Sí og æ
sömu baggarnir
á sömu hestunum
Svo kveður Hannes Pétursson í Heimkynnum við sjó (ljóð 15) og er ekki örgrannt um að hann hafi nokkuð til síns máls.
Áður en verslunarmannahelgarvaðallinn tók völdin í fjölmiðlum fengu stjórnarandstæðingar sitt rúm í fréttatímum til að úttala sig um skuldir ríkissjóðs. Svo var að heyra á þeim að vaxandi halli kæmi þeim algjörlega í opna skjöldu; skuldavandinn væri gríðarlega alvarlegt mál! Og það sætti auðvitað furðu, en virtist ekki koma einu stærsta gjaldþroti heimssögunnar neitt við.
Hafandi hlustað á þetta útmálað í hverjum fréttatímanum á fætur öðrum vissi ég eiginlega ekki hvort ég ætti að hlæja eða reita skegg mitt (um annað hár er ekki að ræða). Hvar hafa þessir menn verið?
Í kjölfarið rifjaðist upp ýmislegt sem borið hefur verið fram síðustu misserin. Ég minntist ítrekaðra fyrirspurna á þingi um greiðslur vegna sérfræðiálita ofan úr háskóla, í krafti gegnsæis og heiðarleika, frá manni sem sjálfur safnaði tugmilljónum í kosningasjóði flokks sem barðist af alefli gegn því að opna bókhaldið og upplýsa um styrki og hagsmunatengsl.
Ég minntist harðvítugrar baráttu sömu afla gegn stjórnlagaráði, sem nú hefur blessunarlega sett þingmönnum það fordæmi, og það fyrir opnum tjöldum, að hægt sé að ná árangri og komast að niðurstöðu án þess að hlaupa beint niður í skotgrafirnar!
Ég minntist nafnlausra brunnmiga í netheimum sem dreifa skólpinu m.a. áfram í gegnum dælustöð í Hádegismóum.
Ég minntist rannsóknarskýrslu í 9 bindum sem unnin var á vegum hæstvirts Alþingis, og smám saman er nú að fenna yfir í opinberri umræðu – og þegar er farið að tortryggja og sá efasemdum um með því að benda á aukaatriði sem hafi nú ekki verið alveg eins og þar er lýst.
Og á meðan Steingrímur og Jóhanna troða marvaðann með hálfrænulausan ríkissjóð og þurfa að losa hann bæði úr vöðlum og ýmsum öðrum velþegnum hlífðarfatnaði, svo allt dragist ekki á bólakaf, ganga þeir sem hirtu bæði vélina úr og hjólin undan drossíunni að flakinu og eignast það á hrakvirði eftir að hafa fengið upphaflega bílalánið afskrifað.
Ég minntist kröfunnar um „nýja Ísland“, um endurreisn virðingar stjórnmálastéttarinnar, um opna, hreinskilna og heiðarlega umræðu; um drengileg og málefnaleg skoðanaskipti.
Og þegar ég var að rifja þetta upp fundust mér orð Hannesar Péturssonar frá árinu 1980 eitthvað svo viðeigandi:
Nær snarast undir kvið
þessar klyfjar af lygum?