Hér er vitnað í bók Þorvaldar Logasonar, Eimreiðarelítan – Spillingarsaga (Steinason ehf., Reykjavík 2023).
Áður en kemur að Landssíma Íslands, einhverju hroðalegasta dæminu um einkavæðingarspillingu í Íslandssögunni, er gott að skoða upphaf spillvæðingarinnar.
Eitt fyrsta verk Davíðs Oddssonar, eftir að hann tók við embætti Borgarstjóra í Reykjavík 1983, var að hefja einkavæðingarferli Bæjarútgerðar Reykjavíkur. Ferlið hófst með því að Davíð „rak umsvifalaust tvo framkvæmdastjóra BÚR og réð stórvin sinn og félaga úr Eimreiðarhópnum, Brynjólf Bjarnason, sem framkvæmdastjóra, án auglýsingar. Mann sem aldrei hafði stýrt útgerð en hafði góða reynslu af bókaútgáfu Sjálfstæðisflokksins í Almenna bókafélaginu“ (bls. 103).
Næsta skref var að sameina BÚR og Ísbjörninn, í leynimakki Davíðs og elítunnar, að baki borgarstjórnar og starfsfólks. Fyrst voru þó tveir togarar BÚR seldir á undirverði og peningum dælt úr borgarsjóði inn í fyrirtækið til að hreinsa upp skuldir. Ísbjörninn var fyrirtæki á vonarvöl, í eigu Kolkrabbans og valdamanna í Sjálfstæðisflokknum. Eignir Ísbjarnarins voru gróflega ofmetnar en eignir BÚR gróflega vanmetnar, kvótinn metinn nánast verðlaus við sameininguna, en varð auðvitað verðmætasta eignin þegar nýtt fyrirtæki, Grandi, tók til starfa á grunni BÚR og Ísbjarnarins. 180 manns var sagt upp. Síðar voru 90 endurráðnir.
Opinberlega var því haldið á lofti að selja ætti Granda einstaklingum sem kaupa vildu í „opnu útboði“ svo fyrirtækið yrði í „dreifðu eignarhaldi“ (hafið þið heyrt þennan áður?) í anda „hugsjóna nýfrjálshyggjunnar“.
Raunin varð auðvitað allt önnur. Áður en kom að almennu hlutafjárútboði barst skyndilega „óvænt tilboð“ af himnum ofan, tilboð sem var svo hagstætt að það varð bara að taka því undir eins, svo það rynni ekki úr greipum! Og hverjir skyldu svo hafa sent inn þetta tilboð sem var of gott til að hægt væri að hafna því?
Jú, rétt til getið, lesandi góður: Fyrirtæki innmúraðra klíkubræðra úr Sjálfstæðisflokknum: Hvalur hf., Venus hf. og Hampiðjan, í samstarfi við Sjóvá, „höfuðvígi Engeyjarættarinnar“.
Verð hlutarins í Granda var svo hagstætt (fyrir kaupendurna, vel að merkja) að borgin fékk sama og ekkert í sinn hlut fyrir BÚR, eitt stærsta útvegsfyrirtæki landsins, en innvígðir „auðmenn í Sjálfstæðisflokknum högnuðust gríðarlega“ (104-105).
Þetta er í stórum dráttum aðferðafræðin við einkavæðingu almannafyrirtækja allar götur síðan: Koma einkavinum fyrir í stjórnunarstöðum, dæla fé í eigu almennings inn í fyrirtækin og selja þau síðan einkavinum (og fjölskyldumeðlimum) á undirverði. Hinir pólitísku vildarvinir ganga svo frá borði með digra sjóði, peninga sem áður voru í eigu almennings. Aðferð sem Eimreiðarelítan lærði m.a. af Tatcher og Reagan, helstu hershöfðingjum nýfrjálshyggjunnar gegn almannahagsmunum úti í hinum stóra heimi.
Þetta var bara upphafið að þeirri valdasamþjöppun í sjávarútvegi sem framundan var, og unnið var að í langan tíma á bak við tjöldin. Grandi sameinaðist þegar tímar liðu stórútgerð HB á Akranesi og til var orðinn sannkallaður risi.
Á sama tíma og BÚR var einkavædd unnu helmingaskiptaflokkarnir meðfram að einkavæðingu auðlindanna, skref fyrir skref, m.a. með lagabreytingum í helmingaskiptasamráði, til að koma veiðiréttinum á Íslandsmiðum í einkaeigu: Kvótakerfið illræmda.