Um þessa síðu

Heil og sæl, og velkomin á síðuna mína.

Ég er áhugamaður um stjórnmál og hef sterkar skoðanir á þjóðfélagsmálum. Ég á erfitt með að sitja þegjandi hjá og melta bara það sem aðrir hafa að segja, ekki síst allt lýðskrumið og sérhagsmunagæsluna sem vaða uppi. Margumtalaður „grundvöllur lýðræðis“ er tjáningarfrelsi innan siðsamlegra marka; opin skoðanaskipti og heiðarleg. Vettvangur sem þessi gefur mér, og hverjum sem er, tækifæri til þess að taka vikran þátt í samfélagsumræðunni og láta skoðanir í ljós.

Ég er einnig forfallinn áhugamaður um skáldskap, sérstaklega allan kveðskap, og á það jafnvel til að banga saman vísum sjálfur. Samsetningurinn er vís með að rata hér á síðuna, inn á milli „stórpólitískra“ pistla og léttmetis af öðru tagi.

Í þriða lagi gætu lesendur (ef einhverjir eru) rekist hér á umsagnir um körfuboltaleiki. Synir mínir hafa erft körfuboltaæðið og spila með liðum á Íslandsmótinu (og a.m.k. 5 bræðrasynir líka) og það er líklegra en ekki að ég hafi eitthvað um þá leiki að segja sem þeir spila. Stundum hef ég líka fjallað um leiki á síðunni karfan.is.

Að lokum eru það hestarnir, sem eru mér þó kærastir áhugamála. Hér gætu í bland villst inn frásagnir af viðskiptum mínum við þá, blessaða, úr hestaferðalögum um hálendið eða þó ekki væri nema af daglegum skítmokstri. Menn og hestar, náttúran og landið: Það er málið.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *