Útför Sigurðar Sigmundssonar frá Syðralangholti var gerð í dag frá Skálholtskirkju, í fallegu veðri. Jarðað var í Hrepphólakirkjugarði. Þetta var virðuleg, falleg og fumlaus jarðarför. Séra Eiríkur var ekkert að teygja lopann. Fjöldi manns var við útförina, sem vænta mátti, og boðið upp á lystuga kjötsúpu í félagsheimilinu að greftrun lokinni. Það var við hæfi.
Siggi var alltaf viðræðugóður og kom eins fram við alla, tel ég. Ég minnist þess alla vega frá hestamótum, t.d. á Murneyrum, að hann gaf sig á tal við mig, þegar á barns- og unglingsaldri, eins og hvern annan fullgildan fulltrúa Laugdæla, spurði tíðinda og tók það allt gott og gilt sem ég hafði fram að færa. Maður var töluvert hróðugur að loknum þessum samtölum við þennan karl úr fjarlægum hreppi (þetta voru töluverðar vegalengdir á þeim tíma og ekki vikulegur skreppitúr í Hreppana þá eins og nú) sem lét svo lítið að gefa sig á tal við barnið.
Seinna átti ég því láni að fagna að kynnast vel fólkinu í Syðralangholti, þegar ég ferðaðist nokkur sumur með Simma, á hestum um hálendið. Þá var Siggi oft á stjákli um hlöðin, jafnan með vélina um hálsinn auðvitað, að reyna að ná ‘myndinni’. Allt gekk þetta hjá honum með hægðinni, og hann gaf sig á tal við mig fullorðinn með nákvæmlega sama hætti og fyrr.
Ég votta ættingjum Sigga gamla samúð mína. Blessuð sé minning hans.