Við árslok 2020

Rennur frá oss enn eitt ár

út á tímans hafið.

Eins og himins tregatár

týnist skýjum vafið.

 

Allir horfi inn á við,

ögri sálartetri,

tæti vanans trúarmið

til að verða betri.

 

Við áramótin minnumst við

margs er þarf að bæta;

að hvítþvotturinn komst á svið,

hverju má það sæta?

 

Hvert eitt okkar unnið verk

ævisögu ritar

og hún reynist ýmist merk

eða púkann fitar.

 

Augnablikin ofursmá

öllu valda hinu

og stjórna hvernig stendur á

í stóra samhenginu.

 

Stýrum skútu framhjá flúð,

forðumst græðgishildi,

og sameinuð, í siðum prúð,

hin sönnu mótum gildi.

 

Að lífi fögru leggjum grunn,

lýðs er akkur mesti

spillingar að byrgja brunn

og bera hreint í gesti.

 

Skulum nú, hið næsta ár,

ný á miðin róa

svo gömul þjóðarsálarsár

saman megi gróa.

 

Jólakveðja 2020

Það er jóladagsmorgunn og

friður og kyrrð er í kotinu

er karlinn loks rankað’ úr rotinu

eftir átið í gær.

En mér er víst nær

því sjaldan ég neitað hef flotinu.

 

Við hjónin vorum hjá dóttur okkar, tengdasyni og tveimur yndislegum dætrum þeirra í gær, eins og flest undanfarin ár á aðfangadag, og ekki í kot vísað hjá þeim. Við höfum því látið stjana við okkur og erum enn með öllu óbuguð af jólastressi og álagi sem því fylgir að „hafa allt 100%“ – og halda jólaveislu. Og hin hefðbundna jóladagsveisla okkar verður í skötulíki þetta árið „út af dotlu“ eins og þykir fínt að segja þessi misserin. Aðeins 10 væntanlegir í stað þeirra tuttuguogfimm sem eru skráðir í niðjatalið.

Það væri af mörgu að taka ef fara ætti yfir þjóðlífssviðið. Elítan leyfir sér að venju sínar sjálfteknu 15 mínútna „frímínútur“ með hefðbundnum, innantómum afsökunarbeiðnum. Hvernig hún hefur nýtt sín „náðarkorter“ er svo ljótt og leiðinlegt að það á ekki heima í jólakveðju á friðsælum morgni í svartasta skammdeginu.

Við fjölskyldan höfum haft það gott á árinu og yfir engu að kvarta. Enginn hefur veikst af faraldursveirunni, enginn hefur misst vinnu eða framfærslu, við höfum passað okkur og getað hittst og notið samvista. Við njótum forréttinda okkar í auðmýkt gagnvart örlögunum og sendum þeim sem eiga um sárt að binda hjartans kveðju. Það er of mikið um hörmungar allt í kringum okkur, og barning í óbærilegum aðstæðum. Þetta þarf ekki að vera svona.

Veðurútlitið er ekki allt of gott fyrir Hellisheiðina, en við treystum á dómgreind okkar besta fólks, að það fari ekki að ana út í vitleysu. En vonum það besta og skellum í frómasinn. Ef við sitjum svo ein að 3.4 kílóum af hangiketi með uppstúf og tilbehör vegna veðurs, þá verður að hafa það.

Nú er hann aðeins að byrja að brýna sig hérna utan við glerið, eins og spáin gerði ráð fyrir að gerðist um níuleytið. Farið vel með ykkur, elskurnar.

Gleðileg jól.

Er áföll skekja lýð og lönd,

logar orrahrina,

er bót að rétta hjálparhönd

og hylla mannúðina.

 

Ei á meðul virðumst vönd,

„vík oft milli vina“.

Við óvild þarf að reisa rönd

og rækta samúðina.

 

Þegar glæta dagsins dvín

og dregur lífs úr funa,

bros í gegnum skuggann skín

og skreytir hamingjuna.

 

Ás á hendi allir fá,

aðeins þarf að muna

að treysta bara alltaf á

ást og samveruna.

 

Af Hálendisþjóðgarði

Hálendisþjóðgarður – Stórkostlegt tækifæri eða stórhættuleg árás á land og lýð?

Mikil umræða hefur verið í fjölmiðlum og á samfélagsmiðlum undanfarið um stjórnar-frumvarp umhverfisráðherra um Hálendisþjóðgarð, skárra væri það. Skiptist þar að vonum í tvö horn – og eru höggin látin dynja. Hvorug fylkingin hefur enn veitt hinni rothögg, þó viljann skorti ekki. Það varð ekki til að efla vitræna umræðu um málið í samfélaginu að forseti Alþingis skyldi missa stjórn á skapi sínu og tala um að „örlítill grenjandi minnihluti“ héldi í gíslingu þessum síðasta lífsbjörgunarhring Vinstri grænna um að koma einu stefnumáli í gegn.

En um hvað snýst þetta mál, sem allir eru að fara á límingunum yfir? Er þetta frumvarp nauðsynlegt framlag til náttúruverndar, varðveislu náttúru, sögu og menningarminja fyrir komandi kynslóðir, gegn óafturkræfri virkjana- og framkvæmdagleði – eða stórvarasöm aðför að sjálfræði sveitarfélaga, ferðafrelsi almennings um hálendið, frumkvæði og atvinnusköpun einstaklinga, að ekki sé talað um árás á bændur og búalið sem hefur öldum saman haft lítt skertan afnota- og umráðarrétt yfir afréttum? Stórkostlegt tækifæri eða stórhættuleg árás á land og lýð? Eða eitthvað þar á milli?

Af því lítið er að marka hávaðann úr bergmálshellum liggur beinast við að lesa þetta blessaða frumvarp, en það má finna á síðu Alþingis, hér

Tilgangur og markmið

Frumvarpið fjallar „um friðlýsingu og verndun náttúrufars, sögu og menningar innan Hálendisþjóðgarðs, um stjórnun, valdheimildir og rekstur þjóðgarðsins og skiptingu hans í rekstrarsvæði.“ (1. gr.)

Markmiðin eru að vernda „náttúru og sögu þjóðgarðsins … [g]efa almenningi kost á að kynnast og njóta náttúru, menningar og sögu … [s]tuðla að því að almenningur geti stundað útivist … [l]eitast við að efla samfélag og styrkja byggð og atvinnustarfsemi í nágrenni þjóðgarðsins og á landinu öllu, meðal annars með því að hvetja til sjálfbærrar nýtingar á gæðum svæðisins“ (3.gr.). Ennfremur eru markmiðin að „[e]ndurheimta vistkerfi sem hafa raskast … [v]arðveita þjóðlendur í þjóðgarði og viðhalda virði þeirra“ (3. gr.).

Þjóðgarðinum er líka ætlað að vera „vettvangur umræðu og ákvarðanatöku um landnýtingu … [s]tuðla að rannsóknum og fræðslu … ýta undir aukinn skilning almennings“ … og „[s]tuðla að samvinnu og samstarfi við félög og sjálfboðaliða …“ (3. gr.)

Ekki verður séð að nokkur maður þurfi að setja sig upp á móti tilgangi og markmiðum frumvarpsins. Eða hvað?

Skipulag og valdheimildir

Hálendisþjóðgarður er ríkisstofnun“ og „fer sérstök stjórn skipuð af ráðherra“ með stjórn hans. „Forstjóri … framfylgir stefnumótun og áætlunum … stjórnar … og ber ábyrgð á stjórnun og rekstri“ (6. gr.). Hann „skal vera í ríkiseign“ nema annað sé talið hentugra og um það „náist samkomulag við landeiganda“… . Heimilt er að friðlýsa land „með samþykki landeiganda“ og um friðlýsinguna skal gerður „samningur milli ráðherra og landeiganda“ þar sem fram kemur „hvaða landnýting er heimil“… (4. gr.).

Ríkissjóði er heimilt „að kaupa fasteign, mannvirki og nytjaréttindi“ og hálendisþjóðgarði er „heimilt … að taka eignarnámi land, mannvirki og réttindi til að framkvæma friðun“… Eignarnám, kaup og bótaréttur eru háð „almennum reglum“ og takmörkunum í lögum (5. gr.).

Þarna er strax kominn fram ásteitingarsteinn. Þrátt fyrir fögur orð um samninga og samþykki landeigenda er eignarnámsheimild væntanlega þyrnir í augum og fyrsti vísir að þeim pirringi sem lýsir sér í athugasemdum eins og „ríkisbákn“, „ofríki ríkisvaldsins gegn almennum borgurum“ að ekki sé talað um hið landlæga vantraust á því að ríkisstofnun gæti hagsmuna þegnanna fremur en sjálfs sín. Hins vegar liggur það auðvitað fyrir að eignarnámsheimildir eru ekki uppfinning umhverfisráðherra við samningu þessa frumvarps.

Varðandi landnýtingu segir nánar í frumvarpinu að „[h]álendis-þjóðgarður, að fenginni tillögu viðkomandi umdæmis-ráðs, veitir leyfi til nýtingar lands og landsréttinda innan þjóðgarðsins“, samkvæmt ákvæðum laga, „í stað sveitarstjórnar“ og er heimilt að „semja um endurgjald vegna afnota“ þeirra sem heimilaðar eru (21. gr.). „Hefðbundin landnýting, svo sem búfjárbeit, fuglaveiði, hrein-dýraveiði og veiði í ám og vötnum, er rétthöfum heimil“, innan ramma laga „og að nýtingin sé sjálfbær“ (22. gr.). Gjaldtaka er heimil fyrir veitta þjónustu, gistingu, leyfi vegna viðburða eða verkefna. Heimilt er líka að „takmarka fjölda aðila sem stunda tiltekna atvinnutengda starfsemi … eða þeirra sem fá leyfi til nýtingar lands og landsréttinda að loknu hlutlægu mati og vali á umsækjendum. Gjöldum „skal ráðstafað til að mæta kostnaði við vinnslu og afgreiðslu umsókna, rekstur og þjónustu, uppbyggingu og viðhald innviða og eftirlit með dvalargestum og rekstraraðilum innan marka þjóðgarðsins og á starfsstöðvum hans“ (32. gr.).

Hér kemur eitruð pilla: „í stað sveitarstjórnar“. Með frumvarpinu er sem sagt vald til að veita leyfi til að nýta land og gæði innan marka þjóðgarðsins, sem þau nú hafa á sínum afréttum, tekið af sveitarstjórnum. Annað í þessu ætti ekki að valda deilum; sveitarstjórnir, og landeigendur eftir atvikum, hafa væntanlega nú þegar vilja og hag af því að takmarka aðgengi með einhverjum hætti, bæði fjölda gesta og aðila sem stunda ferðaþjónustu eða aðra atvinnustarfsemi, taka gjald fyrir veitta þjónustu og passa upp á „sjálfbæra nýtingu“. Þarna er skýrt að gjöld skuli notuð til innri uppbyggingar í þjóðgarðinum, sem ekki veitir af. Þegar stunda sveitarfélögin umfangsmikla gjaldtöku af t.d. hestaferða-mönnum á hálendinu, ferðir þeirra eru „fjöldatakmarkaðar“ við gistipláss í skálum, og ýmsar fornar reið- og þjóðleiðir eru háðar takmörkunum af ýmsu tagi, svo nærtækt dæmi sé tekið. Sveitarfélögin leigja rekstur smalaskála og girðingarhólfa, til einstaklinga. En sem sagt: Nú á „ríkisbáknið“ að taka yfir stjórnun á þessum leyfisveitingum og aðgengistakmörkunum – og það stendur þversum í koki hreppsnefnda og búaliðs.

Einnig fer það fyrir brjóstið á sveitarstjórnum að þrátt fyrir meirihluta sveitarfélaganna í stjórn og umdæmisráðum þurfi þær með þessum lögum að deila valdi yfir „eigin afréttum“ með öðrum sveitarstjórnum. Tungnamenn, Hreppamenn, Laugdælir, Grímsnesingar, Skeiðamenn og Flóamenn þyrftu til dæmis að vera sammála og standa saman um aðgerðir á Kili, í Kerlingarfjöllum eða við Skjaldbreið, í stað þess að hver hreppur um sig geti tekið sínar ákvarðanir í friði fyrir öðrum, eins og nú er í pottinn búið. Um þetta er auðvitað hægt að deila og þegar sveitarstjóri Bláskóga-byggðar viðraði þessa skoðun í útvarpsviðtali, kallaði einhver þetta „þúfnaviðhorf“ – þ.e. að engum öðrum en Tungnamönnum komi það við hvað gert er á meginhluta lands frá Gullfossi að Hveravöllum. Það er skiljanlegt að sveitarstjórnir berjist fyrir eigin hagsmunum, ekkert síður en jeppakallar eða hestaferðaleigur. En á móti kemur það sjónarmið að örfáir hreppsnefndarmenn eigi ekki að geta ráðskast með öræfin að eigin geðþótta, jafnvel þó þeir hafi verið kosnir í lýðræðislegum kosningum. Til þess eru hagsmunir of stórir og víðtækir. Öllum landsmönnum koma öræfin við. Um það á ekki að þurfa að deila.

Um þetta segir að auki að stjórn þjóðgarðsins eigi að „móta stefnu fyrir atvinnutengda starfsemi innan þjóðgarðsins“ og með henni „leitast við að styrkja byggð og atvinnustarfsemi“ í nágrenninu. Allir kátir með þetta, ekki satt? En í kjölfarið segir að óheimilt sé „að reka atvinnutengda starfsemi í Hálendisþjóðgarði án þess að gerður sé tímabundinn samningur“ og ráðherra á að setja í reglugerð ákvæði „um slíka starfsemi og tímalengd samninga.“

Yfir þessu er kvartað, ekkert sé hægt að gera án þess að beðið sé eftir samningsgerð og leyfum í óratíma, fyrir jafnvel smæstu viðvikum, á leið erindis í gegnum völundarhús ógurlegs og óvinveitts stjórnunarbákns. Undir má taka að þetta ferli mætti vera liprara.

Stjórn

Í stjórn Hálendisþjóðgarðs sitja 11 fulltrúar, þar af 6 fulltrúar sveitarfélaga og 1 fulltrúi frá hverjum eftirfarandi aðila; útivistarsamtökum, umhverfisverndarsamtökum, bændasam-tökum, ferðaþjónustusamtökum og formaður skipaður af ráðherra. „Ef rekstrarsvæðum þjóðgarðsins er fjölgað … fjölgar fulltrúum sveitarfélaga í stjórn … sem því nemur“ (8. gr.). Stjórn er ætlað að hafa umsjón með, móta stefnu, hafa yfirumsjón með gerð tillagna um t.d. verndaráætlun og atvinnustefnu, bera ábyrgð á rekstri, samræma starf mismunandi svæða og hafa eftirlit með framkvæmd reglna (9. gr.).

 

Hálendisþjóðgarði er skipt í a.m.k. sex rekstrarsvæði“ en heimilt er að fjölga þeim, „og skal þá fulltrúum sveitarfélaga í stjórn þjóðgarðsins fjölgað sem því nemur“ … en rekstrarsvæðin eru „sjálfstæð rekstrareining“ undir stjórn umdæmisráða, skipuðum af ráðherra til fjögurra ára í senn. Í umdæmisráðum eru 9 fulltrúar, þar af fimm „tilnefndir sameiginlega af sveitarfélögum“ á viðkomandi svæði, úr hópi sveitarstjórnarmanna eða sveitarstjóra, vel að merkja. Þar að auki er tryggt að öll sveitarfélög á viðkomandi svæði eigi sinn fulltrúa í umdæmisráði, þannig að ef sveitarfélögin eru fleiri en 5 þá verða sveitarstjórnafulltrúarnir í umdæmisráði fleiri en fimm, jafn margir sveitarfélögunum. Hinir fulltrúarnir í umdæmisráði eru tilnefndir, einn frá hverjum aðila, af útivistarsamtökum, umhverfisverndarsamtökum, bændasamtökum, „nytjaréttarhafa“ (Landsvirkjun) og ferðaþjónustu-samtökum ( 11. gr.).

 

Af þessu má ráða að sveitarfélögin hafa bæði tögl og hagldir við stjórnun og stefnumótun þjóðgarðsins. Þau eru með hreinan meirihluta bæði í stjórn og í umdæmisráðum. Má það vera betra? Já, svo virðist vera, því umdæmisráðin, sem sveitarfélögin ráða í sameiningu, hafa það hlutverk fyrir sitt rekstrarsvæði

að gera tillögur um „stjórnunar og vernaráætlun“, vera til ráð-gjafar öðrum sem að koma (forstjóra, þjóðgarðsverði, stjórn) um náttúruvernd, veita umsagnir um atvinnustefnu o.fl., gera tillögu að fjárhagsáætlun „innan fjárhagsramma“ stjórnar, sinna samstarfi við „stofnanir, sveitarfélög, landeigendur og hagsmunaaðila um málefni rekstrarsvæðisins og fá slíka aðila til ráðgjafar við töku stefnumarkandi ákvarðana“, fjalla um umsóknir um nýtingarleyfi, undirbúa „samninga um atvinnu-tengda starfsemi á rekstrar-svæðinu“ og vinna með þeim „sem reka slíka starfsemi innan þjóðgarðs“ (12. gr.).

 

Vissulega gætu aðrir hagsmunaaðilar þurft að sætta sig við að lenda í „grenjandi minnihluta“ gagnvart ofurvaldi sveitarfélaganna í stjórn og umdæmisráðum, t.d. ferðaþjónustuaðilar og jeppakallar svo dæmi séu tekin. En eru þeir það ekki nú þegar, þar sem allt vald er á hendi sveitarstjórna, í samvinnu við forsætisráðuneytið, á núverandi skilgreindum þjóðlendum? Hver segir að samstarf sveitarfélaga og forsætisráðuneytis um þjóðlendur muni ævinlega vera það, þó samskiptin séu farsæl nú um stundir? Er ekki skemmst að minnast þess að sveitarfélög og landeigendur voru í bullandi átökum og málarekstri við ríkisvaldið um þjóðlendur? Fyrst nú er allt fallið þar í ljúfa löð, hver segir að það geti ekki einnig átt við um samskipti við Hálendisþjóðgarð, þegar fram líða stundir, þó brösugt verði í upphafi?

En þetta er ekki alveg svona einfalt. Í 15. grein um málsmeðferð kemur fram

að stjórn geti gert breytingar á tillögum umdæmisráðs, að fenginni umsögn þess, og að haft skuli „samráð við eigendur lands innan þjóðgarðsins, sveitarstjórnir og aðra hagsmunaaðila á svæðinu“ við þær breytingar. Einnig að tillaga að áætlun skuli „auglýst opinberlega og almenningi og hagsmunaaðilum gefinn kostur á að gera athugasemdir áður en endanleg tillaga er borin undir ráðherra“. Vald ráðherra er ítrekað þannig að hann staðfesti tillögu að stjórnunar- og verndaráætlun og geti gert breytingar á henni telji hann að hún fari í bága við lög eða reglugerð.

Þarna bætist við flækjustig: Umdæmisráð hefur lagt mikla vinnu í tillögur. Stjórn vill gera breytingar á tillögunum en ber fyrst að leita umsagnar umdæmisráðs, eiga samráð við landeigendur, sveitarstjórnir og hagsmunaaðila. Hvað gæti þetta ferli tafið framgang máls lengi? Og svo eftir dúk og disk, þegar öllu er til skila haldið, getur ráðherra, bara sisvona með einu pennastriki, ógilt alla fyrirhöfnina! Hér hringja viðvörunarbjöllur og full ástæða til að skoða þetta betur.

Meginstjórntækið

Meginstjórntæki Hálendisþjóðgarðs er „stjórnunar- og verndar-áætlun“, þar sem tilgreind skulu „markmið verndar, stefna stjórnar og leiðir til að framfylgja stjórnun og vernd“ … á einstökum svæðum … verndaraðgerðum, verndarflokkum, endurheimt vistkerfa, vöktun, landnýtingu, fræðslu, öryggismálum, mannvirkjagerð, stefnu stjórnar um staðsetningu og fyrirkomulag gestastofa og þjónustustöðva innan þjóðgarðs, samgöngum og öðrum innviðum á svæðinu. Þar skal fjallað um umferðarrétt almennings, aðgengi að svæðinu, not þess og takmarkanir sem gilda á einstökum svæðum“… sem einnig „ná til jaðarsvæða þjóðgarðsins“, hvaða almennu skilyrði „eru fyrir atvinnustarfsemi“ … og hvort / hvernig takmarka megi „atvinnutengda starfsemi“. Með stjórnunar- og verndaráætlun má líka setja skilyrði um það „hvernig framkvæmdum skuli háttað og um eftirlit með þeim til að tryggja að þær raski ekki að óþörfu lífríki, jarðmyndunum, vatnafari, landslagi, víðernum eða menn-ingarminjum“ (14. gr.).

Stjórnunar- og verndaráætun hefur sem sagt víðtækt valdsvið, sem tekur til náttúruverndar, landnýtingar, upplýsingaskyldu og fræðslu, aðgengis og atvinnu-starfsemi. Þessu fagna margir, ekki síst því að komið sé á samræmdri stefnumörkun um hálendið, vernd náttúru, sögu og menningarminja á öræfum Íslands, en ekki sé stefnt út og suður, og undir mjög takmörkuðum hópi fólks komið hvað verður um þessi dýrmæti sem allir Íslendingar eigi bæði rétt og heimtingu á að fá að hafa áhrif á og njóta um aldir alda. Næg dæmi eru til sem gefa tilefni til að óttast einmitt það að stundargróði þeirra sem eru á dögum hverju sinni í hverju landshorni ráði för, fremur en meiri hagsmunir almennings. Aðrir líta málið öðrum augum og telja „heimamenn“ ætíð best til þess fallna að gæta að umhverfi sínu, náttúru og landsgæðum, enda hafi þeir sýnt það og sannað „undanfarið“ að þeir hafi og geti lyft grettistaki, t.d. við uppgræðslu. Enn aðrir meta öræfin aðeins í fjölda megavatta og jarðýta, eða sem leikvöll fyrir sjálfan sig.

Umgengni

Jarðrask og mannvirkjagerð er óheimil ef slíkar framkvæmdir stangast á við markmið þjóðgarðsins eða stjórnunar- og verndaráætlun hans og þeir sem „fara um Hálendisþjóðgarð og dveljast þar, svo sem vegna ferðalaga eða í atvinnuskyni, eru bundnir af stjórnunar- og verndaráætlun“ og lögum um náttúru-vernd (16. gr.).

 

Eins og gefur að skilja er bannað að „valda spjöllum eða raski“ þó vegaframkvæmdir sem „lúta ströngum skilyrðum um lágmarks-rask“ séu heimilar að fengnu leyfi yfirvalda þjóðgarðsins (17. gr.). Skýrt er að almenningur má ferðast um og dvelja í þjóðgarðinum, með almennum skilyrðum um umgengni, varúð og tillitsemi gagnvart „náttúru, menningarminjum og mannvirkjum“ og hlýðni við fyrirmæli starfsmanna. Ráðherra setur reglugerð um „dvöl, umgengni og umferð“ (18. gr.).

 

Ennfremur segir í 18. grein: „Akstur vélknúinna ökutækja utan vega í Hálendisþjóðgarði er bannaður. Þó er heimilt að aka slíkum tækjum á jöklum og snævi þakinni jörð utan vega svo fremi sem jörð sé frosin eða snjóþekjan traust og augljóst að ekki sé hætta á náttúruspjöllum. Í reglugerð sem ráðherra setur er heimilt að banna akstur vélknúinna ökutækja á einstökum svæðum þjóðgarðsins allt árið um kring eða á tilteknum tímum ársins.“ Heimilt er að „setja skilmála um umferð loftfara“, gera skal grein fyrir öllum vegum sem aka má og tekið fram að tamarka má umferð „tiltekinn tíma ársins eða binda hana við tiltekna notkun, svo sem veiðar, smölun búfjár eða annarra landbúnaðarstarfa eða rannsóknir“.

Þessi ákvæði fara fyrir brjóstið á mörgum, sem óttast vald til að takmarka umferð og finnst vegið að ferðafrelsi sínu. Ekki verður samt séð að hér séu nein sérstök nýmæli. Nú þegar er utanvegaakstur bannaður, hálendisvegir eru iðulega lokaðir vegna aurbleytu eða ófærðar og ferðalangar í friðlöndum eru bundnir af reglum um umgengni á viðkvæmum svæðum. Engin ástæða er til annars en að slíkar umgengnisreglur séu í heiðri hafðar víðar, um allt hálendið. Bann við hrossa-rekstrum gegnum Þjófadali hefur verið í gildi árum saman svo dæmi sé tekið, og ekki að ástæðulausu. Það þarf ekki þjóðgarð til að banna ýmislegt, sem áður var gert, er ógleymanlegt og væri gaman að mega gera.

Þjónusta og eftirlit

Þjónusta við gesti þjóðgarðsins og upplýsingar eru veittar á meginstarfsstöðvum … og skal a.m.k. ein … rekin fyrir hvert rekstrarsvæði“. Einnig eru tilteknar gestastofur og þjónustustöðvar þar sem veitt er þjónusta og fræðsla um náttúruvernd. Stjórn ákveður staðsetningu og rekstarfyrirkomulag en ráðherra „er heimilt að setja í reglugerð nánari ákvæði um staðsetningu meginstarfsstöðva“ (24. gr.).

 

Á hverju rekstrarsvæði er „a.m.k. einn þjóðgarðsvörður sem ráðinn er af forstjóra“ og sinnir daglegum rekstri „í samráði við umdæmisráð og forstjóra“. Hann ber ábyrgð á fjárreiðum síns rekstrarsvæðis, fylgir ákvörðunum forstjóra og stjórn samkvæmt þeirri stefnu sem í gildi er, vinnur með og undirbýr fundi umdæmisráðs og hefur tillögurétt á fundum þess (13. gr.).

 

Starfsfólki er ætlað að „veita fræðslu og upplýsingar um öryggi gesta innan þjóðgarðsins“ og vera „lögreglu og öðrum björgunar- og viðbragðsaðilum til aðstoðar komi upp hættu- eða neyðarástand“ (19. gr.).

 

Þjóðgarðsverðir og landverðir annast eftirlit á sínu svæði og samskipti við lögreglu og önnur eftirlitsstjórnvöld vegna brota á lögum“ og reglugerðum, og „er heimilt að loka Hálendis-þjóðgarði eða einstökum svæðum“ og „vísa úr þjóðgarðinum hverjum þeim sem brýtur gegn ákvæðum laga …“ (25. gr.).

 

Einnig að „stöðva för fólks og farartækja … ef það er nauðsynlegt til að koma í veg fyrir brot á ákvæðum laga“ og stöðva tafarlaust „framkvæmd eða athöfn“ sem hafin hefur verið án leyfis“ eða talin er stafa af henni „yfirvofandi hætta eða verulegt tjón“ (28. gr.). Sömuleiðis að afturkalla leyfi, að undangenginni viðvörun, ef skilyrðum er ekki fullnægt (29.gr.).

 

Refsingar fyrir brot geta varðað „sektum eða fangelsi allt að tveimur árum“, gera má upptækt „ökutæki sem notað hefur verið við að fremja brot“ teljist spjöll á náttúru alvarleg eða sérlega vítaverð (30. gr.).

Við þessi ákvæði hafa verið gerðar tvenns konar athugasemdir fyrst og fremst. Sumir þola alls ekki að „ríkisbáknið blási út“ og sjá ofsjónum yfir kostnaði og fjölda starfa. Það er sjónarmið í sjálfu sér. Á móti kemur að landbyggðarfólk ætti að fagna fjölgun starfa í hinum dreifðu byggðum. Í stað þess að standa í því að flytja, og nauðga í sumum tilvikum, ríkisstofnunum „út á land“ eru augljós tækifæri í því að skapa ný störf, ekki síst störf fyrir háskólamenntað fólk, sem kvartað hefur verið yfir að ekki séu til staðar í fábreyttu atvinnulífi sveitanna, með þeim afleiðingum að unga fólkið flýr óðul feðranna og sest að „fyrir sunnan“, eða í útlöndum, þar sem starfsmetnaði þeirra er fremur fullnægt. Hálendiþjóðgarður getur vissulega orðið viðspyrna hvað þetta varðar og skapað fjölda starfa og tækifæra til atvinnu-sköpunar, fyrir hámenntaða sem aðra.

Hin hliðin á gagnrýninni varðar valdheimildir starfsliðsins. Heyrst hefur sú gagnrýni að landverðir séu dubbaðir upp í einhverskonar löggur sem geti stöðvað ferðir fólks, rekið það burtu og gott ef ekki handtekið. Að þjóðgarður verði einhverskonar lögregluríki þar sem engum sé vært nema undir hælnum á „eftirlitinu“. Auðvitað er alltaf hætta á því að manneskjur miklist yfir valdi og ofmetnist í búningi. En ég veit ekki betur en slíkt eftirlit sé þegar til staðar, og að landverðir séu upp til hópa greiðvikið fólk sem nýtur þess að leiðbeina og aðstoða ferðalanga. Það er ekki fyrr en ferðalangurinn fer yfir strikið að „höfð eru afskipti“ af honum, enda nauðsynlegt. Hver vill að hálendið sé eftirlitslaust og að ekki sé „tekið á“ umhverfissóðum og spjöllum þeirra?

Jaðarsvæði – virkjanaframkvæmdir

Skilgreina skal í reglugerð jaðarsvæði, sem teljast utan friðlýsts svæðis og verndarflokka, og þar „er heimilt að starfrækja virkjanir og háspennulínur sem eru í rekstri við stofnun hans og gera breytingar á þeim“. Ef jaðarsvæði liggja „nálægt þjóðgarði“ má setja um þau ákvæði í reglugerð og stjórnunar- og verndaráætlun. Nýjar virkjanir má starfrækja á jaðarsvæðum, en aðeins þær sem þegar hafa verið skilgreindar í nýtingarflokki þegar lög um hálendisþjóðgarð taka gildi. „Ef virkjunarkostur er að undangengnu mati fluttur í orku-nýtingarflokk úr biðflokki er heimilt að gera ráð fyrir viðkomandi virkjun á jaðarsvæði“, hafi Alþingi samþykkt þá breytingu. Aðrar nýjar virkjanir eru óheimilar, sem og „nýjar háspennulínur í lofti“ (23. gr.).

Þetta auðvitað fer fyrir brjóstið á „virkjanasinnum“. Um virkjanir hefur þjóðin deilt í áratugi, ef ekki aldir. Hér er þó augljóslega reynt að fara bil beggja með því að skilgreina jaðarsvæði og hleypa áfram þeim virkjanakostum sem þegar hafa verið skilgreindir í nýtingarflokki, og jafnvel ef kostur er fluttur úr biðflokki í nýtingarflokk skv. samþykkt Alþingis. Ekki verður því séð að um sé að ræða eitthvert „náttúruverndarofbeldi gegn virkjunum, atvinnusköpun og framförum í þessu landi“ eins og mesta virkjanaöfgaliðið heldur fram. Hér er gefinn töluverður slaki í áframhaldandi virkjanaframkvæmdum, þó ekki sé gert ráð fyrir nýjum, ómetnum svæðum undir virkjanir.

Ágreiningur og kærur

Ákvarðanir og ágreining má kæra til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, sem fellir endanlegan úrskurð (26. gr.) Heimilt er að krefjast sanngjarnra úrbóta með hæfilegum fresti vegna náttúru-spjalla, í samráði vði byggingafulltrúa ef um leyfisframkvæmd er að ræða, og ef ekki er orðið við tilmælum má leggja á „dagsektir allt að 500.000 kr. þar til úr er bætt“ og að láta vinna verk á kostnað viðkomandi ef fyrirmæli eru vanrækt (27. gr.).

 

Lög um Hálendisþjóðgarð fella úr gildi lög um Vatnajökuls-þjóðgarð en starfsfólk hans hefur forgang um störf í nýjum þjóðgarði. Ákvæði laganna hafa ekki áhrif á „gildi þeirra skipulags-áætlana sem settar hafa verið fyrir landsvæði innan Hálendis-þjóðgarðs fyrir gildistöku“ laganna (Ákvæði til bráðabirgða).

Lokaorð

Eðlilegt er að allir „hagsmunaaðilar“ hafi hátt í umræðunni, til að reyna að vernda eigin hagsmuni gagnvart lagasetningu af þessu tagi. Þetta á jafnt við um sveitar-félög, bændur, ferðaþjónustufyrirtæki, frístundafélög og einstaklinga, alla þá sem telja sig hafa hagsmuni af því að aðgengi að og not af hálendinu og öræfum Íslands sé í samræmi við eigin þarfir. Þetta mál varðar alla Íslendinga, ekki bara beina hagsmunaaðila eða nærsveitunga þjóðgarðs.

Háværastar hafa verið raddir sem vilja tryggja eigið skipulagsvald og umráðarétt. Hátt tala líka þeir sem eru í prinsippinu á móti ríkisrekstri og opinberum umsvifum, hinu „ósveigjanlega ríkisbákni“ og útgjöldunum sem fylgja úr ríkissjóði, hinni „óhjákvæmilegu sóun“ í ríkisrekstri. Ekki megi hrifsa af heimamönnum það vald að hafa áhrif á eigið nærumhverfi, enda tryggi þeir bestu og hagkvæmustu stjórnunina.

Undir flest af þessu má taka, en benda jafnframt á í leiðinni að lýðkjörnir fulltrúar heimamanna, sveitarstjórnirnar, hafa bæði tögl og hagldir í yfirstjórn þjóðgarðsins. Sá böggull fylgir að vísu skammrifi að sveitarstjórnirnar verða að vinna saman að hagsmunum sínum. Er það til of mikils mælst? Eða hyggjast þau leggjast í skotgrafir gamals hrepparígs? Augljóst er einnig að meginástæðan fyrir þungri stjórnsýslu og þessu „ríkisbákni“ er vilji höfunda til að koma til móts við sem flesta; að tryggja eins og kostur er að allir geti komið sínum sjónarmiðum að við stefnumótun og ákvarðanir. Vissulega væri einfaldara og skilvirkara að einn réði. En viljum við það? Viljum við fámennis eða klíkustjórnun yfir fjöregginu?

Sveitarfélögin kvarta sérstaklega undan því að það sé „ólýðræðislegt“ að aðrir en kjörnir fulltrúar komi að ákvarðanatöku, og legga til að ýmis félagasamtök geti haft áheyrnarfulltrúa í umdæmisráðum og í stjórn en ekki fullgilda þátttakendur. Um þetta má deila og halda því fram á móti að því fleiri sem koma að ákvörðunum, því lýðræðislegri sé niðurstaðan. Það hefur greinilega verið niðurstaða frumvarps-höfunda. Þjóðaratkvæðagreiðslur eru taldar lýðræðislegasta aðferðin til að greiða úr málum. Í þeim taka samt ekki þátt kjörnir fulltrúar, aðeins almennir borgarar.

Sú skoðun hefur verið viðruð að ómetanlegt framlag sjálfboðaliða við umbætur á hálendinu sé í hættu með stofnun þjóðgarðs. Bændur og búalið, sem hefur grætt upp örfoka land á afréttinum sínum, í sjálfboðavinnu og með ærnum tilkostnaði úr eigin vasa, svo dæmi sé tekið, muni ekki með gleði í hjarta leggja slíkt af mörkum í ríkisvæddum þjóðgarði, enda muni þeir heldur ekki geta stjórnað því hvaða umbótaframkvæmdir eru brýnastar og þeir tilbúnir að leggja á sig að koma á koppinn. Ekki megi lyfta litlafingri nema skv. samningi. Á þessu er raunveruleg hætta.

Á móti er rétt að spyrja hvort sjálfboðaliðar þurfi ekki nú þegar samþykki yfirvalda fyrir slíkum verkefnum? Vaða menn núna upp á afrétt án vitneskju og samþykkis sveitarstjórna, byggingafulltrúa og skipulagsyfirvalda? Það kæmi mér á óvart ef svo er. Og þegar að er gáð myndu það vera sömu aðilarnir sem hefðu það hlutverk að taka afstöðu til umbótaverkefna af ýmsu tagi eftir stofnun þjóðgarðs; jú, rétt til getið, lýðræðislega kjörið sveitarstjórnarfólk. Þannig að ákvörunarvaldið færist ekki ýkjalangt í burtu. Svo má spyrja sig hver ástin og umhyggjan er fyrir afréttinum sínum, hálendinu og öræfum Íslands, ef það skiptir mestu máli hvert hið stjórnsýslulega yfirvald er, fremur en þörfin fyrir umbætur og viljinn til að leggja sitt af mörkum fyrir náttúruna og landið.

Sumt í þessu frumvarpi þarf að laga til. Það er ekki ofsögum sagt að stjórnsýslan í kringum þjóðgarðinn er þung í vöfum og hægt að benda á mörg dæmi um að tillögur hagsmunaaðila og heimamanna, sem lagðar væru fram eftir samráð út og suður, má reka öfugar ofan í þá með einu pennastriki af ráðherra. Það styrkir að vísu stöðu hagsmunaaðila, og sveitarfélaganna sérstaklega, að vera ráðandi á tveimur stjórnsýslustigum, bæði í umdæmisráðum og í stjórn þjóðgarðsins. Það þyrfti einbeittan „brotavilja“ af hálfu ráðherra að ganga þvert gegn tillögum sem hafa hlotið slíka tvöfalda blessun. Ansi hreint einbeittan yfirgang, sem varla væri hægt að jafna til annars en valdníðslu og lögbrota dómsmálaráðherra undanfarna ártatugi gagnvart dómstólum landsins.

Á það má að lokum benda að margir þeir sem nú tala hvað hæst um ofríki og yfirgang ríkisvaldsins í þjóðgarðsmálinu eru alveg sannfærðir um að ríkið skuli eitt ráðskast með aðra „þjóðlendu“: hafið í kringum landið, og úthluta þar gríðarlega verðmætum nýtingarrétti til afar takmarkaðs hóps fyrir lítið – og á kostnað „heimamanna“ í hverjum firði, sem sitja fyrir vikið verklausir og gjaldþrota, og heilu byggðarlögin í sárum. Ekki hafa sveitar-félögin neitt skipulagsvald á þeirri þjóðlendu, hvað þá félagasamtök eða einstaklingar. Og margir þeir sem berjast harðast fyrir rétti og völdum heimamanna gegn frumvarpi um Hálendisþjóðgarð berjast jafn einbeittir blóðugri baráttu gegn rétti heimamanna og atvinnufrelsi eistaklinga við sjávarsíðuna. Sem er merkilegt í sjálfu sér.

Frumvarp um Hálendisþjóðgarð þarf að laga. Það verður örugglega gert í meðförum þingsins. En að það sé óalandi og óferjandi er fráleitt. Ég get því hvorki skipað mér í hóp með þeim sem telja að málum sé miðlað nóg, jafnvel of, og óhætt sé að samþykkja frumvarpið eins og það liggur fyrir, né í hóp hins grátgjarna minnihluta – hreint alls ekki.

 

Af félagshyggju og pólitísku ati

Það hefur lengi verið ljóst að helstu valdaflokkarnir í íslenskum stjórnmálum, Framsóknarflokkurinn og Sjálfstæðisflokkurinn, hafa verið mér þyrnir í augum. Fyrir því eru einfaldar og augljósar ástæður, sem vikið verður að síðar.

En þegar nánar er skoðað finn ég góðan málefnalegan hljómgrunn með þessum flokkum, og ýmsum öðrum dregnum úr sama sauðakofa. Mín pólitík er einföld. Hún er félagslegs eðlis.

Og þar eru einmitt snertifletirnir við fyrrnefnd stjórnmálaöfl. Framsóknarflokkurinn hefur samvinnuhugsjónir opinberlega í sínum grundvallarplöggum og, a.m.k. fyrrum, skilgreindur sem „félagshyggjuflokkur“. Og þó í stefnuplöggum Sjálfstæðisflokksins fari lítið fyrir orðinu „félagshyggja“ en meira fyrir tali um „frelsi einstaklingsins“ er þar að finna frasa eins og „gjör rétt – þol ei órétt“, sem er prýðilegur frasi til að flagga og flestir ættu að geta sungið glaðhlakkalega, með sínu nefi. Þetta einkennilega „bann“ við notkun orðsins „félagshyggja“ í ræðu og riti innan Sjálfstæðisflokksins er einmitt það: einkennilegt. Vegna þess að flokkurinn, og fulltrúar hans, eru blessunarlega alveg sannfærðir í sinni félagshyggju; sennilega er flokkurinn „harðsvíraðasti“ félagshyggjuflokkur landsins, og jafnvel þó víðar væri leitað.

Frá upphafi vega, a.m.k. allan lýðveldistímann, hefur Sjálfstæðisflokkurinn verið iðnastur allra stjórnmálaflokka við að úthluta samfélagslegum gæðum með félagslegum hætti, og Framsóknarflokkurinn fylgir þar fast á hæla. Skiptir þá engu máli hvers kyns gæði um er að ræða: aðgengi að auðlindum þjóðarinnar, góðum byggingalóðum, bankastjórastöðum, kennara og skólastjórastöðum, embættum dómara, sýslumanna, lögreglustjóra, háskólaprófessora, ráðuneytisstjóra og forstjóra ríkisstofnana, ásamt almennum störfum í ráðuneytum og ríkisstofnunum. Við þetta má bæta félagslegri úthlutun bankalána, varnarliðseigna, heildsöluleyfa, ríkisfyrirtækja stórra og smárra o.s.frv. o.s.frv. Það væri að æra óstöðugan að telja upp öll hin félagslegu góðverk þessara flokka.

Nú hefur Framsóknarflokkurinn aldrei reynt að þvo af sér hinn „félagslega“ samvinnustimpil, svo mér sé kunnugt, og hann því í góðri trú að framfylgja sínum hugsjónum. En Sjálfstæðisflokkurinn hins vegar hefur aldrei viljað, í hógværð sinni og feimni, kannast við það opinberlega að vera félagshyggjuflokkur, heldur lagt á það áherslu í ræðu og riti að frjálsir einstaklingar keppi um gæðin á eigin forsendum til að tryggja að hinir hæfustu njóti ávaxtanna. Segja má að eina félagshyggjan sem flokkurinn er tilbúinn að viðurkenna sé sú að hinir vanhæfari muni ævinlega og náðarsamlegast njóta góðs af iðju hinna hæfari, hvort sem er „með eða án leyfis“ eða hvort þeir verðskulda það eður ei. Þessi félagshyggja hefur verið kölluð „brauðmolakenning“ og er vissulega göfug félagshyggja, þó hún sé fremur afleidd en sjálfsprottin. Slík félagshyggja er líka í algerri mótsögn við raunverulegt markmið og hjartalag flokksmanna, þar sem logar hin einlæga og gefandi félagshyggja.

Ég, Sjálfstæðisflokkurinn og Framsóknarflokkurinn erum sem sagt sammála um að það sé bæði eðlilegt og sjálfsagt að úthluta ýmsum samfélagsgæðum á félagslegum grunni, en ekki einvörðungu eftir hörðum samkeppnissjónarmiðum þar sem fjárhagslegur styrkur, „réttu samböndin“, fjölskyldu- og vinatengsl óhjákvæmilega skekkja samkeppnisstöðuna umtalsvert með tilheyrandi auknum ójöfnuði og óréttlæti.

Í gegnum tíðina hefur það komið æ betur í ljós að Sjálfstæðis- og Framsóknarflokknum finnst eðlilegt og sjálfsagt að fjárhagslegur styrkur, „réttu samböndin“, fjölskyldu- og vinatengsl ráði líka við hina félagslegu úthlutun gæðanna og að réttu samböndin og tengslin séu staðfest með flokksskírteinum. Í hinu „pólitíska ati“ við félagslega úthlutun gæða hefur frasinn „gjör rétt – þol ei órétt“ alveg gleymst!

Slík aðferð við félagslega úthlutun samfélagsgæða heitir spilling. Henni ber alltaf og alls staðar að hafna og berjast gegn með oddi og eggju, samkvæmt mínum skilningi. Þess vegna get ég ekki stutt þessa flokka, þrátt fyrir okkar sameiginlegu almennu hugmynd um félagslega úthlutun samfélagsgæða, og á bágt með að skilja að aðrir geti fremur gert það en ég.

Af sömu ástæðu get ég ekki heldur stutt stjórnmálamenn og flokka sem horfa gegnum fingur sér á „félagshyggju“ Sjálfstæðis- og Framsóknarflokksins, taka þátt, snúa að henni blinda auganu, eða hvítþvo hana með sáttmála.

Félagshyggju fylgi jöfnuður, réttlæti og frelsi. Það er ekki flókið.

 

Dróttkvætt

Dróttkvæður háttur er gamall. Elsta þekkta dæmið er vísa eftir Braga hinn gamla, talin frá 9. öld. Dróttkvæði voru vinsæl hirðkvæði, og bragarhátturinn tekur nafn sitt þaðan af; drótt=hirð. Dróttkvæði voru tormeltur kveðskapur löngum. Því olli rímið og ljóðamálið, kenningarnar sem áttu rætur í fornum goðsögum; kunnátta í þeim var nauðsynlegur lykill að skilningi – og dugði oft ekki til. Ekki bætti úr skák að orðaröðin var öll í lamasessi, eðlileg orðaröð varð að víkja fyrir kröfum háttarins um stöðu rímatkvæða – og kenningum.

Dróttkvæður háttur er með átta línu vísum, hver 6 atkvæði eða þrjú ris. Hefðbundinnar stuðlasetningar er krafist og rímið er innrím, svokallaðar hendingar; þ.e. tvö rímatkvæði eru í hverri línu, en ekki endarím eins og í rímnaháttunum. Í dróttkvæðum hætti skiptast á skothendingar í ójöfnu vísuorðunum (1.-3.-5. og 7. línu) og aðalhendingar í þeim jöfnu (2.-4.-6. og 8. línu) Í skothendingum er hálfrím, kallað skothent rím, þar sem samhljóðin í atkvæðinu eru eins en ekki sérhljóðin. Í aðalhendingum er alrím.

Þegar lengra leið frá kristnitöku varð þekking á norrænum goðsögum sífellt veikari og smám saman hætti fólk að botna upp né niður í dróttkvæðunum gömlu. Rímnaskáldin héldu áfram að bögglast með kenningar sem þau sum skildu lítt eða ekki sjálf en ríghéldu í gamlar hefðir. Dróttkvæðin stefndu í eina átt: í þögla gröf og gleymsku.

En á 19. öld gerðist undrið! Fram kom á sjónarsviðið listaskáldið góða, Jónas Hallgrímsson, sem hóf að yrkja undir hinum fornu bragarháttum af mikilli snilld, bæði edduháttum og dróttkvæðum hætti. Og það sem réði úrslitum var að Jónas orti dróttkvætt af lipurri snilld, umbylti bragarhættinum og sýndi að hægt var að yrkja ljóst og létt en ekki bara snúið og tormelt, og þetta er í rauninni hinn fegursti bragarháttur! Takk, Jónas!

Hér fylgja með nokkrar dróttkvæðar vísur sem ég hef dregið úr dagbókinni minni:

Afmæliskveðja – Ari 9 ára 28. desember 1998

Orðinn níu ára

Ari, kappinn snari,

strekkist við að stækka,

sterkur er og merkur.

Rennur kapp í kinnar

í körfu og mörgu þörfu,

hæfileika hefur

við hesta er samt bestur.

 

Afmæliskveðja – Bjarni Þorkelsson fimmtugur 31. júlí 2004

Faðmur bóndans breiður,

bjart er sálarskartið.

Ríkt vill andann rækta

svo rótum föstum skjóti

ungir dáðadrengir

og dætur. Undir nætur

við bólin gamlar gælur

gjarnan kveður Bjarni.

 

Hefur góðar gáfur,

galdur þekkir skálda.

Þolir enga þvælu,

þétt síns leitar réttar.

Vítur stundum veitir

svo vindur blæs um tinda.

Stendur öllum stundum

sterkur undir merki.

 

Gæðingshryssur góðar

gefa bestu hesta-

gullin; seig á stallinn

stærsta, foli glæstur.

Snarpir á gangi garpar,

geta fáir betur.

Hesta þó hjarta næstur

Hari framúr skarar.

 

Hög er mynd í huga,

hólinn vermir sólin,

hægur blær um haga

og hlöð á Þóroddsstöðum.

Þar Magga og Bjarni byggja,

að búi vel þau hlúa.

Neistar í augum ástin,

ævina fylgi gæfan.

 

Afmæliskveðja – Þorkell Þorkelsson fimmtugur, 25. jánúar 2007

Þættir lundar þéttir,

þver kann stundum vera.

Reynist vel í raunum

en reigist aldrei, segir

heldur færra en fleira.

Felur kenndir en sendir

blíða strauma. Blóðið

brestur aldrei traustið.

 

Hendur vita ei vanda.

Valda leyndir galdrar

er kallar hest til kosta?

Kenna slyngir fingur,

við tauminn tala af næmi

sem töfrasprota noti.

Æ í manna minni

mynd af þér og Sindra.

 

Aldur manninn mildar,

meyrnar, skilur fleira.

Aga einnig hugann

engum líkir drengir.

Er hjá barnabörnum

bjátar á, hefst grátur,

þá afa sögur sefa,

svo sútir allar lúta.

 

Geð er gæfusmiður

en gangur oft er strangur.

Þá ríður engin ræðu-

runa baggamuninn

en varið í að vera

vinur ef á dynur.

Kjarna þekki þarna

Þorkels, bróður góða.

 

Stafsetningaræfing, vísinda- og rannsóknaræfing íslenskudeildar F.Su., var haldin 24.03.2007 heima hjá skólaskáldinu Björgvini E. Björgvinssyni og konu hans, Helgu Sighvatsdóttur frá Miðhúsum, aðstoðarskólastjóra Tónlistarskóla Árnesinga og blokkflautuleikara. Flutti þar gestgjöfunum eftirfarandi hirðkvæði:

Meldar skólaskáldið

skens, þó allt í glensi.

Út úr snýr, ei sýtir

siði, málbein liðugt.

Kætin sanna smitar,

sest að grátur, af hlátri.

Mun og mildur vinur

mörgum reynast Björgvin.

 

Hægð við heiminn dugar,

hófið leysir prófin.

Stefnu Helga í stafni

stýrir best, af festu.

Systir ljúfra lista,

leikur skraut á flautu.

Áran nálæg nærir.

Nett, en traustur klettur.

 

Afmæliskveðja – Gunnar Sigurjónsson fimmtugur 27. október 2008

Dvöl í norðan dalnum

drenginn nærði lengi.

Fann í móðurfaðmi

frið og góða siði.

Tíndi í föðurtúni

tryggðablóm og dyggðir.

Gerður vel úr garði

gengur úrvalsdrengur.

 

Guðrún, það er gyðjan

sem Gunnar heitast unnir.

Vaka vinarrökin

og vilji allt að skilja.

Hulda og Hilmir eldinn

hjartans kveikja bjartan.

Hér sjást heilla sporin,

hans í lífsins dansi.

 

Kennir seggur sannur,

síðan rór og blíður,

æsku vörn og visku

ef veröld ótrygg gerist.

Framhjá tugur fimmti

flaug, með sól í augum

göfugmennis, Gunnar

góðan á sér hróður.

 

Árið 2014

Eftir hörmung hafta,

héraðsbresti mesta,

þulu af lygaþvælu,

þéttan reyk af prettum,

veldi tryggt útvaldra

á votri auðlind, brauði,

þreyttir minnimáttar

mola leita’ í holum.

 

Rósir Reykjavíkur

rasísk meðul brasa,

svo kreddufúsir kjósi

kristinn teboðslista.

Keflum íhaldsöflin,

aftur finnum kraftinn.

Skipið þjóðar skríði

skár á nýju ári.

 

12.07.15 – Afmælisdagur dótturdóttur:

Hefur tóna hreina,
hjarta úr gulli skartar.
Gefur ömmu og afa
undur góðar stundir.
Stálpast hefur stelpan,
sterk í hverju verki.
Orðin sextán ára,
asi er þetta, Jasmín!

 

30.11.15 – Af veðri og náttúru:

Mjúk nú fellur mjöllin,
myndar birtusindur.
Himinn sortnar, heimi
hverfa rósaljósin.
Fagnar lýður logni,
létt er fönn og glettin.
Ef upp með roki rýkur
ratar enginn um vengi.

 

09.06.16 – Kári Stefánsson skrifaði magnaða grein í blöðin um einn forsetafrmabjóðandann, og er hér umorðuð:

Frá rumi, mjúkum rómi,
rennur lygamiga
vel í sjónvarpsvélar
en veltir fláðum gelti.
Orðlaus aflandsmörður
ólmur flýr af hólmi.
Skelmir úti að skíta.
Skeit í brækur feitum.

 

Liðið skammarskeiðið,
skríður út úr hýði
og óðar ræðst á aðra.
Ekki þjóð samt blekkir,
aðeins sóttarsauði
er sveima hringinn kringum
og marka skálkaskjólið,
skjaldborg klíku valda.

 

12.06.16 – Sumarstemmning

Gælir við mann gjólan
í geisla sólar veislu.
Brattur slæ ég blettinn
með bros á vör og losa
rekju plast í poka.
Við páfann tefli. Efli
andans vængja vind, og
virkja. Dróttkvætt yrki.

 

Jólakveðja 2016

Stríðs í heimi hrjáðum,

hungursneyðar, leiðum,

er fjöldi enn, sem um aldir,

óttasleginn á flótta.

Eins og Jósef Jesúm

úr jötu tók, um götur

hrakinn, úr landi sem hundur,

svo hlífa mætti lífi.

 

Þennan mæta manninn

myrtu valdsmenn kaldir

sem þelið ekki þoldu

þýða, og hylli lýðsins.

Nú á tímum „nýjum“

neglum á krossa, steglum,

þá sem valdi velgja

vel undir uggum, við stugga.

 

Augum lítum ætíð

Assange þannig og Manning.

Af lífi, og sögulegu,

lærum, vinir kærir.

Aðeins andófslundin

oki lyftir. Tyftir

illan bifur. Hjá öllum

til árs og friðar miði.

 

Hérna blessuð börnin

brosa sem sól um jólin.

Annars staðar þau stuðar

stríð með sprengjuhríðum.

Selja vesturveldi

vopnin. Huga opnum!

Innum oss að þessu:

Eru þau mannverur?

 

26.10.17

Moð er gott til glóðar
en gengið hefur lengi
að ríkir vaði reykinn
og reyni sínu að leyna.
Út þarf særa svörin,
að sinni er mál að linni
valtra pörupilta
prettaaflandsfléttum.

 

22.03.18

Drótt- er hefðar -háttur,
hagleiks -kvætt og bragar-.
Stuðlar, höfuðstafir
standi rétt, og vandi
hálf- og alríms heilum
hendingum að lenda
í þremur risum. Rómað
renni og fram kenning.

 

23.03.18 – Fjasið

Fjasbók löngum les hún,
ljóða „stórust“ þjóðin.
Þar þusa mjög og masa
margir, virðast argir.
Enn sést Pollyanna,
aðrir steypu blaðra.
Alveg verðlaust orðið,
ef enginn þegir lengur?

 

Ævitíminn

Flýt í ös að ósi.
Enginn daginn lengir.
Meir ei hef í háfi
held’r en áin geldur.
Víða bar í veiði
vel, eg margt við dvelja
vil, en tíminn telur
taktviss griðin niður.

 

24.03.18 – Vetrarstilla

Er í morguns árið
undurfögur stundin.
Hrím á jörðu harðri,
himinn tær, og skærir
geislar sólar gæla
grundu við í friði
stafalogns, og lofa
lýðum degi blíðum.

 

26.03.18 – Íslenska vorið

Veri blessað, vorið!
Vindar æsast, yndi
flestra, næturfrostið,
faðmar jörð og hörðu
élin bíta, ýla
sem englasöngur löngum.
Vinafastur, að venju,
vorboði er horið.

 

Afmæliskveðja – Kær samstarfsmaður, Lárus Ágúst Bragason, sextugur 4. september 2019

Ljúfur, gæddur gáfum
góðum, sagnafróður.
Virði allra varðar,
við ungdóminn styður,
glaður, lítillátur.
Lestar um vengi hesta.
Af sómamanni sönnum
er saga Lalla Braga.

 

25.09.19 – Haust

Litadýrðarlota!
Laufið skreytir reitinn
gulu, rauðu. Gælir
gola vær og hrærir
grein en fagurgræna
grasið heldur fasi.
Heiminn lítur himinn,
hélugrár, og tárast.

 

26.09.19 – Haust II

Logn. Svo rok og rigning
rúður þvo. Á súðum
veður, dimmir. Dauður
dæmdur gróður. Í ræmur
flíkur rifna. Fokið
flest í skjólin. Sólin
sífrar, gleymd og grafin.
Gangur lægða strangur.

 

04.12.19 – Vetrartíð

Frostköld mjöllin fellur
falleg á minn skalla,
bráðnar þar án biðar,
bleytan skjótt vill leita
bakið niður, búkinn
baðar, ekki laðar
fram af vörum frómar
fyrirtölur. Bölva.

 

23.12.19 – Jólakveðja 2019

Aumt og hart í heimi,

háð eru víða stríðin.

Varnir bresta börnum;

bani, ótti, flótti

vonir þeirra þverra –

Þjóðum skömm er rjóða

æskublóði, í æði

afla í valdatafli.

 

Á allsnægtaeyju

eru margir argir

af kjörum sínum, kveina,

komið rof í hófið.

Væri flott ef fleiri

fyndu göfuglyndið,

gleðistundir góðar

gera kraftaverkin.

 

Gjafir eru gefnar,

geisla börn í veislum.

Sönn er jólasælan“,

syngja Íslendingar.

En ekki allir hlakka

ósköp til, þó dylji.

Til einhvers auður þjóðar

ef einn er dauðans snauður?

 

Hér á ysta hjara

heims, má ekki gleyma

að verma opnum örmum

óttaslegna á flótta.

Gæðastundir gleðja,

gefum þær af kærleik.

Um land og lög við sendum

ljúfar friðardúfur.

 

27.03.20 – Veiruvísa

Er veira leggur veröld,
á virða þungar byrðar,
verðum þá að þora
að þiggja ráð og tryggja
bjargir. Þannig byrgjum
brunninn. Upp er runnin
öld er gagnast gildin
góðu öllum þjóðum.

 

17.04.20 – Magnús Sigurðsson – Minning

Horfir vítt of veröld
vinur, af fjallatindum.
Lítur stoltur leitin
er lífs á vegi hrífa.
Hlúir, faðmi hlýjum,
heims að djásnum. Við geymum
gleðiminning. Góður
genginn er héðan drengur.

 

6.09.20 – Flóttamannaandúð

Bragð er að þá brögðum

beitir valdið kalda

með stimamjúku stami

og stríði gegn oss þegnum.

Skellur þjált í skoltum,

skrumið geyr við eyru,

hvarf að baki kerfa,

Katrín allsber valsar.

 

3.09.20 – Græðgin

Það er margt í mörgu.

Mammonshveljur velja

að miklu skara meiru;

máttur sé sá þáttur

í fari manns er færi

fylling lífs – sú grilla

skaðar þelið þjóðar,

þörfum friði riðlar.

 

3.11.20 – Maður og hestur

Strengur veðrar vanga,

vítisélin bíta,

kæfa vill mig kófið

hvíta, fyllir vitin.

vel þó gengur, viljug

vindinn klýfur, yndið.

Megnar hreti móti

merin heim mig bera.

 

Í lofti ilmur, aftur

ess og maður hressast,

grey í varpa glóir,

gleymd er vetrareymdin.

Við fótum glymur gata,

grófu skyrpt úr hófum,

ganga vel og viljug

á vorin, létt í spori.

 

Enn við taka annir,

við undirbúning fundar

ferðahesta og firða

því fjalladýrðin kallar.

Riðið hægt úr hlaði,

í hvammi æjum, gammur!

Kapp er kastar toppi,

kveðjum teitir sveitir.

 

Jörðu stikla, jökla

jóar, milli og flóa,

klungur, víðan vanginn

sig vökuleygir teygja

og æðrulausir ása

yfrið bratta klifra.

Snerta hestar hjarta,

heila sálarveilu.

 

Að ferðalokum frækinn

færleik hvíld skal næra.

Gæði sér á góðum

grösum, skjól af hólum,

leiki sér við lækinn,

lýsi eldi af feldi.

Þá haustar, herðir frostið,

að hagaljóma er sómi.

 

Flensa

Kom á Kóvíð tímum,

kæfir mál í hálsi,

höfuðverkjaharki

hendir á mig, brenndan

hitakófi, og hefur

heldur betur eldað

mér úr fúlu fyli

flensupest in versta.

 

Limrur úr dagbókinni

Limran er skemmtilegur bragarháttur, ættaður af Írlandi að því er talið er, frá bænum Limerick. Jóhann S. Hannesson, fyrrum skólameistari ML, tók hana upp á arma sína, orti og gaf út margar úrvals limrur. Nýverið komu út Gervilimrur Gísla Rúnars heitins, mikið  og skemmtilegt safn, og margir fleiri hafa svo sem gefið út limrusöfn.

Limran er 5 braglínur með endarími (AABBA/AAbbA), fyrsta, önnur og fimmta lína eru eins, þrír bragliðir, og þær ríma. Þriðja og fjórða lína brjóta upp hrynjandina, eru tveir bragliðir og þær ríma saman. Allur gangur er á ljóðstafasetningu í limrum og nokkurt frjálsræði ríkjandi. Íslendingar eru þó margir hverjir afar fastir í hefðbundinni stuðlasetningu og yfirfæra hana á limruna, gjarnan þannig að fyrstu tvær línurnar stuðla hefðbundið, næstu tvær stuðla saman, ýmist 2+1 eða 1+1 og síðasta línan sér um stuðla.

Meðfylgjandi eru limrur úr dagbókinni minni:

24.01.09

Ort skv. pöntun til Gussa á Melum í fimmtugsafmæli:

Í heyskapnum Hreppasauðum

hjálpar, og fleirum í nauðum.

Hans tungu vel mælist.

Hún fyrir samt þvælist

ef þefar af „karlakórsrauðum“.

 

Dæmalaus dugnaðarjálkur

drífur af stað letiálkur.

Friðsemdarmaður,

fyndinn og glaður,

en bölvaður hrakfallabálkur.

 

21.02.09

Á kórasamkomu á Flúðum var efnt til vísnaskemmtunar. Eitt yrkisefnið var: „Hvað er í Kerlingarfjöllum?“

Er kleif eitt sinn Kerlingarfjöll

kvensniftar- hitti þar –tröll

sem óðar sig tjáði

að heitast hún þráði

skagfirska sveiflu og böll.

 

22.02.09

Fía á Sandi kvartaði á Leir yfir því að aðeins tveir væru þar virkir þennan daginn og efaðist um að hausinn væri virkur á hinum. Svaraði henni svona:

Skeytið kom við kaunin.

Hvort mun virka baunin?

Mætti vinna

tefja minna.

Mörg er búmanns raunin.

 

22.04.09

Á hagyrðingakvöldi var eftirfarandi yrkisefni: Eva Jolly, sem líka er norsk að hluta til, ætlar að elta uppi peningana sem hurfu í bankahruninu? Hvernig heldur þú að það gangi?

Ef verkið skal vandað hjá Jolly

vinnu þarf setja mörg holl í.

Það skammt mun þó duga,

svo höfum í huga

klónun, og kindina Molly.

 

26.04.09

Jóhanna og Steingrímur hafa ekki verið alveg sammála um danssporin og því stigið á tærnar hvort á öðru.

Jóhanna við Steingrím:

Í samkvæmum alltaf, ég veit vel

að vangadans kýstu, en samt tel

að efli vort þor

ef lærum í vor

öll nýstjustu sporin frá Brussel.

 

Steingrímur við Jóhönnu.

Heyrðu, þú virðist í vímu!

Varpaðu Evrópugrímu.

Ég stend mína vakt.

Já, stígum í takt

hina þjóðlegu íslensku glímu.

 

06.06.09

Hið svokallaða hrun:

Frjálshyggjukrumlan er köld,

kyrkir nú borgara fjöld.

Allt er í hengslum

af krosseignatengslum

Guðsorðið: gróði og völd.

 

Ríkisstjórn og Seðlabankastjórn hrekjast burt og breytingar í stjórnmálunum:

Alþingi fengum í arf

þar íslenskir lúðar fá starf.

Nú íhaldið hrundi

og Guðjón, hann stundi

því Frjálslyndiflokkurinn hvarf.

 

21.06.09

Trailer með gálga fékk Gven-

dur. Glaður í Hvalfjörðinn renn-

di. Spikið af Báru

burtu þar skáru

hvatvísir hvalskurðarmenn.

 

10.02.10

Limran er ljómandi háttur,

léttur og taktfastur sláttur.

Það er þó best

þegar að sést

tungunnar tvíræði máttur.

 

01.03.10

Endatafl:

Tefldu við sólarlag saman,
Siggi og nýjasta daman.
Í endataflsæði
æptu þau bæði,
af æsingi eldrauð í framan.

 

12.03.10

Vernharður vísurnar stagaði
í vinnu, ef þannig til hagaði.
En hugsunin fraus
er höndin varð laus!
Viðutan sjálfan sig sagaði.

 

03.05.10

Seðlabankastjórinn átti yfir höfði sér tillögu frá formanni bankastjórnar um launahækkun upp á 400 þúsund!! Samkvæmt Mogga. Már var í Kastljósinu:

Þreyttur, svangur og sár
í Seðlabankanum, Már
sér starir í gaupnir
og strákarnir hlaupnir!
Til Íslands var ferð ei til fjár.

 

12.06.10

Gosið í Eyjafjallajökli. Töskutuddanna bíður ærinn starfi:

Undir Fjöllum er ósköp af ösku
sem utanlands selst víst á flösku.
Í lág er nú gosið
en langt þó í brosið.
Glotta þó tuddarnir tösku.

 

25.06.10.

Ólafur Áki Ragnarsson rekinn úr Sjálfstæðisflokknum degi fyrir landsfund:

Svo flokkinn ei beygli né bráki
eða boðorðum klíkunnar skáki,
Jónmundur sagði
í símann að bragði:
„Burt með þig, Ólafur Áki“!

 

09.08.10

Hitti Magnús Ólafsson frá Sveinsstöðum uppi á Auðkúluheiði. Báðir vorum við ríðandi með hóp af fólki:

Á ferð um húnvetnska heiði
-hrossið á tölti og skeiði-
ég Sveinsstaða-Manga
mildan á vanga

hitti. Þar vel bar í veiði.

 

02.10.10

Kyrrð er í heiðinnar heimi

undir heillandi norðljósageimi.

Þar lækurinn rennur

og lyngið –það brennur!

Við tætturnar svipir á sveimi.

 

Gerast nú góðviðrin klén,

gusturinn rífur í trén

gisin og hokin

-gullin öll fokin-

samt öspin fær alltaf í hnén!

 

Ort var um Hörpu, miður skarpa og heilalausa. Sneri því upp á nýbyggingu:

Fögur við höfnina Harpa,
heimili menningargarpa
með skuldirnar hreinar.
En skapandi greinar
munu okinu af henni varpa!

 

16.06.11

Prófessor Eiríkur Rögnvaldsson fann engin málfræðileg rök gegn orðalaginu „að fara erlendis“. Dæmi um það væri að finna allt frá 18. og 19. öld. Hann grínaðist svo með reiðareksstefnu sína. Mér komu í hug fleiri dæmi um vandræðagang við notkun móðurmálsins:

Hún veifað’ í hurðinni, hress

er hélt ég nú erlendis – Bless!

Það var sagt mér í gær

að vandinn sé ær.

Sér nú til Selfossar – Jess!

 

23.07.11

Var að koma heim af Kili. Undir Áfangafelli var stemmningin einhvernveginn svona:

Dillandi góðhross og dásemdartíð,

dýrðlegur söngur í móa og hlíð.

Í Áfanga kem

og algleymið nem.

Skínandi glaður í pokann ég skríð.

 

09.02.12

Lilja Mós. kynnti Samstöðu, nýja flokkinn sinn, og Sigga storm sem sína hægri hönd!

VG, með Steingrím í stafni,

stóð bara ekki’ undir nafni.

Þó samherja lasti

í samviskukasti,

það er lofsvert – svo Lilja ei kafni.

 

Þeir ofríkis ráðamenn bogni!

– það rýkur víst sjaldan í logni –

Stormurinn hrífur

og samstaðan blífur

þó samviskan teygist og togni.

 

2.12.12

Spenntur ég stekk upp úr stólnum!

Það er stórsýning úti á hólnum!

Á sviðið er díva,

hún Hundslappa-Drífa,

komin í mjallhvíta kjólnum.

 

20.12.12

Pétur Blöndal kom í Sunnlenska bókakaffið að lesa upp úr Limrubók sinni. Kvöldið áður hafði Kilju-Egill Helgason heimsótt hann heim til sín á Seltjarnarnes. Kvaddi Pétur í bókakaffinu með limru:

Pétur hann les og hann les,

limrurnar víst eru spes.

Hér stendur ‘ann hátt.

Stefnir þó lágt,

já, suður á Seltjarnarnes.

 

23.12.12

Jólakveðjan í ár:

Er skuggarnir skríða’ uppá hól

í skammdegi, norður við pól,

á ljósið má benda,

og með logunum senda

gæfu og gleðileg jól.

 

Enn sækja að freistingafól

með falsið og innantómt gól.

En lausnin er kær:

Líttu þér nær

um gæfu og gleðileg jól.

 

Hve Siggi er sætur í kjól!

Já, og Solla með tæki og tól!

Ef mót strauminum syndið

veitir umburðarlyndið

gæfu og gleðileg jól.

 

Í fjölskyldufaðmi er skjól.

Hann er friðar- og kærleikans ból.

Þar ávallt þú veist

að geturðu treyst

á gæfu og gleðileg jól.

 

23.01.13

Við bekkjarbræðurnir úr B-bekknum í KHÍ vorum að undirbúa 30 ára útskriftarafmæli í vor. Vangaveltur um matseðil voru þar á meðal, hvort ætti að velja fyrir allan hópinn og þá hvernig:

Svona mætti orða könnunina:

Hvað viltu dýrðlegt á disk?

Dugar ei lengur neitt gisk,

sút eða hik.

Settu þitt prik

við annaðhvort önd eða fisk.

 

25.06.13

Sigmundur Davíð var í heimsókn hjá danska forsætisráðherranum, og hafði það helst til frásagnar af fundinum að sú danska kynni ágæta dönsku!

Sigmundur Davíð, þeirri dönsku
drýldinn í íslenskan bröns ku
boðið nú hafa.
En bindin samt lafa
við þjóðrembukúrinn úr frönsku
(mmm!)

 

10.07.13

Miðvikudagur:

Ég kúri, en seilist til kökunnar

í kyrrð, milli svefnisins og vökunnar.

Hve mildur og fagur

er miðvikudagur

um sláttinn, ef nýttur til slökunar.

 

4.09.13

Ort í kjölfar eilífrar umræðu, m.a. þingmanna, um óþurft listamanna og listsköpunar:

Djöfull er djöfullinn góður!
Hann dansar í kringum oss, óður!
Og menningarlífi,
sem guð oss frá hlífi,
laumar í frummannsins fóður.

 

30.09.13

Prófessor Eiríkur Rögnvaldsson vakti athygli á því að „svá er“ rímar við „Wow air“:

Nútíminn rafknúið ráf er
en í rauntíma Framsókn í kláf er
á leið yfir álinn
með áherslumálin.
Við sjónbaug hvarf vélin frá Wow-air.

 

Ort út frá ljósmyndum teknum í Rómarferð Karlakórs Hreppamanna í okt. 2013:

Bílstjórar lævísir lómar

svo léttgeggjað kaosið ómar.

Hér færa þarf fórn!

Fín umferðarstjórn

hjá Edit, í öngstrætum Rómar!

 

Flekklaus hér múgurinn fetar,

jafnt Frakkar sem Rússar og Bretar.

Í annála set

að Elísabet

um páfagarð gekk með hann Grétar.

 

10.09.14

Í blöðunum var vitnað í fjárlagafrumvarpið, þar sem útgjöld til háskólanna voru sögð samkvæmt stefnumörkun ríkisstjórnarinnar:

Háleita markmiðið hækkar

ef háskólanemunum fækkar.

Best að múgurinn gorti

af menntunarskorti,

þá stuðningshópurinn stækkar.

 

18.09.14

Prestur í Selfosskirkju var kærður fyrir að sýndar voru kynfæramyndir í fermingarfræðslu. Hneikslunarvert hvað dregið er í fermingarfræðslunni inn í kirkjur landsins!!:

Séra minn! Sjáðu nú hér
syndugan unglingaher
með limi og píkur
við altarisbríkur!
Nánast við nefið á þér!

 

Þegar byrjað er á limrum, þá er stundum eins og skrúfað sé frá krana:

Um hádegi Vigga var vakin
til vinnu, því þurrkur var rakinn
Undir dalanna sól
fór úr sokkum og kjól
að snúa á Nallanum, nakin.

 

Kalla má Sigmundarsið

sannleik að velta á hlið.

Sá ég spóa

Suð’r í flóa

en það kemur því ekki við.

 

19.06.20

Margir fá gríðarlegt geðrið,

á gleðinni verður ei séð ryð.

Í sálinni pússað

allt silfrið, og stússað.

Því veldur að blessað er veðrið.

Glansinn fór alveg af Gunna

er ‘ann girti sig nið’rum í runna

og í nauðum þar skeit

en niður svo leit,

á unga, með uppglennta munna.

 

08.10.14

Til hamingju herramenn! Skál!

Hitnar senn nautnanna bál!

Eftir engu að bíða!

Dettum nú í’ða’!

(sko, meðferð er allt annað mál).

 

10.10.14

Ennþá ég Magnhildi man!

Í mörgu var of eða van

og í megrunarkasti

á trailer, í hasti,

var keyrð út á hvalskurðarplan!

 

13.10.14

Ekki’ er öll vitleysan eins!

Annað með liðið hans Sveins.

Af leiðindaböggi

það liggur við höggi

flatt, milli sleggju og steins.

 

15.10.14

Sjálfstæðismenn eru farnir að tala af auknum þunga enn á ný um einkavæðingu og ofkostnað við allt sem heitir „eftirlit“ í þjóðfélaginu:

Upptrekkti ránfuglinn ræstur,

rómurinn holur og æstur:

„Algeran skilnað

við eftirlitsiðnað

því hver er sjálfum sér næstur“.

 

06.10.14

Evrópumeistaramót í hópfimleikum var haldið í Laugardalshöll. Bein lýsing var í sjónvarpinu:

Fimleikadrottningar dansa,

dýfa sér, hoppa og glansa.

Útsending fín,

Einar og Hlín,

en ég sárlega saknaði Hansa.

 

23.10.14

Hestamenn deila hart um staðsetningu landsmóta, og þing LH leysist upp þegar formaður og stjórn segja af sér í kjölfar samþykktar tillögu sem gengur þvert gegn fyrirætlunum stjórnarinnar:

LH er gallalaus gripur,

ganglagin hryssa og pipur.

Á mótum nýr blær!

Hún bítur og slær!

Syndin er lævís og lipur.

 

Lögreglan tekur við hríðskotabyssum frá norska hernum, Alþingi veit ekkert af málinu fyrr en blöðin birta frétt. Deilt er um tilgang og afleiðingar vopnvæðingar löggunnar:

Gaddavír er til að girða.

Orð eru nýt til að yrða.

Markmið og gagn?

Hlutverk og magn?

„Með vopnum skal menn myrða“.

 

25.10.14

Á spíritísku laugardagskvöldi:

Eitthvað er óþekkt á sveimi,

undarlegt handanað streymi?

En ýlfrið nú þekki!

Kemur þar ekki

glaðasti hundur í heimi!

 

05.11.14.

Fyrirsögn á RUV.IS, undir gleiðbrosandi Seðlabankastjóranum: „Allir dauðöfunda okkur“:

Að vopni verður allt enn.

Veröldin lýtur þér senn.

Með titrandi tár

þig tilbiðja, Már,

Íslands öfundarmenn.

 

Svokölluð friðþæingarkenning er grundvöllur hins lútherska trúnaðar:

Brunar með glaumi og gleði
til glötunar fullhlaðinn sleði.
En lífið varð skák
með lundgóðan strák
er faðir hans fórnaði peði.

 

17.11.14

Eftirminnileg viðtöl í Kastljósi kvöldsins við systurnar Snædísi og Áslaugu Hjartardætur um aðstæður þeira og mikilvægi túlkasjóðs, sem er tómur, og túlkaþjónustu fyrir fatlað fólk:

Virðist hægt allt í heimi að gera,

fyrir heilbrigðan Jón – ef er séra!

Þegar fæst ekki túlkur

þar tjá sig um stúlkur:

„Engin hornkerling vil ég vera“.

 

04.12.14

Bjarni Ben. skipaði nýja innanríkisráðherra í stað Hönnu Birnu, loksins eftir langa mæðu. Ýmsir þóttust kallaðir, m.a. Pétur Blöndal og þingflokksformaðurinn Ragnheiður Ríkharðsdóttir, sem á sinn djöful að draga:

Bjarni um víðan fór völl
og varaðist þingmennin öll.
Fór um hann ótti
svo Ólöfu sótti
út yfir firnindi og fjöll.

 

Í Árvakursmóum var aftur
Evrópulöngunarkraftur
Ragnheiðar mældur.
Og Pétur er spældur.
En í þingflokknum klappar hver kjaftur.

 

12.01.15

Í fréttum var þetta helst.

Það herðir heldur á frosti.

Heimsbyggðin öll er í losti.

Á fötluðum brotið.

Fólkið er skotið.

Aðra smyr brauðsneið með osti.

 

04.01.15

Sóknarpresturinn í Vík kvaddi sér hljóðs á Fjasbók og tilkynnti að 29 ár væru frá því hann tók við kallinu. Hann fékk í kjölfarið fjölmargar heillakveðjur. Þess má geta að Gulla, kona hans, er bekkjarsystir mín úr menntaskóla:

Vinsæll er Víkurprestur

og varla því víkur prestur.

Haraldur Magnús

í messunum sagnfús

og hjá Guðlaugu aufúsugestur.

 

15.01.15

Í dag eru 20 ár frá því snjóflóð olli hörmulegu stórslysi á Súðavík. Í Kastljósi var viðtal við konu sem lifði af, bjargaðist eftir 14 tíma undir brakinu af húsi fjölskyldunnar, þá unglingur að aldri. Frásögn hennar var átakanleg:

Alltaf með sár á sálinni.

Snjóflóðagnýr undir nálinni.

Hugsanir stríðar

en höggið kom síðar.

Skelfing í minningaskálinni.

 

Nú er að hefjast enn eitt HM í handbolta, nú haldið í Katar. Íslendingar eru á meðal keppenda og þrátt fyrir skemmtanagildi handboltalandsliðsins fylgja ákveðin leiðindi:

Ennþá er vakin upp vofan.

Vonsvikinn þrýsti á rofann.

Kuldi og vetur

kvalið mig getur

og helvítis HM-stofan.

 

19.01.15.

Það er mikill lægðagangur þessi misserin og sér ekki fyrir endann á honum:

Endalaus vosbúð og væta,

í vindinn er ennþá að bæta,

svo blindöskubylur

er blotinn við skilur.

Er furða að þjóð vilji þræta?

 

21.01.15

Borgarfultrúar Framsóknarflokksins gera það ekki endasleppt. Eftir moskuhneykslið fyrir síðustu kosningar bæta þær um betur með því að skipa annálaðan og þjóðþekktan rasista og hommahatara sem varamann í Menningarráð Reykjavíkur:

„Dýrð sé oss, dætur og synir

drottins guðs. Burt skreiðist hinir.

Vora finnum vér línu

að frelsarans pínu“.

-Framsókn og flugvallarvinir.

 

30.01.15

Þó umgjörð HM í handbolta sem haldið er í Katar um þessar mundir sé slétt og felld ganga ásakanir um að dómgæslan hafi hjálpað heimaliðinu áfram í keppninni, jafnvel talað um mútur og dómarahneyksli:

Yfirborðsáferðin lygn

en alltaf er dómarinn skyggn.

Furstar í Katar,

kolspilltir snatar,

að kaupa sér meistaratign.

 

02.02.15

Mannlýsingar úr sveitinni:

Í afdalakoti bjó kall,
sem kúkaði‘ og hrækti í dall.
Japlandi roðið
og reykjandi moðið
reið hann svo fullur á fjall.

 

Og kellingin feiknmikið fall
sem forðaðist gesti og spjall.
Í myrkustu krókum
hún muldi úr brókum
í soðningu, saman við gall.

 

Syni var stillt upp á stall,
samt stundaði ónytjubrall.
Góða fylli úr nefi
fékk hann, í kvefi
svo allur varð grár eins og gjall.

 

Dóttirin iðaði öll
úti um móa og völl.
Í dagbækur skráði
að skemmtun hún þráði,
skagfirska sveiflu og böll.

 

03.02.15

Mannlýsingar af mölinni:

Í borginni lögmaður bjó
sem bergði af stressinu fró.
Keppti við grannann
í græðgi, og vann ´ann.
Frá dýrðinni ungur svo dó.

 

Frúin er fínasta snobb
sem faðmaði annan, hann Rob.
Hún aðeins fær unað
við allsnægt og munað,
á rándýran kobbidí kobb.

 

Dóttirin orðin er djörf,
af drykkju um helgar oft stjörf
og af afskiptaleysi
þessu ógissla pleisi
hugsar hún þegjandi þörf.

 

Sonurinn beinni á braut,
bráðger og sterkur sem naut.
Á kagganum fer um
fullur af sterum,
flottur, en geðið í graut.

 

05.02.15

Mannlýsingar úr þorpinu:

Þorparinn þrautgóður var,
á þakkir og hrósið ei spar.
Í orðfæri „linur“:
„Elskan“ og „vinur“,
og kleip svo í kellingarnar.

 

Konan hjá kunningjum sat
í kaffi, og bauð sér í mat,
til að þefa upp fréttir
og það var nú léttir
ef fásinnu fundið þar gat.

 

Strákur á þrítugu stóð,
staðarins uppháhalds jóð.
Að spóla í brekkum
á belgvíðum dekkjum
stundaði, miklum af móð.

 

Stelpan á liðinu lúin
fyrir löngu í huganum flúin.
Þá bar þar að Dana
sem barnaði hana-
og þar með var draumurinn búinn!

 

06.02.15

Eyðimerkuróráð:

Þrammandi’ í eyðimörk þrír,

af þorsta er hugur óskýr.

Svo líðanin batni

leita að vatni

en dropinn hjá guði er dýr!

 

Andinn í óráði dalar,

bara ímyndun þorstanum svalar.

Í sturlun þeir ná

stjörnur að sjá

og til þeirra himinninn talar!

 

Á kvöldgöngu kærustupar,

hún komin á steypirinn var.

Þau gönguleið breyta

og á gistihús leita

en vertinn þar veitir afsvar:

 

„Þið finnið í fjárhúsi hey.

Bara fyrningar reyndar, OK?“

Þar Jósef á ný

fer að jagast í því

að varla sé María mey:

 

„Ég hef aldrei hold þitt séð bert

og hitt höfum við aldrei gert.

Það er hlálegt að blanda

í þetta heilögum anda!

Hvað heldur þú að þú sért?“

 

Af tuðinu María mæddist,

upp í myglaða jötuna læddist

og myrkrið óp klauf.

Hennar meyjarhaft rauf

freslarinn þegar hann fæddist.

 

10.03.15

Á búslóðarböndin þeir skáru,
búkkinn þá hrundi. Með sáru
ópi við brást.
Í birtingu sást
að ennþá var borð fyrir Báru.

 

12.03.15

Ekki’ er öll vitleysan eins!
og eigi var hikið til neins
því í loftinu lá
löngun og þrá
milli Sleggju og Steins.

 

21.04.15

Ágætur flóa- er -friður
þar sem frjóan á jarðveg sá siður
að breiða út snakkið.
Og baktjaldamakkið!
Það sannlega segi ég yður.

 

26.04.15

Þið, sem við skjáina skrunið
og í skorti við brauðmola unið!
Eins og vel kveðin vísa
nú vísindin rísa:
-Hannes að rannsaka hrunið-

 

01.06.15

Utanlandsferð með eiginkonunni:

Hvern langar ei langt út í geim?
Nema lyndi og þjóðanna hreim?
En þegar atið er mest
er alltaf best
með henni að koma sér heim.

 

20.06.15

Úr fyrstu langferðinni með ferðmenn þetta sumarið:

Dálagleg Dyrhólaey
í dýrðlegum kvöldsólarþey.
Þetta mýrdælska svið
verð að sætta mig við
því allt er í harðindum hey!

 

21.06.15

Er sem fyr augum mér dökkni
og aðeins að rómurinn klökkni
er stend ég og gón-
i á Jökulsárlón?
Jæja, enginn er verri þó vökni.

 

23.06.15

Með leiðsögn, varkár og vökul
ef vafrið þann auruga hökul.
Á margt er að líta
(en hvorki míga né skíta)
um sumar við Sólheimajökul.

 

24.06.15

Heiðhvolfin himinblá,
hamrar og jökulgljá,
litfagrir balar,
lækurinn hjalar,
stansað við Stakkholtsgjá.

 

25.06.15

Höfum rambað um mel og í rásum
á rútubíl stynjandi hásum.
Þá er ómaksins vert
og engastund gert
að drífa upp búðir í Básum.

 

Af krafti sem kann enga vægð
er klettaborg jökulvatnsfægð,
gljúfrum öll sorfin
og Gígjökull horfinn
en lifir þó fornri á frægð.

 

Að ofan eins og rök ull
Eyjafjallajökull.
Sá nafnkunni, fríði
er náttúruprýði.
Dýrðarinnar djö…gull!

 

07.07.-18.07.15

Úr annarri hringferð:

Með Fróni við stöndum og föllum,
fögnum þess kostum og göllum:
Loftfærslan hröð
við Hrauneyjastöð
en alltaf er fagurt á fjöllum.

 

Brautin er þvottabretti
svo bílinn í fyrsta gír setti.
Í Landmannalaugum
er lið samt í haugum
og smælið á hverju smetti.

 

Hrauneyjar – Landeyjahöfn.
Fyrir hrynjandi ágætis nöfn.
Nú verð ég að þreyja.
Til Vestmannaeyja
klýfur dallurinn dröfn.

 

Sveittur nú sit ég á dollunni,
sjálfsagt að skila út rollunni
sem át af í gær
úrbeinað lær.
Næsta mál: Móka í mollunni.

 

Efalaust oft hafið keyrt
áleiðis framhjá og heyrt
þessar hlálegu sögur
um að Hlíðin sé fögur.
Já, sölumenn engu fá eirt.

 

Um Gunnar er togað og teygt,
t.d. heyrist því fleygt
að tauma- í -skaki
hann skylli af baki
– og aumingja bóndinn sá bleikt!

 

10.07.15

Hve fagurt í þurrki og þey!
Er því nú að heilsa? Ó nei!
Í hávaðaroki
mér er hætta á foki
ofan af Dyrhólaey.

 

Ef stuðlar ei v með v-i
í vandræðum lendir og straffi.
En burtséð frá því
mun ég borða á ný
silung á Systrakaffi.

 

12.07.15

Á Íslandi vítt er til veggja
og vandalaust farið bil beggja.
En á ákveðnum stöðum
þarf að standa í röðum
og bílnum ólöglega leggja.

 

Margt skrýtið til skoðunar vel,
mig skúbba samt þessu ég tel.
Að Hrúturinn Hreinn
fari hringveginn einn
og hvílist við Sænautasel!

 

Túrað í kulda og trekki
en tanað í sólskini ekki.
Ferðin því varð hröð
í funandi jarðböð.
Þannig ég landið mitt þekki.

 

Umhyggjan engu lík,
í anda og hjarta rík.
Sit ég og tsjilla
hjá Systu og Villa
í heimsókn á Húsavík.

 

25.07.15

Lífið ei lukkuna sparði
er laugardeginum varði
með Guðrúnu’ og Gunna.
Glampandi sunna
og skjól í Skallagrímsgarði.

 

08.11.15

Tíminn strýkur um strengi,
styrkum höndum – og lengi
órar mann síst
það eitt sem er víst:
-Valt er veraldar gengi-

 

26.11.15

Þorbjörg systir mín er sextug í dag:

Var skammaður, kjassaður, kysstur,
já, kærleikur innstur og ystur.
Þetta’er öryggisnetið
og aldrei fullmetið
að eiga svo ágæta systur.

 

01.12.15

Þessi í Erfðagreiningu situr ekki alltaf á friðarstóli:

Til eilífðar skemmtir með skvaldri
skrattanum. Ritar með galdri
svartagallsletur:
„Setjið á vetur
karl á áttræðisaldri“.

 

29.12.15

Virðist mér veröldin dormi
vær, bæði’ í efni og formi.
Kann líka ske
kyrrðin að sé
stilla á undan stormi?

 

16.03.16

„Krónan er gjaldmiðill góður“,
gjammar Sigmundur móður.
Auð sinn þó felur
sá óprúttni melur.
Á Tortólu svimandi sjóður!

 

Svo núna í fréttirnar fari,
fljótur, mér liggur á svari!
Úr klóm þarf að smjúga
svo hverju má ljúga
Jóhannes útskýrari?

 

25.03.16

„Bar ekki siðferðileg skylda til að segja frá“ Wintris-hneysunni var haft eftir SDG í fjölmiðlum:

„Sjái valdsmenn að sér“.
Svo orðum Hallgrímur fer
um siðferði þitt,
þvælt og marglitt.
Keisarinn kviknakinn er.

 

15.04.16

„Þetta er ógeðslegt samfélag“, er haft eftir ritstjóra nokkrum í Rannsóknarskýrslu Alþingis:

Fyrir skattaskjólum svag
og skófla undan þjóðarhag
allt frá stríðsgróðaflaum
að stórveisluglaum.
Hver bað um svona samfélag?

 

17.04.16

Sitt kvæðasafn Kári nú þylur,
og kaldhæðni sína ei dylur,
sem er helvíti svalt,
enda hljómar það allt
eins og blindöskuþreifandi bylur!

 

21.04.16

Kjaradeilur eru daglegt brauð og heilu stéttirnar samningslausar mánuðum saman:

BHM súran með svip
þó sannlega bjóðist uppgrip
(en vissir vankantar):
Háseta vantar
á kvalaskoðunarskip.

 

15.06.16

Christiano Ronaldo var beygður í viðtölum eftir jafntefli gegn Íslendingum í fyrsta leik á EM og fékk það óþvegið frá heimspressunni í kjölfarið:

Vill hann mjög greiðsluna vanda.
Fyrir virkni til fóta og handa
fyrstur oft valinn.
Um veröld nú talinn
„lítilla sæva og sanda“.

 

16.06.16

Einhver verður að taka upp hanskann fyrir vesalings drenginn frá Madeira sem á ekki sjö dagana sæla:

Mikill var framherjans feillinn
er fráhverfur laumaðist veill inn
með orðhengilshátt.
En þetta gaman er grátt.
Einelti heitir það, heillin!

 

02.07.16

Hera frá Þóroddsstöðum setti heimsmet í 250 m. skeiði á Landsmóti hestamanna að Hólum í Hjaltadal, með dyggri aðstoð Bjarna Bjarnasonar:

Heimsmetið fallið á Hólum!
Hera nú bjargaði jólum
hjá Vekurðar-Bjarna.
Vittu atarna!!
Þau snjöllustu byggðum á bólum!!

 

02.07.16

Lagður af stað í hringferð um landið með ástralska skólakrakka og nokkra kennara þeirra. Fyrsti áningarstaður Hvammstangi:

Eftir mæðu og mimru
og margþvælda orðhengilsimru
á Hvammstangabraut
heilann ég braut
niður í lélega limru.

 

23.07.16

Úr enn einni rútuferðinni:

Áði hjá Urriðafossi
(ekki þó ferðast á hrossi).
Þá spurn nú fram ber
sem brennur á mér:
Líður að kveðjukossi?

 

Vel haldinn, úr hungri ei dey
og á Hótel Dyrhólaey
engu ég kvíði
þó kvöldverðar bíði
því allt er í harðindum hey.

 

26.07.16

Enn á ferðinni akandi, nú til fjalla:

Heiðríkt! Nú út sér úr augum!
Og enginn er farinn á taugum!
Fjallabaksleið
furðu er greið
og fagurt í Landmannalaugum.

 

27.07.16

Frekari skýringar óþarfar:

Hérna eirum vér oss,
engan berum vér kross
nema túrhestanauð.
Mér sárabót bauð
sólin við Seljalandsfoss.

 

Eftir vílin og vomin
vindgang og kviðverki. Sko minn!
Fékk sér af mat
og vaskaði fat.
Nú dagur að kveldi er kominn.

 

Kvöldsólin er oft dásamlega falleg:

Dálitla, gula duggan
damlar á leið í skuggann.
Sólgullið fley
siglir í þey.
Útsýn um eldhúsgluggann.

 

03.08.16

Enn á ferðinni. Öræfajökull og Hvannadalshnjúkur blasa við á björtum degi:

Í sálinni mjög verð ég mjúkur
og máttlaus nánast minn búkur.
Deyfðin útskýrð
með náttúrudýrð
sem framleiðir Hvannadalshnjúkur.

 

06.08.16

Gist og etinn kvöldskattur á Hótel Önnu, Moldnúpi:

Ilmur nær áhugann kveikja
svo út um er farinn að sleikja.
Hótelið: Anna,
etin hin sanna
fyrirtaks Fagradalsbleikja.

 

Frá sama stað, út um herbergisgluggann:

Byrjað enn bílstjórarandið
og býsnagott er á mér standið.
Ég lít út um gluggann,
sé ljósið og skuggann
leika og glettast við landið.

 

07.08.16

Limruæfingar:

Mér svellþykkir sendir að gjöf ull-
arsokkar. Þeir reyndust ei gjöfull
vermir. Því míg
í skóna. Ei lýg.
Helvítis, andskotans djöfull.

 

Það ætlar að lát’ undan löngunum,
liggur hvers annars í föngunum,
læðist svo kímið
í lokaða rýmið
en graðhestamúsik á göngunum.

 

Slopp með hnöppum ei hneppi,
hnappaklappinu sleppi.
Slappur í tröppum.
Sveppir á löppum.
Úr leppum. Happið þá hreppi.

 

08.08.16

Horft upp í Öræfajökul neðan af Ingólfshöfða-söndum:

Á háborði hátíðardúkur
alhvítur úr fjarlægð, og mjúkur.
Fullhuginn skýri
við Fagurhólsmýri,
er reistur Rótarfellshnjúkur.

 

Og áfram er ekið til vesturs, heim á leið:

Nú er ég kominn að Klaustri,
keyrði þangað úr austri.
Setið í vaffi
Systra- í – kaffi
áfram svo farið í flaustri.

 

Varúð á vegunum mjóum
því vaggandi kerruna drógum.
Pínd áfram tík,
pissað í Vík
og anað svo áfram að Skógum.

 

Brunað frá Skógum í skyndi
(skæð Eyjafjöllin í vindi)
um Hvolsvöll og Hellu
á heimleið til kellu,
við Bitru allt leikur í lyndi.

 

05.09.16

Mannlýsingar:

Vammið við er spyrtur,
veruleikafirrtur,
í beinum eitur,
undirleitur,
til fárra fiska virtur.

 

Um háriđ vel er hirtur,
hálstau, sléttar skyrtur,
hjartaheitur,
í huga teitur,
vel af öllum virtur.

 

Blótandi og byrstur,
í brennivínið þyrstur,
einskis nýtur
augum gýtur,
flýr af hólmi fyrstur.

 

17.09.16

Stinga má höfði í stein,
stilla þar fókus og brain.
Sjá laftunguhunda
lúpast að Munda
og bítast um Panamabein.

 

22.09.16

Nú er ég léttur í lund
á leiðinni suður, á Grund.
Með mér það ber,
að mín núna er
ævi á elleftu stund.

 

17.11.16

Dagur íslenskrar tungu var í gær, og kórinn söng suður í Hafnarfirði með Kvennakór Hafnarfjarðar:

Hátíð, glaumur og gaman!
Gladdist hópurinn saman!
Allir þar sungu
á íslenskri tungu
og enginn var fúll í framan!

 

25.11.16

Enginn friður var í fjölmiðlum vegna einhvers sem kallað var „black friday“:

Föstudagur til fjár
fannst mér hljóma mun skár.
Vor ævitíð liðin
með íslenska kliðinn.
Dagurinn svartur – og sár.

 

30.11.16

Í kjölfar „Brúneggjamálsins“ beindist gagnrýni að Matvælastofnun fyrir slælegt eftirlit. Halldór teiknaði í Fréttablaðið um eftirlitsiðnaðinn, sem íhaldið vill skera burt. Gildir þá einu hvort er matvælaframleiðsla, fjármálakerfi, ferðamannaiðnaður, velferð eða vinnumarkaður:

Í sólþurrki jörð getur sviðnað
og sérpökkuð frostvara þiðnað.
Lofa skal frelsið,
losum því helsið
og skerum burt eftirlitsiðnað.

 

21.01.17

Ingi Björn Guðnason, Selfyssingur búsettur á Ísafirði, óskaði eftir limru:

Svo Inga Björns efli nú hag
ég ætla að stunda mitt fag.
Limru því yrki
og anda hans styrki.
Það er kjöldráttar dagur í dag.

 

31.01.17

„Kerfisbundin skattsvik með blessun stjórnvalda“ er fyrirsögn dagsins í Fréttatímanum:

Blessaður stóreignabokkinn
með bönd sín um stjórnmálarokkinn.
Spillingin lifi!
Landsmenn það skrifi
á íhald og framsóknarflokkinn.

 

01.02.17

Opinberun:

„I know that they like it a lot,
the ladies, so I give it a shot
and grab them by pussy.
Then I grab me some sushi.
Now, see all the power I’ve got!“

 

Í andliti karlinn er krumpinn,
í kerskni því oft líkt við rumpinn
á óþarfanauti
í flagi. Með tauti
verður þá hvekktur og hvumpinn.

 

8.02.17

Vetrarveðrið:

Eys úr koppum og kirnum
og klessir þessu, svo firnum
sætir, á glugga.
Nú glymur við skrugga
með rafhlöðnum, glóandi glyrnum.

 

13.02.17

Nú var hann Bubbi að byrja,
beljandi falskur, að kyrja
„Bíbí og blaka“.
Öll borgin mun vaka.
Ekki er aþþí að spyrja.

 

Nú er hann Bubbi að byggja,
að býsna mörgu’ er að hyggja.
Vinnuharður, en natinn,
og eftir hádegismatinn
finnst ljúft milli hluta að liggja.

 

Það var aldeilis kjaftur á kellunni
og karlgreyið varð fyrir dellunni
eins og romm út á skyr.
Svo rauk hann á dyr
er náði hún fjórtándu fellunni.

 

14.02.17

Það er hálftómt í helvítis glasinu
og hundaskítur í grasinu
hjá Guðmundi ríka
sem reynir víst líka
að lifa á borgarabrasinu.

 

15.02.17

Það þarf að einkavæða fyrir vinina:

Ekkert nú ætla að drolla
og enn síður leggja þeir bolla-
því einka skal væða
fyrir vini að græða
en við borgum vegatolla.

 

08.03.17

Hjá Lúlla var ljóður á ráði
að löngun af honum bráði
í félagsskap kvenna
og ei honum að kenna
hve Þjóðhildur ákaft hann þráði.

 

Systur hans Dags eru dökkar
í dúndrandi yfirvigt, klökkar
af innbyrgðri mildi
sem enginn þó skildi.
Þetta fordómasamfélag sökkar.

 

Stundum hangi heima
um helgar, læt mig dreyma
Kvasis um blóð,
svo Braga í slóð
„einn um nótt ég sveima“.

 

17.03.17

Það var dansað og drukkið á Hóli,
meðan dragspilið þandi hann Óli.
Úr söngbókum lunginn
til morguns var sunginn.
Í pásunum púaður njóli.

 

18.03.17

Veðrið á Íslandi fylgir sjaldan árstíðum:

Eftir vorblíðu’ í allan vetur,
sem vanann úr skorðum setur,
kemur vetur í vor
með vesöld og hor
svo ég þarf að búa mig betur.

 

14.04.17

Ríkisstjórnin svíkur öll loforð og „boðar fimm ára fjármálaáætlun sem gengur í berhögg við fyrri yfirlýsingar um endurreisn heilbrigðiskerfis og sókn í menntamálum“, skrifar Torfi Tulinius:

Ræningjaflokkar um Frón
fara sem veiðislyng ljón.
Stjórnin þá styður
og stelur, því miður.
Þýfið er þjóðfélagstjón.

 

15.04.17

Apríl er ekki alslæmur, alltaf. En stutt í kuldann:

Bylgjast nú sængur á snúru.
Sviðið með vorlegri flúru.
Himinfley siglir.
En svalinn sig ygglir:
,,Bragða skal svörður á súru!“

 

03.05.17

Vigdís nokkur tjáði sig, eftir nokkurt hlé, um ágæti mestu afturhaldsklíkunnar í Framsóknarflokknum:

Vigdís í kjaftinum kræf.
Guðfinnu gefur hún five
og Simma og Braga.
Ja, svei alla daga!
‘Bat out of hell’ is alive!

 

16.05.17

Það var skammt til þess skylli á þoka
svo Skammólfur ákvað að doka
því lítið var ljós.
Það var draumur í dós.
En kamrinum láðist að loka.

 

08.06.17

Rómantíkin ríður mér á slig
er reyni’ að taka hana’ á næsta stig.
Ég er latur og leiður,
ljótur og breiður
en Anna er alltaf söm við sig.

 

06.07.17

Í fréttum var að breskar unglingsstúlkur flykkist í skurðaðgerðir til að láta „fegra“ skapabarma sína:

Breskar í biðröðum standa
barnungar stúlkur í vanda.
Sárri, að vísu,
sjálfsmyndarkrísu
klámstöðlum heiður til handa.

 

14.07.17

Örlítil sjálfsupphafning:

Mætti ég biðj’ um það betra
en bráðgóða limru hér letra
sem dáðst verður að
og dreift svo með hrað-
i til mörlandans menningarsetra?

 

15.07.17

Nú líklegast legg ég mig bara
og lífsneistann reyni að spara,
leggst undir feld,
reyni svo eld
að skotsilfri mínu að skara.

 

16.07.17

Kvennalandsliðið í knattspyrnu stillti sér upp til myndatöku í uppgöngutröppur flugvélar, með þjálfarateymið fremst á myndinni:

Öll barátta blæs út í vind,
hér blasir við feðranna synd
sem gróflega ‘fokkar’
í stelpunum okkar
á karlamengaðri mynd!

 

Endurminningin merlar …

Rétt tæplega tuttugu vetra
og tveggja, ég svam lokametra
sem heimalningsfjandi.
Hún dró mig að landi
(og undir sig vandi).
Hvað getum við beðið um betra?

 

18.07.17

Íslenskt sumarveður?

Nú skal ei trylla og tæta
heldur trygglega heimilis gæta.
Svo andsjálfið finni
heldur mér inni
heiðarleg hásumarvæta.

 

Forseti lýðveldisins var í miðri áhorfendaþvögunni á fyrsta leik Íslands á EM í Hollandi:

Forsetinn var ekk’ í VIP stúku,
vaskur hann sat hjá þeim flippsjúku.
Við voðalegt stappið
og víkingaklappið
króníska fékk hann svo kipplúku.

 

10.08.17

Liðið er stefnulaust, starandi,
sturlun í augunum, farandi
gráðugra, graðara
hærra og hraðara,
hvergi sperringinn sparandi.

 

Í hreppnum varð héraðsbrestur,
hrakinn í burtu gestur.
Þar greip um sig ótti
því ‘onum þótti
sannleikur sagna bestur.

 

Karl er að smyrja og smúla
og smælar með uppglenntan túla.
Þó ákaft það reyni
og orku í beini
hann fer ekki’ í skóna hans Skúla.

 

11.08.17

Sigfinnur stekkur á stöng
um starmýrar vorkvöldin löng.
Þó alla hann toppi
í ónytjuhoppi
bresta þó svanir í söng.

 

Valur er fáséður fugl
sem flaug í sumar af BUGL.
Um mela og móa
mest er að dóa
þyljandi voðalegt þrugl.

 

Margt er í pípum hjá Páli,
pilturinn eins og á báli!
Í seglin fær byr
og Sigríði spyr:
,,Viltu kjúklingasalat með káli?“

 

Friðsamur búsmalinn bítur.
Bærinn er málaður hvítur.
Gælir við vangann
golunnar angan.
Við túngarðinn túristi skítur.

 

Nútíma kynhneigð er krísa
og hvötunum erfitt að lýsa.
Þó eikynhneigð geisi
og náttúruleysi,
faðmist nú, piltur og físa!

 

12.08.17

Bóthildur hvergi var bangin
og bónorðið dró ekki’ á langinn:
,,Ég brúðgumann el
og bragðast mun vel
Hólmfreður, reiktur og hanginn“.

 

Sigmundur Davíð er súr
því Sigríður And. er á túr
um Eimreiðarlendur
og honum ei stendur
á sama um sjálfseigin kúr.

 

Margt er í myrkrinu falið.
Að magna upp ótta er galið.
Kvalir og helsi.
Konan þarf frelsi.
Þar liggur vandinn og valið.

 

19.08.17

Hún Gréta Rós Grétars. frá Lundum
var grátlega fyndin á stundum.
Úr læðingi leysti
lof og háreisti.
Samt var hún ferleg á fundum.

 

Mynd birtist af Bandaríkjaforseta við stýri í bátkænu, blásandi í KluKluxKlan-seglið:

Heimsmyndin: Lok, lok og læs.
Lífsspekin: Enginn er næs.
Á kynþáttahyggju
ýtt er frá bryggju.
Í seglin bastarður blæs.

 

24.08.17

Nú verður að gæta að orðum sínum – og hugsunum!

Alveg var Eiríkur sleginn
því of þótti bolurinn fleginn
og máls á því ljáði.
Í myrkvuðu háði
karlinn var fljótlega fleginn.

 

Sjaldan það kemur að sök
ef á segli og vindi kann tök
og Týr hélt það slyppi
þó á Tinnu hann skryppi
en aldrei er ein Bára stök.

 

27.08.17

Jarðskjálftar í Bárðarbungu …

Í bríma sér byltu og óku
svo burtu gaflana tóku
Bárður og frú
og rétt fyrir 3
bunguna skjálftarnir skóku.

 

Við lækinn var Geir talinn latastur,
lá þar, í andanum flatastur,
langt fram á haust.
Þá brýndi hann raust:
,,Enginn er einna hvatastur“.

 

Margrét Guðmundsdóttir, íslenskan í forgang?

Það er maðkur í móðurmálstægjunum
svo af metnaði sá skal nú fræjunum
til afburðarmennsku
í ritlist, á ensku,
sunnlensku bóka- í bæjunum.

 

2.11.17

Við hjónin drifum okkur í óperuna og þar var hægt að gleyma svikum Vg um stund:

Með pörupiltanna þroska
í pólitíkinni froska
sit uppi með.
Mildar þó geð
tilþrifasöngur í Tosca.

 

21.11.17

Hallmundur Guðmundsson, hagyrðingur á Hvammstanga, birtir á Fjasbók stundum myndir af sér, og gjarnan vísur með, við störf hjá vegagerðinni, við sjnómokstur á vegum eða viðhald þeirra:

Hallmundur hreinsiskati
heiðina ruddi – í plati
en lokaði veginum
og sig lagði að deginum
í ríkisapparati.

 

22.11.17

Lárus Ágúst Bragason skrifar gjarnan athugasemdir við vísur mínar, eitthvað á þessa leið: ,,,,,,,,,,,,,,,, nú styttist í ljóðabókina ,,,,,,,,,,,,,,,

Styður mig, „stuðlafallsblókina“
þó „stefjahrun“ renni í brókina.
Hann er stopull og stirður
og „stórlítils“ virður
leirinn, í ljóðabókina.

 

Gæti loks stillt mína strengi
og staðið í blóma, mjög lengi,
ævintýr lifað
og ljóð um þau skrifað
ef að nú fimmeyring fengi.

 

27.11.17

Ásmundur Einar var ánægður með málefnasamning ríkisstjórnar sem hann var að setjast í, án þess að hafa fengið ítarlega kynningu á honum. Allir muna líka hvernig hann flúði á mettíma úr framsóknarflokki Steingríms J. yfir í framóknarflokk Sigmundar Davíðs:

Ásmundur Einar Daða
ekki nú telur skaða
að fordæmispretti
fyrrum hann setti
er flúði á hámarkshraða.

 

16.12.17

Að berjast með oddi og egg
ég ætla, en forsjáll þó legg
hugann í bleyti.
Einnig því heiti
að skerða ei hár mitt né skegg.

 

07.01.18

Veðurlýsing:

Vætan er lárétt og lemjandi.
Löðrandi stormurinn emjandi.
Rigning og rok!
Rennbleytufok!
Blautlega söngvana semjandi.

 

21.05.18

Oddviti Árneshrepps á Ströndum er einörð fylgiskona Hvalárvirkjunar og gerir ekkert, segir ekkert og ákveður ekkert í nafni hreppsins varðandi virkjunarmálin án þess að ráðgast við HS Orku og framkvæmdastjóra Vesturverks, verktakafyrirtækis sem hefur virkjanaframkvæmdir á sinni könnu:

Oddvitinn vestur- með verk
í vinstri mjöðm, en samt sterk.
Með stikkorðum lærðum
líkn veitir særðum
hreppsnefndin, mikil og merk.

 

28.06.18

Enn á ferðinni með túrista:

Á sig broddana binda
og belti með öryggislinda.
Samhæfð og vökul
á Sólheimajökul
sér um vegleysur vinda.

 

25.07.18

Staddur í svokölluðu Fontana á Laugarvatni:

Í gullnu minningaglufunni
geng nú að einni prufunni
að komast á legg
er klifr’ yfir vegg,
fullur, í Gömlu gufunni.

 

09.08.18

Er Úlfgrímur raknaði’ úr rotinu
í rykugu, dimmasta skotinu,
kom stuna og hósti,
hann stóð upp, með þjósti:
,,Fjandinn að neiti ég flotinu“.

 

14.09.18

Verjendur hinna dæmdu í Guðmundar- og Geirfinnsmálum, sem töluðu tæpitungulaust, voru sagðir hafa verið „myrkir í máli“.

Friðsælt í brandi og báli.
Bómullin gerð er úr stáli.
Sér Geirmundur breytir,
nú Guðfinnur heitir.
Verjendur myrkir í máli.

 

25.10.18

Bragginn er eilífur og danska melgresið. Og Gunnar Gunnarsson skrifaði Leik að stráum í Danmörku:

Víst er að sjaldan við sjáum
samhengið, þó að við gáum.
Burst eða braggi?
Í blíðunnar vaggi
ljúfur er „Leikur að stráum“.

 

Ef stóru nú mænum á myndina
við mígum í uppsprettulindina.
Á heildina litið
úr nál er ei bitið.
Þetta er neðan við þindina.

 

27.10.18

Ólafur Ragnar sagði frá því í útvarpsviðtali, með stolt í rómi, að Dorrit væri búin að láta taka sýni úr hundinum Sámi til varðveislu og síðari tíma klónunar:

Stöðugt á Dorrit má stóla.
Vor stórasta hugmyndaskjóla
„pund fyrir pund“.
Plís! Bara hund,
en klónaðu ekki hann Óla!

 

29.10.18

Listaverki var komið fyrir úti í Tjörninni í Reykjavík. Það var sagt vera „hafpulsa“ til heiðurs Hafmeyjunni frægu í Kaupmannahöfn. Mest minnti það þó á nábleikan mannstittling, og þótti fáum fagurt:

Hún er gefandi, listamannslundin
og í lífinu verðmæt hver stundin.
Með pulsu í Tjörninni,
hversdags í törninni,
andlegur friður er fundinn.

 

31.10.18

„Ég hef ekki verið og er ekki hlynnt þeirri afstöðu að smætta kerfislægan vanda í einstök siðferðileg álitamál sem eru afleiðing aukinnar einstaklingshyggju og einstaklingsvæðingar stjórnmálanna. Það eru mun langdrægari áhrif sem hljótast af því að breyta kerfinu sjálfu“, sagði Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra Íslands, aðspurð um afstöðu sína til ríkisstjórnarsamstarfs Vg og Sjálfstæðisflokksins í ljósi „fjármálagjörninga“ fjármálaráðherrans, Bjarna Benediktssonar:

Ef kvelur oss kerfislæg hætta

skal kerfinu breyta, og þvætta

einstaklingsglæpi

með orðhengils’hæpi’

þó siðferðið þurfi að smætta.

 

03.11.18

Ók starfsfólki (konum) á Dvalarheimilinu Lundi í óvissuferð um Rangárþing. Fyrsti viðkomustaður var Nauthúsagil. Meðan konurnar örkuðu upp í gil með leiðsögumönnum og ég beið eftir hópnum skall á með byl:

Ana í óvissuferð,

úti því sjálfsagt ég verð.

Við Nauthúsagil

norpa í byl.

Glætan að leit verði gerð!

 

14.11.18

„Sjálftökuliðið“ á Alþingi lætur ekki að sér hæða:

„Aukum í aðstoðarleðeð“
(alþinge leit efer sveðeð):
„17 hér vantar.
Sjúklingafantar
og örerkjar enn geta beðeð“.

 

15.11.18

Jón Gnarr fargaði eftirlíkingu af listaverki eftir götulistamanninn Banksy sem hann hafði fengið að gjöf í borgarstjóratíð sinni, þegar íhaldið ætlaði að hanka hann á því að hafa þegið „ósiðlega“ gjöf sem borgarstjóri. Vg verður trúlega fargað í næstu kosningum:

Viðutan eru og ‘vanksí’
vinstrigræn, já eitthvað ‘kranksí’.
Hver verður ei skrýtinn
síétandi skítinn?
Sömu örlaga bíða og Banksy.

 

19.11.18

Ævintýraþema:

Dýrið með fráhnepptan frakkann,
en Fríða þá reigð’ aftur hnakkann:
„Já, hvað vilt’ upp á dekk?“
Um jólin þó fékk
perrinn að kíkja í pakkann.

 

Mjallhvít var góðhjörtuð mey,
mælti víst aldregi: „Nei“!
Er kynnti hann vin sinn
hún sagði við prinsinn:
„Allt er í harðindum hey“!

 

Laumaðist strax út af leið
lagðist í grasið og beið
þolinmóð virtist
þegar hann birtist
Rauðhetta, úlfinum reið.

 

20.11.18

Framhald:

Svo greinir frá Hans og frá Grétu
að grimmir í ofninn þau létu.
Þau gátu loks platað.
(Vegna ríms nú er glatað
að Alþingi afnam hér z).

 

Þyrnirós svaf og hún svaf,
svo bæði missti hún af
Snappi og Tinder.
En á Fjasbók nú mynd er
í kommentum skotin í kaf.

 

Spurt er: Telst Andrés með öndum?
Þetta’ er umdeilt víða í löndum
og milli hópa rís veggur;
Duck eða steggur?
Er Donald brabra í böndum?

 

21.11.18

Meira ævintýraþema:

Það var ólga í Öskubusku
sem æddi um gólfin, með tusku:
„Alveg stein-djöfull-blindir
á staðalímyndir!!!“
hún æpti í morgunsins musku.

 

Kalla má bévítans bullu
blágráan úlf, sem á fullu
hafði korter í 2
étið kiðlinga 7.
Var þá dasaður orðinn, með drullu.

 

Stökk hann úr kerlingar klóm
svo klesstist þar ekki við góm.
„Þessi sætabrauðstæknir
verður trúlega læknir“,
sagði refurinn, skjálfandi róm.

 

Úlfurinn blés og hann blés,
með blóðhlaupin augun og fés.
Þá grísirnir hlógu
uns tveir þeirra dóu.
Já, þessi saga er svolítið spes.

 

Spjátrungur mikill og spaði,
spinnur upp sögur með hraði
og margar til meins,
öll vitleysan eins!
Kötturinn stígvélaði.

 

Loks varð henni mjög á í messunni,
mistök, við fjallið, hjá skessunni!
Hún átti krakka með hor
og kraftmikinn bor
EN LOFTIÐ VAR LEKIÐ AF PRESSUNNI!!!

 

9.11.8

Á Klausturbar tjáði sig eina konan í partíinu:

Af einlægni opnaði sig:
„Það allra versta við þig
er hve þú ert góður
og óljúgfróður!!
Sko, ég er að míga í mig“.

 

30.11.18

Guðmundur í Brimi var í sjónvarpsviðtali:

Glaður við góðverkið dó
er til Guðmundar arðgreiðslur dró
eins og ofalinn kálfur,
en átti sig sjálfur
fagur fiskur í sjó.

 

13.12.18

Sjá má nú Sjálfstæðisflokk
snúandi framsóknarrokk
í vinstri grænum,
hlýðnum og vænum.
Helvítis fokking fokk!

 

21.01.19

Starfsmaður krafðist þess að málverk Gunnlaugs Blöndal af nakinni konu yrði fjarlægt af veggjum Seðlabankans:

Berandi brjóstin þær grafa
bannhelgi feðranna. Krafa
um líkamlegt frelsi.
En er listin í helsi,
fyrst nekt má þar helst ekki hafa?

 

14.02.19

Að ‘drepi mann of mikill asinn’
er aðal nútímafrasinn.
Til að sporna við því
spái ég í
að liggja í bælinu, lasinn.

 

Nú er það náðugt hjá blókinni,
nýtur sín alveg á brókinni,
kannski svolítið spes
en af spenningi les
í Íslensku orðsifjabókinni.

 

Er það ekki aðalaðferðafræðin að gefa erlendum auðhringjum afslátt af öllu mögulegu hérlendis, í nafni atvinnuuppbyggingar og gott ef ekki byggðastefnu? Milljarðahundruð streyma nánast skattfrjáls úr landi fyrir nokkur störf. Og mengun. Nú eru það íslensku firðirnir sem gefa á norskum laxeldisauðhringjum:

Sannleikur helvíti harður!
Vor náttúruauðlindaarður
er útvöldum fáum
leikur að stráum
en vor skrælingjahlutur er skarður.

 

23.02.19

Ólafur Ís. og Karl Gauti gengu (loksins) í Miðflokkinn:

Af bullubulli ríkir.
Við blinda augað kíkir.
Ganga í takt.
Gildismat skakkt.
Sækjast sér um líkir.

 

18.03.19

„Börn fá pítsu að borða ef þau sleppa því að mæta á loftslagsmótmæli“:

Vitiði, þannig er það,
þvílíkt spennandi að
fá pizzu að borða
ef frá uppreisn skal forða.
Í heiminum brotið er blað.

 

25.05.19

Eykst með aldrinum vægi
andans, og frá mér því bægi
fánýtu prjáli.
Finn hverju máli
lausnir í sólarlagi.

 

08.07.19

Heilræðavísa:

Ef setur þig háan á hest,
hafandi mikið, þarft mest!
þá átta- ert villtur,
alveg gjörspilltur.
En batnandi manni er best.

 

„Stjórnmálaskörungur“ dagsins …

Talfærið ljómandi liðugt
við loforðin, jafnvel er sniðugt
hve margt frá í gær
nýja merkingu fær.
Og sumum finnst þetta siðugt!

 

Vísnagerðin …

Vísnagerð lokkar mig löngum
og ég laumast í slíkt eftir föngum.
Reyn’ að hitta í liðinn,
finna ljóðstafakliðinn,
en allt er þó tekið með töngum.

 

22.08.19

Trump ætlaði að kaupa Grænland, rétt sisvona í gegnum Twitter:

„The future there will be just fine and
our freedom and greatness will shine grand
for the right fee.
Folks, you’ll see!“
En það gefur á bátinn við Grænland.

 

05.09.19

„Mektarmenni“ víða um heim hrauna yfir Gretu Thunberg:

Á þekkingu engin er þurrð
er þekjuna skortir nú burð.
Í horn, milli veggja,
hólmsteina leggja.
„Knýr Hösmagi hurð …“.

 

Enn af framtíðarótta hólmsteina þessa heims:

Með frekju sýnir hún sig,
senn kemst á hamfarastig.
Mín heimsmynd er svert!
Já, hvað hefur gert
framtíðin fyrir mig?

 

09.01.20

Katrín forsætisráðherra og Bjarni fjármálaráðherra birtust saman á mynd í blöðunum og fram kom að þau væru samstíga í flestu:

Hún Kata var klárasta stúlka
sem kunni vel prufur að túlka
úr ónýtu heyi.
Í Engeyjarfleyi
situr nú brúður á búlka.

 

02.03.20

Við lestur skáldsögu Megasar, Björn og Sveinn, rakst ég á orðasambandið „fegurð í firðinni“. Prjónaði limru um það:

Bognar margur af byrðinni.
Blundar öskrið í kyrrðinni.
Með spakmælum rjálar
við spegilinn sálar
óræð fegurð í firðinni.

 

04.03.20

Margar vísur kvikna út frá málsháttum og orðtökum:

Oft koma bestu að bæjum

á bílum fullum af græjum,

vinsemdargreiða

til atkvæðaveiða.

Safnast hrafnar að hræjum.

 

10.05.20

Fagráð hrossaræktarinnar setti fram nýtt BLUP fyrir skeiðlausa hesta:

Tryggir reynsla og rótgróin festa

að ræktunarmark mun ei bresta.

Því fram á það fer

við fagráð, þ.e.

sér Blup fyrir hauslausa hesta.

 

03.06.20

Það var „hálfgaman að því“ í dag. Allt að trimmast til og ekki nema eitt andapar sem flaug upp úr skurði og fældi hæfilega undir mér, svo það var bara hálf gaman að því líka:

Nú er að teyma í trossunum,

til sín að finna, með hnossunum.

Hálf gaman að því,

að gangur er í

hreyfingu’ á langferðahrossunum.

 

25.06.20

Hjá Bínu var gangurinn blússandi

í blíðunni úti við stússandi.

Langt fram yfir mat

maðurinn sat

á gólfinu, teikningar tússandi.

 

Í löggunni Bibbi var latastur,

við leiðindin allra samt hvatastur.

Svo limran nú rími

ég neðan við lími:

Flóinn er héraða flatastur.

 

08.07.20

Vinirnir, Steini og Stjáni

stóðu á gati’ yfir … sotlu

frá honum Djeims.

Hins fallandi heims

fullur merlar nú máni.

 

Allskonar lögmálum lútum

sem lærum í heild eða bútum.

Ef veltum við steinum

ei staðreyndum leynum:

Falskur er margur í mútum.

 

11.07.20

Í fínustu taugar nú fékk

foráttuhrylling og skrekk

af galtyngi örgu

úr Gísla og Björgu.

Úr sófanum stend upp, og slekk.

 

13.07.20

Engu er yfir að væla,

aðeins við heiminum smæla.

Konan í fríi

og karlinn á skýi.

Sjö eigum dagana sæla.

 

Þó löngum laklega skaffi

lítt hefur verið í straffi.

Á spánnýjan pallinn

sporléttur kallinn

færir konunni kaffi

 

Á toppnum mun töluvert kalt

og talið að lánið sé valt,

hinn fegursti frami

framhaldið lami,

hverfult í heiminum allt.

 

16.08.20

Þorsteinn Már sagðist hafa verið sérlega óheppinn með strafsfólk þar suðrí Namibíu:

Óheyrileg sjávarseltan

og svakaleg starfsmannaveltan.

Er miður sín Mái,

manninn ég dái

en ólánið virðist elt’ann.

 

20.08.20

Það var allt í fári innan sýslumannsembættisins í Keflavík vegna eineltis- og ráðningamála, svo yfirlögfræðingurinn þurfti að fara í veikindaleyfi eftir að hafa ráðið eiginmann sinn í starf, fram yfir hæfari umsækjanda:

Von sínum manni hún veifi

og við hans framgangi hreyfi.

En fáirðu gest

gagnast oft best

að vera í veikindaleyfi.

 

30.08.20

Oftast í almannaróm

áfellis- birtum við dóm.

Dýr eru orðin.

Eldhús- við borðin

töluð er vitleysan tóm.

 

03.10.20

Stefá Ólafsson sagði að „með því að sleppa óþörfum styrkjum til stóreignafólks sem felast í fjárlagafrumvarpinu“ hefði mátt taka fastar á raunverulegum vanda samfélagsins í kreppunni:

Stuðninssveit Vg er virk

en verkalýðsglóðin almyrk.

Fékk sæti við borðið

en Bjarni með orðið:

„Stóreignafólkið fær styrk“.

 

06.10.20

Óþolinmæði fer vaxandi og margir eru farnir að amast verulega við sóttvarnateyminu og þeim tillögum sem það leggur fram, m.a. eru þar á ferðinni þingmenn Sjálfstæðisflokksins:

Ei skal við Þórólfi amast

þó allt sé nú þjóðlíf að lamast,

(né Ölmu og Víði

sem eru alveg til prýði)

heldur þeim sem er taumleysið tamast.

 

07.10.20

Það var dalalæða í morgun yfir Ölfusánni og fagurt yfir að líta neðan frá ströndinni:

Það lá marengs á marglaga kökunni

í morgun, því skaut ég fram hökunni

og einbeitti mér

að akstri. Nú er

uppleyst, með varma í vökunni.

 

Vinstri grænar konur misstu vatn af vandlætingu yfir því að Ágúst Ólafur vogaði sér að gagnrýna forsætisráðherra, kölluðu það botnlausa kvenfyrirlitningu, og fengu stuðning úr ýmsum áttum. Aðalheiður Ámundadóttir skrifaði leiðara í Fréttablaðið þar sem hún tók ákveðna femínistakreðsu í gegn. Sama dag birtist grein á Netinu með fyrirsögninni: „Við eigum að hlúa vel að píkunni okkar“:

Í stjórnmálum kemstu á klíkunni

að kötlunum – margur vel því kunni.

Ef sannleikann sér

mun heykvíslaher

passa að hlúa að píkunni.

 

19.10.20

Hauströkkrið yfir nú hangir,

herða að vetrarins tangir.

Í myrkri og þögn

metur þín gögn

hvort ei í grafgötur gangir?

 

Vex mér æ farsældarfimin,

ég finn vel að gamla rimin

sem hangi nú í

heldur, sem ný,

ef horfi í stjörnuhimin.

 

28.10.20

Kári Stefánsson var í Kastljósi, hjá Einari Þorsteinssyni sem þótti hafa farið offari gegn Páli Matthíassyni skömmu áður í sama þætti:

Veiran er rokin á ramb,

mót rótinu gagnast ei dramb.

Í Kastljósi Kári,

hinn afburðaklári,

svo Einar er ljúfur sem lamb.

03.11.20

Við lifum nú tímana tætta

og trauðla fáum þá bætta.

Trump gæti tapað,

tunglið vel hrapað

og Steingrímur, hann er að hætta.

 

Spakir nú bíða í spenníngi,

spáð ýmist yl eða renníngi.

Hvernig sem veltist

eða vonbrigðið meltist

eru hliðar tvær hverjum á penníngi.

 

07.11.20

„Make America great again“ er slagorð á derhúfum stuðningsmanna Trumps, með merkimiðanum „Made in China“:

Er innlendan iðnað vill styrkja,

amríska handaflið virkja

og múrana byggja

að mörgu’ er að hyggja

því Kvínverja verður að kyrkja.

 

Sléttubönd

Sléttubönd er nafn á einum hinna íslensku rímnahátta. Þau eru afbrigði af ferskeytlu, þ.e. fjórar braglínur með víxluðu endarími (aBaB), fjóra bragliði í 1. og 3. hendingu, sem enda á stýfðum lið, og þrjár kveður í 2. og 4. hendingu, rétta tvíliði.

 

Bragfræðileg sérkenni sléttubanda, sem skera þau frá hinni einföldu ferskeytlu, eru að fyrsti bragliður í 1. og 3. línu þurfa að ríma, og að stuðlarnir verða að standa í tveimur öftustu kveðunum (3. og 4.) í 1. og 3. línu. Ef svo er má lesa vísuna „afturábak“ án þess að brjóta bragreglur eða raska einkennum bragarháttarins.

 

Megingaldurinn við gerð sléttubanda er að merkingin snúist þegar þau eru lesin afturábak. Ef það tekst eru þau kölluð „refhverf“. Síðan er hægt að leika sér að því að blanda öðrum afbrigðum ferskeytlunnar við sléttuböndin, t.d. hringhendu og oddhendu, og svo sem að prjóna við rími að vild.

 

Þessi bragarháttur hefur jafnan verið talinn allsnúinn og kallaður „dýr“, ekki síst hin refhverfu sléttubönd. Gæði eða „dýrleiki“ sléttubanda, eins og alls kveðskapar, grundvallast svo auðvitað á því að fallega, vel og leikandi sé kveðið.

 

Hér hef ég tekið saman þau sléttubönd (42) sem ég fann í pússi mínum.Þar af eru 18 refhverf. Þau eru auðvitað misjöfn að gæðum og standast ekki samanburð við slétttubönd góðra hagyrðinga, en inni á milli gætu leynst þokkalega kveðnar vísur. Hvað sem því líður er það ákaflega skemmtileg iðja og hugarleikfimi að setja saman sléttubönd, og það ættu allir að reyna:

 

Inngönguvísa á póstlistann Leir; hringhent:

Margir róta ljótum leir,

lyga njóta sögu.

Argir blóta þrjótar þeir

þegar móta bögu.

 

Bögu móta, þegar þeir

þrjótar blóta argir.

Sögu njóta, lygaleir

ljótum róta margir.

 

Jón Ingvar Jónsson opnaði bloggsíðu á Netinu; hringhent, víxlrímað:

Hraður mundar gleiðan gogg,

glópa marga hræðir.

Glaður stundar bögublogg,

búra arga hæðir.

 

Hæðir arga búra, blogg

bögu stundar glaður.

Hræðir marga glópa, gogg

gleiðan mundar hraður.

 

Á Hryllingsvöku á Hótel Geysi; hringhent:

Krafta villta finn ég frá

fólum, snilli betri.

Rafta fylli, skammaskrá

skrifa gylltu letri.

 

Letri gylltu skrifa skrá,

skamma fyllirafta.

Betri snilli, fótum frá

finn ég villta krafta.

 

Af sama tilefni; refhverft, hringhent:

Geisla stillur, skímuskrá

skreytt er gylltu letri.

Beisla Hrylling, ekki á

annan snilling betri.

 

Betri snilling annan á,

ekki Hrylling beisla.

Letri gylltu skreytt er skrá,

skímustillur geisla.

 

Ort á „Leir“ um Fíu á Sandi; hringhent, víxlrímað:

Fía opnar sálarsjóð,

silfurglingrið fína.

Nýja vopnið, ljúflingsljóð,

listafingur brýna.

 

Brýna fingur listaljóð,

ljúflingsvopnið nýja.

Fína glingrið, silfursjóð,

sálar opnar Fía.

 

Styrkir Fía þessa þjóð,

þýðu máli beitir.

Yrkir pían fullvel, fljóð

fögnuð sálu veitir.

 

Veitir sálu fögnuð fljóð,

fullvel pían yrkir.

Beitir máli þýðu, þjóð

þessa Fía styrkir.

 

Ort á „Leir“ um Pétur Stefánsson; refhverft, hringhent, víxlrímað (Pétur svaraði auðvitað þessu gamni á viðeigandi hátt):

Kætir vífið, fráleitt fer

fullur gamli Pétur.

Bætir lífið, ekki er

óður saminn betur!

 

Betur saminn óður er,

ekki lífið bætir.

Pétur gamli fullur fer,

fráleitt vífið kætir.

 

Bragarbót um Pétur; hringhent:

Pétur okkar fremstur fer,

fínar kokkar vísur.

Getur lokkað heilan her,

halur þokkar skvísur.

 

Skvísur þokkar, halur her

heilan lokkað getur.

Vísur kokkar fínar, fer

fremstur okkar Pétur.

 

Myrkrastóðin; refhverft, hringhent:

Vefur gróðinn meinum menn,

myrkrastóðin slægu.

Hefur þjóðin ekki enn

úthellt blóði nægu?

 

Nægu blóði úthellt enn

ekki þjóðin hefur.

Slægu stóðin, myrkramenn

meinum gróðinn vefur.

 

Um rauðstjörnótt merfolald; hringhent, oddhent m.m.:

Þjóðar slóða hróðri hlóð,

hófaljóðin skildi:

Óðar rjóða, góða Glóð

ganginn bjóða vildi.

 

Vildi bjóða ganginn, Glóð

góða, rjóða óðar.

Skildi ljóðin hófa, hlóð

hróðri slóða þjóðar.

 

Sjálfslýsingar; refhverfar:

Þjónar, stritar, sjaldan sér

sjálfum hampar maður.

Bónar, skúrar, ekki er

argur, leiður, staður.

 

Staður, leiður, argur er,

ekki skúrar, bónar.

Maður hampar sjálfum sér,

sjaldan stritar, þjónar.

 

Hálfur eða fullur fer,

fráleitt drykkju stjórnar.

Sjálfur veldur, þrekið þver

þeigi sopa fórnar.

 

Fórnar sopa, þeigi þver

þrekið, veldur sjálfur.

Stjórnar drykkju, fráleitt fer

fullur eða hálfur.

 

Á útreiðum; hringhent:

Vorið seiðir þýðar þrár,

þerrur breiðir hlýjar.

Sporið greiðir kátur klár

kannar leiðir nýjar.

 

Nýjar leiðir kannar klár,

kátur greiðir sporið.

Hlýjar breiðir þerrur, þrár

þýðar seiðir vorið.

 

Fyrsta haustæfingin; hringhent:

Sýnir haustið stílbrögð stór,

storð á vetur setur.

Brýnir raust í karlakór

hver sem betur getur.

 

Getur betur, hver sem kór

karla raust í brýnir.

Setur vetur storð á stór

stílbrögð, haustið sýnir.

 

Bjartsýni; hringhent:

Maður kvartar ekki oft,
augun skarta bliki.
Glaður svarta lífsins loft
lít, og bjartur þyki.

 

Þyki bjartur, lít og loft

lífsins svarta, glaður.

Bliki skarta augun oft,

ekki kvartar maður.

 

Ákvörðun ríkislögreglustjóra um „aukinn sýnileika vopnaðra lögreglumanna á fjölmennum útisamkomum“ er umdeild; refhverft, hringhent:

Siðar löggu, fráleitt fer
fyrstur að bögga lýðinn.
Friðar glöggur, ekki er
eilíft að ‘plögga’ stríðin.

 

Stríðin að ‘plögga’ eilíft er,

ekki glöggur friðar.

Lýðinn að ‘bögga’ fyrstur fer,

fráleitt löggu siðar.

 

Drengur góður; hringhent:

Drengur góður alltaf ert,
ekki bróður hnjóður.
Fengur tróðu -silki sért,
síður óður skjóður.

 

Skjóður óður síður sért,

silkitróðu fengur.

Hnjóður bróður ekki ert

alltaf góður drengur.

 

Frostkaldir dagar; hringhent:

Vetrarmjöllu stirnir strá,
stjarnahöllin glitar,
letrar fjöllin úrug á,
einnig völlinn litar.

 

Litar völlinn, einnig á

úrug fjöllin letrar.

Glitrar höllin stjarna, strá

stirnir mjöllu vetrar.

 

Prýða mjallargeislar gljá
glóð á hjalla tindrar.
Skrýða fjallaeggjar, á
efstu skalla sindrar.

 

Sindrar skalla efstu á,

eggjar fjalla skrýða.

Tindrar hjallaglóð á gljá,

geislar mjallar prýða

 

Refhverft, hringhent:

Myrkur bætir, ekki er
andinn næturvætir.
Styrkur mæti, sjaldan sér
sálin þrætur bætir.

 

Bætir þrætur sálin sér,

sjaldan mæti styrkur.

Vætir nætur andinn er,

ekki bætir myrkur.

 

Mannlýsing, refhverft, hringhent:

Galinn skjóður, ekki er
enn í bróðurgriðum.
Talinn óður, fráleitt fer
fyrir góðum siðum.

 

Siðum góðumfyrir fer,

fráleitt óður talinn.

Griðum bróður enn í er,

ekki skjóður galinn.

 

Hringhent:

Veði Óðins forða frá
frétta glóðarperu.
Beði ljóða unir á,
andans gróðurveru.

 

Veru gróðurandans á

unir ljóðabeði.

Peru glóðar frétta frá,

forða Óðins veði.

 

Kári flýtir, og snýtir sér,
snerrinn, lýtur rúnum.
Dári skrýtinn, ýtinn er,
errinn skýtur brúnum.

 

Brúnum skýtur, errinn er,

ýtinn, skrýtinn dári.

Rúnum lýtur, snerrinn sér

snýtir og flýtir Kári.

 

Lengir kvöldin, vetrar vá
vagni köldum ekur.
Hengir tjöldin úrug á
alheim, völdin tekur.

 

Tekur völdin, alheim á

úrug tjöldin hengir.

Ekur köldum vagni, vá

vetrar kvöldin lengir.

 

Flétturöndin himinhá,
heillar vöndur ljósa.
Sléttuböndin yrkja á,
orðaföndur kjósa.

 

Kjósa föndur orða á,

yrkja sléttuböndin.

Ljósavöndur heillar, há

himinflétturöndin.

 

Dapur hímir runnur rór,
raunir gríma hylur.
Napur tími, kuldakór
kvæði hrímuð þylur.

 

Þylur hrímið kvæði, kór,

kuldatími napur.

Hylur gríma raunir, rór

runnur hímir dapur.

 

Hinn þögli meirihluti; refhverft, hringhent:

Hljóður skari yndi er,
ekki bara þiggur.
Skjóður varinn sómir sér,
sjaldan barinn liggur.

 

Liggur barinn, sjaldan sér

sómir varinn skjóður.

Þiggur bara, ekki er

yndi skari hljóður.

 

Á dimmu og hljóðu vetrarkvöldi; hringhent:

Víðan himna ganginn gengur,
gamla trimmið streðar.
Síðan dimmur strokinn strengur,
stilltur fimmund neðar.

 

Neðar fimmund stilltur strengur,

strokinn dimmur síðan.

Streðar trimmið gamla, gengur

ganginn himna víðan.

 

Sumardagurinn fyrsti; refhverft:

Færir sumar okkur yl,
ekki regni hreytir.
Nærir sálu, trauðla til
trega stormur þreytir.

 

Þreytir stormur trega til,
trauðla sálu nærir.
Hreytir regni, ekki yl
okkur sumar færir.

 

Hugarástand; refhverft, hringhent:

Sefa fyllir ólga ör,
ekki stillur dvelja.
Efagrillu fresta för,
fráleitt villur kvelja.

 

Kvelja villur, fráleitt för

fresta grillu efa.

Dvelja stillur, ekki ör

ólga fyllir sefa.

 

Vísnagerð; hringhent:

Böndin sléttu flétta fín,
fanga rétta braginn.
Höndin þétta, gletta, grín,
gjarnan létta daginn.

 

Daginn létta gjarnan grín,
gletta, þétta höndin.
Braginn rétta fanga, fín
flétta sléttuböndin.

 

Lokbrá; hringhent:

Lokar stundarblundur brá,
bylgjast sundur lundin,
þokar undan grundin grá,
griðum bundin mundin.

 

Mundin bundin griðum, grá
grundin undan þokar,
lundin sundur bylgjast, brá
blundur stundar lokar.

 

Mannlýsing; refhverft, hringhent, víxlrímað:

Maður þessi heldur heit,
hvergi undansláttur.
Glaður hressir sína sveit,
sjaldan blundar máttur.

 

Máttur blundar, sjaldan sveit
sína hressir glaður.
Sláttur undan, hvergi heit
heldur þessi maður.

 

Hallur karlinn; refhverft, hringhent:

Halli skjallið fagurt fer,
fráleitt svallar nætur.
Snjalli kallinn ennþá er,
ekki fallast lætur.

 

Lætur fallast, ekki er
ennþá kallinn snjalli.
Nætur svallar, fráleitt fer
fagurt skjallið Halli.

 

Mannlýsingar; refhverfar, hringhendar:

Skjótast fóta tekur til,
tæpast hótar mönnum.
Rótast grjótið undan il,
ekki blótar grönnum.

 

Grönnum blótar, ekki il
undan grjótið rótast.
Mönnum hótar, tæpast til
tekur fóta skjótast.

 

Breytir nokkuð sjálfum sér,
síður flokka skekur.
Beitir þokka, aldrei er
illur bokki, frekur.

 

Frekur bokki, illur er,
aldrei þokka beitir.
Skekur flokka, síður sér
sjálfum nokkuð breytir.

 

Blessuð veiran; refhverft, hringhent:

Veira skekur heiminn hér
hvergi rekin löndum.
Meira þekur, ekki er
óðar tekin böndum.

 

Böndum tekin óðar er,
ekki þekur meira.
Löndum rekin, hvergi hér
heiminn skekur veira.

 

Náttúrustemmning; hringhent:

Grundin brosir heimi hæf,

himin flosar seiður.

Blundinn losar gola gæf,

glóa mosabreiður.

 

Breiður mosa glóa, gæf

gola losar blundinn.

Seiður flosar himin, hæf

heimi brosir grundin.

 

Náttúrustemmning; refhverft, hringhent:

Sefur grundin vota vær,

varla lundur bærist.

Gefur stundin kossa kær,

hvergi sundur færist.

 

Færist sundur, hvergi kær

kossa stundin gefur.

Bærist lundur, varla vær

vota grundin sefur.

 

Mannlýsingar; refhverfar, hringhendar:

Hatti maður veifar, „ven“,

varla slaður þoli.

Skratti glaður er því enn,

ekki staður foli.

 

Foli staður, ekki enn

er því glaður skratti.

Þoli slaður, varla, „ven“,

veifar maður hatti.

 

Gildur drengur, ekki allt

yfir gengur hroki.

Mildur strengur, hvergi kalt

kvelur, spengir oki.

 

Oki spengir, kvelur kalt,

hvergi strengur mildur.

Hroki gengur yfir allt,

ekki drengur gildur.

 

Forsetakosningarnar westra; hringhent:

Valdabrallið sýndi sig,

svallið alla daga.

Tjaldið fallið, stærra stig

stalli kall af draga.

 

Draga kall af stalli, stig

stærra, fallið tjaldið.

Daga alla svallið, sig

sýndi brallið valda.

 

 

Maður og hestur

Strengur veðrar vanga,
vítisélin bíta,
kæfa vill mig kófið
hvíta, fyllir vitin.
Vel þó gengur, viljug
vindinn klýfur, yndið.
Megnar hreti móti
merin heim mig bera.

 

Í lofti ilmur, aftur

ess og maður hressast,

grey í varpa glóir,

gleymd er vetrareymdin.

Við fótum glymur gata,

grófu skyrpt úr hófum,

ganga vel og viljug

á vorin, létt í spori.

 

Enn við taka annir,

við undirbúning fundar

ferðahesta og firða

því fjalladýrðin kallar.

Riðið hægt úr hlaði,

í hvammi æjum, gammur!

Kapp er kastar toppi,

kveðjum teitir sveitir.

 

Jörðu stikla, jökla

jóar, milli og flóa,

klungur, víðan vanginn

sig vökuleygir teygja

og æðrulausir ása

yfrið bratta klifra.

Snerta hestar hjarta,

heila sálarveilu.

 

Að ferðalokum frækinn

færleik hvíld skal næra.

Gæði sér á góðum

grösum, skjól af hólum,

leiki sér við lækinn,

lýsi eldi af feldi.

Þá haustar, herðir frostið,

að hagaljóma er sómi.

 

Úr dagbókinni 2019

Úr dagbókinn 2019. Safnið telur 175 vísur:

04.01.19

Hvað boðar gleði gamlárskvölds?
Gæfu og lífsfylli?
Já, alltaf þegar arfa og hölds
ekkert kemst í milli.

07.01.18

Það er kominn tími til
að taka niður skrautið.
Um hjalla, sléttur, hæðir, gil
hefst nú daglegt stautið.

Þegar kaldur kreppir skór
og kyndir illa mórinn
hjálpar oss, í anda frjór,
orkumálastjórinn.

09.01.19

Miðflokkurinn þjófstartaði á Klausturbar árlegum Bessastaðafagnaði forseta lýðveldisins fyrir Alþingi:

Þeir eltu hann á tveggja hjóla hreinum
þó heldur mikið ískraði í bremsum
en Sigmundur, hann sat á kolli einum,
og sá ei fyrir leynimakk með gemsum.

Á hreinum kostum félagarnir fóru,
í fjöru sælands þótti gott til veiðar.
Upp á klakkinn hengdu litla hóru
sem heldur þótti vera treg til reiðar.

Nú velti sér að urta illa þokkuð,
með ógnarskrækjum, sem í hlustir stungu.
Af drukk úr kerjum víðum var ei nokkuð
velfært, utan karpið meins af tungu.

Svo kom að því að yfir brögnum birti,
bakfalla og hláturrokusnerra
er dró til stól, og öðrum fastar yrti
utanríkismálasendiherra.

Þá var eins og blessuð skepnan skildi,
skjallið allt, og þrútið höfuð reisti.
Á Klausturbarnum var það mesta mildi
að Miðflokkurinn sjálfur upp sig leysti.

20.01.19

Hvorki dugar vol né víl
þó vetur ríði í garð
og hvergi sjái í dökkan díl
nema dálítið lambasparð.

21.01.19

Starfsmaður krafðist þess að málverk Gunnlaugs Blöndal af nakinni konu yrði fjarlægt af veggjum Seðlabankans:

Berandi brjóstin þær grafa
bannhelgi feðranna. Krafa
um líkamlegt frelsi.
En er listin í helsi,
fyrst nekt má þar helst ekki hafa?

22.01.19

Nú er frost á Fróni,
sem fanna klæðist serk.
Sígur senn að nóni,
svalans tökin sterk.

23.01.19

Það var ekki verið að spyrja fólk um afstöðu þess til útfærslna. Aðeins hvort fólk væri hlynnt eða andvígt veggjöldum.

Í vegagerð virðið ei lagði,
þar virðist allt reiknað skakkt,
um veggjöldin þingheimur þagði
í þvældri kosningadragt.
Á snöggu augabragði
álit nú fram hefur lagt
einhver sem áður sagði:
„Ekki á minni vakt“.

30.01.19

Allt að gerast í höfuðborginni:

Í Reykjavík eru Klausturkráin
og kaupaukans helgu vé.
Ó, borg mín, þar sem blessuð stráin
breytast í pálmatré.

01.02.19

Ragnar og Bryndís eiguðust son í dag. Hann er níunda undur veraldar – níunda barnabarnið:

Í hendur okkar lífið lagði rós,
ljúfur ómar hjartastrengur.
Í morgun fyrsta dagsins leit nú ljós
lítill, undurfagur drengur.

03.02.19

Mér ungum þótti allra best
og ennþá gleði veitir
að teygja vakran viljahest
vítt um fagrar sveitir.

04.02.19

Andlitshreina eygja má
upp á steini karla.
Jeminn eini, JBH
jörðu greinir varla.

05.02.19

Í logni blíðan baðar tind
með blautum himnasvampi.
Þegar leysir ljúfan vind,
logar þerrilampi.

06.02.19

Formaður Miðflokksins hafði sínar skýringar á Báru með upptökutækið:

Bára hefur botni náð,
beiskur eitursveppur,
illum svikahröppum háð,
harðsvíraður leppur.

Leikur þeirra laumuspil
og lævíst njósnakerfi,
að sýnast erlend. Um það bil
öruggt dulargervi.

07.02.19

Við það yndi að þó dyndi
og yfir hryndi þil.
Aftur myndi upp í skyndi,
ekkert fyndi til.

14.02.19

Að ‘drepi mann of mikill asinn’
er aðal nútímafrasinn.
Til að sporna við því
spái ég í
að liggja í bælinu, lasinn.

Nú er það náðugt hjá blókinni,
nýtur sín alveg á brókinni,
kannski svolítið spes
en af spenningi les
í Íslensku orðsifjabókinni.

Er það ekki aðalaðferðafræðin að gefa erlendum auðhringjum afslátt af öllu mögulegu hérlendis, í nafni atvinnuuppbyggingar og gott ef ekki byggðastefnu? Milljarðahundruð streyma nánast skattfrjáls úr landi fyrir nokkur störf. Og mengun. Nú eru það íslensku firðirnir sem gefa á norskum laxeldisauðhringjum:

Sannleikur helvíti harður!
Vor náttúruauðlindaarður
er útvöldum fáum
leikur að stráum
en vor skrælingjahlutur er skarður.

23.02.19

Ólafur Ís. og Karl Gauti gengu (loksins) í Miðflokkinn:

Af bullubulli ríkir.
Við blinda augað kíkir.
Ganga í takt.
Gildismat skakkt.
Sækjast sér um líkir.

24.02.19

Konudagurinn er í dag:

Karlrembuleg konudagsvísa

Á mig leikur taktfast tif,
tímann bleikan lita.
Í mér kveikir Adamsrif
ástarveikishita.

27.02.19

Miðflokks hvítu merarnar
mikið virðast lasnar.
Þessir helvítis hálfvitar
haga sér líkt og asnar.

Vigdís Hauks. var ekki alveg með það á hreinu hvort væri vinnufriður eða ekki í borgarstjórn:

Valdist í borgarstjórn versta lið
og vinnufriður því enginn
en við höfum góðan vinnufrið,
vináttu- bindum þvenginn.

12.03.19

Stórpólitísk skipan dómara í Landsrétt úrskurðuð ólögmæt af Mannréttindadómstól Evrópu. Ríkisstjórnin brest við niðurstöðunni að vonum:

Stjórnin daginn glaðan gerir sér
í geislaryki þéttu, handan tómsins.
Snýr bökum saman, enda ljóst hún er
ósammála niðurstöðu dómsins.

13.03.19

Ekkert bítur á Sigríði Andersen dómsmálaráðherra, enda veit hún betur en aðrir:

Dómstóla skal vera dómframkvæmd fróm,
dómsvirðing þar á hangir.
Þann kvað upp ráðherra dómsmála dóm
að dómarnir séu rangir.

Dómsmálaráðherrann var látinn „stíga til hliðar“ tímabundið til að „skapa vinnufrið“:

Þróast margt á verri veg,
valt nú ein úr sessi.
Ruðningsáhrif alvarleg,
Ísland guð því blessi.

18.03.19

Börn fá pítsu að borða ef þau sleppa því að mæta á loftslagsmótmæli“:

Vitiði, þannig er það,
þvílíkt spennandi að
fá pizzu að borða
ef frá uppreisn skal forða.
Í heiminum brotið er blað.

28.03.19

WOW fór á hausinn, sem fyrirséð var, og hófst þá upp „hjálpræðiskór“ félagsins á Netinu:

Kross- í hernum hyllir láf,
Hjálpræðis- fólk syngjandi.
Aðrir eru Vottar Wow
vinabjöllum klingjandi.

07.04.19

Litli ljúfur, yngsta barnabarnið, fékk nafnið sitt í gær. Hann heitir Hilmir Ragnarsson. Ég leyfði mér að tala til hans að lokinni athöfn, svo:

Byggir traustu bjargi á,
berð með sóma nafnið þitt.
Lífið ákaft lofa má,
lánar okkur gullið sitt.

13.04.19

Á efstu hæð hótels í Þórshöfn:

Kátur út um gónir gluggann,

gestur á sjöttu hæð.

Út siglir sálarduggan,

svona ei við mig ræð …

 

19.04.19

Rifjað var upp, í tengslum við umræður um 3. orkupakkann, að Sigm. Davíð, þá forsætisráðherra, hafði setið á tali við Cameron forsætisráðherra Englands og brallað um orkusölu gegnum sæstreng:

Sátu tveir á tali;
Tjallinn Kameron
og
Simmi orkusali.

21.04.19

Útí garði fagur fugl
fyllist innri gáska,
hið sama gamla sumarþrugl
syngur hverja páska.

25.04.19

Sumardagurinn fyrsti

Færir sumar okkur yl,
ekki regni hreytir.
Nærir sálu, trauðla til
trega stormur þreytir.

En oftar á þessi lýsing betur við:

Þreytir stormur trega til,
trauðla sálu nærir.
Hreytir regni, ekki yl
okkur sumar færir.

29.04.19

Vorið mér um vanga strauk,
vakti góðar kenndir.
Í minninganna munabauk
morgunstundin lendir.

03.05.19

Í nýjasta hefti Sónar rifjar Þórður Helgason upp þessa vísu Páls Ólafssonar, sem sögð er hafa farið á flug árið 1896:

Þegar mín er brostin brá,
búið Grím að heygja,
Þorsteinn líka fallinn frá
ferhendurnar deyja.

Þarna eru Páll sjálfur, Þorsteinn Erlingsson og annað hvort Grímur Thomsen eða Steingrímur Thorsteinsson sagðir síðustu varðmenn ferhendunnar.

Þessi visa kallaði á mikil viðbrögð næstu ár og áratugi, þar sem henni var andmælt; ferhendurnar myndu sannarlega lifa. „Yngsta afkvæmi vísunnar eftir Pál … birtist árið1998“ segir Þórður (Són, 16:2018, bls.116).

Hér kemur þá örverpi til viðbótar, í afturúrkreistingi þessum:

Ei strengur brestur stuðlamáls,
þó stefja kyrrist duna
því glæður Þorsteins, Gríms og Páls,
geyma ferhenduna.

Alltaf vorar að lokum:

Laufið springur óðum út,
ásinn glingri klæðist.
Fuglinn syngur bragarbút,
blærinn kringum læðist.

23.05.19

Leikur í stráum ljúfur blær,
logi á bláum grunni.
Björkin mín háa vaggar vær,
vakinn úr dái runni.

24.05.19

Það er bæði ljúft og skylt að þakka góðar afmæliskveðjur.

Ástar nýt, víst á ég mér
ógnarsterka keðju.
Þúsundfalt ég því vil hér
þakka vinarkveðju.

25.05.19

Eykst með aldrinum vægi
andans, og frá mér því bægi
fánýtu prjáli.
Finn hverju máli
lausnir í sólarlagi.

Mætt’ ég lífi lif’ á ný
líkast myndi breyta
mörgu. En setja aflið í
að Önnu minn’ að leita.

Þrátt fyrir ljúfar sólskinsstundir er ekki allt sem sýnist, og mörg er raunin …

Lífs í gjólu lítið skjól
logi sólar hefur.
Valds í ól hann allur kól,
einn í bóli sefur.

10.06.19

Barnabarnið okkar, Soffía Sif Árnadóttir, fermdist í Þorlákskirkju í dag. Hún fékk kveðju frá afa:

Stöðugt, eins og tímans tif,

tikkar hjólið lukku

er molum bætir Soffía Sif

í sína gullakrukku.

 

13.06.19

Forsetar á ferð við sporð Sólheimajökuls. Fylgdarlið á vappi um allar koppagrundir:

Ekkert nýtt mun undir sól,
þó undrin geymi vengið.
Það er eins og út úr hól
álfur hafi gengið.

Meðan beðið var eftir ferðamannahópnum sat ég í rútunni og náði sjálfu af mér sofandi:

Inni í bílnum alvarleg

og ágeng glóbal vorming

svo þessa vísu orti eg

algerlega dorming.

 

Fyrirsögn af RÚV.IS:

Refsivert að bjarga fólki af Miðjarðarhafi“

Ítalirnir út úr kú

inn’í sínum þrönga hólki.

Raunalegt ef reynist nú

refsivert að bjarga fólki.

 

16.06.19

Lúsmý olli skaða víða, ekki síst í sumarbústaðalöndum:

Allsbert fólk í erg og gríð

úti, í sumarfríi.

Yndisstundir, ár og síð,

á með lúsamýi.

 

20.06.09

Ástandslýsing:

Blýþungt lognið úti er,

óttublærinn feigur.

Inni þögnin eyrun sker.

Eg er hvergi deigur.

 

30.06.19

Veðurlýsing:

Gott er veður, gósentíð,
gleði má ei dylja.
Golan við mig gælir blíð,
geislar sólar ylja.

03.07.19

Barst hjartnæmt bréf, frá Elizabetu vinkonu minni, og komst við að lesa um föður hennar, „áður en hann var ótímabær“ og „áður en hann gaf upp drauginn“. Það er reyndar umhugsunarvert að hann skyldi gefa upp drauginn, og varpar nokkrum skugga á minninguna. Því draugar eiga allt undir dul sinni og uppgefinn draugur er því eins berskjaldaður og keisarinn nakinn … En takk fyrir bréfið, kæra Elizabeth …

Hversdagslífið lofs er vert,
lukku- sterk er taugin,
en það er spurning, þá fer hvert
þegar gef upp drauginn?

08.07.19

Heilræðavísa:

Ef setur þig háan á hest,
hafandi mikið, þarft mest!
þá átta- ert villtur,
alveg gjörspilltur.
En batnandi manni er best.

Stjórnmálaskörungur“ dagsins …

Talfærið ljómandi liðugt
við loforðin, jafnvel er sniðugt
hve margt frá í gær
nýja merkingu fær.
Og sumum finnst þetta siðugt!

Vísnagerðin …

Vísnagerð lokkar mig löngum
og ég laumast í slíkt eftir föngum.
Reyn’ að hitta í liðinn,
finna ljóðstafakliðinn,
en allt er þó tekið með töngum.

14.07.19

Framkvæmdaveður“ í júlí:

Mínúturnar safnast saman,
senn því kemst í feitt.
Hef af bæði gagn og gaman
að gera ekki neitt.

Það þótti, í gær, fyrir gróðurinn,
gott ef ‘ann væta myndi.
Nú er af mesti móðurinn,
útaf mannskaða regni og vindi.

14.08.19

Afmælisdagur eiginkonunnar:

Öðrum konum af hún ber,
ég allt á henni’ að þakka.
Til fleiri ára í för með þér
feikna mikið hlakka.

15.08.19

Við margt er að glíma:

Ef kreist fram gæti Kvasisblóð
og kynt upp á mig trúna,
mynd’ ég snöggvast yrkja óð,
ódauðlegan, núna.

16.09.19

Gleðistefin geyma skalt,
sem gull í hnefa þínum,
þó gengi bréfa gerist valt
í gömlum sefaskrínum.

17.08.19

Hinsegin dagar …

Fjölbreytninni fögnum við,
í friði hver má sýsla.
Ganga saman, hlið við hlið,
hundur, köttur, mýsla.

22.08.19

Mikil umræða var um ofurlaun sveitarstjóra á Íslandi, ekki síst í örsamfélögum, þar sem yfirmennirnir slógu út borgarstjórann í Reykjavík, New York og fleiri stórborgum úti í heimi, ásamt æðstu embætismönnum ríkisins:

Hvergi hefur fundist fé
til fátækra í raunum
því tryggja ber að sómi sé
að sveitarstjóralaunum.

Trump ætlaði að kaupa Grænland, rétt sisvona í gegnum Twitter:

The future there will be just fine and
our freedom and greatness will shine grand
for the right fee.
Folks, you’ll see!“
En það gefur á bátinn við Grænland.

23.08.19

Forsætisráðherrann vildi þegar allt kom til alls gjarnan hitta Mike Pence:

Áður talið ekki sjens
að ‘ún fólann hitti
en föl er núna fyrir pence,
fyrir neðan mitti.

25.08.19

Fyrsta haustlægðin kynnti sig í spákortum veðurfræðinga:

Sumars lending síst er mjúk,
með snerru kemur haust.
Skella mun á feikna fjúk
fyrirvaralaust.

Í garðinum drekkur gróður af stút
með góðri iðsvörun
og limgerðið græn’ hefur gefið út
gula viðvörun.

Fjöldi fólks hellir úr koppum sínum í Málvöndunarþættinum á Fjasbók:

Málvöndun er mikið hér af mörgum stunduð.
Oft er hún þó illa grunduð.

26.08.19

Allt ætlaði að verða vitlaust þegar borgarfulltrúi tjáði þá skoðun sína að minnka ætti kjötframboð í mötuneytum skólanna, jafnvel að útiloka það alveg:

Það á að gefa börnum brauð,
blómkál, skyr og rjóma,
fisk og ávöxt, feitan sauð
svo fullorðnist með sóma.

28.08.19

Þingið kom saman í dag eftir sumarfrí:

Þýtur í runni, þrútið loft.
Það er ekki lengur gaman.
Þyngsli í höfði, þreyttur oft.
Þingið aftur komið saman.

Sigmundur Davíð gerði enn einu sinni í buxurnar með yfirlýsingum sem stönguðust með öllu á við gjörðir hans í forsætisráðherratíð sinni:

Í andlegum fangbrögðum flæ drenginn,
fíflið hann Cameron blekki.
Ég samþykkti’ að leggja sæstrenginn
til að sýna það hentaði ekki“.

Svo kom hann í beina útsendingu að ráðleggja Bretum í Brexitmálum:

Um brexit veitti Bretum ráð:
Í beinni útsendingu
strunsið út og þæfið þráð
í þykka hrútskýringu.

Dagurinn endaði þó vel:

Finn draumaheima þýðan þyt
þelið sætta.
Með gleði í hjarta geng á vit
góðra vætta.

29.08.19

Mannskepnunnar margt er böl,
Mammonsþræll í festi,
stutt í öfga, freistniföl,
með fordóma og lesti.

12.09.19

Lagðist undir hnífinn og fékk viðgerð á hné:

Nýtt á fótinn fékk ég hné,
fyrir þetta gamla.
Ætlast til þess, eftir hlé,
mér ekkert muni hamla.

Þessi lýsing getur átt við ýmsan nú á dögum:

Vitnar mest í sjálfan sig,
svindilbrask og lygi,
orðflóð hefst á hættustig,
sem hundruð belja mígi.

Eitt helsta áhugamál íhaldsins í áratugi er orðið að sérstöku baráttumáli Framsóknar og Vinstri grænna:

Framsókn ávallt félagsvæn,
sér finnur hirslur digrar,
og veggjöld orðin vinstri græn,
vinnast nýir sigrar.

Í lok dags á spítalanum:

Við yndisstundum ekki býst,
í alvöru og djóki,
því sofna núna verð ég víst
í verkjatöflumóki.

13.09.19

Og dagurinn er tekinn snemma á Landspítalanum:

Upp er vakinn, árla mjög,
aðeins til að pissa.
Við það ætt’ að varða lög
og vera talin skyssa.

Endurvinnslur eru vinsælar meðal vísnagerðarmanna:

Ef ég væri orðinn lítil fluga,
ég eflaust myndi kitla nefið þitt
en flugnaspaði myndi mig á duga
að merj’ í eina klessu, holy shit!

Þó ég ei til annars mætti duga
ég inn um gluggann þreytti flugið mitt
því regnið mér er allra efst í huga
en ekk’ að kitla nef og gera hitt.

Margir hafa það verra en ég“ …

Létt er mér, þó strítt sé starf,
að staulast um á hækjum
því saklaus lýður leysa þarf
úr lífsins verri flækjum.

14.09.19

Halldór birti fjári góða teikningu í Fréttablaðinu í dag. Vísan lýsir myndinni:

Gulrótin sem glópaagn
er gömul, bitur saga
og yfirfullur aðals-vagn
sem öryrkjarnir draga.

Fjasbók er yfirfull af gangna- og réttamyndum þessa dagana. Töluveðrur lægðagangur hefur sett mark sitt á smalamennskur:

Á Suðurlandi sjaldgæft er ‘ann rigni,
að sjáist eitthvert fólk í réttunum,
á hæstu tónum tenórar þar digni,
og troði Magnús Hlynur upp í fréttunum.

Allvel Kára kynnumst vér,
kúgast, fretar, hóstar,
hnerrar, skyrpir, snýtir sér,
og sjálfu á Fjasbók póstar.

Meira í endurvinnsluna:

Afi minn fór á’onum Rauð
í iðjuleys’ á bæi.
Svon’ er að vanta veraldarauð
og vera mikill gæi.

16.09.19

Stjörnuglópar telja sig hafa fundið nýja reikistjörnu, með vatni og þar með hugsanlega lífi. Fyrir meira en fjórum áratugum lá það fyrir og tilkynnt okkur menntskælingum hvar vitsmunalíf væri að finna í algeimi, utan Jarðar. Stjörnuspámenn nútímans vaða því í villu og svíma með sín nýjustu útspil.

Þann stjörnuglóp ei trúverðugan tel
sem trúir því er nýjast var að ske.
Í næstu framtíð förum við til El
en fráleitt K2 18 B.

17.09.19

Enn er endurunnið:

Afi minn fór á’onum Rauð
utan við tún og bæi.
Varast gæti villunauð
ef veröldina sæi.

Haustvísur eru árlegur faraldur

Ort ég mikið hef um haust,
himinbogans dætur,
hrímað birki, blaðalaust,
bikasvartar nætur.

19.09.19

Hið innra veðurlag er sígilt yrkisefni:

Svo glæður tímans gefi þér
góðan yl í sálu
þarf að treysta sjálfum sér
á svelli lífsins hálu.

Bergþór Ólason „Klausturmúnkur“ var kosinn formaður með 2 atkvæðum á fundi umhverfisnefndar. Af því verður að draga eftirfarandi ályktun:

Nefndarstarfið gekk í gær
glatt, að Bergþórs vonum:
Mátað hafa tíkur tvær
t
ittlinginn á honum.

Hugleiðingar um lífið og tilveruna:

Ei er sjálfsögð sálarheill
né sómastand á kroppnum.
Hætt er við að finnist feill
í fótum, búk og toppnum.

Margt býr göfugt myrkri í,
munúð sælla drauma,
frjóvgun morguns, fæðing ný,
flæði orkustrauma.

20.09.19

Ríkislögmaður hafnar, fyrir hönd forsætisráðherra og ríkisstjórnarinnar, öllum kröfum Guðjóns Skarphéðinssonar um skaðabætur í makalausri greinargerð sem hann lagði fram í Héraðsdómi Reykjavíkur í gær. Kemur það eins og köld vatnsgusa, eftir sýknudóma í Hæstarétti og afsökunarbeiðni forsætisráðherra fyrir ári síðan:

Hjá ómerkingum æran fer,
útlegð vís í heiðni,
ef merkingarlaus með öllu er
afsökunarbeiðni.

21.09.19

Ef að fagran áttu draum
en afl þér lítið gefið
hindrun engri gefðu gaum,
gakktu fyrsta skrefið.

24.09.19

Kær samstarfsmaður minn, Lárus Ágúst Bragason, er sextugur í dag. Af því tilefni sendi ég honum þessa afmæliskveðju, undir dróttkvæðum hætti:

Ljúfur, gæddur gáfum
góðum, sagnafróður.
Virði allra varðar,
við ungdóminn styður,
glaður, lítillátur.
Lestar um vengi hesta.
Af sómamanni sönnum
er saga Lalla Braga.

25.09.19

Haust

Litadýrðarlota!
Laufið skreytir reitinn
gulu, rauðu. Gælir
gola vær og hrærir
grein en fagurgræna
grasið heldur fasi.
Heiminn lítur himinn,
hélugrár, og tárast.

26.09.19

Haust II

Logn. Svo rok og rigning
rúður þvo. Á súðum
veður, dimmir. Dauður
dæmdur gróður. Í ræmur
flíkur rifna. Fokið
flest í skjólin. Sólin
sífrar, gleymd og grafin.
Gangur lægða strangur.

Vinn þessa dagana við að ragast í vísnasafni mínu og koma einhverri reiðu á skipulagið:

Athyglin skýr, set annað í bið,
ekkert fær huganum sundrað.
Í Kleppsvinnu núna keppist ég við,
kominn á blaðsíðu 100.

29.09.19

Sléttubönd

Sefa fyllir ólga ör,
ekki stillur dvelja.
Efagrillu fresta för,
fráleitt villur kvelja.

Er nóg komið af barlómi?

Í vaxtahít við greiðum gjöld,
erum gróða ausnir brunnar.
En nú við eigum niðjafjöld,
og njótum hamingjunnar.

Rímæfing:

Lítil von að lon og don
linni svona tali:
Heimtar konan honum son,
hraustan konung ali.

02.10.19

Meiri sléttubönd

Böndin sléttu flétta fín,
fanga rétta braginn.
Höndin þétta, gletta, grín,
gjarnan létta daginn.

Daginn létta gjarnan grín,
gletta, þétta höndin.
Braginn rétta fanga, fín
flétta sléttuböndin.

03.10.19

Hannes spurði hvað framtíðin hefði gert fyrir hann?

Fortíð hefur framtíð gefið feikna mikið
en ófædd farið yfir strikið,
ekkert grillað, Hannes svikið.

Enn meiri sléttubönd:

Lokar stundarblundur brá,
bylgjast sundur lundin,
þokar undan grundin grá,
griðum bundin mundin.

Mundin bundin griðum, grá
grundin undan þokar,
lundin sundur bylgjast, brá
blundur stundar lokar.

Rímæfing:

Jafnan augað glöggt er gests,
gangur rakinn úrvalshests,
daufleg ræða pokaprests,
pirringur vegna nestis klessts.

05.09.19

Mektarmenni“ víða um heim hrauna yfir Gretu Thunberg:

Á þekkingu engin er þurrð
er þekjuna skortir nú burð.
Í horn, milli veggja,
hólmsteina leggja.
„Knýr Hösmagi hurð …“.

Enn af framtíðarótta hólmsteina þessa heims:

Með frekju sýnir hún sig,
senn kemst á hamfarastig.
Mín heimsmynd er svert!
Já, hvað hefur gert
framtíðin fyrir mig?

15.10.19

Mikið skýjafar var í morgun, svartbólstrað, og reyndi sólin hvað hún gat að brjóta sér leið í gegn. Henni tókst um stundarsakir að skjóta geisla sínum til mín:

Sólin skrýðir skýin grá,
skýtur fríðum geisla.
Gólfi skríða skuggar á
skammvinn, prýðis veisla.

16.10.19

Undir Eyjafjöllum er margt að sjá. M.a. hafa umfarandi konur afklæðst nærfötum sínum og hengt þau á túngirðingu við hringveginn. Bóndi hefur af einhverjum orsökum hunsað að aka heim af túninu heyrúllunum:

Bóndinn hunsar hirðinguna,

af hugsun taka sýnir völd:

Berar konur, og brjóstahöld

bráðum sliga girðinguna.

 

17.10.19

Öfugmælavísa:

Af aðdáun líð ég engan skort,

ekki þar míg uppí vindinn,

vísurnar ekki af sístu sort,

svo er ég líka fyndinn …

 

21.10.19

Íssslídígar“ er öllum fremri þegar kemur að fjármálagjörningum:

Aflandsprinsa metum meir,
um mörlandann fer kliður:
Við Seðlabankann bruna þeir
brattar Þvottárskriður.

Við bankasölu Bjarna lög,
bæta vina hag.
Klappstýrurnar kætast mjög,
Katrín missir þvag.

Að öðru. Veðrið er sígilt:

Undan venur angann sinn,
ekki kveðjur vandar.
Frá er snúinn faðmurinn,
frostið köldu andar.

22.10.19

Sléttubandavísa, refhverf:

Maður þessi heldur heit,
hvergi undansláttur.
Glaður hressir sína sveit,
sjaldan blundar máttur.

Máttur blundar, sjaldan sveit
sína hressir glaður.
Sláttur undan, hvergi heit
heldur þessi maður.

 

Kannski tilefni þessarar vísu hafi blundað í minninu við samningu sléttubandanna?

Æ skal velja vinar traust,
virðis- dvelj’ í þanka.
Mætti telja makalaust
mér að selja banka.

Um þessar mundir eru 7 ár frá samþykkt frumvarps að nýrri stjórnarskrá í þjóðaratkvæðagreiðslu með 2/3 hlutum atkvæða. Alþingi hunsar kjósendur – og lýðræðið:

Langar, áður leggst í gröf,
að linni sáru þránni.
Nú er orðin nokkur töf
á nýju stjórnarskránni.

Eftirvænting ekki dvín,
aldrei guggna má.
Nær mun þjóðin njóta sín
með nýja stjórnarskrá?

Það má heita kaldur koss,
kúgun lýðs og fána,
að innvígð nátttröll neita oss
um nýju stjórnarskrána.

Margt er okkar mein og hrun
en mín er þessi spáin:
Næstu kynslóð næra mun
Nýja stjórnarskráin.

24.10.19

Stynur margur stressaður,
streðið rýrir haginn,
en bæði sæll og blessaður
býð ég góðan daginn.

03.11.19

Í svartasta skammdeginu er sólarglætan velkomin:

Er ljós á fleti líður skort,
lítil fetin jagar,
bálað geta brenni vort
bjartir vetrardagar.

Pabbahelgar“ heitir framhaldsþáttur í sjónvarpi allra landsmanna, og hefur hlotið mikið lof „fyrir raunsæi“ og að „stinga á ýmsum kýlum í samfélaginu“:

Um neyðaruppköst, næturfliss,
nakta kvenmannsbelgi.
Röfl og drykkja, rúnk og piss;
rishá pabbahelgi.

04.11.19

Rétt í þessu fyrsta föl
féll á pallinn.
„Að moka snjó er mesta böl“,
mælti kallinn.

07.11.19

Er grímu vel eg stað og stund,
ei strengi þel í hlekki.
Þó falli él á frosna grund,
fræin kelur ekki.

10.11.19

Allar nætur sáttur sef,
þó sveigi af dregnum línum.
Fast í gildin held, og hef
hreint fyrir dyrum mínum.

13.11.19

Þorsteinn Már Baldvinson hefur í gegnum Samherja stundað ‘umfangsmikla starfsemi’ í Afríku árum saman. Hans maður í ríkisstjórninni, Kristján Þór Júlíusson, gætir hagsmunanna hjá framkvæmda- og löggjafarvaldinu:

Miskunnsami Samherjinn fer
suður um höfin, því ljúflingur er,
fiskar í matinn, um fátæka sér
uns freigátan siglir á spillingarsker.
Þorsteinn lítið úr býtum því ber.
„Blessaður, það er Kristján Þór hér!
Fréttin kemur alveg að óvörum mér!
Elsku vinur, hvernig líður þér?“

15.11.19

Aldrei eru of oft rifjaðar upp aðferðir fjármálaráðherrans síðustu andartökin fyrir hrun bankanna 2009:

Vafningur víst upp á 10,
viðskiptapólitík hög:
Að selja í Sjóði 9
ef sett verða neyðarlög.

Síldarvinnsla nokkur á Austfjörðum sendi tölvupósta á Samherja til að fá fræðslu um viðskiptahætti fyrirtækisins í Afríku, ef nýta mætti þær aðferðir á Grænlandi til að næla í veiðikvóta:

Í skammdegismyrkri á skjánum
er skemmtanagildispróf.
Framhaldssögu af sjánum
Síldarvinnslan nú óf:
„Verðum að vera á tánum,
viðskiptin hríðarkóf.
Finnst, ef fengist á lánum,
framkvæmdaáætun gróf
um auðlind hjá fjarlægum fánum
við fátækleg kofahróf?
Frá Afríku, utanúr blánum?
Ekkert dugar oss hóf,
þurfum mikla reynslu af ránum,
ráðgjöf og glærushow“.

Gunnar „Klausturbragi“ hafði mestar áhyggjur af börnum Samherjamanna við uppljóstrun um „starfsemi“ fyrirtækisins:

Vernda skal blessuð börnin,
bægja illu þeim frá“.
Á Klaustri var til þess törnin
tekin, það allir sjá.

Lík eru gin og görnin
Gunnari Braga á.

01.12.19

Boðnarmiði ber þá fregn
að betur við ég kunni
en biturt frostið – rökkurregn
og ró, á aðventunni.

Ekki snýst alveg allt um veðrið:

Eigra fláir andans hjarn,
illvíg hrjáir veira.
Aurinn dáir auðsígjarn,
alltaf þráir meira.

Að því gái innra skyn
að ég nái fljóta.
Aðeins þrái að mitt kyn
auðnu fái njóta.

02.12.19

Í dag er það svo:

Mikið er mannkynsins brasið
og mengun á hnettinum.
Það er grenjandi rigning og grasið
grænkar á blettinum.

04.12.19

Nú hefur hann heldur snúist til vetrartíðar. Dróttkvætt:

Frostköld mjöllin fellur
falleg á minn skalla,
bráðnar þar án biðar,
bleytan skjótt vill leita
bakið niður, búkinn
baðar, ekki laðar
fram af vörum frómar
fyrirtölur. Bölva.

07.12.19

Það þurfti að losna við vanhæfan Ríkislögreglustjóra úr embætti. Flokkurinn sér auðvitað um sína og greiðir honum 57 milljónir við starfslok, svo hann þurfi ekki að líða skort, fremur en öryrkjar og ellilífeyrisþegar:

Aðþrengdir fái við starfslok start,
styrk til að kaupa pillur.
Hjá Haraldi’ er útlitið heldur bjart
með hátt í 60 millur.

Jón eða séra Jón?

Sumt er það sem sumur má
í samtryggingarvægni.
Sem dæmi mætti minnast á
mútugreiðslur/þægni.

Enn að veðri:

Nú er fönn á Fróni,
freðin jörð.
Klakaklárinn Skjóni
krafsar börð.

Hannes Hólmsteinn var látinn skrifa „ritdóm“ um bók hins norska fyrrum seðlabankastjóra, Svein Harald Öygaard. Öygaard brást við snarlega og sagði réttilega að það væri eins og að „láta kalkún meta Þakkargjörðarhátíðina“ að fá Hannes í þetta:

Um átrúnað sinn og upphafna Krist
til eilífðar stendur vörð.
Krítík í Mogganum, krydduð af lyst
er kalkúnsins þakkargjörð.

09.12.19

Klukkan á eldavélinni sýndi 02:54 þegar ég var að tygja mig í háttinn, eftir langan dag. Um 11:00 fór ég til Rvk. að sækja rútukálf, ók honum á Selfoss og þaðan með körfuboltaliðið í Stykkishólm. Þaðan að leik loknum með liðið aftur heim og svo til Rvk. að skila bílnum. Renndi svo á eigin bifreið um nóttina sem leið lá heim:

Þá er dagur að kveldi kominn,
kominn tími að nátta sig.
Tanngarð fyrst ég þarf að þvo minn,
þvag að losa og hátta mig.

10.12.19

Stefán Þorleifsson tónlistarkennari og kórstjóri birti færslu á Fjasbók þar sem sagði: „Núna eru veðrin bara gul, appelsínugul og rauð.“ Í kjölfarið kom listi með 113 íslenskum orðum sem lýsa veðri:

Tungumálið tapar krafti,
tilbrigðanna fína blæ,
og fátæklegra fer úr kjafti,
fjársjóð kastað er á glæ.

Í dag brast á með ofsaveðri víða um land, sem olli stórtjóni og margháttuðum vandræðum í mörgum byggðum, sérstaklega Norðanlands:

Nú örlar hér á vetrarveðri,
víst er nokkuð hvasst
og hugsanlegt að hann í neðri
heljarbyggðum fast
kveði að og krafta reyni
á kunnuglegan hátt.
Orðið gæti margt að meini,
magnist leikur þrátt.
Gerast öfgaviðbrögð vani,
veðurkvíði norm?
Ekki vera úti’ á flani
ef óðan gerir storm.
Best er að halda sig heima,
hvíla, og áhyggjum gleyma.

15.12.19

Ragnar, sonur minn, birti í lokuðum hópi á Netinu mynd af syni sínum. Um það hefi ég eftirfarandi að segja:

Yngsta barnabarnið, Hilmir Ragnarsson, er dásamlegur drengur, bráðum eins árs og mikið „krútt“ eins og sagt er, jafnvel „ofurkrútt“ svo gripið sé til Fjasbókarfrasanna. Afi er ákaflega stoltur af honum, eins og öllu sínu magnaða fólki.

Hilmir alltaf æðrulaus,
ekki bugast lætur.
Venur hvorki vol né raus,
voðalega sætur.

16.12.19

Vegna vísunnar um Hilmi hér næst að ofan stigu ýmsir fram í dag á Fjasbók og gáfu mér hæstu krútteinkunn. Er það án vafa ,,besta jólagjöfin í ár“. Má teljast líklegt að ef Rás 2 hefði staðið fyrir vali á krútti, en ekki mannesku ársins hefði ég fengið allnokkrar tilnefningar, ef ekki flestar. Hér er því vinsamleg ábending til þeirra sem hafa horn í síðu minni:

Um þú getur talað trútt,
sem að trölli vilt mig gera.
Yfirmátaofurkrútt
er ég talinn vera.

19.12.19

Lagðist í rímæfingar upp í rúmi, rétt fyrir svefninn:

Halli skjallið fagurt fer,
fráleitt svallar nætur.
Snjalli kallinn ennþá er,
ekki fallast lætur.

Lætur fallast, ekki er
ennþá kallinn snjalli.
Nætur svallar, fráleitt fer
fagurt skjallið Halli.

20.12.19

Og áður en ég steig framúr snemma í morgun hélt ég áfram þar sem frá var horfið:

Skjótast fóta tekur til,
tæpast hótar mönnum.
Rótast grjótið undan il,
ekki blótar grönnum.

Grönnum blótar, ekki il
undan grjótið rótast.
Mönnum hótar, tæpast til
tekur fóta skjótast.

Sjálfsvísur eru alltaf varasamar:

Hvergi skráð í sjálfu sér

að snúið þráðinn gæti

en stakan náði stráknum mér,

stuðla þjáður blæti.

 

21.12.19

Mannlýsing:

Alltaf snjáður, öðrum háður,

er óráðið geð.

Ansi bráður, enginn þráður,

ótal gráður með.

 

23.12.19

Jólakveðja 2019

Aumt og hart í heimi,

háð eru víða stríðin.

Varnir bresta börnum;

bani, ótti, flótti

vonir þeirra þverra –

Þjóðum skömm er rjóða

æskublóði, í æði

afla í valdatafli.

 

Á allsnægtaeyju

eru margir argir

af kjörum sínum, kveina,

komið rof í hófið.

Væri flott ef fleiri

fyndu göfuglyndið,

gleðistundir góðar

gera kraftaverkin.

 

Gjafir eru gefnar,

geisla börn í veislum.

Sönn er jólasælan“,

syngja Íslendingar.

En ekki allir hlakka

ósköp til, þó dylji.

Til einhvers auður þjóðar

ef einn er dauðans snauður?

 

Hér á ysta hjara

heims, má ekki gleyma

að verma opnum örmum

óttaslegna á flótta.

Gæðastundir gleðja,

gefum þær af kærleik.

Um land og lög við sendum

ljúfar friðardúfur.

 

24.12.19

Kveðjan í jólakortum barnanna:

Ekki sífellt við svífum

um sólgylltar blómagrundir

og ævisagan er ekki

eilífir góðvinafundir

en víst er að góður mun grunnur

gleði og hamingju undir

að eiga í leikhúsi lífsins

ljúfar samverustundir.

 

Kveðjur í jólakorti til konunnar:

Skríða skal ég fyrir þig,

skafl frá dyrum moka,

ferðast, ganga fjallastig,

fleiru áfram þoka,

við freistingarnar fara’ á svig,

með framúrakstur doka,

og ágætt væri að opna sig,

urða fýlupoka,

ef þú bara elskar mig

ævina til loka.

 

Elsku hjartans ástin mín,

óska þér góðra jóla,

öll svo næstu árin þín

ylji friðsæl gola.

Krummi er í hópum fyrir utan stofugluggann okkar. Einn sat í ösp nágrannans og kroppaði þar græðlinga og krunkaði vinalega:

Krummi úti krunkar
kroppar af greinum fræ.
Hugheilum kærleikskveðjum
kastar ‘ann ekki á glæ.

25.12.19

Jóladagsmorgunn er mildur,
magnaður friður og ró.
Í stofunni hlýtt, og í stillu
stirnir á nýfallinn snjó.
Að skríða þá uppí aftur
er yndisleg, nærandi fró.

31.12.19

Áramótavísan:

Nú árið er liðið, en engu ég skaut
upp að þessu sinni
fremur en áður. Frá mér nú þaut
flís af ævi minni.

Úr dagbókinni 2018

Úr dagbókinni 2018. Safnið telur 210 vísur/erindi

07.01.18

Veðurlýsing:

Vætan er lárétt og lemjandi.
Löðrandi stormurinn emjandi.
Rigning og rok!
Rennbleytufok!
Blautlega söngvana semjandi.

08.01.18

Hugleiðing:

Vel það hefur verið kannað
og vísindalega sannað
að flestir bæð’ um eitthvað annað
ef það vær’ekki bannað.

20.01.18

Bóndadagur:

Í þurrakaldri þorratíð
þvottur blaktir á snúru
og þjóðin kjamsar kinnavíð
á kæstu, reyktu og súru.

01.02.18

Veðurvísa:

Úti staddur áðan nam
(engin rökin þyngri)
væntanlegan veðraham
með vinstri bendifingri.

Af veðri og færð:

Sjálf- á rennireiðinni,
reynir á í neyðinni,
margir lengi’ á leiðinni,
lokað er á Heiðinni.

03.02.18

Bóndadagssviðaveisla haldin á miðjum þorra:

Á þorra bóndinn borðar svið,
best er augnakonfektið.
Á eftir ropar og rekur við,
ræðum ekkert framhaldið.

05.02.18

Tíðarfarið:

Árans stríð um ár og síð
að óblíð tíðin líði.
Fjárans hríðarfár. Þín bíð,
fríða þýðuprýði.

06.02.18

Útsýnið:

Falleg sýn til fjalla,
fyllir gil og drög
mjöll, og strýtustalla
stilla ísalög.

Bráðum er mitt búið spil
en blóðið myndi styrkja
hefði’ ég meiri tíma til
að tutlast við að yrkja.

Dróttkvætt:

Strengur veðrar vanga,
vítisélin bíta,
kæfa vill mig kófið
hvíta, fyllir vitin.
Vel þó gengur, viljug,
vindinn klýfur yndið,
megnar hreti móti
merin heim mig bera.

10.02.18

Vitlaust veður víða um sveitir, en besta útreiðaveður á Selfossi:

Útreiðar, mitt óskastarf
og ei um skjól nein kvöð,
svo opna í flýti í Flóa þarf
fjöldahjálparstöð.

11.02.18

Loksins nú ‘ann eitthvað er
upp að rjúka.
Kannski’ er best að kúra sér
og kviðinn strjúka?

14.02.18

Kára gamla slær á slig
slen, af hárri elli,
en rumskar svo og ræskir sig
og rekur við, með hvelli.

Ásmundur Friðriksson var gagnrýndur harðlega fyrir háar akstursgreiðslur, á kostnað skattgreiðenda, að erinda fyrir sig og flokkinn í bland við alþingisferðir. Svo rífur hann bara kjaft:

Ásmundi gengur önugt flest,
allur í fornaldarstílnum.
Á heildina litið er, held ég, best
að haf’ ‘ann sem mest í bílnum.

Við akstur hindrar þá ekki neitt
með íhaldsfórnarlundina.
Einnig mæta þeir yfirleitt
óbeðnir á fundina.

15.02.18

Auðvitað kom í ljós að aðrir þingmenn voru heilmikið á ferðinni, þó ekki kæmust í hálfkvisti við Munda Frikk.:

Umferð við þingið þykir slík,
og þyrlar upp ferðarykinu,
að rotturnar í Reykjavík
ryðjast burt af skipinu.

18.02.18

Frekar kaldur febrúar,
en frostið nú að digna.
Á fannabreiðufreðurnar
farið er að rigna.

Vísan endurunnin eftir heimsókn FSU-liðsins í Stykkishólm, þar sem mínir menn skutu Snæfellinga nánst í kaf af þriggjastigafæri:

Frekar kaldur febrúar,
frostið þó að digna.
Á youtube finnur fréttirnar:
FSU lætur rigna.

20.02.18

Úr veðurfréttum:

Flughált, þungfært, þæfingur,
þoka, hálkublettir,
krapi, renningskæfingur,
kafaldsbyljir þéttir.

26.02.18

Ekki fleira um ég bið,
allt vil til þess vinna
að áfram leiki lánið við
líf og heilsu minna.

Töluvert er nú um að nemendur fái sk. „opin vottorð“ í skólum og þurfi þá ekki að mæta nema þegar þeir megna það, eða þegar þeim sýnist. Þetta er mikilvægt úrræði fyrir þá sem eiga við alvarleg veikindi eða vanda að stríða, en er svo sem líka þægilegt fyrir hvern sem er, ef út í það er farið. Og það eru ekki bara skólanemendur í vanda sem fá opin vottorð. Katrín Jak. skrifaði t.d. upp á opið vottorð fyrir formann og þinglið Sjálfstæðisflokksins nýlega:

Mannkynssögu sígild stefin,
síst með tíma minnkar efinn.
Með opin vottorð, aflátsbréfin,
öllum synd er fyrirgefin.

04.03.18

Er vetrarsólin vermdi ból
og vakti kalið hjarta
norðan gjóla í gulum kjól
gekk í salinn bjarta.

05.03.18

Náströnd kalla norðlægt sker,
narrast þangað lóa.
Aðeins tórir önnur hver
úr því fer að snjóa.

Jasso:

Ei minn huga glepur gull,
því glaður frá mér bendi.
Mín innsta þrá, af yndi full,
er mér föst í hendi.

06.03.18

Tilvitnunin er í pistil á Herðubreið, um Sigríði Andersen dómsmálaráðherra, sem Vg. styður heilshugar í spillingunni og varði vantrausti á Alþingi í dag:

Afstöðu þeirra undrast hlýt,
áður var siðferðið vænna.
„Eins og að éta óðs manns skít“,
atkvæðin Vinstri grænna.

22.03.18

Drótt- er hefðar -háttur,
hagleiks -kvætt og bragar-.
Stuðlar, höfuðstafir
standi rétt, og vandi
hálf- og alríms heilum
hendingum að lenda
í þremur risum. Rómað
renni og fram kenning.

23.03.18

Fjasbók löngum les hún,
ljóða „stórust“ þjóðin.
Þar þusa mjög og masa
margir, virðast argir.
Enn sést Pollyanna,
aðrir steypu blaðra.
Alveg verðlaust orðið,
ef enginn þegir lengur?

Flýt í ös að ósi.
Enginn daginn lengir.
Meir ei hef í háfi
held’r en áin geldur.
Víða bar í veiði
vel, eg margt við dvelja
vil, en tíminn telur
taktviss griðin niður.

24.03.18

Er í morguns árið
undurfögur stundin.
Hrím á jörðu harðri,
himinn tær, og skærir
geislar sólar gæla
grundu við í friði
stafalogns, og lofa
lýðum degi blíðum.

25.03.18

Klæðist snemma, framúr fer
ferskur, tremma laus við.
Fæðist stemma, óvart er
ágæt, hremmir rausið.

26.03.18

Veri blessað, vorið!
Vindar æsast, yndi
flestra, næturfrostið,
faðmar jörð og hörðu
élin bíta, ýla
sem englasöngur löngum.
Vinafastur, að venju,
vorboði er horið.

01.04.18

Silfurtjöldum sviptir frá
sólin, full af gáska,
svo um græsku gruna má!
Gleðilega páska.

03.04.18

Grunuð var um græskufjör,
glottið klippt og skorið,
og sólin brimhvítt brúðarslör
breiddi yfir vorið.

04.04.18

Ný fimmáraáætlun hægristjórnar Vg. leit, ef líta skyldi kalla, dagsins ljós:

Örorku og elliþega
arði ræna,
tel því utan vamms og vega
vinstri græna.
Lygamerði lítið trega
en lýsi frati,
það er alveg augljóslega
„allt í plati“.

16.04.18

Ef staðan virðist vonlítil,
vandi hér að þreyja,
stóru plönin strax bý til
og stefnu upp næ sveigja.

17.04.18

Fer í bítið ferskur út,
flest eg hlýt að megna!
Mér frá ýtir morgunsút
að moka skít og gegna.

18.04.18

Mér varð á að stafsetja meinlega vitlaust í vísu sem ég birti hér í gær. Þessi er ort í skaðabætur:

Í bítið ég á fætur fer,
fyllist óðar mundin,
rauðagull úr býtum ber,
blæðir morgunstundin.

Birti barnamynd af sjálfum mér í tilefni af Barnamenningarhátið í Reykjavík. Stína í Austurhlíð skrifaði í athugasemd við myndina: „Sumir að krútta yfir sig“:

Er „að krútta yfir sig“,
eins og verðlaust glingur.
Við glæsileikann gekk á svig
gamall Laugvetningur.

19.04.18

Tónleika er dagur, tærnar uppí loft,
um textaheftið renni lokayfirferð.
Svo góðar náðarstundir gefast ekki oft
en gamalt fyrir pallastöður hvíla verð.

02.05.18

Vorið góða, grænt og hlýtt, og gleði þrungið.
Þannig ávallt um það sungið.

Ei síst á vorin samt er ljóst að snjókorn falla,
köld og blaut, á allt og alla.

Fuglinn kúrir felum í um frostanætur.
Mætti vel fá miskabætur.

Minn þröstur góður þegir núna þunnu hljóði.
Fékk ei styrk úr sjúkrasjóði.

Á fægðu svelli Fannar skautar faldi búinn,
fast að meynni faðmur snúinn.

Í birkilautu bunar engin blátær spræna.
Tíðin hana tók til bæna.

Saman þetta setti ég með sól í hjarta.
Gaman er að kveina’ og kvarta.

07.05.18

Eftir hríðar beittan byl
brosti sól í heiði.
Til skiptis komu með kulda’ og yl,
hvað er hér á seyði?
Fari veðrið fjandans til,
fremur haugaregn ég vil.
Nú bar vel í veiði!!!

08.05.18

Sitt lítið af hvoru úr þjóðarsálinni eftir kvöldið:

Okkar vegur“ virtist beinn,
vinningslagið fundið.
Það samt ekki þoldi neinn,
þvælt og teygt og undið.

Eurovision vegur beinn
þó varla sigri Ari.
Núna efast ekki neinn
að hann fram úr skari.

13.05.18

Gleður þessi morgunn mig,
minn er hugur opinn,
því gula fíflið glennir sig
og góður kaffisopinn.

16.05.18

Má ég yrkja lítið ljóð
og lofa dagsins verk?
Sjálfs míns lof og siguróð,
minn sanna hetjumóð,
að reyna að blása reyk af glóð?
Rökin eru sterk.

17.05.18

Borgarstjóraefni íhaldsins gekk hvorki né rak í kosningabaráttu sinni fyrir komandi sveitarstjórnarkosningar og dró því formann flokks síns og fjármálaráðherra úr Garðabæ á blaðamannafund til að lofa framkvæmdafé úr ríkissjóði í umferðarmannvirki í Reykjavík. Aumara getur það varla verið:

Gróða- er og gósentíð,
gengur allt í haginn.
Fjármálaráðherra fékk, um hríð,
að flytja sig „í bæinn“.

Í örvæntingu leggst nú lágt
Laxdals fremsti kappinn.
Óskaplega á hann bágt,
ýtir á neyðarhnappinn.

19.05.18

Það gustar um trén.
Glymur af dropum
á glerinu.
Skammt þess að bíða
að skoli mér burt
af skerinu.

20.05.18

Sonnetta í tilefni komandi kosninga:

Í hreppsnefnd þjóðin kýs á köldu vori.
Hvað skal gera? Engir vitar lýsa
og kenningarnar fráleitt veginn vísa!
Valt er lánið, hik í hverju spori.

En færi svo að frambjóðandi skori,
flytji mál sem uppúr sýndist rísa,
við hjá mörgum tæki töl’verð krísa;
hvort treysta orðum nokkur lengur þori?

Flestir hafa kosið lygalaup,
lengi, sagt er, skal víst manninn reyna.
Ennþá víða sjá má svikahrappa,
sjálfgerð brot í áramótaskaup.
Öðrum röftum betra væri’ að beina
til botns í flösku. Reka svo í tappa.

21.05.18

Oddviti Árneshrepps á Ströndum er einörð fylgiskona Hvalárvirkjunar og gerir ekkert, segir ekkert og ákveður ekkert í nafni hreppsins varðandi virkjunarmálin án þess að ráðgast við HS Orku og framkvæmdastjóra Vesturverks, verktakafyrirtækis sem hefur virkjanaframkvæmdir á sinni könnu:

Oddvitinn vestur- með verk
í vinstri mjöðm, en samt sterk.
Með stikkorðum lærðum
líkn veitir særðum
hreppsnefndin, mikil og merk.

25.05.18

Þar sem ég verð seint talinn jámaður, geti verið stríðinn og hníflóttur (þó þess sjáist ekki merki á höfuðlaginu) og sé almennt séð þokkalega leiðinlegur að meðaltali, var það sannarlega gleðilegt að fleiri hundruð manns skuli hafa ómakað sig að senda mér fallega kveðju á afmælisdaginn.

Við stoðir traustar stend og fell.
Á sterkar vinakeðjurnar
svo af mér næstum andlit féll!!!
Allar þakka kveðjurnar.

26.05.18

Það er margt að minnast á,
margar gæðastundir,
og mig fýsir alltaf þá
aftur í hrossalundir.

27.05.18

Sveitarstjórnarkosningar að baki. Þarna er gripið til mállýsku sem tíðkuð var í ungdæmi mínu á Laugarvatni, svokallaðrar „pétísku“, sem aðrir en innvígðir skilja ekki – og eiga ekkert að skilja:

Þjóðin veður þykkan reyk,
það hún telur betra.
Altso, ljóst að von er veik
Willisa og Pétra.

28.05.18

Eilífðarvandi leirskáldanna:

Þó gerði daglangt dauðaleit
ég dýra fann ei orðið.
Úr huga þessi slitur sleit
og sló á lyklaborðið.

29.05.18.

Eru þetta ekk almenn sannindi?

Þegar ei er staðan sterk,
um stefnumiðin kýtið,
að kalla þá á kraftaverk
kemur fyrir lítið.

Græði maður mikið skjótt,
mun hann fyrir vikið
týna áttum firna fljótt
og fara yfir strikið.

31.05.18

Eftir að „hann“ sló úrkomumetið í maí þraut honum erindið:

Lengi sálarkraftinn kól,
kreppt þó tórði þráin.
Núna geislasverð frá sól
sígur inn um skjáinn.

Öryrkjar og aldraðir geta ekki beðið“ eftir launabótum, sagði forsætisráðherra fyrir kosningar, þá óbreyttur, og setti í brýrnar. Það var forgangsmál. Nú er boðuð lækkun á auðlindagjaldi og hafa Vinstri grænir fundið sér nýtt áhugamál og nýja forgangsröðun, með formann atvinnuveganefndar í fararbroddi og hina marserandi á eftir. Enda „dýnan í kjallara hvíta mannsins“ þægilegri en bert kofagólfið:

Forgangsröðin reyndar var
ríkum að létta streðið
og útgerð vernda. Öryrkjar
og aldraðir geta beðið.

Horft í eigin barm:

Á ýmsu sem ég ekki skil
oft þarf skoðun segja.
Kannski mun ég koma til?
Kannski lær’ að þegja?

Mestan fæ ég morgunverk
í mjöðm og hupp og læri
þegar kemur krafa sterk
að kúst og fæjó hræri.

01.06.18

Gjörvöll útjörð gul og klén

en gróska færist tún í.

Lít ég komið lauf á trén

loks í byrjun júní.

 

09.06.18

Þján af nettri þjóðarrembu,
þakka glettu roksins.
Í grárri, þéttri gróðrardembu
grænkar, sprettur loksins.

Lebron James og Cleveland Cavaliers var sópað 0-4 af Golden State í úrslitum NBA deildarinnar. Meintur „kóngur“ hvarf til búningsherbergja án þess að þakka andstæðingunum fyrir leikinn:

Líður illa Lebron James,
leiksins grillur hálar.
Liggur milli helju og heims,
haldinn kvillum sálar.

Vætutíðin:

Vor á hundavaði fer,
á vætustundum lumar,
svo að grund í gulu er
gegnblaut undir sumar.

Best við metum bleytutíð
ef burt ei fet vill hopa.
Hvað er betra’ en þoka þýð
og þétta netið dropa?

Pólitíkin:

Gjarnan blekkir þingið þig,
þar á hrekk mun örla.
Vantar ekki visku mig,
veröld þekki gjörla.

Lífsins visku luma á,
læst ég giska fróður:
Upp á diskinn ætti’ að fá
eftir fiskiróður.

12.06.18

Með ferðamenn á Flúðum, stoppað í hádegismat:

Áðan fékk á Farmers bístró
fylli mína.
Sést að nú er orðin „ístró“
yfirlína.

13.06.18

Karlakór Hreppamanna skoðaði inntakið og upphafið að Flóaáveitunni við Hvítá. Á þessum slóðum, ofan við Brúnastaði, stíflaðist áin gjarnan fyrrum af ís og jakaburði og flæddi þá yfir landið svo Flóinn varð sem flói. Skurðurinn liggur svo þráðbeinn, væntanlega eitthvað vestur af suðri fyrstu fáa kílómetrana, með stefnu sunnanvert við Ingólfsfjallið. Sverrir Ágústsson leiðsagði um sínar heimaslóðir í vorferð kórsins:

Glöggur fer með gamanmál,
geiflar sig og derrir.
Að burðum vænn og besta sál,
Brúnastaða-Sverrir.

14.06.18

Mikið gekk á í Vestmannaeyjum eftir sveitarstjórnarkosningar. Páli Magnússyni alþingismanni kennt um að íhaldið tapaði meirihlutanum í hreppsnefnd:

Í Eyjum nú suðar í sveiminum,
svart yfir þrónni og geyminum.
Á plani, með pirring í ‘hreiminum’:
„Palli er einn í heiminum“.

Uppnám varð vegna þess að „transari“ átti að leiða Gleðigönguna í Reykjavík:

Feðraveldisþróttur þvarr
um þrep eitt, sunnan heiða.
Glæsilega Gógó Starr
gönguskrúð mun leiða.

Það er engin nýlunda að tvíræðni fylgi Sigríðarnafninu:

Í Fagrahvammi blómlegt ból,
byggðu hjónin ungu
og Indriði smiður sæll með tól
Sigríðar frá Tungu.

16.06.18

Björn Ingi Hrafnsson kom Steikhúsinu Argentínu í þrot. Í sama mund varði Hannes víti frá Messi:

Ekki mikið, margur sér,
að mörlanda sé þokað.
Víða um heim af okkur er
Argentínu lokað.

19.06.18

Viðkoma í Borgarnesi á leið vestur á firði með ferðafólk, og svo rekur bíllinn sig áleiðis:

Brunaði í Borgarnes,
beint í pissustoppið.
Yrki stöku. Æ!!! Á Fés-
ið hún hefur sloppið!

Hraunsnef undir hamravegg,
háreist bæjarstæði.
Héðan næsta legg í legg,
leið um Dali þræði.

Belgingur í Búðardal,
bjart og þurrt og napurt.
Ástand hérna orða skal:
Ekki sýnist dapurt.

Himin strýkur heiðarbrík,
hennar ríkur kraftur.
Við Hólmavík er helgi slík.
Held ég kíki aftur.

20.06.18

Á heimleið frá Heydal í Mjóafirði er komið við í Vatnsfirði:

Þorvaldi varla veitti af
vendi, og hirtingu líka.
Hvort tveggja Vatnsfjarðargoða gaf
gustmikil, Ólöf ríka.

22.06.18

HM í fótbolta stendur yfir:

Nígeríski útherjinn
átti góða spretti.
Boltann rakti, blekkti hinn,
og beint í markið setti.

27.06.18

Spark í mynd er margtuggið,
mál er nú að linni.
Beint við öllum blasir við
að Brasilía vinni.

28.06.18

Enn á ferðinni með túrista:

Á sig broddana binda
og belti með öryggislinda.
Samhæfð og vökul
á Sólheimajökul
sér um vegleysur vinda.

Og leikur um kvöldið:

Náðargjöf er Neymari,
nettur knött að elta
og sá andans sveimari
vill uppúr dögg sér velta.

04.07.18

Á Landsmóti hestamanna:

Eftir stanslaust rok og regn,
já, rosa og drullumak,
þá blessuð sólin braust í gegn
og brosti andartak.

20.07.18

Að ríða sveitir, frjáls um fjöll,
er feikna mikils virði,
þrönga dali, víðan völl,
um veðrið ekkert hirði.

Sjáum víða um kring oss
eldsins raunir harðar
en eg hef lagt á ágætt hross,
annað lítt mig varðar.

23.07.18

Rauneyg, tárvot rósablöð
rauðar brárnar sýna
en himinn grár, með heilsuböð,
heilar áru mína.

25.07.18

Staddur í svokölluðu „Fontana“ á Laugarvatni:

Í gullnu minningaglufunni
geng nú að einni prufunni
að komast á legg:
Ég klifr’ yfir vegg,
fullur, í Gömlu gufunni.

30.07.18

Við Anna María renndum upp í Borgarfjörð dagpart:

Þó að alveg svíki sól
sýnir landið manni
að það á skilið þvílíkt hól.
Um þetta vitnar Glanni.

Tryggir Deildartunguhver
trölla ávöxt mikinn.
Kraumu heimsókn eftir, er
enginn maður svikinn.

31.07.18

Háspekilegt:

Gefur lífið mér svo margt,
mest ef svífa gildi
þau er drífa þor og art
þess er hlífa skyldi.

Von er á fjölgun barnabarna:

Lukku-grér, eg segi satt,
því sifjar eru teitir,
fjölga sér, og gengur glatt,
gleði mér það veitir.

03.08.18

Hver er maðurinn?

Í æskusporum „okkar manns“
og allra seinni ferða
féll á silfur sálar hans,
seint mun fægður verða.

08.08.18

Gengur allt á verri veg,
vonir margra bresta.
Sagan alveg lygileg,
lífið firra mesta.

Gengur allt að vonum vel
og væntingarnar miklar
svo að ekkert torfært tel.
Tinda maður stiklar.

09.08.18

Alheim lofa ekki skalt,
hann oft á hrekkjum lumar:
Úti bjart, og ekkert kalt,
eins og það sé sumar!

Þegar ekki er hægt að kveina yfir rigningu finnur maður eitthvað annað:

Ekki hugnast ástand mér,
ansi hreint er þjáður
því að hitinn orðinn er
alveg nítján gráður.

Er Úlfgrímur raknaði’ úr rotinu
í rykugu, dimmasta skotinu,
kom stuna og hósti,
hann stóð upp, með þjósti:
,,Fjandinn að neiti ég flotinu“.

Ljómar sólin, læknar mein,
lyftir geði súru.
Blærinn vaggar birkigrein,
bylgjast lök á snúru.

Mætti gjarnan minna á
að mör er versta raunin
og kjörþyngd eflaust allir ná
ef ‘ún hækkar launin.

Hingað kom með hitann sól,
himnatjöldin fallin.
Höfuð mitt í höndum fól
er hóf að loga skallinn.

14.08.18

Afmælisvísa:

Brosið hefur stundir stytt
og stutt, á nótt sem degi,
löngum verið ljóðið mitt
og ljós á mínum vegi.

29.08.18

Dregnir eru á flot forsætisráðherra, hagfræðingar og seðlabankinn til að segja launafólki að ofurlaunahækkanir elítunnar séu eðlilegar en kröfur þess og hækkanir í komandi kjarasamningalotum verði að vera hógværar og hóflegar því annars fari allt á hliðina. Hafiði heyrt sönginn áður? Verst að þetta gengur alltaf í lýðinn, ef ekki undir eins þá fyrir rest.

Beitt á fullu heilum her
við hentirullu tama.
Um lygabullið öllum er
alveg drullusama.

Settur til verka í garðinum:

Grasið sker og grjótið ber,
grunda hér skal pallinn.
Gröf nú er að grafa mér,
griðahlerinn fallinn.

Námsmaður erlendis birti grein um lánaníð LÍN:

Íslenskt lán er algert rán,
óp í gjána bresta-,
æviþján og þjóðarsmán,
þrælaánauð mesta.

05.09.18

Þessar sveiflur þoli vart,
þeim af ég fæ geð rið.
Ástand núna ansi hart,
alltof gott er veðrið.

06.09.18

Gerist amstrið leiðinlegt
og lífsins stakkur þröngur?
Besta ráð við því er þekkt;
það er að fara’ í göngur.

12.09.18

Gjarnan yrki úrvalsljóð,
einnig góðar vísur,
um Fjasið allt svo funi glóð
en fáir dragi ýsur.

13.09.18

Að hausti núna falla fer,
fölnar jarðargróður,
sólríkt þó í september,
sumarauki góður.

14.09.18

Verjendur hinna dæmdu í Guðmundar- og Geirfinnsmálum, sem töluðu tæpitungulaust, voru sagðir hafa verið „myrkir í máli“.

Friðsælt í brandi og báli.
Bómullin gerð er úr stáli.
Sér Geirmundur breytir,
nú Guðfinnur heitir.
Verjendur myrkir í máli.

15.09.18

Eitthvað mikið á sér stað,
árlegt ferli tryggt:
Nær oss sífellt sækir að
svartamyrkrið þykkt.

Kemur nú af fjallið féð
feitt, og lafamótt.
Brátt mun allt, að best er séð,
á bensínvélum sótt.

Vaknar gömul von, og mér
vex að nýju kraftur.
Sólin blindar, glampar gler,
gott ‘ann rignir aftur.

16.09.18

Kominn er á Kálfstindana hvítur litur.
Höfuðdjásn við hnakka situr,
hárið prýðir stjörnuglitur.

Fögur er á festingunni flóra stjarna.
Úr hnýta vönd ég vildi gjarna,
ver’ um eilífð með þér þarna.

17.09.18

Haldið ekk’ um hádaginn sé hitasvækja!
Haustið gott er heim að sækja,
vill höfðinglega skyldur rækja.

Glöð í bragði greiðir sólin gyllta lokka.
Grund, með sína grænu sokka,
góðan býður af sér þokka.

Blakkur himinn, blíða, kuldi, birta sólar.
Andstæðir og ýktir pólar.
Inn í vetur tíminn rólar.

Lýsingin á fullveldishátíð fína fólksins á Þingvöllum kostaði sitt:

Á Þingvöllum er þrálátlega þok’ og ísing.
Dagsbirtan er daufleg lýsing,
í diskóljósum skærum því syng.

18.09.18

Áslaug Thelma Einarsdóttir var rekin úr starfi hjá Orku náttúrunnar fyrir það að kvarta undan káfi, áreitni og almennum dónaskap yfirmanna gangvart konum:

Eftir mikið „ha og humm“,
hik, og skýrslur þunnar,
margir núna yrkja um
orku náttúrunnar.

Fram kom að heildarkostnaður Þingvallafundarins hafi verið tæpar 87 milljónir – en áætlanir höfðu gert ráð fyrir 45 milljónum. Ekki mátti minna vera fyrir Piu Skærsgaard.

Til veisluborðs af bestu gerð
bjóðum enn að nýju
og teljum glöð fram tvöfalt verð
til að hylla Piu.

Enn fjallað um orkuveitubrottreksturinn. Framkvæmdastjórinn sagði af sér, en hver á að sækja um?

Orku-boltinn braut af sér,
brúnum skeit í töðuna.
Sá yðar sem syndlaus er
sæki nú um stöðuna.

21.09.18

Minnkar gálaust greddustreð,
það granít #meeto kvarnar.
Þá helltist yfir haustið, með
hrútasýningarnar!!

25.09.18

Í sjónvarpinu mínu heyrði ég í gærkvöldi að margskonar samgöngubætur kæmu ekki til greina – nema með veggjöldum. Í morgunkaffinu rifjaði óljúgfróður upp að á kosningafundi í Fjölbrautaskóla Suðurlands hefði núverandi samgönguráðherra, með hnefann á lofti, kallað yfir lýðinn: „Veggjöld verða ekki á minni vakt“!! og hlotið góðar undirtektir áheyrenda.

Á þjóðar vorrar þröngu leið
þyngist sífellt róður
en gatan verður bein og breið
borgi göngumóður.

27.09.18

Hannes Hólmsteinn birti loks „skýrslu“ sína um efnahagshrunið. Þar kom m.a. fram eftirfarandi um Bjarna Benediktsson fjármálaráðherra: „ … „Feldur hans er mjallahvítur eins og þeirra Jóns Sigurðssonar og Hannesar Hafsteins og Ólafs Thors og Bjarna Benediktssonar.““

Kollsteyptu bréfin, korter í hrun,
kappinn Bjarni seldi.
Nú gengur ‘ann um, og mestur víst mun,
í mjallahvítum feldi.

Framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins segir kröfur um 375 þúsund króna lágmarkslaun ekki „í samræmi við raunveruleikann“.“

Á hausinn þjóðin þessi fór
(það er önnur saga).
Af verklýðs launakröfukór
má kláran lærdóm draga.

01.10.18

Kári flýtir, og snýtir sér,
snerrinn, lýtur rúnum.
Dári skrýtinn, ýtinn er,
errinn skýtur brúnum.

11.10.18

Fátt var fjallða meira um í október en Braggamálið; óhóflega framúrkeyrslu við endurbyggingu gamals herbragga og náðhúss við Nauthólsvík. Eyþór Arnalds greip auðvitað „stráið á lofti“ og krafðist ábyrgðar borgarstjóra og afsagnar:

Allt eins og stráið eina
er upp vex á danskri grund,
fokdýrt, sem fréttir greina,
fegrar dags morgunstund.
Á snöggu braggabragði
breyttist í fölt og ljótt,
forlögin fyrir sagði:
ferillinn endar skjótt.

16.10.18

Að nú þrengja þrútin ský,
með þokustreng í hæðum.
Þurr er enginn þráður í
þæfðum engjaklæðum.

Meira af Braggamálinu:

Eftir áreiðanlegum heimildum óljúgfróðs sagnfræðings slæ ég þessu fram:

Það er afleitt, en Bragginn er ekkert spes,
í óráði stjórnmálagarpa.
Parþenonhofið hjá Perikles,
Perlan, Ráðhúsið, Harpa.

Að öðru …

Ljósið besta lýsir mér,
ef lengi ok þarf bera.
Í raunum slíkum rökkrið sker
rafmagnsljósapera.

Sólveig Anna Jónsdóttir formaður Eflingar útskýrði á mannamáli hvað felst í orðum ráðamanna þjóðarinnar um kröfugerðir verkalýðsfélaganna í komandi kjarasamningalotum:

Ef þjóðfélag forsmáir landsins lýð,
í leiknum bara gammar,
þá er það helvítis hrákasmíð,
til háborinnar skammar.

17.10.18

Enn af bragganum:

Braggenn ýter veð öflonöm
og innflötte melgreses vöndörenn.
Þjóðen gengen af göflonöm
en gleymdör er Þingvallaföndörenn.

Já, Þingvallafundurinn fór víst líka vel yfir strikið, þó það sé allt gleymt og grafið. Steingrímur Joð flutti inn „háæruverðugt strá“ úr danska þinginu:

Margt er dýrkeypt Danmörku frá,
sem deilum hefur valdið.
Í sumar flutti inn Steingrímur strá,
stöðugt er því framhaldið.

18.10.18

Bjartsýnisraus á tímum „netlægrar neikvæðni“:

Mjög er þannig málum stillt
að mannsins velti kerra
en fátt er svo með öllu illt
að ekkert finnist verra.

22.10.18

Í hagyrðingahorni á kótelettukvöldi Karlakórs Rangæinga sl. laugardagskvöld var eitt yrkisefnið formaður kórsins, Hermann Árnason, og afrek hans. Lagði þetta m.a. í púkkið:

Um fjöllin síst er gatan greið
þó geti talist lekkert,
Hermann stoltur stjörnu reið,
stöðvar hann víst ekkert.

23.10.18

Morgunvísa

Áfram brunar knörr minn keikur
í kröppu öldusafni.
Ennþá við mig lífið leikur,
land er fyrir stafni.

Síðdegisvísa

Þegar ýfir gaman grátt,
geðið dýfu tekur.
Ástin hrífur andans mátt,
aftur lífið vekur.

Kvöldvísa

Lengir kvöldin, vetrar vá
vagni köldum ekur.
Hengir tjöldin úrug á
alheim, völdin tekur.

24.10.18

Hádegisvísa

Flétturöndin himinhá,
heillar vöndur ljósa.
Sléttuböndin yrkja á,
orðaföndur kjósa.

Önnur síðdegisvísa:

Síðdegis leit sólin oss;
sýndist verð’ að gjalli
er himna- loks fékk konan -koss
og hvítvín út’ á palli.

25.10.18

Bragginn er eilífur og danska melgresið. Og Gunnar Gunnarsson skrifaði Leik að stráum í Danmörku:

Víst er að sjaldan við sjáum
samhengið, þó að við gáum.
Burst eða braggi?
Í blíðunnar vaggi
ljúfur er „Leikur að stráum“.

Kuldalegt er út að litast í dag og kallar á sléttubönd:

Dapur hímir runnur rór,
raunir gríma hylur.
Napur tími, kuldakór
kvæði hrímuð þylur.

26.10.18

Hringhvend sléttubönd, refhverf, í haustmyrkrinu:

Hljóður skari yndi er,
ekki bara þiggur.
Skjóður varinn sómir sér,
sjaldan barinn liggur.

Umhvefismál eru til umræðu þessa dagana, og alla daga, enda framferði mannskepnunnar í náttúrunni ekki til sóma:

Ef stóru nú mænum á myndina
við mígum í uppsprettulindina.
Á heildina litið
úr nál er ei bitið.
Þetta er neðan við þindina.

27.10.18

Ólafur Ragnar sagði frá því í útvavrpsviðtali, með stolt í rómi, að Dorrit væri búin að láta taka sýni úr hundinum Sámi til varðveislu og síðari tíma klónunar:

Stöðugt á Dorrit má stóla.
Vor stórasta hugmyndaskjóla
„pund fyrir pund“.
Plís! Bara hund,
en klónaðu ekki hann Óla!

29.10.18

Listaverki var komið fyrir úti í Tjörninni í Reykjavík. Það var sagt vera „hafpulsa“ til heiðurs Hafmeyjunni frægu í Kaupmannahöfn. Mest minnti það þó á nábleikan mannstittling, og þótti fáum fagurt:

Hún er gefandi, listamannslundin
og í lífinu verðmæt hver stundin.
Með pulsu í Tjörninni,
hversdags í törninni,
andlegur friður er fundinn.

31.10.18

Ég hef ekki verið og er ekki hlynnt þeirri afstöðu að smætta kerfislægan vanda í einstök siðferðileg álitamál sem eru afleiðing aukinnar einstaklingshyggju og einstaklingsvæðingar stjórnmálanna. Það eru mun langdrægari áhrif sem hljótast af því að breyta kerfinu sjálfu“, sagði Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra Íslands, aðspurð um afstöðu sína til ríkisstjórnarsamstarfs Vg og Sjálfstæðisflokksins í ljósi fjármálaglæpa fjármálaráðherrans, Bjarna Benediktssonar:

Ef kvelur oss kerfislæg hætta

skal kerfinu breyta, og þvætta

einstaklingsglæpi

með orðhengils’hæpi’

því siðferðið ekki má smætta.

 

03.11.18

Ók starfsfólki (konum) á Dvalarheimilinu Lundi í óvissuferð um Rangárþing. Fyrsti viðkomustaður var Nauthúsagil. Meðan konurnar örkuðu upp í gil með leiðsögumönnum og ég beið eftir hópnum skall á með byl:

Ana í óvissuferð,

úti því sjálfsagt ég verð.

Við Nauthúsagil

norpa í byl.

Glætan að leit verði gerð!

 

Frá Nauthúsagili var ekið í Fljótshlíðina og í skóginn á Tumastöðum. Þar var næsti viðkomustaður, gengið um og höfð nokkur viðdvöl í skógarrjóðri.

Í Tumastaðaskógi trén eru reist og há

og töluvert finnst þar af hágæðalogni.

Og inni á milli trjánna yrkjunum planta má

af alúð, þannig að úr þeim togni.

 

Þennan dag var grimmt auglýstur „Neyðarkall“ björgunarsveitanna, sem hannaður var í nýrri stellingu, í „gömlum stíl“:

Nú get eignast neyðarkallinn,

ný er stellingin.

Ennþá kynja- alger hallinn;

engin kellingin!!

 

12.11.18

Karlakór Hreppamanna var á tónleikaferð um Norðurland um helgina, sungið í Miðgarði á föstudagskvöldið og á Dalvík á laugardag. Við fórum nokkrir kórfélagar með Ármanni Gunnarssyni dýralækni o.fl. að skoða hesthús Dalvíkinga sem er upphaflega loðdýrahús – og auðvitað bauð dýralæknirinn upp á allskyns af gleri á „kaffi“stofunni. Í hrókasamræðum þar gerðust flestir skáldmæltir og köstuðu fram fyrripörtum sem mér var ætlað að botna. Einn var í þessa áttina:

Bersköllóttir bræður tveir
á botni þéttum siiiita.

Botnaði þetta þannig og sendi til upphafsmanns:

Grímur ekki yrkir meir,
angrar hann víst skiiiita.

Annar fyrripartur sem þeir feðgar á Kjóastöðum, Hjalti og Bjarni, ásamt Hjálmi hinum unga voru hvað ákafastir að ota fram, hljóðar svo:

Fuglar eru fleiri hér
en frillurnar í Bankok.

Þetta er augljóslega vandmeðfarið, ekki síst undir áhrifum lyfja dýralæknisins og langtíma afleiðinga þeirra. Það var ekki fyrr en í sjoppunni í Borgarnesi á heimleiðinni sem ég bangaði einhverju saman, horfandi á misgilda kórlimi starfa að mat sínum (ef mat skyldi kalla):

Félagar mínir fengu sér
franskar, bjór og langlok
u.

14.11.18

Sjálftökuliðið á Alþingi lætur ekki að sér hæða:

Aukum í aðstoðarleðeð“
(alþinge leit efer sveðeð):
„17 hér vantar.
Sjúklingafantar
og örerkjar enn geta beðeð“.

Vinstri grænir halda áfram að styðja fjármálaelítuna við að mergsjúga íslenskan almúga, níðast á öryrkjum og ausa í einkaarðgreiðslur úr sameiginlegum auðlindum þjóðarinnar.

Ef þú hana Kötu kaust
og keyptir alla frasana:
Allt fram streymir endalaust
oní dýpstu vasana.

15.11.18

Jón Gnarr fargaði eftirlíkingu af listaverki eftir götulistamanninn Banksy sem hann hafði fengið að gjöf í borgarstjóratíð sinni, þegar íhaldið ætlaði að hanka hann á því að hafa þegið „ósiðlega“ gjöf sem borgarstjóri. Vg verður trúlega fargað í næstu kosningum:

Viðutan eru og ‘vanksí’
vinstrigræn, já eitthvað ‘kranksí’.
Hver verður ei skrýtinn
síétandi skítinn?
Sömu örlaga bíða og Banksy.

Bjarni Ben. bullar tóma steypu til varnar fjárlagafrumvarpi sínu og heldur því fram að öryrkjar hafi notið kjarabóta umfram alla aðra í samfélaginu, þegar hann sjálfur og þingliðið hafði nýverið þegið launahækkanir sem einar og sér eru hærri en laun margra hópa launamanna í landinu. Stjórnarandstaðan benti á þetta en aflandspésinn sat við sinn keip:

Andstaðan þvælu á borð nú ber
en Bjarni fljótt á kýlin stingur:
„Að yfirleitt verði fólk öryrkjar hér
er óskaplegur misskilningur“.

16.11.18

Þórarinn Eldjárn skrifaði góðan pistil í Skólavörðuna þar sem hann benti á að íslensk börn teldu tryggast að ákalla almættið á ensku, ef þau vildu eiga von um að bænheyrast:

Þegar okkur út á hlið
erfiðleikar beygja
öruggast mun við almættið
‘ómægod’ að segja.

Meira af bulli Bjarna Ben. um kjör öryrkja í umræðum um fjárlagafrumvarið:

Kynnir stoltur fjárlög flott,
en framúr hann vill ekki keyra.
Þó Bjarni hafi það býsna gott
blómstra víst öryrkjar meira.

17.11.18

Það hefur gengið á með strekkingi og gusum í allan dag, reyndar „Queen í öllu“. En við erum svo heppin hjónin að hafa fengið til næturdvalar yngsta barnabarnið, dásamlega stúlku, bráðum tveggja og hálfs árs kraftaverk, svo það er meira en notalegt í kotinu:

Afans brýtur alla skel,
ysja lítil gleður.
Inni nýt ég yndis vel,
úti skítaveður.

18.11.18

Á dimmu og hljóðu vetrarkvöldi:

Víðan himna ganginn gengur,
gamla trimmið streðar.
Síðan dimmur strokinn strengur,
stilltur fimmund neðar.

Smá rímæfingar:

Vinur í raun og vakinn, er
að vonum besti „tindurinn“.
Hrynur í daun og hrakinn, fer
úr honum mesti vindurinn.

19.11.18

Ævintýraþema í limrusmíð:

Dýrið með fráhnepptan frakkann,
en Fríða þá reigð’ aftur hnakkann:
„Já, hvað vilt’ upp á dekk?“
Um jólin þó fékk
perrinn að kíkja í pakkann.

Mjallhvít var góðhjörtuð mey,
mælti víst aldregi: „Nei“!
Er kynnti hann vin sinn
hún sagði við prinsinn:
„Allt er í harðindum hey“!

Laumaðist strax út af leið
lagðist í grasið og beið
þolinmóð virtist
þegar hann birtist
Rauðhetta, úlfinum reið.

20.11.18

Framhald:

Svo greinir frá Hans og frá Grétu
að grimmir í ofninn þau létu.
Þau gát’ana platað.
(Vegna ríms nú er glatað
að Alþingi afnam hér z).

Þyrnirós svaf og hún svaf,
svo bæði missti hún af
Snappi og Tinder.
En á Fjasbók nú mynd er
í kommentum skotin í kaf.

Spurt er: Telst Andrés með öndum?
Þett’ er umdeilt víða í löndum
og milli hópa rís veggur;
Duck eða steggur?
Er Donald brabra í böndum?

Fjaðrafok var út af athugasemdum hjúkrunarfræðinga við mynd og texta í barnabók Birgittu Haukdal, þar sem talað var um hjúkrunarkonu og myndskreytingu af starfsmanni í kjól og með hárkappa:

Kynja viljum fangbrögð forðast
og fellum mál við enskan takt.
„Hjúkka“ nú má ekki orðast.
Ætli „hjúkk-it“ getum sagt?

21.11.18

Meira ævintýraþema:

Það var ólga í Öskubusku
sem æddi um gólfin, með tusku:
„Alveg stein-djöfull-blindir
á staðalímyndir!!!“
hún æpti í morgunsins musku.

Kalla má bévítans bullu
blágráan úlf, sem á fullu
hafði korter í 2
étið kiðlinga 7.
Var þá dasaður orðinn, með drullu.

Stökk hann úr kerlingar klóm
svo klesstist þar ekki við góm.
„Þessi sætabrauðstæknir
verður trúlega læknir“,
sagði refurinn, skjálfandi róm.

Úlfurinn blés og hann blés,
með blóðhlaupin augun og fés.
Þá grísirnir hlógu
uns tveir þeirra dóu.
Já, þessi saga er svolítið spes.

Spjátrungur mikill og spaði,
spinnur upp sögur með hraði
og margar til meins,
öll vitleysan eins!
Kötturinn stígvélaði.

Loks varð henni mjög á í messunni,
mistök, við fjallið, hjá skessunni!
Hún átti krakka með hor
og kraftmikinn bor
EN LOFTIÐ VAR LEKIÐ AF PRESSUNNI!!!

24.11.18

Við erum ótrúlega gæfusöm stórfjölskylda. Barnalánið er ekki einleikið og í dag fékk nýjasti fjölskyldumeðlimurinn nafnið sitt; Vaka, Freyju- og Bjarnadóttir á Þóroddsstöðum.

Lífið, elsku litla smá,
leiki þér í höndum
og skip þitt víðan sigli sjá
seglum öllum þöndum.

26.11.18

Gott nú ekki Grímur fær,
grímur renna á hann tvær.

27.11.18

Forsætisráðherra taldi ekki ástæðu til að bregðast við Klausturdónum með afsagnarkröfu því slík væri íslensk stjórnmálamenning:

Brosmild kattarþvottinn þvær,
þjófagengisfylgdarmær.

29.11.8

Heiladauðir drekk’ einn pott,
svo dáldið á þá fellur.
Samt er drullan soldið ‘hot’
sem að frá þeim vellur.

Vatnsheldur smekkur og svunta,
og samfella nauðsynleg er.
Á þingi er kolbrjáluð kunta
og karlpunga slefandi her.

Þá góðu drengi ég dæma ei vil,
dauft er í þinginu, kvenfólk í röðum,
svo dáindismenn þurfa’ að drekka sig til
fyrir dýrindsveislu á Bessastöðum.

Af einlægni opnaði sig:
„Það allra versta við þig
er hve þú ert góður
og óljúgfróður!!
Sko, ég er að míga í mig“.

30.11.18

Guðmundur í Brim var í sjónvarpsviðtali:

Glaður við góðverkið dó
er til Guðmundar arðgreiðslur dró
eins og ofalinn kálfur,
en átti sig sjálfur.
Fagur fiskur í sjó.

01.12.18

Fyrsti des. er fagur runninn,

fögnum stolt við þjóðarbrunninn.

Þó fullveldis við fengjum grunninn

fyrir hundrað árum

lokasigur ei er unninn.

Þó að eigin flaggi fána,

fóstri heita afreksþrána,

þá efstu þarf hún yfir rána,

ófleyg þjóð í sárum:

Staðfesta nýju stjórnarskrána!

 

03.12.18

Oft um dimman desember
drungi vex í hjörtum
ef kynjavera krímug fer
á kreik í skotum svörtum
en ekki við á eyju hér
yfir neinu kvörtum
því Venus hátt á himni er
og heilsar geisla björtum.

Viðkvæm mál ef orða á
svo ei af hljótist verra
Gunnar Bragi glansar þá
sem góður sendiherra.

04.12.18

Flugabeitt er frostsins kló,
fálmar mér um kinnar
svo mér verður um og ó.

05.12.18

Sólveig Anna var kölluð vanstillt, galin og vitfirrt vegna kröfugerðar Eflingar fyrir láglaunakonur:

Vanstillt, galin vitfiirrt“;
valdakarlarit birt.
Þögul ekki sit snyrt,
svara öllum hnityrt.

Ekki hafði Katrín kjark
að kalla þá réttu nafni
en Lilja setti magnað mark,
urðaði margan auman svark
í ofbeldismannasafni.

12.12.18

Ríkisstjórniun svæfði í nefnd tillögu um afnám „krónu á móti krónu skerðinga á örorkubætur og ellilífeyri:

Loforð svikin, engin efnd,
allt er hér í plati.
Svo er málið svæft í nefnd
samkvæmt stjórnar mati.

Nýtt sér hafa Vg völd,
verkin tala mikið.
Spánný veg- og veiðigjöld
og veika fólkið svikið.

Framsókn hefur fund í lagt
og formaðurinn sagt
um veggjöld orð með allri makt:
„Ekk’ á minni vakt“!!!

13.12.18

Spakur liggur, spyrtur fastur,
á spena sinnar póli tíkur.
Sannleik hver er sárreiðastur
ef sést í rifnar eigin flíkur.

Sjá má nú Sjálfstæðisflokk
snúandi framsóknarrokk
í vinstri grænum,
hlýðnum og vænum.
Helvítis fokking fokk!

23.12.18

Jólakveðja 2018

Ósköp vesæl vaknar sól,

varla lyftir brúnum.

Niðurlút, og nyrst við pól

norpar, mörkuð rúnum.

 

Og dagur eitthvað dundar sér,

en dregur stöðugt ýsur.

Í svefnrofum á fleti fer

með fornar rökkurvísur.

 

Þá birtan heims á hjara dvín

er huggun landsins börnum

að máninn hátt á himni skín

með höfuðkrans úr stjörnum.

 

Þar geislar bregða létt á leik,

því ljóst að ei er köfnuð

trúin, þó að von sé veik,

á visku, frið og jöfnuð.

 

Mín ósk er sú, það eitt er víst,

enn þó bregðist skjólin,

að fái kærleikslogi lýst,

og ljómi heims um bólin.

 

28.12.18

Kaupi sínu kveikir í
kverúlantaflokkur
svo rakettum, með ryk og blý,
rignir nið’rá okkur.

31.12.18

Datt nú allt í dúnalogn,
dátt hlær sól á himni.

Og botnið svo þetta, ef þið getið!!

Að tímamótum troðum stig,
tímans opið sárið,
þá er best að þróa sig
og þakka liðna árið.