Í fjölmiðlum hefur undanfarið verið fjallað um erfiðleika fólks frá öðrum löndum að fá menntun sína metna hér á landi. Sögð var saga kvensjúkdómalæknis frá Úkraínu sem fær ekki vinnu við hæfi en starfar sem ófaglærður starfsmaður á leikskóla og eiginmaður hennar samlendur, sem er skurðlæknir að mennt, vinnur í eldhúsi á spítala.
Ekki er það svo að þetta fólk sé nýkomið til landsins og vinni fyrir sér með þessum hætti til bráðabirgða í nokkrar vikur eða mánuði, meðan pappírar eru að berast með póstinum, eða Landlæknisembættið að lesa yfir háskólaskírteinin sem fólkið kom með með sér, og setja íslenskan stimpil á lækningaleyfið. Nei, þetta ágæta fólk hefur dvalið hér á landi í 11 ár og kvensjúkdómalæknirinn unnið á leikskólanum í 8 ár samfleytt en ekki haft árangur sem erfiði þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir til að fá vinnu við hæfi. Heima í Úkraínu höfðu þau „bæði starfað við kennslu á kennslusjúkrahúsi að loknu sérfræðinámi í læknisfræði“, eins og segir í fréttinni sem krækt er í hér ofar.
Það verður að viðurkennast að oft hafa svipaðar sögur flogið fyrir. Ég er nú svo grænn að hafa haldið að mestur hluti þessara sagna væru flökkusögur, þó ég viðurkenndi svona með sjálfum mér að einhver fótur hlyti að vera fyrir þessu.
En hvernig stendur á þessari voðalegu tregðu? Er íslensk menntun svo framúrskarandi að annarra þjóða skólakerfi séu alls ekki samboðin okkur? Það stenst illa, því fjölmargir Íslendingar stunda sitt læknisfræðinám í útlöndum. Ég þekki t.d. einn af stórum hópi sem nemur í Ungverjalandi, sómadreng mikinn. Varla fara Íslendingar til útlanda að læra ef þeir þurfa að bíða í einn og hálfan eða tvo áratugi eftir því að fá menntun sína metna hér á landi, eins og innflytjendur þurfa að gera? Og varla hafa allir þessir íslensku krakkar sem fara utan til náms ákveðið að koma ekkert heim og starfa bara til frambúðar í landinu sem þeir læra í?
Eru Íslendingar svo sjálfhverfir og illa haldnir af minnimáttarkennd að þeir geti ekki hugsað sér að láta einhverja útlendinga lækna sig, eða starfa við önnur sérfræðistörf hér á landi? Varla á maður að trúa því?
En hver er þá ástæðan fyrir þessari tregðu að meta prófskírteini frá skólum erlendis? Þetta vandamál er ekki einskorðað við háskólamenntun til starfsréttinda, eins og læknisfræði.
Tveir yngstu synir okkar hjóna voru skiptinemar við miðskóla (High-School) í Bandaríkjum Norður-Ameríku. Í báðum tilvikum var um að ræða virta einkaskóla sem höfðu full réttindi þar í landi til að útskrifa nemendur með réttindi til hásólanáms. Báðir synirnir stunduðu nám á lokaári og luku tilskildum prófum. Þeir höfðu því unnið sér rétt til að setjast á skólabekk á háskólastigi í Bandaríkjunum.
Báðir settust þeir hins vegar, eftir dvölina þar „westra“, aftur á skólabekk í Fjölbrautaskóla Suðurlands og luku þar stúdentsprófinu sínu. Annar fékk að vísu fáséðan styrk sem veittur er skiptinemum í Bandaríkjunum til háskólanáms og hóf nám strax haustið eftir miðskólaprófið í „College“ í St. Paul í Minneapolis en ákvað svo að una ekki lengur þar í landi og kom heim til að ljúka sínu stúdentsprófi og bachelorgráðu.
Hvað kemur þetta málinu við? Jú, einmitt. Hvað fengu þeir metið af námi sínu þegar heim var komið? Af heilu skólaári og útskrift með réttindi til háskólanáms í USA, jafnvel námi á háskólastigi að hluta? Það voru ekki nein ósköp, sannast sagna. Þó starfsfólk FSu reyndi af bestu getu og vilja að rýna eitthvað í skjölin voru aðeins metnar einhverjar einingar hér og þar, ótilgreint val, enska kannski, líffræði og eitthvað fleira.
Hvernig stendur á þessum árekstrum milli skólakerfa og prófa – og batnar ekki allt þegar íslenska stúdentsprófið hefur verið stytt í þrjú ár, sambærilegt við t.d. miðskólanám í Bandaríkjunum? Hætt er við að þá gleymist að taka með í reikninginn að fyrsta árið í College, ef ég hef tekið rétt eftir, er almennt undirbúningsnám, og að því loknu tekur við þriggja ára bachelornám. Hér á landi fara nemendur hins vegar beint í sitt bachelornám að loknu stúdentsprófi:
Highschool + College = 7 ár (3+4) í Bandaríkjunum
Framhaldsskóli + háskóli = 7 ár (4+3) á Íslandi.
Ekki er gott að hver sem er fái lækningaleyfi, önnur sérhæfð starfsréttindi eða stúdentspróf á silfurfati eftir nám í útlöndum. En getur verið að þetta þurfi að vera svona flókið, erfitt og seinlegt? Er svona stjórnsýsla, eins og íslensku hjónunum frá Úkraínu er boðin, ekki hrein og klár lítilsvirðing við borgarana? Er þetta boðlegt?