Sér er nú hver „armslengdin“

Stefán Ólafsson skrifaði á visir.is ágæta grein um afskipti ráðherra af Landsbankanum (14. apríl 2024, sjá hér): „Bankasýslan var sett á stofn til að tryggja aðskilnað stjórnmála frá rekstrarákvörðunum banka í eigu ríkisins í kjölfar bankahrunsins 2008 (svokallað „armslengdar-fyrirkomulag“). Þetta var hugsað þannig að bankar í eigu ríkisins væru einfaldlega reknir á sömu forsendum og einkabankar og ættu að standa sig í samkeppninni á bankamarkaðinum – án afskipta stjórnmálamanna.

Nú er komin upp sú staða að forsendan um armslengd frá stjórnvöldum er orðin algerlega meiningarlaus – eða opinberuð sem blekking með þeim starfsháttum sem Bankasýslan hefur stundað! Fjármálaráðherra Sjálfstæðisflokksins hefur lýst sig algerlega andvígan ákvörðun stjórnenda Landsbankans um að kaupa tryggingafélagið TM til að styrkja stöðu og samkeppnishæfni bankans – og það hefur beinar afleiðingar fyrir bankann.

Ráðherrann fylgdi þessu eftir og skipaði Bankasýslunni að reka allt bankaráð Landsbankans og knýja fram umsnúning á þessari rekstrarákvörðun stjórnenda Landsbankans með nýju handvöldu bankaráði.“

Hér birtist enn eitt skólabókardæmið um það hvernig fólkið sem talar fjálglegast um frjálsan markað og óholl afskipti ríkisvaldsins af fyrirtækjarekstri – og þjóðlífinu almennt séð – sýnir í verki allra verstu tilþrifin í pólitískri handstýringu samfélagsins, sannkallað „alræði auðvaldsins“. Það talar um „armslengd“ ákvarðana frá stjórnmálum, til að skreyta sig með lýðræðislegum hugtökum. En armslengdarregla þess felst í því að skipa pólitíska snata og dindla í stjórnir og ráð. Og ef pólitísk markmið um alræði einkavinanna eru í hættu, hvert er þá viðbragðið? Jú, hreinsa burt með handafli og setja með handafli aðra inn í staðinn, sem líklegri eru til að velta sér á bakið og dilla rófunni.
Svona eins og í fasískum einvaldsríkjum. Það er nú öll armslengdin, frelsið og manndáðin.
 
Þetta er arfleifð núverandi ríkisstjórnarflokka, að hafa fest spillinguna frá fyrirhrunsárunum í sessi, í stað þess að nýta tækifæri hrunsins til að byggja upp nýtt, lýðræðislegt, og réttlátt jafnræðisþjóðfélag.
 
Það er arfleifð Katrínar Jakobsdóttir að hafa leitt hina endurnýjuðu spillingarvæðingu, og blekkt þannig stóran hluta þjóðarinnar, sem horfði á hana sem vonarstjörnu heiðarleika, mannúðar, jafnréttis og jöfnuðar. Slíka manneskju vilja margir draga að húni á Bessastöðum, sem „sameiningartákn þjóðarinnar“. Meiri og gróteskari öfugmæli eru vart hugsanleg.
 

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *