Sleipnir

Föstudagurinn 19. nóvember 2021 var sögulegur í tónlistarlífi landamanna. Þá var vígður í Hörpu nýr flygill sem Reykjavíkurborg og ríkissjóður gáfu húsinu í tilefni af 10 ára afmæli þess. Það var sjálfur Víkingur Heiðar Ólafsson sem vígði flygilinn með frábærum tónleikum, þar sem hann lék verk eftir Mozart.

Í upphafi spjallaði Víkingur við tónleikagesti, sagði frá Mozart og verkum hans, áhrifum hans á tónlistarsköpun, og á hann sjálfan sem einleikara. Víkingur lagði til að flygillinn fengi nafnið Sleipnir, því þó hann væri vissulega ekki áttfættur eins og hinn goðsagnakenndi hestur Óðins, þá hefði hann marga sömu eiginleikana; orðaði það einhvernveginn svo að Sleipnir færi loft og lög jafnt sem láð og á sama hátt flygi tónlistin á vængjum hans í hæstu hæðir.

Það var magnað að vera viðstddur þessa stund í Hörpu; tónlistin hreyfði allan tilfinningaskalann og einleikarinn auðvitað frábær, eins og allur heimurinn hefur áttað sig á fyrir löngu. Takk fyrir mig.

Á tíu ára afmæli Hörpu er vert að fagna þeirri framsýni að halda áfram fullum fetum og ljúka við bygginguna, þrátt fyrir efnahagshrun. Og minnast um leið þess formyrkvunarafturhalds sem hafði hátt með kröfur sínar um að hætta framkvæmdum – jafnvel að láta húsið standa ókarað um aldur og ævi þeirri hugmynd til háðungar að byggja glæsilegt tónleikahús í höfuðborginni. Þeir sömu halda sig til hlés nú um stundir, enda í besta falli broslegir í ljósi sögunnar. 

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *