Tekið á hús

Áfram tíminn æðir þrátt,

árið næstum liðið

og andinn leitar ósjálfrátt

yfir gengið sviðið.

 

Í muna feta minn á veg

margar góðar stundir:

Hamingjuna hitti ég

er hesti reið um grundir.

 

Fylla mælinn kviku- korn,

kalla þessi undur

á að fljótt við hesthúshorn

hefjist næsti fundur.

 

Gríp þá tauma, múl og mél,

mylsnu brauðs í poka,

stytti leið um mó og mel,

má nú annað doka.

 

Aðeins þarf að hóa hátt,

í hagann taka miðið,

þá góðir vinir birtast brátt

og bíða mín við hliðið.

 

Hára, yfir færast frið

finn, og tengslin náin,

við taktinn er þeir taka við

að tyggja grænu stráin.

 

Næstu daga njóta má,

við nostur finna léttinn:

Járna, kemba, fiðring fá

og fara skeifnasprettinn.

 

„Jæja þá, í þetta sinn“,

þétt við hálsa bía. 

Það töfrar fram, að taka inn,

tilfinningu hlýja.

 

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *