Úr dagbókinni 2006-2008

Árin eru 2006-2008. Hér birtist fyrsti hluti úr vísnasafni mínu, sem telur nú yfir 120 tveggja dálka síður með 9 pt. letri. Það sem er eldra hefur þegar komið út á bók, „Úr dagbókinni“, sem gefin var út 2006 af Sunnlensku bókaútgáafunni. Næsti skammtur, og allir þaðan í frá, verður einskorðaður við eitt ár: Úr dagbókinni 2009, Úr dagbókinni 2010 o.s.frv. Taka skal fram að þetta er með öllu óritskoðað, bara allar vísur sem ég hef hnoðað saman og geymt. Fyrstu árin birtust þessar vísur á tölvupóstlistanum „Leir“ en síðar á Fjasbókarsíðu minni. Í þessu safni eru 49 vísur.

06.11.06

Helgi Ziemsen orti á Leir ágæta vísu, alrímaða. Leitaðist við að jafna um við hann í rímþrautum:

Heitan veitir Helgi svelg

hellir brellinn kellur

fullar. Sullar sylg í belg.

Í sollinn kallinn fellur.

 

09.11.06

Fékk í hendur ljóðabókina Axarsköft eftir Jóa í Stapa, sem Guðmundur Ingi Jónatansson gaf út:

Ósköp jafnan er ég kjöft-

ugur, mest í letri.

Les nú úrvals Axarsköft,

engin þekki betri.

 

15.09.06

Jón Ingvar Jónsson lét þessa yfirlýsingu fylgja yrkingum sínum: „P.S. Ég vil taka það sérstaklega fram að langflestir á Leir eru miklu betri og skemmtilegri hagyrðingar en ég“. Sendi honum þessa vísu til baka:

Enginn er dómar’ í eigin sök,

hvort illa’ eða vel hann syngur.

Jón Ingvar, finna má fjölmörg rök,

er fágætur hagyrðingur.

 

24.12.06

Úr jólakorti til eiginkonunnar:

Þegar ógnar orrahríð,

yfir níðið dynur,

veit ég að þú alla tíð

ert minn besti vinur.

 

25.12.06

Margrét Hafliðadóttir, mágkona mín, er sextug í dag:

Hvað er dagur, hvað er stund?

Hvað er áratugur?

Gullið hjarta, glaðvær lund,

góður vinarhugur.

 

31.12.06

Jafnan er eitthvað kveðið um áramót. Þessi vísa er dæmi um það:

Nú árið er liðið í aldanna skaut

og aldrei það kemur til baka.

Krónhjartarsteikur um kvöldið ég naut

og kyssti svo frúna, vel raka.

 

Helgi Eggertsson, bóndi í Kjarri, varð fimmtugur á gamla árs dag 2006 og bauð til veislu í hesthúsinu. Færði honum bók með þessari vísu áritaðri:

Heill sé þér um alla ævidaga

einnig þeim er skipta hjartað máli.

Fyrirmynd er fjölskyldunnar saga

fléttast þræðir, taug úr hertu Stáli.

 

Davíð Hjálmar Hjálmarsson hafði orð um það að hann væri hugsanlega full „dómharður“ í kveðskap sínum um menn og málefni:

Blessaður Davíð, brúkaðu þinn kjaft,

betri gerast ekki fyr hann not

en press’ úr þrútnum Braga berjum saft.

Blessi þá er við það fall’ í rot.

 

Þín er list að brýna róminn rétt

og reyn’ í okkur hinum þolsins rif.

Þeir sem hafa útí þig fingur fett

forðast vilja andans tindaklif.

 

Ef hvergi yrkja svaðakjaftar klám

og kunnir ruddar hrópa aldrei: Morð!

Þá er til skammar allt vort skólanám

og skammt til þess að dey’ á vör hvert orð.

 

09.01.07

Færði móður minni, á afmælisdegi hennar, eintak af nýlega út kominni ljóðabók minni, Guðað á gluggann, og ritaði þessa vísu fremst í bókina:

Tókst í hönd þér huga minn,

hjartað, ljósið, skuggann.

Guða svo í andakt inn

um opinn sálargluggann.

 

11.01.07

Nýárskveðjan kemur seint,

kvelur skáldið tölvan.

Ekki varð af matnum meint,

meir af leirpósts ölvan.

 

12.01.07

Sigurður Sigurðarson, hagyrðingur, oftast titlaður dýralæknir, var viðstaddur upplestur minn úr fyrrnefndri bók í Sunnlenska bókakaffinu, keypti bókina og bað um áritun, í bundnu máli auðvitað. Setti þessa á titilblaðið:

Siggi frændi, sjáðu til,

settir mig í vanda.

Gjarnan yrkja, víst ég vil,

vísu þér til handa.

 

15.01.07

Jóhannes Sigmundsson í Syðra Langholti ritaði á Leir: „Heill og sæll Sigurdór. Í fórum mínum fann ég plögg þar sem vísa þessi er sögð eftir sr Helga Sveinsson.” Gaman að því hve oft lausa málið“ hjá leirverjum er í hendingum:

Í fórum mínum fann ég plögg“

um firnagóða vísu.

Helgi Sveinsson sýndi rögg,

Sigurdór í krísu.

 

16.01.07

Guðmundur Sveinsson heitinn, frá Ósabakka, húsasmíðameistari á Selfossi, gerði upp ættargripi, skrifborð frá afa mínum, Bjarna á Laugarvatni, og tvo stóla úr dánarbúi Margrétar Stefánsdóttur tengdamóður minnar, gjöf frá Tove Engilberts. Gripirnir eru komnir í hús, og helsta stofustássið á heimilinu. Listilegt handbragð Guðmundar leynir sér ekki:

Dverghaga karla met ég mest,

meiri snilld þekki neinskonar.

Hvergi fegra í heimi sést

handbragð, en Guðmundar Sveinssonar.

 

20.01.07

Lárus Bragason pantaði tvö eintök af Guðað á gluggann, aðra fyrir sig en hina fyrir félaga sinn, Magnús Halldórsson hagyrðing á Hvolsvelli. Þær skyldu vera áritaðar, hvor um sig. Í bók Lárusar ritaði ég:

Guðir þú á gluggann minn,

gamansömum rómi,

býð ég þér í bæinn inn,

Braga ættarljómi.

 

Og í bók Magnúsar:

Orð af list vil saman setja,

sem er borin von.

Viltu samt af mildi meta,

Magnús Halldórsson?

 

22.01.07

Bjarni bróðir fékk hjá mér bók og þessa áritun með:

Orð er ljúft að eiga við,

ekkert kann ég betra

til að öðlast innri frið

en með bleki letra.

 

Hann fékk einnig áritaðar bækur handa börnum sínum. Fyrst Þorkell:

Einu sinni átti ég hest

með ógnar mikinn vorsjens.

Það var sem mér þótti verst

þegar hann fór til Horsens.

 

Svo Bjarni:

Einu sinni átti ég hest

undir honum Bjarna

Það var sem mér þótti verst

þegar hann tók til varna.

 

Að lokum Ragnheiður:

Einu sinni átti ég hest,

ægifagran gimstein.

Það var sem mér þótti best

þegar hann hreyfði fim bein.

 

Og Hreinn bróðir þessa:

Safna ég af miklum móð

moðið fer í orðasjóð.

Þó veit ei hvort þessi ljóð

þykja vera nógu góð.

 

15.02.07

Umræða skapaðist á póstlistanum Leir um „ístölt kvenna“. Talið var að einhverri yrði hált á því svellinu og að vel myndi hitna í kolunum. Lagði þetta til umræðunnar:

Svellin hálu duna dátt,

dillar gandur meyju.

Folinn reisir höfuð hátt,

hitnar undir freyju.

 

13.03.07

Á Leir sagði Jakob Sigurjónsson, frá Hóli, frá því að hann hafi nýverið farið að hitta afa sinn, Grím Gíslason, fréttaritara á Blönduósi, sem á þessum tíma var á nítugasta og sjötta aldursári. „Barst þá tal okkar“, segir Jakob, „að pólitík og kosningunum í vor. Kom afi því skýrt á framfæri að hann mundi ekki vilja standa að því að kasta rekunum á Framsóknarflokkinn, svona í lokin“. Jakob lét fylgja með vísu um fiskróður Framsóknarflokksins. Jakob notaði í vísunni þátíðarmyndina „ré“ af sögninni „að róa“ og sagðist aðspurður hafa vanist því af langfeðgum sínum. Stefán Vilhjálmsson, sonur Villa frá Brekku, svaraði Jakobi: „Þeir eru flokkshollir, gömlu mennirnir, afi þinn og pabbi minn sem er reyndar bara á því nítugasta og þriðja síðan í haust“! Út frá þessu, gömlu framsóknarhöfðingjunum og þessari óvenjulegu beygingarmynd, varð til eftirfarandi erindi:

Veiðiferð Framsóknarflokksins

Framsókn um borð í bátinn sté,

bjóst við góðre veiðenne.

Út á hafið óðar ré,

aflinn heitir kjósande.

Við öldurótið hné á hné

og helming fylgis úr sér spé.

Til lands með ógleði aftur sné,

undra fljótt um heilt þó gré.

Þó betra hafi farið fé

finnst það ei Grími og Vilhjálme!

 

16.03.07

Ort var á Leir um þau orð Steingríms Sigfússonar í ræðu á Alþingi að Jónas Hallgrímsson hefði verið Vinstri grænn. Lagði þetta til:

Jónas var jafnaðarmaður,

jafnan við smávini glaður.

Steingrímur bitur

staðfastur flytur

of mikið afturhaldsblaður.

 

16.03.07

Jóhannes Sigmundsson í Syðra-Langholti orti um örugg spor einkaframtaksins og hættur sem fylgdu vinstra vori. Svaraði honum svona:

Sextán ára sortahríð,

senn mun liðið íhaldsníð.

Bráðum kemur betri tíð,

blómgast aftur grundin fríð.

Ljóma rauðu blómin blíð,

breiðast yfir dal og hlíð.

Yndisleg, um ár og síð,

okkur hlýjar sólin þýð.

Nú við fáum vinstra vor,

vaknar aftur táp og þor.

 

Þessu varð Ólafur Stefánsson á Syðri-Reykjum að svara, og tefldi fram bláu blóði Íslendinga gegn „Rússaþýi“. Ólafur fékk sitt svar:

Ó, nú rumskar Rússa-Grýlan

og rekur upp sitt harmakvein.

Af henni gufar ferleg fýlan

því fúlt er hennar innanmein.

Allt sitt þrælslundað þý rak
á þakkargjörð í Írak.

 

19.03.07

Rætt var um hagyrðingamót í Réttinni í Úthlíð, hjá Birni bónda. Hjálmar dómkirkju vildi hafa austanmenn á staðnum, fyrrnefnda Ólaf, Jóa í Syðra o.fl. Ég sagðist koma að hlusta á þá ef ég væri ekki farinn á fjöll. Guðbrandur Þorkell Guðbrandsson á Sauðárkróki, orti um þetta og lagði út af fjallaferðum mínum á fengitíma refa. Ég svaraði Kela svo:

Þegar Gylfi fer á fjöll,

úr flækjum lífsins raknar

og þá neistar nánast öll

náttúran, og vaknar.

 

24.03.07

Stafsetningaræfing, vísinda- og rannsóknaræfing íslenskudeildar F.Su., var haldin heima hjá skólaskáldinu Björgvini E. Björgvinssyni og konu hans, Helgu Sighvatsdóttur frá Miðhúsum, aðstoðarskólastjóra Tónlistarskóla Árnesinga og blokkflautuleikara. Flutti þar gestgjöfunum eftirfarandi hirðkvæði:

Meldar skólaskáldið

skens, þó allt í glensi.

Út úr snýr, ei sýtir

siði, málbein liðugt.

Kætin sanna smitar,

sest að grátur, af hlátri.

Mun og mildur vinur

mörgum reynast Björgvin.

 

Hægð við heiminn dugar,

hófið leysir prófin.

Stefnu Helga í stafni

stýrir best, af festu.

Systir ljúfra lista,

leikur skraut á flautu.

Áran nálæg nærir.

Nett, en traustur klettur.

 

13.04.07

Jón Ingvar Jónsson orti gamansamur á Leir um eigið ágæti. Mátti til að senda honum þessa:

Mælskan Ingvars marki brennd,

mátar kappann flestan.

Fær hann mikilmennskukennd,
mann sig telur bestan.

 

14.09.08

Stend og horfi út um stofugluggann. Stórrigning og rok. Rósin reynir allt hvað hún getur að flýja í skjól, en kemst hvergi:

Rigning lemur rúðurnar,

rósu hemur kraftur.

Vindur semur vísurnar,

en vorið kemur aftur.

 

Þessi vísa vakti heilmikil viðbrögð á Leir og margir norðanmenn dásömuðu hitann og velsældina hjá sér. Sendi þeim þessi skilaboð til baka:

Við kulda og regn ég kátur bý,

í kælingu ekki fúlna.

En körlum sem hanga hita í

hætt er við að úlna.

 

16.09.08

Eftirfarandi hringhenda varð til þegar að ónefndur fyrrverandi stjórnmálamaður birtist í Kastljósi í sjónvarpinu mínu:

Snauður dáðum. Engu ann.

Aðeins háð og raus.

Enginn þráður. Ekkert kann.

Alveg ráðalaus.

 

29.10.08

Stundum hefur Gunnar á Hlíðarenda verið sakaður um alvarlegan skort á viti. Í brunarústunum eftir bankahrunið sannaðist að helstu nútímahetjurnar og víkingar hafa erft vænan skammt af Gunnarsheilkenninu, sem og þeir sem þjóðin hefur valið til forystu:

Skýrast hefur þessi þjóð

þetta einkennið:

Í ösku hvergi greinist glóð;

Gunnarsheilkennið.

 

En þeir sem ábyrgð báru voru settir af:

Fuglar núna fagna‘ um hnöttinn,

frjálshyggju er liðin pín,

óhræddir við íhaldsköttinn

sem ekki kann að skammast sín.

 

06.11.08

Skrifaði grein í Skímu um námskeið SM. Í greininni var meðal annars fjallað um „Dansinn í Hruna“, en námskeiðið fór fram á Flúðum. Orti í orðastað þeirra er sukku í jörðu niður, í Hrunann:

Ef sú meyjan engra bauga

uppá fingur,

niður leggst í Nálarauga,

nakin, hugsar: „Ó, mig auma!“

Þá læðist inn í leynda drauma

ljúfur drengur.

 

Jóhannes í Syðra-Langholti var fenginn til að leiðsegja þátttakendum og fór uppsveitahring með fólkið á rútubíl:

Í míkrófóninn mælskur les,

meinlaust grín og fræði.

Játa skal að Jóhannes

er jafnvígur á bæði.

 

07.11.08

Í útvarpsfréttum í kvöld kom fram að Kristján Möller, samgöngumálaráðherra, hefði verið á fundi á Siglufirði. Var sagt svo frá að ráðherrann hefði talað lengi án þess að segja mikið:

Það er eitt við þessa drengi,

og þykir flestum afar leitt:

Þó að gleiðir gapi lengi

þá gerist bara ekki neitt!

 

18.11.08

Fingur Bjarna Harðarsonar skriplaði eitthvað á lyklaborðinu, með heilmiklum afleiðingum:

Nú er Bjarna nafnið grátt.

Nú er Guðni hættur.

Nú er komin norðanátt.

Nú er skaðinn bættur.

 

23.11.08

Af sama tilefni og vísan hér næst að ofan:

Ólgu hrjáður og innanmeina

allur flokkur.

Valgerður ei vill hann skeina

og varla nokkur.

 

25.11.08

Enn gefur pólitíkin tilefnin:

Valdamenn hanga sem hundar á roðinu.

Hvenær mun ribbaldinn líta sér nær?

Þjóðin var fullkomin flenna í boðinu

sem framsóknaríhaldið bauð til í gær.

 

27.11.08

Hólmfríður Bjartmarsdóttir, Fía á Sandi, orti fína sléttubandavísu. Mér fannst ástæða til að reyna mig við háttinn líka:


Fía opnar sálarsjóð,

silfurglingrið fína.

Nýja vopnið, ljúflingsljóð,

listafingur brýna.

 

Brýna fingur listaljóð,

ljúflingsvopnið nýja.

Fína glingrið, silfursjóð

sálar, opnar Fía.


Styrkir Fía þessa þjóð,

þýðu máli beitir.

Yrkir pían fullvel, fljóð

fögnuð sálu veitir.

 

Veitir sálu fögnuð fljóð,

fullvel pían yrkir.

Beitir máli þýðu, þjóð

þessa Fía styrkur

 

07.12.08

Pétur Stefánsson er afar snjall og afkastamikill hagyrðingur og ég sendi Leirnum eftirfarandi játningu:

Stoðar lítt þó stíft ég æfi mig,

staglið nær ei hæðum.

Aðeins Pétur getur grobbað sig

af gáfum, snilld og kvæðum.

 

08.12.08

Birna Einarsdóttir, bankastjóri „Nýja Glitnis“ og fyrrum háttsettur stjórnandi „Gamla Glitnis“ var svo „óheppin“ að 200 milljóna lán hennar fyrir kaupum á hlutabréfum í bankanum „týndist“ fyrir handvömm, að sagt er:

Af handvömm skuldum týna, tel

á torgum mætti kenna.

Í bankaraunum reynist vel

reynsluheimur kvenna.

 

 

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *