Um gagnslausa kennara og velferð ungs fólks

Ég þóttist vita af langri reynslu að ekki liði á löngu frá verkfallsboðun KÍ þar til einhver ofvitinn kæmi fram í fjölmiðlum með speki sína um kennara. Það má segja að gáfumannatalið hafi komið úr viðeigandi stað, beint upp úr strjúpanum á borgarstjóranum, næstæðstu fígúru Framsóknarflokksins og yfirmanns fjölmennustu sveitar kennara, við dynjandi lófaklapp og húrrahróp sveitarstjórnarfólks og starfsfólks sveitarfélaganna í landinu.

Það er óþarfi að endurtaka ræðu borgarstjórans eða beita á hana greiningartólum bókmenntafræðinnar, nóg að vísa í viðhengda blaðagrein.

Í gegn um tíðina hefur tvennt verið leiðarstef í hernaðinum gegn kennarastéttinni: Í fyrsta lagi að kennarar geri aldrei neitt og í öðru lagi að þeir níðist á ungu fólki.

Ég skrifaði um daginn pistil þar sem ég rakti aðdraganda aðgerða kennara og grundvöll kröfugerðar þeirra nú: Sem er í stuttu máli svik ríkis og sveitarfélaga á undirrituðu samkomulagi um jöfnun launa opinberra starfsmanna við almennan markað í skiptum fyrir skerðingu á lífeyrisréttindum.

Í umræðu um fyrirhugaða verkfallsboðun komst einn samstarfsmaður minn þannig að kjarna málsins að það væri „mjög undarlegt að það sé hægt að hunsa vilja til samtals í siðmenntuðum heimi þegar svona mikilvæg mál eru undir, velferð ungs fólks“.

Því er til að svara, að það er einmitt það sem gert er, hefur verið gert áratugum saman, og verður gert áfram: „Hunsa bara samtalið“. Við höfum fyrir framan okkur fjölmörg dæmi um slíkt í vinnudeilum undanfarin misseri. Þögn og útúrsnúninga. Þannig að full ástæða er til að efast um meinta „siðmenningu heimsins“ (enda þarf ekki að horfa langt eða lengi í kring um sig til að það orð verði að argasta klámi í tengslum við mannskepnuna – en það er önnur saga).

Í þessari tilvitnun er einnig frasi sem hreyfði við mér; „velferð ungs fólks“.

Um hana er það að segja að kennurum er ævinlega núið því um nasir að þeim standi ekki bara á sama um „velferð ungs fólks“, heldur að með verkföllum leggi þeir sérstaka lykkju á leið sína í þeim tilgangi að hindra velferð ungs fólks. Stjórnvöldum hins vegar er ekki legið það á hálsi að „hunsa samtalið“ og láta heilu stéttirnar vera samningslausar vikum og mánuðum saman. Að ekki sé talað um að svíkja gerða samninga.

Þennan söng höfum við kennarar heyrt ítrekað í gegn um tíðina, kannski nánast jafn oft og þann að kennarar geri aldrei neitt – og séu alltaf í fríi.

Kennarar, af öllum stéttum, sem leggja sál sína að veði alla daga fyrir velferð ungs fólks, eru látnir heyra þennan söng. Kennarar eiga að láta valta yfir sig, aftur á bak og áfram, af því þeim er skylt að standa vaktina yfir velferð ungs fólks, en láta eigin velferð, kjör og réttindi, sig engu skipta.

„Orð skulu standa“. Það er langt síðan þau grunngildi siðmenningarinnar molnuðu í ryk og duft. Og nú er svo komið fyrir blessaðri siðmenningunni að skriflegir samningar eru einkis virði heldur.

Það er ekki velferð ungs fólks til framdráttar að níðst sé á kennurum, né nokkrum öðrum stéttum.

Vonandi er það ekki hluti af þeirri lífsspeki, sem borgarstjórinn og kjörnir sveitarstjórnafulltrúar á fjármálaráðstefnu ætlast til að ungu fólki sé kennd í skólunum: að það eigi í lífinu að sætta sig við að vera svikið um skriflega samninga.

 

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *