„Með þögninni er tekin afstaða með gerandanum“, segir hin hugrakka Embla Kristínardóttir, sem nauðgað var á fermingaraldri af tvítugum íþróttamanni.
Þetta er bitur sannleikur sem á við allt ofbeldi. Skólabörnum er innrætt að rangt sé að standa hjá og þegja þegar þau verða vitni að einelti. Því með þögn og aðgerðarleysi er tekin afstaða með ofbeldinu.
Stjórnmálamenn taka vel undir í #meetoo byltingunni og ganga í ræðu og riti fram fyrir skjöldu í baráttu gegn einelti á skólalóðum. Þeir ráðleggja börnum og konum sem beitt eru ofbeldi að þegja ekki: #höfumhátt.
Á sama tíma standa þeir þöglir hjá og horfa í hina áttina meðan félagar þeirra beita þjóðina ofbeldi. Því pólitísk spilling er einmitt það: Ofbeldi. Ofbeldi hins valdeflda í krafti auðs og pólitískrar aðstöðu, til að koma ár sinni fyrir borð á þjóðarskútunni, tryggja eigin hagsmuni á kostnað almennings.
Katrín Jakobsdóttir, Svandís Svavarsdóttir og félagar þeirra í Vg taka virkan þátt í #meetoo og hvetja konur til að hafa hátt. Þær þegja hins vegar ekki bara og líta undan pólitísku ofbeldi, heldur ganga lengra og valsa hlæjandi um leikvöllinn með ofbeldisklíkunni, leiða hana fram.
Þessi hegðun er varin með þeim rökum að fantarnir verði með þátttöku þeirra kannski svolítið mildari í fantabrögðum sínum.
Einhverntímann væri þetta kurteislega kallað tvískinnungur.
Upprætum pólitískt ofbeldi: #höfumhátt