Hér er vitnað í bók Þorvaldar Logasonar, Eimreiðarelítan – Spillingarsaga (Steinason ehf., Reykjavík 2023).
Í síðasta pistli var rakin árásin á Ríkisútvarpið. Það er fróðlegt að skoða þá umfjöllun í samhengi við viðtal við Auðun Georg Ólafsson í Heimildinni #26 (26. tbl., 1. árg. 20.-26. okt. 2023, bls. 24-28). Þar kemur skýrt fram að Sjálfstæðisflokkurinn ætlaði, auðvitað í samkrulli með Framsóknarflokknum í helmingaskiptaspillingunni, að munstra í fréttastjórastólinn hjá fréttastofu sjónvarpsins einstakling sem ekki var metinn faglega hæfastur, en klíkan taldi að yrði sér leiðitamari en aðrir umsækjendur. Ráðningunni var harðlega mótmælt.
Reyndar hafði starfsfólk áður samþykkt vantraust á útvarpsstjóra Eimreiðarklíkunnar, Markús Örn Antonsson, vegna annarra embættisfærslna hans, svo þessi pólitíska ráðning olli enn meira uppnámi fyrir vikið. Auðun rekur það í viðtalinu að hann hafi ekki verið sá pólitíski dindill sem talið var, en að hann hefði haft skilning á því að ráðningu hans hafi verið mótmælt af starfsfólki, sem krafðist faglegra vinnubragða við mannaráðningar.
Athyglisverðara úr viðtalinu er þó að Auðun upplýsir að fulltrúi valdaelítunnar hefði hringt í hann og hótað honum, þegar þefaðist upp að hann hygðist hætta við að þiggja starfið vegna innanhússmótmæla á fréttastofunni. Hann myndi súpa seyðið af því – m.a. með hindrunum sem lagðar yrðu fyrir hann á vinnumarkaði í framtíðinni. Eftir hroðalegar móttökur á vinnustaðafundi gekk hann samt sem áður út úr Útvarpshúsinu og koma þangað ekki aftur.
Í bókinni er rakið ítarlega hvernig Eimreiðarelítan gerði ítrekaðar tilraunir til að koma á fót eigin fjölmiðlaveldi með útsmognum fléttum, annars vegar yfirtökum á þegar starfandi „fyrirtækjum á markaði“ og hins vegar með stofnun eigin fyrirtækja. Þetta er flókin og löng saga sem m.a. tekur til stríðs við Jón Ólafsson og Jón Ásgeir um yfirráð yfir ráðandi fjölmiðlun, þar sem við sögu koma Íslenska útvarpsfélagið, Stöð 2, Stöð 3, Skjár einnn, Bylgjan, Sýn, Ísfilm, Landssíminn, Íslandssími o.fl. o.fl. o.fl. fyrirtæki, sem flestir eru búnir að gleyma að nokkurn tíma hafi verið til.
Allar þessar tilraunir klíkunnar runnu út í sandinn, allt fór á húrrandi hausinn trekk í trekk, þrátt fyrir að ólgandi stórfljót peninga hafi runnið í þetta sukk af opinberu fé, úr Landssímanum og Landsbankanum, Orkuveitu Reykjavíkur hinum stóru bönkunum og úr fleiri áttum.
Eimreiðarelítan og stjórnmálaarmur hennar, Sjálfstæðisflokkurinn, er nefnilega með sérþekkingu á því, og langa sögu um að nota annarra fé í eigin þágu, að misnota ríkisfyrirtæki og dæla úr þeim peningum í valdabrölti sínu. Þess vegna var það hrollvekjandi að eitt það fyrsta sem haft var eftir nýjum fjármálaráðherra, Þórdísi Kolbrúnu, að hún hygðist leggja áherslu á að „fara vel með peninga annarra“.
Fyrst verkið verður framhald á misnotkun á hlut ríkisins í Íslandsbanka, því sem eftir er, síðan hvert ríkisfyrirtækið af öðru og almannaþjónustustofnanir. Eina leiðin til að stöðva þetta einkasukk helmingaskiptanna er að kjósa spillinguna burt.
Í næsta pistli verður upphaf nútíma spillingarvæðingar, einkavæðing BÚR, og upphaf auðlindaránsins, rakin í stuttu máli.