstjórninni“) þurfum að læra af þessu“, sagði forsætisráðherra í þúsundasta sinn ….
Öllu sínu eyðir púðri
í yfirklórið þreytt.
Læra vill af hverju klúðri
en kveikir ekki neitt.
Það er margt í þeirri framkvæmd
sem þjóðin skoða mætti,
viðbrögð gjarnan veri samræmd
og með viðeigandi hætti.
– – – – –
„Bara smá spökuleringar. Skiptir armslengdin nokkru máli ef menn eru nógu fingralangir. Segi nú bara svona!
Er þetta ekki tilvalið fyrir góða ferskeytlu?“ spyr Lárus Ástmar Hannesson. Svaraði honum þannig:
Dyggðabrautin býsna hál,
Bjarna valtur gangur.
Armslengd telur einsýnt mál,
enda fingralangur.
19.11.22
HM ó fótbolta var haldið í Katar, frægu kvennakúgunar- samkynhneigðarhaturs- og einvaldsríki:
Blaðið gróða ekki autt,
okaðs róður fitar.
HM-blóðið, heitt og rautt,
heimsins þjóðir litar.
22.11.22
Allir fá pestir öðru hverju:
Tilþrif eru ansi megn,
ekki stundarfriður,
þegar fæðan, góð og gegn,
gengur upp og niður.
– – – – –
Fær samþykkt í ríkisstjórn frumvarp um breytingar á lögreglulögum, m.a. um sk. forvirkar rannsóknarheimildir og skotvopnavæðingu, og boðar samdægurs í fjölmiðlum „stríð“. Þá þarf nú enginn, sem ekki áttaði sig strax á tilgangi frumvarpsins, að efast um til hvers refirnir voru skornir.
Kalt er jafnan um kveldin
við kórbak, ef mígur á feldinn.
Svo nótt verði blíð
boðar hann hríð
og olíu hellir á eldinn.
Er daprast um allar varnirnar von
og veglausir flæða að landi
gott er að eiga Jón Gunnarsson
sem er grímulaus, forvirkur vandi.
23.11.22
Seðlabankastjóri er iðinn við kolann:
Hjá Ásgeiri hljómar í alkunnum stefjum
auðvaldsins biblíutexti:
„Horuðum múgi höldum í skefjum,
hækkum nú stýrivexti“.
24.11.22
Reistar bárur rennir sér,
rammlegt áratogið.
Geisar dárinn, ekki er
upp á Kára logið.
– – – – –
Ganga má um lífið létt,
við leik að stráum grænum.
Hvergi á mér auman blett
er að sjá í blænum.
Lífs í straumi gusa grunnt,
geng í draumi þjálum,
því er gaum að gefa unnt
að gæfunaumum sálum.
26..11.22
Nóvember hefur verið með allra mildasta móti:
Hvorki þarf útrásarorgun
né andlega skammdegissorgun
því nóttin er af
og nóvember gaf
mildan rigningarmorgun.
– – – – – –
Stundum þarf sjálfið að styrkja,
stoltið og lífskraftinn virkja.
„Nei“-ið má velja,
í núinu dvelja.
Oftast samt best er að yrkja.
27.11.22
Orku sparar dagsins drós,
dökku fari stýrir.
Ekki varir vetrarljós,
veikt á skari tírir.
– – – – –
Kannski þarftu að kvarta?
Eða kveikja vonina bjarta?
Gleðja og styrkja?
Stríðsæsing virkja?
Hvað liggur þér á hjarta?
29.11.22
Ef að fæðist ‘utan garðs’,
illum klæðist lörfum,
varla glæðast vonir arðs
af vondum mæðustörfum.
– – – – –
Svalur og óræður svipur,
svífur um, brosmild og pipur,
öxlunum yppir,
eðalmálm klippir,
alltaf svo lævís og lipur.
30.11.22
„Fimm ár við völd“
Með einkavinum finnst alveg rakið
almenning að pína
og ekki stingur hún Bjarna í bakið,
bara kjósendur sína.
– – – – –
Katrín forsætis sagði það hafa verið „óheppilegt“ að einkavinur hennar Bjarniben hefði selt pabba sínum Íslandsbanka:
Það gerist oft, og það er vel þekkt
að þrúgan liggi við eikina.
„En það er ansi óheppilegt“
að ættingjar laumist í steikina.
01.12.22
Máttur tungu mikill er;
magn í drungans þvargi,
veitir stungur, vonir ber,
veltir þungu fargi.
02.12.22
Langar rætur liggja djúpt,
lyndi vætu gefa,
með sólarglætu leika ljúft,
lífið kæti vefa.
03.12.22
Við heimsósómann hætt er við
að heldur daprist andans fimin.
En hugarflugið finnur grið
við fjólubláan vesturhimin.
04.12.22
Lærdómur ráðherranna:
Margt höfum blessað milljónaplott
og möndlað á bak við ský.
Að hylja slóð og hafa það gott
höfum við lært af því.
– – – – –
Ljósin braga leifturskýr,
lund fram draga þína:
Ástarsaga, ævintýr,
alla daga mína.
06.12.22
Anna María fór út að viðra mig í þjóðgarðinum í dag:
Svo Hrafnabjörgum ég hrósi,
hrífandi, líkt og þau ‘pósi’
silki- með klút.
Slá þó vart út
Botnssúlur, baðaðar ljósi.
07.12.22
Löngum hafa lífsins gæði
látið eftir sér bíða.
Þó að kosti þolinmæði,
þá mun tíminn líða.
08.12.22
Eygló
Lítur upp, en höfði sínu hallar
og höfug undan rekkjuvoðum kallar:
„Mánann fátt hemur
en minn tími kemur!
Þolinmæði þrautir vinnur allar“.
„Jörðu til að komast kring
kröftum öllum beiti,
síðan, yst við himinhring,
höfuð legg í bleyti“.
10.12.22
Nú er ris á nóni lágt,
nú er allt að frjósa.
Nú er ástand nöturbágt,
nú má fara að kjósa.
14.12.22
Leigufélagið Alma: „Bist afsökunar á að tilkynning um 30 prósent leiguhækkun hafi ekki verið nærgætnari“:
Fátækum er feigðin týnd,
fögnuð veitir hokur,
því nærgætni þeim næst mun sýnd
við níðingshátt og okur.
15.12.22
Stefán Vagn Stefánsson, þingmaður Skagfirðinga og Framsóknarflokksins, afgreiddi úr fjárlaganefnd 100.000.000 til mágkonu sinnar hjá sjónvarpsmiðlinum N4, sem sent hafði honum bónbréf þess efnis. Bjarkey Olsen þingmaður Ólafsfirðinga taldi þetta mjög eðlilega afgreiðslu, framhjá öllum „verkferlum“ um stuðning við einkarekna fjölmiðla:
Ráðið, ef gera þarf gagn
er góðvinir leggja út agn,
að stökkva þá bara
(og stuðning ei spara)
með Olsen á almenningsVagn.
17.12.22
Hann skall skyndileaga á með vitlausu veðri:
Ekkert getum gert. Og þó.
Glugga má í bækur.
Og mæðist við að moka snjó
margur ansi sprækur.
19.12.22
Enn var gefin út veðurviðvörun:
Viðvörun, því von er á
vetrar snarpri þulu.
Öræfingar aftur fá
þá appelsínugulu.
20.12.22
Margir urðu sjóðandi vitlausir yfir því að ekki var búið að hreinsa snjó af götum undireins eftir stórhríðina:
Landinn mas og mikið þref
með sér hefur þróað.
Nú er látið eins og ef
aldrei hafi snjóað.
– – – – –
Kári æstur, einn gang til,
er í blásturkeppnunum.
Eftir harðan hríðarbyl
huga þarf að skepnunum.
Nú oss hefnist nóvember,
nú við þurfum „sorgun“
því að veðurútlit er
ekki betra’ á morgun.
Meira Kári æsist enn,
ýlir, grár í framan.
Sauður þrár sem þreytir menn,
þumbast árum saman.
21.12.22
Einhvers staðar verða augun að vera, ekki síst þegar inniverur eru langar vegna veðurs:
Sköpun úrvalseinkunn gef,
engu þar var sóað.
Að frúnni ansi oft ég hef
augum mínum gjóað.
– – – – –
Bjartur er dimmasti dagurinn,
dýrðlegur himinblámi.
Ef þetta’ er á þrautunum bragurinn,
þá er sem mér nú dámi.
22.12.22
Reykjanesbraut lokað í nánast tvo sólarhringa og Leifsstöð stöppuð af fólki, svöngu og hröktu. Innviðaráðherra vill skoða verkferla, gott ef ekki til að „læra af þessu“:
Við þurfum að læra af þessu,
af þekkingu framvegis plana
að skeina burt skítaklessu
og skoða svo verkferlana.
– – – – –
Jólakveðja 2022
Tekið hefur vetur völd,
vill, án refja, píningsgjöld.
Leggur yfir landið skjöld,
lúkan bláhvít, nístingsköld,
og blóðgar dagsins birtuspjöld
bak við hnausþykk rökkurtjöld.
En máninn feiminn fer á stjá,
fullur efa hvort hann má
heiminn nokkuð horfa á?
Hikar við, svo opnar brá,
glennir upp sinn gula skjá,
geislum baðar land og sjá.
Myrkrið smýgur inn um allt,
anda breytir snöggt í gjalt.
Heimsins lánið vagar valt,
varðar auðs er handtak kalt.
Ef þér, maður, flest er falt
fyrir aur, þá hinkra skalt.
Enn er von, því lítið ljós
logar yfir hal og drós,
tákn um mannkyns „draum í dós“.
Dýrt er orðið. Hvað með hrós?
Í þröngum dal, við ysta ós
umhygð vökvar lífsins rós.
Fyrir vini vermum ból,
veitum græðgi hvergi skjól.
Í litríkan og léttan kjól
landið klæðum, dal og hól.
Á himni núna hækkar sól,
höldum gleði og friðar jól.
24.12.22
Til himins gjarnan horfa má
í hljóðu ljósatrafi
élin falla jörðu á,
jólin öll í kafi.
Trúa því og treysta ber
að takið innilegunum
af þolinmæði, þegar er
þæfinur á vegunum.
25.12.22
Gott er að eiga góða að,
gengur þá margt að vonum.
Sé hjá mörgum sannast það,
sérstaklega konum.
26.12.22
Á stefnu víst oft virðist að
vegir liggi þverir.
Áfram gakk, á endastað,
eins og fara gerir.
28.12.22
Í fréttum var það helst að rússneskir olígarkar færust hver af öðrum með dularfullum hætti. Það annað en ríkidæmið eiga þeir helst sameiginlegt að hafa opinberlega gagnrýnt innrásarstríð Pútíns í Ukraínu:
Út um glugga ana tveir
af efstu hæð, með slætti.
Olígarki enn einn deyr,
óljóst hverju sætti
en víst að allir andast þeir
með ósaknæmum hætti.
…..
Þó sé vetrarfimbulfrost
af funa gnótt er heima.
Enginn getur átt þess kost
úti í nótt að sveima.
31.12.22
Áramótakveðja 2022-2023
Nú er liðið enn eitt ár,
alltaf fortíð lengist.
Lífið að mér dregur dár,
að draumum stöðugt þrengist,
þó mínar helstu heillaþrár
hafi eftir gengist.
Brestir, dáðir, bros og tár
í brjósti og huga tengist
svo að verði sálin klár
er svarið yfir dengist.
Að þægindunum þýfð er slóð,
þröngt að gæðum hliðið.
Klærnar sýnir klíkustóð
í kvótavafning riðið.
Frá mér áfram heyrist hljóð
úr horni, er lít um sviðið.
Óska að verði ártíð góð,
ærlegt stefnumiðið
og vakni af blundi þessi þjóð.
Ég þakka fyrir liðið.