Ég lagðist í þá pílagrímsför að lesa stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar. Mestmegnis vegna þess að þó ég þættist þess fullviss að hann væri jafn innihaldsrýr og fram hefur komið í fjölmiðlum að hann er, þá er alltaf betra að skoða hlutina sjáfur en að láta aðra segja sér hvernig þeir eru.
Við fyrstu sýn
Við fyrstu sýn vekur athygli að mikið er lagt upp úr hönnun og útliti skjalsins. Ekkert til sparað í myndum og undir útdrætti tilvitnaðra meginfrasa eru lagðar heilu síðurnar. Hér hefur einhver hönnunarstofan fengið vel fyrir sinn snúð. Á fyrstu 21 síðunni, sem er almenn lýsing á markmiðum í samfelldu máli, er einhver texti á 11 síðum. Seinni hlutinn, síður 24-60, er kaflaskiptur eftir „málaflokkum“ og markmiðin sem áður var búið að segja frá í samfelldu máli listuð upp í afmarkaða punkta, og ekki nema 9 auðar síður, þó lítið sé á mörgum, eins og mikilvægt er í kennslubókum fyrir byrjendur.
Stíll og framsetning
Helsta einkenni textans er hástemmdur helgisagnastíll, og greinilegt að kunnáttumaður í trúarlegri upphafningu hefur farið fingrum um lyklaborð. Lykilfrasar í textanum eru: horft verður til – stuðlað að – unnið að – að styðja við – lögð áhersla á – með það að markmiði að – hugað að því að – o.s.frv. Rætt er við lesendur í móðurlegum, hlýlegum og alþýðlegum tón, í fyrstu persónu, „við viljum“ þetta og hitt. Allt mjög kunnáttusamlega gert til að skapa rétta stemmningu og viðmót; það er hinn mildi og réttláti jesúbróðirbesti sem talar við lærisveina sína, en ekki hinn refsingasami drottinn allsherjar að messa yfir söfnuðinum.
Innihaldið
Innihaldið er í stórum dráttum merkingarlaus froða, sem lítt er hönd á festandi. Manni dettur ósjálfrátt í hug Jón Gnarr og Besti flokkurinn sem gerði einmitt stólpagrín að svonalöguðu með því að segjast ætla að gera „allskonar fyrir aumingja“, ef ég man rétt. Hér er markmiðið augljóslega að enginn geti efast um góðvild og umhyggju þríeykisins sem stendur að sáttmálanum. Hins vegar er lítið að frétta af því hvernig eigi að borga fyrir alla pakkana og hvernig eigi að koma þeim öllum fyrir undir trénu.
Strax í inngangi grípa augað nokkrir frasar sem vekja bros: „Við tökumst á við allar áskoranir með hag almennings að markmiði“ – „skapa sátt um nýtingu auðlinda“ og svo þessi óborganlegi brandari: „Markmið síðasta kjörtímabils var að byggja upp traust í samfélaginu …“
Allir vita örlög síðast talda markmiðsins og sú vitneskja er ekki til þess fallin að „byggja upp traust“ á fagurgalanum sem á eftir fer.
Nokkur efnisatriði
Nokkur efnisatriði er rétt að tína út.
Fyrst má frægan nefna hálendisþjóðgarðinn, helsta flagg Vg í síðasta stjórnarsáttmála, sem troðið var eins og blautum sokk ofan í flokkinn á nýliðnu kjörtómabili, og hann nú dreginn sundur og saman í háði: Þjóðgarður á þegar friðlýstum svæðum á efstu fjallstindum og jökulhvelum!
Næst má nefna einbeittan vilja flokkanna að selja banka og fjármálastofnanir til sinna manna svo þeir geti leikið sér með meiri peninga. Þetta heitir að „halda áfram að draga úr eignarhaldi í fjármálakerfnu og nýta ábatann til uppbyggingar innviða“ (bls. 5). Allir vita af langri reynslu að einsskiptisábati af sölu ríkiseigna verður ekki nýttur til uppbyggingar innviða – og að árlegur arður af t.d. Landsbankanum er fljótur að borga upp kaupverðið og gæti nýst mun betur til lengri tíma litið til hagsbóta fyrir almenning á margvíslegan hátt.
Í þriðja lagi er stórhættulegt ákvæði, eins og bent hefur verið á, um inngrip í vinnumarkaðsmál: „Til að stuðla að auknum fyrirsjáanleika og bæta verklag verður embætti Ríkissáttasemjara eflt, til dæmis með því að koma á fót standandi gerðardómi. Leikreglur vinnumarkaðar verða skýrðar með nýjum starfskjaralögum …“ (bls. 5). Hvað þýðir það að skýra leikreglur vinnumarkaðar? Hér er, eins og annars staðar í plagginu, enginn grunnur að standa á. Til hagsbóta fyrir hvern eiga ný starfskjaralög að vera? Launafólk? Atvinnurekendur? Hvaða hagsmunir eru þarna að baki? Hér vantar allt kjöt á beinin, og tilgangurinn með því að hafa þetta svo almennt orðað er augljóslega sá að fela hið raunverulega markmið, sem er að koma böndum á verkalýðshreyfinguna, kjarasamninga og vinnudeilur.
Í fjórða lagi eru fyrirheit um aukna einkavæðingu samgöngumannvirkja („á minni vakt“). Þetta er orðað svo í plagginu: „Tilteknum þjóðhagslega arðsömum framkvæmdum, sem bæta munu lífsgæði fólks og stækka atvinnu og þjónustusvæði, verður flýtt á grundvelli fölbreyttari fjármögnunar og samstarfs við einkaaðila“ (bls. 18). Hér er þó ekkert verið að fela neinn tilgang í orðskrúði, og ber að þakka fyrir það. En ekki samrýmist það áætlunum um að „takast á við allar áskoranir með hag almennings að markmiði“, sem vitnað var til hér í upphafi, því kostnaður almennings við einkaframkvæmd í samgöngukerfinu er margfaldur á við opinbera framkvæmd.
Í fimmta lagi á að halda áfram að leggja niður og sameina stofnanir. Nú hringja varúðarbjöllur, því reynslan sýnir að hið raunverulega markmið með slíkum aðgerðum er að gelda eftirlit á völdum sviðum. Hér heitir það að „efla og styrkja“: „Á fyrri hluta kjörtímabilsins verða gerðar breytingar á fyrirkomulagi samkeppnismála og samkeppniseftirlits og það eflt með sameiningu stofnana, lagabreytingum og styrkingu samtaka neytenda“ (7). Á grundvelli þessa „markmiðs“ er hægt að gera nánst allt sem mönnum dettur í hug, og það er ekki beint traustvekjandi, verður að segja.
Í sjötta lagi má benda á virkjanastefnu stjórnarinnar:
„Sátt verður að ríkja um nýjar virkjanir til að byggja upp grænt og kolefnishlutlaust samfélag. Mestu skiptir að það verði gert af varfærni gagnvart viðkvæmri náttúru landsins og í takt við vaxandi orkunotkun samhliða útfösun jarðefnaeldsneytis …“ (9). Þessi klausa er í fullkomnu samræmi við langflest annað í „sátt“málanum: troðið er saman í eina efnisgrein alveg andstæðri sýn, hér annars vegar „grænni“ sýn á náttúruna og hins vegar „nýtingarsýn“. Og það er ljóst að taktur nýtingarstefnu verður genginn, þó textinn sé flúraður með „viðkvæmri náttúru“ og „sátt um nýjar virkjanir“. Hver ætli eigi að vera sáttur? Landvernd eða Landsvirkjun? Sjálfstæðisflokkurinn eða almenningur í þessu landi? Íbúar viðkomandi svæða eða jarðýtukallar? „Viðkvæm náttúra“, mæ ass!
Þá er það lögreglurikið: „Lögreglan og önnur lögregluyfrvöld þurfa að vera í stakk búin til að mæta þeim miklu samfélagslegu áskorunum sem leiða af skipulagðri glæpastarfsemi, tækniþróun, nýjum hugbúnaðarlausnum, hnattvæðingu og farskipta- og nettengingum“ (14). Hvað á þetta eiginlega að þýða? Á að fjölga í lögregluliðinu og veita því aukið fjármagn til að sinna störfum sínum? Eða á að veita lögreglunni auknar valdbeitingarheimildir? Aukinn búnað? – kannski heimildir til vopnaburðar? Hver veit það? Og hvernig er líklegt að nýr dómsmálaráðherra túlki þessa innihaldslausu frasa?
Jöfnuðurinn
Jafnræði og „jafnt aðgengi“ kemur hér vissulega við sögu, mest í tengslum við heilbrigðis- og menntamál. Eftirfarandi tilvitnanir gefa það til kynna að byggja eigi aftur upp heilbrigðis- og menntastofnanir út um allt land, þannig að íbúar njóti allir sömu þjónustu, hvar sem þeir búa:
„Jafnframt viljum við tryggja að jafnræði ríki í aðgengi að heilbrigðis- og félagsþjónustu og menntunartækifærum …“ (18). Haldið verður áfram að draga úr greiðsluþátttöku fólks fyrir heilbrigðisþjónustu til að tryggja jafnt aðgengi“ (21). „Heilbrigðisstofnanir verða styrktar til að tryggja að rétt þjónusta sé veitt á réttum stað og aðgengi jafnað um land allt“ (21).
Allir gera sér hins vegar grein fyrir því að undanfarna áratugi hafa heilbrigðisstofnanir á landsbyggðinni markvisst verið skornar niður við trog, þannig að hluti þjóðarinnar býr við mjög skerta þjónustu, einmitt íbúar í hinum dreifðari byggðum. Allir vita líka að sjúkrahús, heilsugæslur og öldrunarstofnanir vítt og breitt um landið munu ekki fá það fjármagn sem nauðsynlegt er til að veita þá þjónustu sem íbúarnir eiga skilið og þær gjarnan vilja. Ekki þarf annað en að hugsa til framkomu ríkisvaldsins gagnvart sveitarfélögum í yfirfærslu verkefna milli stjórnsýslustiganna, og sveltistefnu við fjármögnun hjúkrunarheimila, til að átta sig á því að fjas ríkisstjórnarforingjanna um jöfnuð og jöfn tækifæri er hjóm eitt og fals. Þeir eru bara öngvir jafnaðarmenn, heldur eitthvað allt annað.
Stjórnarskráin og lýðræðið
Loka„kaflinn“ í stjórnarsáttmálanum, síðustu andvörpin, fjalla um stjórnarskrá og kosningalög. Þar eru settir fram tveir punktar, textinn teygir sig alveg í tæpar 7 línur með því að spássían taki nánast hálft blaðið. Þvílíkur metnaður, verð ég að segja!
Um þetta hefur nokkuð verið fjallað í fjölmiðlum, en í ljós kemur að lýðræðisást formanna Sjálfstæðisflokksins, Framsóknarflokksins og Vg takmarkast við framkvæmdavaldsræði og sérfræðingaræði. Setja á „af stað vinnu sérfræðinga um ákvæði stjórnarskrár um Alþingi, kosningar og kjördæmaskipan, dómstóla og eftir atvikum önnur ákvæði […] og efna „til samstarfs við fræðasamfélagið um umræðu og umfjöllun um stjórnarskrárbreytingar“ (57). Hér sker yfirlætið gagnvart almennum kjósendum í augu. Almenningi kemur þetta mál bara ekkert við. Það eru sérfræðingar fræðasamfélagsins sem eiga að segja okkur hvernig grundvallarsáttmáli þjóðarinnar hljómi. Hér skal ríkja sáttmáli fræðasamfélagsins og ríkisstjórnarinnar um lýðveldið Ísland. Takk fyrir túkall!
Löngu er vitað að þessir aðilar ætla sér ekki að taka mark á lýðræðislegri niðurstöðu þjóðaratkvæðagreiðslu um nýja stjórnarskrá. Ástæðan fyrir því er tvennskonar í einfaldleika sínum:
Annars vegar er að sú tillaga sem samþykkt var að leggja til grundvallar nýrri stjórnarskrá felur í sér töluverðrar lýðræðisumbætur, ákvæði um aukinn rétt almennings og þings til að krefjast bindandi þjóðaratkvæðagreiðslna um mikilvæg mál, og ákvæði um jöfnun vægis atkvæða í kosningum til Alþingis. Hins vegar vegna auðlindaákvæðisins, sem er grundvöllur að raunverulegum og óskoruðum yfirráðum þjóðarinnar yfir fiskimiðunum.
Þetta geta ríkisstjórnarflokkarnir ekki samþykkt því ójöfnuður atkvæða er þeim í hag, jafnvel sem nemur nokkrum þingmönnum, sem og það meirihluta- og framkvæmdavaldsræði sem hér viðgengst í stað lýðræðis. Og hinir raunverulegu eigendur flokkanna sætta sig ekki við yfirráð þjóðarinnar yfir fiskimiðunum.
Lengi væri hægt að halda áfram en það myndi ekki breyta neinu um niðurstöðuna: 60 síður af kjaftæði – þar af um þriðjungur auður.