Í Norðlingabók Hannesar Péturssonar, seinna bindi (Bjartur/Bókaútgáfan Opna, 2017) er skemmtilegur, stuttur þáttur um Stefán Guðmundsson, betur þekktan sem Stephan G. Stephansson. Hannes segir:
Víðimýrarsel mun vera eina býlið á Íslandi sem tengist Stephani G. í vitund alls þorra manna. […] Mjög fáir munu þeir sem renna þá huganum til Kirkjuhóls, fæðingarstaðar skáldsins, nokkru sunnar og neðar í sveit. Kirkjuhóll virðist nær að öllu horfinn úr sögu Stephans (bls. 125).
Foreldrar Stephans, Guðbjörg Hannesdóttir frá Reykjarhóli þar í sveit og Guðmundur Stefánsson frá Kroppi í Eyjafirði fengu ábúð að Kirkjuhóli árið 1852 og bjuggu þar í 8 ár, til 1860, en eftir það á Syðri-Mælifellsá til 1862 og Víðimýrarseli til 1870. Þá fóru þau búferlum, fyrst norður í Bárðardal og svo vestur um haf þremur árum seinna.
Stefán fæddist á Kirkjuhóli 1853 og ólst þar upp fyrstu 7 ár ævinnar en í Víðimýrarseli frá 10 til 18 ára aldurs.
Frá Arnarstapa yfir sé
örsmátt Sel, í skjóli.
Sterkan fléttuðu Stephan G.
stráin á Kirkjuhóli.