Úr dagbókinni 2011

Árið er 2011. Safnið telur 68 vísur.

03.01.11

Nýtt ár runnið upp.

Nýja árið ósnortið

arga leiðu þrasi.

Það að arka, eigum við,

til enda, glöð í fasi?

 

06.01.11

Ólafur Stefánsson sagði í viðtali að hann hafi „neyðst til að segja sig úr Sjálfstæðisflokknum“ vegna þess að sá flokkur tryggði eignarrétt manna, sama hvernig þeirra væri aflað:

Ef teknar úr táfýlusokknum

tærnar frjálsar eiga von.

Sig úr Sjálfstæðisflokknum

sagði Ólafur Stefánsson.

 

26.01.11

Var að koma neðan af Eyrarbakka, nánar til tekið af Litlahrauni. Er ég sat þar innan veggja yfir nemendum datt mér í hug að innfæddum Eyrbekkingum væri svona innanbrjósts:

Ærist bráðum, aldrei hljótt,

engin náð og friður.

Dynur hávær, dag og nótt,

djöfuls sjávarniður.

 

30.01.11

Í tilefni af fimmtugsafmæli Alla á Hrafnkelsstöðum

(Lag: „Kristján í Stekkholti“)

Aðalsteinn Þorgeirsson, bráðgerður bóndi í Hreppum!

Bragðmestu skandölum, hroka og monti, við sleppum.

Nóg fyrir það

níð til að setja á blað.

Núna að karlinum kreppum.

 

Sakleysi barnsins að sjálfsögðu gekk hann af dauðu,

sýndi um fermingu takta í kápunni rauðu.

Fann sína fjöl

í fjörlegri Hvanneyrardvöl.

Ekki þar skilaði auðu.

 

Sláturtíð marga á Selfossi ýmislegt brallað.

Svæsnastur jafnan í hrekkjum. Á engan mun hallað.

Upp úr því gerð

útrásarvíkingaferð.

Vargöld í Noregi kallað.

 

Stækkandi bústofn og mottó: í verkin oss vindum.

Varðveitt er framkvæmdasagan í tuttugu bindum.

Alli vel býr,

unir við Möggu og kýr.

Sig gefur síður að kindum.

 

Formaður búnaðarfélags, og leiðir nú kórinn.

Framsóknarmaður, með S.Inga á alþingi fór inn.

Laufskálarétt!

Reiðver á Fagra-Blakk sett.

Sjonni og brennsinn og bjórinn.

 

Spurt hefur verið: er Aðalsteinn af þessum heimi?

Andlegu fræðin og dulmögnin víða á sveimi.

Talfærin sljó,

teljum því augljóst að nóg

eftir af spekinni eimi.

 

Bóndi er dugandi, fjölskyldan fyrsta í sæti.

frúin hans yndi, það skýrir ‘ann hvarmana væti.

Fjögur á börn,

fylgir í sókn þeim, sem vörn.

Lífið og lukkan hans gæti.

 

Til eru menn

Til eru menn, sem moka vilja flór

og margir sem þrá, að stjórna heilum kór.

Eins eru þeir, sem alltaf drekka gin

þeir una sér, mun lengur en við hin,

 

en hafa ei á morgunmatnum lyst

því maginn heimtar afréttara fyrst:

Ó, Magga, ég skal minna drekka næst,

í mjaltir vakna, ef við getum sæst.

 

Víst eru þeir, sem þola drykkjutörn

og þreknir menn, sem aldrei voru börn.

 

31.01.11

Nýtti Sleipnishöllina til tamninga:

Ríð ég kátur! Ríð ég undir þaki,

rennur hryssan tölt og brokk og skeið.

Glóa lampar, gaman er á baki,

gullinn sandur, þett‘ er engin neyð!

Næsta hringinn nota skal ég til

að ná í mjúkt og fallegt hófaspil.

 

Ólafur Stefánsson svaraði þessu og hafði í að hann riði alltaf undir þaki og dytti aldrei af baki. Ég sendi honum þessa til baka:

Úti jafnt sem undir þaki
í æðum sama fjörið kenni:
Fullnægjuna finn á baki
er folanum í skeið ég renni.

 

11.02.11

Hæstiréttur dæmdi ólögmæta ákvörðun Svandísar Svavarsdóttur að synja hluta skipulags Flóahrepps staðfestingar:

Svandís gleypti súran kepp,

-sú held nú að blóti!

Fór hún burt úr Flóahrepp

með fulla vasa‘ af grjóti.

 

Landsvirkjun nú leyfist það,

lagnir vatns að styrkja.

svo Flóahreppur fari‘ af stað

fossinn sinn að virkja.

 

16.02.11

Af meintri þinghelgi:

Skýtur orðið skökku við

skandalvæðing mála.

Á þingi virðist vönd að sið

varla nokkur sála.

 

Heyrist bara skark og skak,

skelmar rætur naga,

og þeir skíta upp á bak

alla virka daga.

 

Og til upprifjunar af kattasmölun og „órólegum deildum.“

Stjórnar Jóka barð‘ í brest,

beygðist krókur snemma.

En flestir bóka: Fyrir rest

fressin djókið skemma.

 

23.02.11

Ólafur Ragnar Grímsson synjaði lögum um Ísseif III. staðfestingar og sendi samninginn í þjóðaratkvæðagreiðslu:

Íslensk þjóð nú una má

við Ólafslög, og -rétt.

Benda vil ég aðeins á:

You aint seen nothing yet“.

 

26.02.11

Kvartað á Leir yfir deyfð meðal hagyrðinga:

Gott er að kunna að gæta sín.
Gott er að „iðka leti“.
Holur er tónn þegar tunnan mín
er tóm, eins og lands forseti.

 

19.03.11

Vetur konungur ríkir í öllu veldi sínu:

Aftur brast á iðukóf,

úti þess vil njóta

en þegar mikið hleðst í hóf

höllin er til bóta.

 

06.04.11

Kristján Runólfsson lýsti efasemdum um það hvar hann lenti eftir að „göngu lyki“. Svaraði því svona:

Drottni hygg þú leggir lið,

er lýkur göngu, brestur negg,

með rími að jamla og jagast við

Jesú bónda, undir vegg.

 

08.04.11

Siigmundur Davíð setti flokksþing Framsóknar í Háskólabíói, frammi fyrir þónokkrum félögum:

Langar formann Framsóknar

fleiri sálum turna

og sýnir, fyrir fréttirnar,

flesta kjósendurna.

 

14.04.11

Margir gera lítið úr Jóhönnu gömlu, hún ráði lítt við ýmsan vanda. Hún sýnist þó ein um að halda sæmilegum friði og samstöðu í eigin ranni?

Hjá Jóku ríkir ró og kyrrð,
reynir lítt á valdið.
Sú eina sem að sinni hirð
saman getur haldið.

 

21.04.11

Jón Ingvar spurði um afnot af Rímbankanum:

Reyndar finnst mér Rímbankinn
rishá andans bygging.
Teljast örugg útlánin
og innistæðutrygging.

 

08.05.11

Í morgun glettinn grósku-blær

gekk sín fyrstu spor.

Sumar er því nokkru nær.

Nú er komið vor.

 

09.05.11

Eftir rok og regn í nótt,

röðull vermir svörðinn.

Út þá springa sprotar skjótt

og spariklæðast börðin.

 

12.05.11

Þórunn Sigurðardóttir, formaður Hörpu, gat hvorki hugsað sér að tónleikar Sinfóníunnar, með Askenasí og Víkingi, væru „opnunarhátíð“ hússins, né að þeim væri sjónvarpað beint. Ýmsum þótti það skjóta skökku við og veltu því fyrir sér hvað lægi að baki:

Tóta er dáldið tvöþúsund,

trölls er enn með glýjuna.

Frægðar enga finnur stund

fyrir Sinfóníuna.

 

20.05.11

Atli Rafn, bróðursonur minn, og Laufey Lilja, kærastan hans, útskrifuðust í dag með stúdentsprófi frá Framhaldsskóla Snæfellinga í Grundarfirði. Potaði þessari vísu í kort með gjöfinni:

Fjörlegt er æskunnar ferðalag

og fjölbreytt litarófið.

Til lukku bæði með lífið í dag

og líka stúdentsprófið.

 

22.05.11

Á afmælisdegi pabba kom fjölskyldan saman heima í Dverghólum 3. Flutti mömmu þessa vísu í tilefni dagsins:

Úr móðurbrjósti rósir runnar,

því reitinn vermir hjartalag.

Og vel í faðmi fjölskyldunnar

við finnum nálægð hans í dag.

 

23.05.11

Ekki eru þeir öfundsverðir Skaftfellingar og nærsveitungar, af öskufallinu úr Grímsvatnagosinu. En svona var ástandið á Selfossi á sunnudagskvöld 22. og fram á mánudag 23.05:

Varla út úr augum sér,

óró hrossin stikla.

Þegar aðeins út ég fer

ösku gleypi mikla.

 

24.05.11

Ennþá hef víst elst um dag,

engin segl þó rifað.

Ef að bætt get annars hag,

til einhvers hef þá lifað.

 

Fékk ókjör af afmæliskveðjum á Fjasbók, og víðar. Sendi vinum þakkir:

Vinarþelið veitir yl,

vaki lífsins glóðar.

Af alúð þakka eg nú vil

allar kveðjur góðar.

 

05.06.11

Sigrún Haraldsdóttir, frá Litla-Dal, á afmæli í dag:

Fimmta júní fagna skal,

fær nú kveðjur mínar

lítil stúlka, frá Litla-Dal,

með ljóðaperlur sínar.

 

10.06.11

Fréttir bárust af skelfilegum dýrbítum sem gengu lausir og drápu tugi lamba og kinda í Þórðarkoti við Eyrarbakka:

Nú er úti norðanvindur,

næturfrost á heiðasvan.

Ætti ég bornar úti kindur

ekki fengi mér Doberman.

 

12.06.11

Kristján skáld Runólfsson setti þessa staðhæfingu út í loftið: „Koníakið kætir geð.“ Mér þótti ástæða til að prjóna við hana, eins og ég ímyndaði mér samhengið sem staðhæfingunni hæfði og Kristján hefði haft í huga:

Koníakið kætir geð.

kyssi nakinn stútinn.

Vaki lengi vinum með,

vakna sljór og þrútinn.

 

15.06.11

Hugleiðing í köldum heimi.

Hlýju kjósa halur, drós

er heiminn frjósa tekur.

Fyr sálu hrós það sólarljós

af svefni rósu vekur.

 

15.06.11

Björgvin E. Björgvinsson, samkennari og vinur er gleðigjafi á kennarastofunni. Hann varð fimmtugur í vor. Sendi honum þessa vísu með afmælisgjöf:

Þá náms- af -körgum lúð er lið,

léttir mörgum streðið

að greinir Björgvin ástandið

og aftur fjörgar geðið.

 

16.06.11

Prófessor Eiríkur Rögnvaldsson fann engin málfræðileg rök gegn orðalaginu „að fara erlendis“. Dæmi um það væri að finna allt frá 18. og 19. öld. Hann grínaðist svo með reiðareksstefnu sína. Hvað er nú orðið okkar málvöndunarstarf í 200 ár? Setti þetta sama af tilefninu:

Hún veifað’ í hurðinni, hress

er hélt ég nú erlendis – Bless!

Það var sagt mér í gær

að vandinn sé ær.

Sér nú til Selfossar – Jess!

 

18.06.11

Meistaraprófsritgerðin krerfst heimildalesturs.

Lystisemdir lífsins flý,

leita andans mestu fremdar.

Flestöll svörin finn ég í

fundargerðum skólanefndar.

 

19.06.11

Vísan mín er listileg,

-lista þar sýni orða-.

Löngum fína lyst hef ég.

Lista með þvingu skorða.

 

24.06.11

Var kominn upp í rúm, að glugga í Þórðarbók, þegar mér varð litið út, á norð-vesturhiminninn:

Kveður land, á skýin skín,

skreytir branda-gliti.

Röðull vandar verkin sín,

væra blandar liti.

 

Öllu er snúið á haus í umræðunni þessi misserin:

Í sinni höllu sálarlaus

situr tröllum gefinn.

Sannleik öllum snýr á haus,

sem af fjöllum stefin.

 

Saman styrkir stöndum vér.

Stoltur yrki, þegar

stöðvað myrkrastóðið er,

stemmur virkilegar.

 

28.06.11

Er ekki, a.m.k. ekki enn, kominn á landsmót hestamanna, í fyrsta sinn síðan 1970. Hugsa norður í Skagafjörð:

Geði flestra gera bót,

græða mestu undir,

íslensk hestamannamót;

mínar bestu stundir.

 

Bragarbót:

Geði flestra gera bót

gleði- mestir -funda:

Eðal hestamannamót

meðal bestu stunda.

 

29.06.11

Elsa Ingjaldsdóttir sagðist hafa fengið rauðstjörnótt merfolald sem hefði fengið gamaldags íslenska nafnið Stjarna:

Árin líða, Elsa sér

innsta lífsins kjarna.

Í draumi ljúfum dillar þér

dáða-hryssan Stjarna.

 

30.06.11

Enn ég sest við söguskrif

og sólin hlær á glugga!

Úti skinið Adamsrif,

ofurlítil dugga.

 

05.07.11

Hann á afmæli í dag!

Vísur mun á Fjasbók fá

ef fingri styð á „on“.

Komdu nú að kveðast á

Kristján Runólfsson.

 

06.07.11

Kristján kvaðst ekki mega vera að, sæi til í kvöld! Sendi honum þetta:

Ekki mun þér annað tjá

en Óðins drykkinn þamba.

Enginn geðheill maður má

melta þennan fjanda!

 

08.07.11

Núna fer ég senn að sálgast,

sögugrúsk að verða kvöl!

Sem betur fer, þá fer að nálgast

ferðalagið yfir Kjöl.

 

13.07.11

Mér fæddist rauðstjörnótt, fallegt merfolald, sem ég skírði Glóð. Kannski verður einhverjum einhverntíma svo að orði, eftir yndisreið um hina fögru Skógarkots- og Hrauntúnsstíga í þjóðgarðinum á Þingvöllum:

Þjóðar slóða hróðri hlóð,

hófaljóðin skildi:

Óðar rjóða, góða Glóð

ganginn bjóða vildi.

 

23.07.11

Var að koma heim af Kili. Undir Áfangafelli var stemmningin einhvernveginn svona:

Dillandi góðhross og dásemdartíð,

dýrðlegur söngur í móa og hlíð.

Í Áfanga kem

og algleymið nem.

Skínandi glaður í pokann ég skríð.

 

Benóný Jónsson spurði í framhaldi af þessari vísu hvort ég hefði ekki verið á réttum Kili.

Sigli ég lífsins ólgusjó, er

enn á réttum kili.

Þekki samt bæði þoku og sker.

Það er nóg í bili.

 

26.07.11

Það hefur verið lærdómsríkt að fylgjast með Norðmönnum undanfarna daga.

Ötuð blóði, eftir stóð

upprétt þjóð í harmi.

Vinum bjóðum vonarglóð,

vefjum bróðurarmi.

 

Hann setti á hífandi rok og rigningu í dag:

Daglangt rigning ‘bara blaut’

buldi ótt á gleri

svo að þess ei nokkur naut

að norpa á þessu skeri.

 

24.12.11

Skrifað á jólapakka eiginkonunnar:

Njóttu jóla í næðinu,

náð í hugarskotum.

Kápan úr því klæðinu

kemur þér að notum.

 

30.12.11

Við áramót

1. Hringhent

Líður senn að lokum árs.

lífs þá enn hefst gangur.

Yfir fennir tildrög társ

tíminn kennir strangur.

 

Mannakyn sér gefi grið,

gæfu skynji ríka.

Gleðjist vinir! Fróðafrið

finni hinir líka.

 

Ég í flestu stóð í stað,

strembin mesta törnin.

Sinnið nesta, sýni að

sókn er besta vörnin.

 

2. Ferskeytt

Innsta kjarna eigin lífs

ákaft flestir leita.

Bitur eggin, bakki hnífs,

biðlund eða streita?

 

Hvað mig vantar, hvað ég þarf,

um hvað mér ekki neita?

Það sem elti, þigg í arf

og það mun öðrum veita.

 

Ósk um nýárs brotið blað,

birtu eftir stritið.

Kveðjum hrun, en þekkjum það

þegar við er litið.

 

3. Braghent

Hamingjan í hagvextinum hímir ekki.

Nægjusemi, það ég þekki

þykka brýtur græðgishlekki.

 

Aukum jöfnuð, elskum friðinn, alla seðjum.

Nú á glæstar vonir veðjum.

verndum, huggum, styrkjum, gleðjum.

 

Kveðjum árið! Ef keyrði það á kanti hálum

mót nýju geng með gamanmálum!

Glösum lyftum! Syngjum! Skálum!

 

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *