Skrípaleikur og sýndarlýðræði

Nú liggja fyrir niðurstöður úr ráðgefandi og leiðbeinandi þjóðaratkvæðagreiðslu um tillögur Stjórnlagaráðs að nýrri stjórnarskrá fyrir Lýðveldið Ísland. Niðurstöðurnar voru afdráttarlausar í öllum tilvikum.

Og alþingismenn hafa nú fengið frá þjóðfundi þá ráðgjöf og leiðbeiningu sem þeir þurftu, báðu um – og eiga að taka mark á. Það ætti að vera létt verk hjá þeim að sameinast um að vinna úr þeim skýru skilaboðum sem þjóðin hefur sent þeim?

En það er því miður eins víst og að á eftir sunnudegi kemur mánudagur að raunveruleikinn verður allur annar. Nú streyma þeir á skrifstofu ritstjórans, Sjálfstæðismenn, til að taka við línunni. Og þeir flokkast inn í reykfylltu bakherbergin til að samræma aðgerðir í komandi hernaði gegn þjóðinni. Og svo dreifa þeir sér í skotgrafirnar og láta fýlubombunum rigna yfir almenning. Það er tómur skrípaleikur ef almenningur í landinu setur fram hugmyndir um það hvernig samfélagi það vill búa í. Því það sem samþykkt var til bráðabirgða árið 1944, þegar fólk fagnaði stofnun eigin lýðveldis eftir áratugalanga baráttu, það skal standa til eilífðar. Fólk sem lifir og hrærist í upphafi 21. aldar, það skal ekki voga sér að láta sér detta í hug að heimurinn hafi eitthvað breyst á 70 árum, að það hafi eitthvert vit á því hvað því er fyrir bestu eða að því komi það við hvernig stjórnarskráin hljómar.

Og það er hvorki meira né minna en sýndarlýðræði og jarðvegur fyrir pólitíska spillingu að spyrja þjóðina beint og milliliðalaust hvaða áherslur hún vill leggja um mikilvæg mál í sinni eigin stjórnarskrá. Enda hefur hér enginn jarðvegur verið fyrir pólitíska spillingu frá lýðveldisstofnun, þó illar tungur hafi undanfarin ár verið með á heilanum „svokallað hrun“.

Menn sem nú rembast við að taka meira mark á þeim sem sátu heima en þeim sem mættu á kjörstað og greiddu atkvæði, þeir hafa eitthvað annað í huga en að þjóna almannahagsmunum.

 

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *