Stórslys í Ölfusá?

Undarlega hljótt hefur lengst af verið um áform bæjarstjórnarmeirihlutans í Árborg að stífla Ölfusá við túngarðinn ofan við byggðina á Selfossi og veita henni úr farvegi sínum, í jarðgöngum eða skurði, nánast í gegnum byggðina „utan ár“. Upplýsingar um þennan gjörning eru bæði loðnar og af skornum skammti, ekki síst í því ljósi að hér hafa ekki fyrr verið settar fram hugmyndir sem gætu haft jafn öfgafull, skaðleg áhrif á bæði lífríki og efnahag á svæðinu.

Náttúruvættið

Ölfusá, þar sem hún beljar í gegnum Selfoss, um gjána, Básinn og áfram niður flúðirnar norðan gömlu Selfossbæjanna, er hjartsláttur þessa byggðarlags. Fram kemur í grein eftir fiskifræðingana Sigurð Guðjónsson og Magnús Jóhannsson í héraðsblaðinu Dagskránni í gær að meðalrennsli Ölfusár, þessa vatnsmesta fljóts á Íslandi, sé 400m3 á sekúndu en ef af virkjanaáformum yrði myndu seitla undir brúna 15m3/s (eitthvað meira í vatnavöxtum). Ef áin yrði aflífuð með svo brútal hætti sem núverandi bæjarstjórnarmeirihluti áformar er þar með grundvellinum kippt undan sjálfsmynd þeirra sem lifað hafa og hrærst í félagi við hana um aldir. Kynslóðir sem yxu upp þaðan í frá, við hjal í svo hlægilegri sprænu, yrðu eitthvert allt annað fólk en það sem alið hefur manninn á bökkum þessa eins merkasta náttúruvættis landsins fram undir þetta.

Áhrif á lífríkið

Í grein þeirra Magnúsar og Sigurðar kemur fram að á vatnasvæði Ölfusár-Hvítár „lifa allar þær fiskitegundir sem finnast í fersku vatni á Íslandi“. Af þessum fiskstofnum eru umtalsverðar nytjar og er veiðistofn laxa í ám á vatnasvæðinu einn sá stærsti á landinu. Veiðin er umtalsverð, bæði í net og á stöng og geta stangardagar í laxveiði orðið á bilinu 8000 til 9.500 á ári en í silungsveiði yfir 18.000. „Laxastofnar Ölfusár-Hvítár hafa umtalsverða þýðingu á landsvísu en á árinu 2010 var laxveiðin þar um 18% af allri veiði í ám með náttúrulegum laxi á landinu og er jafnframt umtalsverður hluti af fjölda laxa í afla við Norður-Atlantshaf“, segja fiskifræðingarnir, og ennfremur að virkjunin muni valda „umtalsverðu tjóni ef mótvægisaðgerðir eru ekki gerðar eða ef þær virka ekki eins og til er ætlast“. Það muni þýða „endalok þeirra göngufiskstofna sem eru ofan [fyrirhugaðrar] stíflu“, hvorki meira né minna. Hver vill taka þá áhættu – og ábyrgð á slíku hryðjuverki?

Tilfinningasemi, efnahagsleg afkoma og náttúruvá

Allir sem vilja, sjá að hér er ekki aðeins um að tefla „einhverja fiska“ eða tilfinningasemi íbúa í nágrenni virkjunar, heldur einnig stórkostlega efnahagslega hagsmuni, bæði vegna sölu veiðileyfa og ekki síður afleiddra áhrifa á ferðaþjónustu og afkomu íbúa meira og minna upp um alla Árnessýslu. Hér er líka um að tefla Sogið, Stóru-Laxá, Tungufljót og Brúará, svo aðeins nokkrar stærri árnar séu nefndar, og að auki veiðivötnin Hestvatn, Apavatn og Laugarvatn.

Fyrir utan það sem hér hefur verið nefnt þarf að hafa í huga að Ölfusá og Hvítá eru „mestu flóðaár landsins“ og í þeim „urðu hlaup árin 1929, 1939, 1975, 1980 og 1999“ ef aðeins er litið til síðustu aldar. Enginn veit hver áhrif stíflu við Efri-Laugardælaeyju yrðu á marflatan Flóann í hamfara- eða krapaflóði. Erfitt er að meta hættuna þar sem allar hugmyndir bæjarstjórnarmeirihlutans um framkvæmdina eru þokukenndar og óljósar, það skal bara virkja! Helst virðist eiga að reiða sig á, til að bjarga fiskstofnum, „fiskivænar túrbínur“, sem hafa verið kjaftaðar upp í blöðum, en virðast reyndar ekki vera til nema sem líkön á teikniborðum tilraunastofa einhversstaðar úti í hinum stóra heimi.

Ekki einkamál meirihlutans

Til að réttlæta náttúruspjöllin hefur bæjarstjórnarmeirihlutanum tekist að reikna sig upp í hundruð milljóna hagnað og hundruð starfa. En þrátt fyrir öll reiknilíkön eru þessi ósköp ekki einkamál fimm meirihlutafulltrúa í bæjarstjórn Árborgar. Þetta var ekki stefnumál neins flokks fyrir síðustu kosningar í sveitarfélaginu og því hafa fulltrúar Sjálfstæðisflokksins um þetta ekkert umboð frá kjósendum sínum, né öðrum íbúum. Að ekki sé talað um aðra Árnesinga, sem málið varðar ekki síður en Selfyssinga. Hér eru nefnilega líka í hættu hundruð milljóna og hundruð starfa ef fiskistofnar hrynja.

Fordæmi Hvergerðinga

Bæjarstjórn Hveragerðis setti eftirtektarvert fordæmi með því að berjast samhent og einhuga gegn virkjunum í sínum bakgarði, og kom þannig í veg fyrir eyðileggingu ómetanlegra náttúruperla. Hvergerðingar mátu dýrgripi sína meira en allt það gull sem reiknimeistarar töldu sig geta borað upp úr iðrum jarðar. Hafi þeir þökk fyrir.

Geta ekki Ölfusá og Hvítá bara fengið að vera í friði fyrir virkjunum, eins og hinir fögru „reykja“dalir ofan Hveragerðis? Má ekki friða þetta vatnasvæði og einbeita sér að enn öflugri uppbyggingu veiðistofnanna, sem gætu skilað mun meiri arði en þeir nú gera, í stað þess að stefna þeim í voða?

Fordæmi Hvergerðinga hrópar á meirihlutafulltrúa í bæjarstjórn Árborgar, sem eru einangraðir í afstöðu sinni til málsins: „Hættið þessari vitleysu strax“.

(Pistillinn er að stofni til grein eftir undirritaðan sem birtist í Dagskránni – Fréttablaði Suðurlands 17. mars 2011).

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *