Kjarasamningar framhaldsskólakennara eru runnir út. Stéttin er því samningslaus. Samningaviðræður hafa engum árangri skilað og deilunni hefur verið vísað til ríkissáttasemjara. Hann hefur ekki náð neinum árangri enn. Kennarar funduðu í gær í öllum skólum og mikil samstaða ríkir meðal þeirra um grundvallaratriðin. Launin eru óboðleg og hafa þegar valdið því að fjöldi umsókna í kennaranám hefur hrunið og nýliðun í kennarastéttinni er léleg. Meðalaldur framhaldsskólakennara er 56 ár. Framhaldsskólanemendur munu ekki velja kennaranám að loknu stúdentsprófi þegar þeir sjá að byrjunarlaunin sem nýliðum bjóðast eftir 5 ára háskólanám og masterspróf eru 300.000 krónur. Þeir velja sér annað starfsnám. Yngstu kennararnir munu flýja skólana. Fjöldi kennara fer á eftirlaun á næsta áratug. Engir koma í staðinn og skólarnir standa auðir.
Þetta blasir við ef fram heldur sem horfir. Kennarar í Fjölbrautaskóla Suðurlands funduðu í gær, eins og félagar þeirra hringinn í kringum landið, og samþykktu eftirfarandi ályktun, sem útskýrir vel stöðuna:
Nú, þegar kjarasamningur framhaldsskólakennara er útrunninn, bólar hvorki á vilja Samninganefndar ríkisins til að ná samningum né skilningi á þeirri alvarlegu stöðu sem skólakerfið stendur frammi fyrir. Á sama tíma og kennaranám er lengt og stöðugt eru gerðar auknar kröfur til kennara með nýjum verkefnum og flókinni einstaklingsmiðaðri þjónustu, utan sem innan kennslustofunnar, hafa launakjörin hríðversnað.
Laun framhaldsskólakennara hafa hækkað minna en hjá öllum öðrum stéttum frá 2006 og eru nú 17% lakari en annarra háskólamenntaðra starfsmanna hjá ríkinu. Verri starfskjör, aukið álag og lélegri laun fyrir meiri menntun, hafa þegar valdið hruni umsókna í kennaranám og slakri nýliðun í stéttinni, þar sem meðalaldurinn er nú vel yfir 50 ár. Byrjunarlaun nýútskrifaðs framhaldsskólakennara eru um 300.000 krónur á mánuði og ef ekki verður gripið í taumana með róttækum hætti nú þegar munu þeir ekki ráða sig til kennslu og yngri kennarar flýja úr stéttinni á næstu árum, með alvarlegum afleiðingum fyrir skólakerfið.
Undanfarinn áratug hafa 12-14 milljarðar króna verið skafnir innan úr framhaldsskólakerfinu og fjárframlög ríkisins til skólanna eru nú undir sk. launastiku. Margir framhaldsskólar ramba því á barmi gjaldþrots og við þessar aðstæður segir sig sjálft að stofnanasamningar, sem ætlað er að veita svigrúm til launaskriðs, eru marklausir og skólarnir ófærir um að sækja fram og sinna þróunarstarfi.
Ekki þarf að fara orðum um áhrif þessarar sveltistefnu á nemendur og þjóðfélagið allt, þjóðfélag sem í framtíðinni verður að reiða sig æ meir á nýsköpun, hátækni- og þekkingariðnað til að halda uppi viðunandi lífskjörum í þessu landi. Þar sem nýliðun í stéttinni er nú þegar langt undir þörf þarf að spyrja þeirrar knýjandi spurningar hverjir eigi að kenna þeim sem ætla sér að starfa á þessum sviðum í framtíðinni?
Framkoma SNR í samningaviðræðum við framhaldsskólakennara undanfarið lýsir algeru skilningsleysi á þeim vanda sem við er að etja. Félagsfundur KFSu lýsir fullri ábyrgð á þeirri skömm sem við blasir á hendur stjórnvöldum og stjórnmálastéttinni á Íslandi. Fundarmenn eru tilbúnir að grípa til þeirra aðgerða sem nauðsynlegar eru til varnar framhaldsskólastiginu og lýsa hér með eftir þjóðarsátt um endurreisn og eflingu þess.