Lifir í gömlum glæðum

Í „gullaldarbókmenntunum“ segir frá því skeiði í Íslandssögunni er hetjur riðu um héruð. Hetjur þessar voru þó næsta lítils virði í sjálfum sér – þær voru aðeins hluti af ættinni – en gátu þó vissulega varpað ljóma á hana með gjörðum sínum. Ættin var kjarni samfélagsins, upphaf og endir alls, en einstaklingurinn eins og hvert annað peð sem mátti missa sín. Sómi ættarinnar var það sem standa þurfti vörð um. Það var gert með oddi og eggju – blóðhefndin – og skipti þá engu hvar niður var borið: alsaklausir og friðsamir gátu til jafns við sökudólga búist við því að skálmareggin væri það síðasta sem ljós augna þeirra nam.

Þeir sem ekki skildu þetta, eða brutu gegn lögmálinu, voru útskúfaðir – útlagar, skógarmenn, vargar í véum – brottrækir úr mannlegu félagi og þurftu að bjarga sér sem villidýr á mörkinni. Til að tryggja eigin velferð var því vissara að halda sig á mottunni og vinna dyggilega að hagsmunum ættarinnar.

Til að víkka samtryggingarkerfið út fyrir mörk ættarinnar stofnuðu menn svo til fóstbræðralags. Óskyldir mynduðu hagsmunatengsl með því að blanda blóði, og hétu því að standa saman út yfir gröf og dauða. Einn fyrir alla og allir fyrir einn! Að þeim samningi gerðum var alveg sama hvaða vitleysu eða ódæði einn gerðist sekur um – þegar vel lá við höggi – aðrir sátu uppi með sameiginlega ábyrgð – og því eins gott að verja gjörninginn með öllum tiltækum meðulum.

Í nútímanum má enn sjá glögg merki þessara eldfornu félagslegu grunnstoða samfélagsins.

Allir Íslendingar þekkja þess dæmi að fremur sé farið eftir ættartengslum en hæfni við ráðningar, og er þá alveg sama hvort um er að ræða störf í einkageiranum eða embætti innan stjórnsýslunnar. Þessi hagsmunagæsla hefur á vorum tímum víkkað út í hóp vina og kunningja. Gamla ættarsamfélagið er nú „kunningjasamfélag“.

Og skýrustu dæmin um fóstbræðralag nútímans er að finna í stjórnmálaflokkum. Þar eru flestir á sömu forsendum og forfeðurnir í fóstbræðralagi – hafa látið múra sig þar inni fyrir lífstíð: Einn fyrir alla og allir fyrir einn! Hinir innmúruðu þjappa sér saman um sameiginlega hagsmuni hvað sem á dynur, og því þéttar sem vitleysan og spillingin er meiri.

Þessi árátta hefur dafnað og blómstrað á gjörvöllu skeiði helmingaskiptaflokkanna. Sú nafngift – helmingaskiptaflokkarnir – segir eiginlega allt sem segja þarf. Að „vel meinandi fólk“ skuli leggja nafn sitt og trúnað við slíkan félagsskap er með fullkomnum ólíkindum – og verður ekki skýrt nema með því að fólk gangi undir einhverskonar jarðarmen, í anda fóstbræðralagsins til forna.

Í skjóli helmingaskiptaflokkanna hefur þannig þróast hér á landi það sem einn hinna innmúruðu kallaði réttnefninu „ógeðslegt þjóðfélag“.

Margskonar spillingar- og hneykslismál sem komið hafa upp á yfirborðið undanfarið ættu því engum að koma á óvart. Nýleg dæmi: Einhver óþverri var látinn renna með frárennslinu út í Eyjafjörð frá verksmiðju einni á Akureyri. Þungmálmamengaður áburður seldur bændum í tonnavís. Sorpbrennslur látnar spúa eitri yfir heilu byggðarlögin. Iðnaðarsaltið. Brjóstapúðarnir. Fjármála- og bankahneykslið!

Þegar spillingin er dregin fram í dagsljósið eru svörin þau, að þetta hafi nú allt verið vitað, en ekki talið taka því að skrúfa fyrir kranann, því þetta hafi viðgengist svo lengi! – og menn verði nú að fá að koma út birgðunum sínum! Lofað svo að gera þetta ekki aftur. Og varla þarf, í þessu samhengi, að rifja upp einu sinni enn stjórnvisku þeirra pólitíkusa sem færðu bankana í hendur reynslulausum gapuxum, vængstýfðu allt eftirlit með banka- og fjármálakerfinu, og lögðu svo niður þær stofnanir sem voguðu sér að benda á hættumerki eða bresti í ríkisfjármálastjórn þessara stórsnillinga?

Borin von er að þetta gamla, rotna kerfi geti tekið á málum af myndugleik, ekki fyrr en eftir langan tíma. „Jón í eftirlitinu“ er líklegast tengdur „Pétri verksmiðjustjóra“ eða „Gunnari sölumanni“, þó ekki væri nema að hann sé frændi Guðmundar sem er giftur Guðrúnu, dótturdóttur Jóhannesar langömmubróður Dísu, sem átti heima á númar 7, beint á móti Pétri sjálfum þegar hann var að alast upp um miðja síðustu öld. Eða að báðir eru múraðir inni – í sama sauðahúsinu! Nema hvort tveggja sé.

Það jákvæða við stöðuna er að helmingaskiptaflokkarnir hafa verið svældir út úr stjórnarráðinu. Í kjölfarið hefur sem betur fer allt fyrrnefnt – og ýmislegt fleira – komið fram í dagsljósið, þangað sem verður að draga það.

Og fráleitt er að við höfum sopið allt kálið. Hver fréttin af þessum toga mun reka aðra í fjölmiðlunum næstu misserin og árin, áður en öll kurl verða komin til grafar – því lengi lifir í gömlum glæðum.

Meira af Framsókn!

Framsóknarmenn, með þingmanninn Gunnar Braga í fararbroddi, hafa kvartað hástöfum undanfarið yfir því að þeir séu sniðgengnir í fjölmiðlum – aðallega undan RÚV, skilst mér. Gunnar hafi t.d. bara ekkert verið kallaður í Kastljósið og aðrir sniðgengnir líka. Þetta er auðvitað bagalegt, ekki síst eins og fjölmiðlun mun vera háttað nú til dags – bara ein stöð með eina rás – og möguleikarnir því litlir að koma sér á framfæri.

Enginn sækir sennilega heldur lummufundina hjá flokknum á laugardögum, þrátt fyrir Klingenberg og fleira áhugavert. Spurning hvort flokkurinn ætti ekki frekar að bjóða upp á glímusýningu og fánahyllingu til að draga að fólk?

Ég verð í hreinskilni sagt að lýsa yfir stuðningi við þessar umkvartanir Framsóknarmanna. Ég held að það yrði mjög jákvætt fyrir land og þjóð ef Framsóknarmenn væru sem mest í fjölmiðlum, ríkisútvarpinu sem öðrum. Því meira sem þjóðin fær af svo góðu, því betra.

Og megi frábærum þáttum málfarsfulltrúa þingflokksins fjölga sem mest í fjölmiðlum. Ég legg til að RÚV endursýni þá í hverri viku á besta tíma, t.d. í staðinn fyrir Landann eða aðra slíka „ömurlega“ þætti.

Að vaða elginn

Ég þurfti heldur betur að vaða elginn seinnipartinn í dag. Fór eftir vinnu að líta á blessaða klárana mína (sem stilla sér upp á myndinni hér að ofan). Aðeins var farið að rökkva og ekki mjög víðsýnt fyrir bragðið, en þegar sá yfir beitarhólfið blasti við ófögur sjón: Allt á floti! Árfarvegurinn bakkafullur af snjó og í leysingunum flæddi áin um allt – eins og úthaf yfir að líta (þó ekki láti hún mikið yfir sér hér á myndinni)! Og þeir hímdu uppi á skurðsruðningi, blessaðir kallarnir. Ekki var annað að gera en bruna heim aftur og sækja beisli og brauðmola.

Og svo var að vaða elginn – stígvélin týnd frá því í Kjalferðinni í sumar. Freyr (sá jarptvístjörnótti)  kom á móti mér þegar ég var kominn yfir hafið og upp á ruðninginn, þáði bæði brauðmolann og mélin með þökkum. Ekki þurfti að beisla fleiri, því Þokki (sá moldótti) áttaði sig strax og fetaði sig af stað í áttina upp að hliði. Það var hálfgert torleiði, hált á ruðningunum og á milli þeirra bunaði vatnselgur upp á miðjan legg  – ofan á svelli. En Þokki hélt ótrauður áfram og hinir í humátt á eftir. Við Freyr rákum svo lestina. Allir komumst við svo votir í lappirnar upp að hliði, en þá var seinni hlutinn eftir, að komast upp á veg og yfir á þurrt land í hólfi handan vegar.

Ég beislaði alla fimm og teymdi af stað. Flughált á slóðanum upp að brú en þetta hafðist. Handan brúar fossaði vatnið yfir vegarslóðann á 10 metra breiðum kafla. Spurning hvort við gætum fótað okkur í straumnum, á þessari líka glæru? Fetaði mig út í og fann fljótlega að sem betur fer var ísinn aðeins farinn að digna undan vatnsflaumnum og því ekki eins hált og ætla mátti. Allt gekk því vel og fyrr en varði vorum við komnir upp á bílveginn. Hliðið að hólfinu þar rétt handan og öllum því borgið.

Mikið óskaplega skynjar maður það vel við aðstæður sem þessar hve yfirburðagáfuð og traust skepna þetta er, íslenski hesturinn. Og þakklætið skein úr hreinlyndum augunum þegar ég kvaddi þessa ferðafélaga mína og bestu vini.

Vísindin efla alla dáð

„Þetta eru gömul vísindi“, eða: „Þetta eru nú einhver ný vísindi“, segja menn við réttu tækifærin, gjarnan þegar þeim blöskra einhverjar fullyrðingar samborgara sinna, sem þeir eru ósammála. Og öll vitum við að „vísindin efla alla dáð“, eða er það ekki, annars?

Lengi hefur tíðkast að nota „blessuð vísindin“ sér í hag í rökræðum eða í auglýsingaskyni. Frasinn „vísindalegar rannsóknir hafa sýnt að…“ er alþekktur. Því miður er það undir hælinn lagt hvort að baki slíkum fullyrðingum eru nokkur vísindi yfirleitt – en tilgangurinn er að varan, eða rökin, fái á sig gæðastimpil. Og óþarflega oft virðist tilgangurinn helga meðalið.

Í þjóðmálaumræðunni, ekki síst stórpólitískum dægurmálaþrætum, er vísindunum slegið milli póla eins og borðtenniskúlu. Annað hvort eru „engar eða ónógar vísindarannsóknir að baki“ eða þær eru dregnar stórlega í efa, séu þær til staðar, og vísindamennirnir sakaðir um að vera málaliðar (og þar með engir vísindamenn) í pólitískum hráskinnsleik.

Þetta kannast allir við í umræðunni um náttúrvernd og virkjanir. Sú undarlega lenska hefur t.d. verið viðhöfð hér á landi að láta framkvæmdaaðilana sjálfa sjá um umhverfismat, eins fjarstæðukennt og það nú er, þegar málið er hugsað. Megin stefin í þessari umræðu undanfarna áratugi hafa verið þau að náttúrverndarsinnar hafa kvartað yfir skorti á vísindum að baki ákvörðunum en virkjana- og stóriðjusinnar hafa heldur amast við vísindum, talið þau óþarfa vesen sem tefji bara framgang „nauðsynlegra framfara“.

Gott ef Samtök atvinnulífsins hafa ekki verið á þeirri skoðun að Umhverfisráðuneytið sé óþarft með öllu, m.a. af þessum sökum. Það gæti nefnilega farið fram á að lagst yrði í dýrar og tafsamar rannsóknir, sem skipta ekki máli þegar upp er staðið, því það átti nefnilega að virkja hvort sem er.

Ásmundur Einar Daðason hefur nú um stundir mestar áhyggjur af því hvort friðun fuglategunda hér við land tengist umsókn um inngöngu í Evrópusambandið, en hefur litlar áhyggjur af því hvort viðkomandi tegundir eru raunverulega í hættu, með eða án ESB-tilskipunar, á meðan umhverfisráðherra segir að „mælingar sýni að fækkað hafi í stofnunum“ (væntanlega vísindalegar mælingar?). Ásmundur Einar hefur nefnilega þá lífssýn að fuglategundir eigi að deyja út samkvæmt alíslenskri reglugerð, fyrr en að þær bjargist fyrir tilstilli reglugerða frá ESB.

Og náttúruverndarmenn eiga það líka á hættu að taka „vísindin“ í sína þjónustu, án þess að séð verði að óyggjandi rannsóknir liggi þar að baki. Þannig telur t.d. Orri Vigfússon að 80-90% villta laxagöngustofnsins í Þjórsá gæti verið í hættu ef áin yrði virkjuð hér niðri í byggð. Hvaðan fær hann þær tölur?

Fiskifræðingar halda því fram, með ágætum rökum að því er séð verður með leikmannsaugum, að virkjun í Ölfusá við Selfoss muni valda umtalsverðu tjóni á laxastofni Ölfusár-Hvítár ef mótvægisaðgerðir virka ekki eins og til er ætlast. Virkjunarsinnum er hinsvegar hætt við því að miða málflutning sinn við það að mótvægisaðgerðir virki 100%, og vitna svo í verkfræðileg vísindi því til staðfestingar.

Í sjávarútveginum er stöðugt deilt um vísindin. Hafrannsóknarstofnun leggur fram tillögur um veiðiheimildir, byggðar á vísindarannsóknum sínum á stofnstærðum. Í hvert sinn má ganga að því vísu að útgerðarmenn, skipstjórar eða trillukarlar rífi í sundur á sér andlitið, inni í stofum landsmanna, í heilagri vandlætingu yfir „þessum fávitum með prófgráðurnar“ sem ekkert viti í sinn haus, það sé allur sjór morandi í fiski, það sjái allir vitibornir menn með barnaskólapróf!

Náttúran og vísindin hafa lengst af mátt sín lítils fyrir sérhagsmunum. LÍÚ hefur að mestu ráðið því sem það hefur viljað ráða í sjávarútvegsráðuneytinu, og því er von að sambandinu finnist slitið úr sér hjartað þegar minnst er á að færa auðlindanýtinguna yfir í umhverfisráðuneytið – ráðuneyti sem því finnst helst að leggja ætti af, enda samgöngur víst ekki jafn greiðar þangað inn. Það sama gildir um Samtök iðnaðarins og Bændasamtökin varðandi þeirra málaflokka. Á tímum Sjálfstæðisflokksins og Framsóknarflokksins (sem sagt nánast allan lýðveldistímann) voru svo ljómandi greiðar leiðir fyrir þessi hagsmunasamtök inn í „sín ráðuneyti“.

Með nýjum stjórnvöldum fer þetta þó vonandi að breytast.

Því er þó ekki alveg að treysta, eins og Pawel Bartoszek bendir á í frábærri grein í Fréttablaðinu í dag, um afleitan ráðherraferil Jóns Bjarnasonar.

Örríma við áramót

1. Hringhent

Líður senn að lokum árs,
lífs þá enn hefst gangur.
Yfir fennir tildrög társ,
tíminn kennir strangur.

Mannakyn sér gefi grið,
gæfu skynji ríka.
Gleðjist vinir! Fróðafrið
finni hinir líka.

Hagur flestra stóð í stað,
strembin mesta törnin.
Sinnið nestum, sýnum að
sókn er besta vörnin.

2. Ferskeytt

Innsta kjarna eigin lífs
ákaft margir leita.
Bitur eggin, bakki hnífs,
biðlund eða streita?

Hvað mig vantar, hvað ég þarf,
um hvað mér ekki neita?
Það sem elti þigg í arf
og það mun öðrum veita.

Ósk um nýárs brotið blað
og birtu eftir stritið.
Kveðjum hrun, en þekkjum það
þegar við er litið.

3. Braghent

Hamingjan í hagvextinum hímir ekki.
Nægjusemi, það ég þekki,
þykka brýtur græðgishlekki.

Aukum jöfnuð, elskum friðinn, alla seðjum
og á glæstar vonir veðjum;
verndum, huggum, styrkjum, gleðjum.

Kveðjum árið! Keyrðum það á kanti hálum?
Mót nýju gakk með gamanmálum!
Glösum lyftum! Syngjum! Skálum!

Öll vötn falla til dýra fjarðar

Skúli Helgason skrifar í dag grein á dv.is þar sem hann fer yfir horfurnar, helstu verkefnin á næstu misserum sem breytt ríkisstjórn muni taka á. „Hinar bráðu björgunaraðgerðir vegna bankahrunsins eru komnar vel á veg, tekist hefur að lækka fjárlagahallann um 170 milljarða frá hruni, spara með því 17 milljarða í vaxtakostnað, hagvöxtur er hafinn á ný og meiri en víðast hvar í Evrópu og almenningur sér nú fram á betri tíð með auknum kaupmætti, lægri skattbyrði og verðbólgu sem stefnir í að verða nærri verðbólgumarkmiði Seðlabankans (2,5%) á síðari hluta ársins“, segir Skúli, nokkuð kokhraustur.

Í ljósi þessa telur Skúli að komið sé að vatnaskilum í starfi ríkisstjórnarinnar, sem geti nú farið að líta upp úr mokstrinum, á nánasta umhverfi í kringum sig. Hann segir „mesta þjóðþrifaverkefnið að tryggja nýja skipan auðlindamála“ þar sem allt er „undir, fiskur, orka og land auk þeirra auðlinda sem kunna að verða nýttar í framtíðinni“.

Ekki er ég jafn sannfærður og Skúli, um sýn almennings á betri tíð með auknum kaupmætti og lægri skattbyrði. Ég held einmitt að „almenningur“ sjái alls ekki fram á betri tíð og allra síst lægri skattbyrði. Það hefur stjórninni tekist á eigin spýtur með gjörðum sínum og þar að auki hefur valdaklíku landsins, stjórnarandstöðunni og „aðilum vinnumarkaðarins“ alveg tekist að kaffæra Skúla og félaga í umræðunni. Nánast daglega dynja á fólki fréttir af auknum álögum og núna um áramótin hellast þær enn yfir – sem aldrei fyrr.

Ég er hræddur um að fréttir af reikningnum sem fólk mun fá sendan ef það bruðlast við að „panta sjúkrabílinn“, og aðrar fréttir í sama stíl, veki meiri athygli hjá almenningi en einhver þokukennd loforð um betri tíð með blóm í haga.

Ríkisstjórnin og stuðningsmenn hennar á þingi verða í sameiningu að átta sig á því, þrátt fyrir mikið langlundargeð margra kjósenda og skilning á þeim aðstæðum sem við er að glíma, að öllu siðlegu fólki svíður það óréttlæti sem við blasir varðandi skuldastöðuna -já alveg inn að kviku. Mér kemur á óvart ef fólk sættir sig við að sitja uppi með stökkbreyttar skuldir til eilífðarnóns. Við erum mörg tilbúin að bíða meðan verstu skítverkin eru unnin, en fyrst nú er komið að vatnaskilum, er þá ekki eimitt kominn tími á eitthvert lágmarks réttlæti?

Skúli hittir alveg í liðinn þegar hann segir: „Það er algjört forgangsverkefni á árinu 2012 að tryggja samræmda auðlindastefnu […] sem tryggi þjóðarbúinu eðlilegar tekjur af allri nýtingu sameiginlegra auðlinda þjóðarinnar“. Því miður finnst manni horfurnar hvað þetta varðar ekki vera björgulegar. Ekkert annað blasir við almenningi en að hver höndin sé uppi á móti annarri í stjórnarflokkunum, ekkert samkomulag um breytingar á kvótakerfinu muni nást, og útgerðarauðvaldið fari með fullkominn sigur af hólmi – hlakki yfir bráð sinni eins og sá ránfugl sem það er. En ef stjórnarliðið heykist á þessu, þá verður það grafskriftin þess.

Nú stendur upp á Skúla, því ég hef þrátt fyrir allt nokkra trú á honum, að sigla þessu máli í höfn.

Við lestur fyrirsagnarinnar á tilvitnaðri grein detta manni strax í hug hin fleygu orð Vésteins, úr Gísla sögu Súrssonar: „Nú falla öll vötn til Dýrafjarðar“.

Öll vötn íslensks almennings falla nú til dýra fjarðar. Ef komið er að vatnaskilum, hvert munu þau falla héðan í frá?

Hálfguðaundrin

Nú stendur íslenska valdaklíkan fyrir harðvítugu áróðursstríði og stöðugum skæruhernaði til að fegra eigin hlut – og endurrita söguna sér í hag. Til þess hefur hún heilt dagblað og fleiri smámiðla, bæði net-, prent- og ljósvakamiðla. Þórður Snær Júlíusson fer ágætlega, í grein í Fréttablaðinu í dag, yfir áróðurstækni lögmanna „hinna miklu íslensku efnahagsundra“ sem eru til rannsóknar vegna ætlaðra efnahagsbrota og segir meðal annars: „Flestir þeirra hafa stórar hugmyndir um eigið ágæti, sumir virðast beinleiðis upplifa sig sem einhvers konar hálfguði, og sjálfsmynd þeirra er beintengd við það sem þeir gerðu á hinum fölsku uppgangstímum“. Þetta sama var tekið til umfjöllunar í pistli hér á síðunni á Þorláksmessu.

En þessar lýsingar eiga ekki aðeins við efnahagsundrin. Þær passa nákvæmlega við á öllum sviðum. Skýrast kemur þetta fram, annars vegar þar sem LÍÚ hamast við að verja hagsmuni stórútgerðarmanna og reynir að telja fólki trú um að allt fari á hausinn ef útgerðin greiddi sanngjarna rentu fyrir aðgang að fiskimiðunum, þyrfti að greiða fyrir hráefnið eins og aðrir atvinnurekendur. Hinsvegar í stjórnmálunum þar sem Sjálfstæðisflokkurinn hamast í fullkomnu æðiskasti við að breiða yfir eigin skít og velta eigin ábyrgð yfir á aðra.

Þetta er aðferðafræði sem flokkurinn hefur notað árum og áratugum saman. Ef þeir lenda í minnihluta einhvers staðar, á þingi, í sveitarstjórnum eða hvar sem er, haga fulltrúar hans sér eins og þeir einir séu réttbornir til valda. Þar er lifandi komin „hálfguðahugmyndin“ sem Þórður nefnir og eftirfarandi lýsing Þórðar á fullkomlega við atferli sjálfstæðismanna þegar þeir lenda í aftursætinu: „Oftast eyða þeir reyndar mestu púðri í að upplýsa hversu léleg rannsóknarskýrslan sé, hversu illa gefnir rannsakendur þeirra séu og hversu illa gefinn fréttamaðurinn sé…“. Ef skipt er út úr tilvitnuninni rannsóknarskýrslunni, rannsakendum og fréttamanninum fyrir það sem á við á hverjum stað og tíma, þá er þetta mynstrið.

Svona er haldið áfram og áfram og áfram endalaust. Allt þar til flokkurinn kemst aftur til valda. Þá er farið að tala fjálglega um siðareglur, heiðarlega umræðu, samstarf og samvinnu. Og hneykslast ógurlega á allri gagnrýni: íbúarnir eigi annað og betra skilið!

Það er alveg gargandi snilld að fylgjast með þessu kjaftæði.

 

 

 

 

Jólagleði

Hafi vinur keyrt í kaf
af kreppuþján og streði,
honum gefðu ómælt af
ást og jólagleði.

Veistu þann er styðst við staf,
stirðan mjög í geði?
Þessum veittu ómælt af
ást og jólagleði.

Sigli einn um úfið haf
og allt hans líf að veði,
í bæn þeim sendu ómælt af
ást og jólagleði.

Manstu einn sem eftir gaf
við óhapp, sem að skeði?
Færðu honum ómælt af
ást og jólagleði.

Enn af þeim er aleinn svaf
oft á sjúkrabeði.
Kveðju sendu, og ómælt af
ást og jólagleði.

Strákarnir okkar

Baldur Guðlaugsson, fyrrverandi ráðuneytisstjóri í fjármálaráðunetyinu, var í apríl sl. dæmdur í tveggja ára fangelsi fyrir innherjasvik. Nú er mál hans til meðferðar í hæstarétti. Lögmaður Baldurs hefur sett fram þær kröfur, til vara, að fjölmiðlaumfjöllun um málið komi til refsilækkunar, verði sakfellingin staðfest í hæstarétti, enda geti engin refsing staðist samanburð við vítisloga íslenskrar fjölmiðlaumfjöllunar. Gekk umfjöllunin víst svo langt að hinn dæmdi ráðuneytisstjóri missti vinnuna!

Þetta ætti sérstakur saksóknari að láta sér að kenningu verða í sínum störfum. Það gengur náttúrulega ekki að menn sem kunna að verða dæmdir fyrir að leiðast óvart út í innherjasvik, vafningafléttur eða stórfelld bankarán ef út í það er farið, missi að auki vinnuna. Þetta var nú einu sinni það sem allir „okkar bestu menn“ voru að gera og, drifnir áfram af forseta vorum, nýttu snilli sína á þessum sviðum til að bera „hróður“ fósturjarðarinnar út um heiminn.

Þó það hafi auðvitað verið sjálfsagt að fjölmiðlarnir segðu frá hinum miklu sigrum víkingaferðanna, og flytu með í einkaþotunum til að spara tíma og aukaferðir, er engin ástæða fyrir þá að vera endalaust að horfa um öxl og velta sér upp úr einhverjum hlutum sem gætu hafa farið úrskeiðis í fortíðinni – enda það allt saman náttúrulega aðstæðum á erlendum mörkuðum að kenna en ekki „strákunum okkar“.

„Strákarnir okkar“ eiga nefnilega heiður skilinn fyrir að koma okkur hér á þessum útnára rækilega á heimskortið og í stað þess að láta fjölmiðla komast upp með að hrekja þá úr vinnunni með ósanngjarnri umfjöllun væri nær að forsetinn hóaði þeim saman á Bessastaði milli jóla og nýárs og hengdi í þá fálkaorðuna.

Allir muna hvað það var gaman á Bessastöðum, hjá forsetanum og silfurstrákunum, eftir ÓL í Peking. Nú er lag að heiðra „gullstrákana“ líka, Baldur og þá hina.

 

 

Stórslys í Ölfusá?

Undarlega hljótt hefur lengst af verið um áform bæjarstjórnarmeirihlutans í Árborg að stífla Ölfusá við túngarðinn ofan við byggðina á Selfossi og veita henni úr farvegi sínum, í jarðgöngum eða skurði, nánast í gegnum byggðina „utan ár“. Upplýsingar um þennan gjörning eru bæði loðnar og af skornum skammti, ekki síst í því ljósi að hér hafa ekki fyrr verið settar fram hugmyndir sem gætu haft jafn öfgafull, skaðleg áhrif á bæði lífríki og efnahag á svæðinu.

Náttúruvættið

Ölfusá, þar sem hún beljar í gegnum Selfoss, um gjána, Básinn og áfram niður flúðirnar norðan gömlu Selfossbæjanna, er hjartsláttur þessa byggðarlags. Fram kemur í grein eftir fiskifræðingana Sigurð Guðjónsson og Magnús Jóhannsson í héraðsblaðinu Dagskránni í gær að meðalrennsli Ölfusár, þessa vatnsmesta fljóts á Íslandi, sé 400m3 á sekúndu en ef af virkjanaáformum yrði myndu seitla undir brúna 15m3/s (eitthvað meira í vatnavöxtum). Ef áin yrði aflífuð með svo brútal hætti sem núverandi bæjarstjórnarmeirihluti áformar er þar með grundvellinum kippt undan sjálfsmynd þeirra sem lifað hafa og hrærst í félagi við hana um aldir. Kynslóðir sem yxu upp þaðan í frá, við hjal í svo hlægilegri sprænu, yrðu eitthvert allt annað fólk en það sem alið hefur manninn á bökkum þessa eins merkasta náttúruvættis landsins fram undir þetta.

Áhrif á lífríkið

Í grein þeirra Magnúsar og Sigurðar kemur fram að á vatnasvæði Ölfusár-Hvítár „lifa allar þær fiskitegundir sem finnast í fersku vatni á Íslandi“. Af þessum fiskstofnum eru umtalsverðar nytjar og er veiðistofn laxa í ám á vatnasvæðinu einn sá stærsti á landinu. Veiðin er umtalsverð, bæði í net og á stöng og geta stangardagar í laxveiði orðið á bilinu 8000 til 9.500 á ári en í silungsveiði yfir 18.000. „Laxastofnar Ölfusár-Hvítár hafa umtalsverða þýðingu á landsvísu en á árinu 2010 var laxveiðin þar um 18% af allri veiði í ám með náttúrulegum laxi á landinu og er jafnframt umtalsverður hluti af fjölda laxa í afla við Norður-Atlantshaf“, segja fiskifræðingarnir, og ennfremur að virkjunin muni valda „umtalsverðu tjóni ef mótvægisaðgerðir eru ekki gerðar eða ef þær virka ekki eins og til er ætlast“. Það muni þýða „endalok þeirra göngufiskstofna sem eru ofan [fyrirhugaðrar] stíflu“, hvorki meira né minna. Hver vill taka þá áhættu – og ábyrgð á slíku hryðjuverki?

Tilfinningasemi, efnahagsleg afkoma og náttúruvá

Allir sem vilja, sjá að hér er ekki aðeins um að tefla „einhverja fiska“ eða tilfinningasemi íbúa í nágrenni virkjunar, heldur einnig stórkostlega efnahagslega hagsmuni, bæði vegna sölu veiðileyfa og ekki síður afleiddra áhrifa á ferðaþjónustu og afkomu íbúa meira og minna upp um alla Árnessýslu. Hér er líka um að tefla Sogið, Stóru-Laxá, Tungufljót og Brúará, svo aðeins nokkrar stærri árnar séu nefndar, og að auki veiðivötnin Hestvatn, Apavatn og Laugarvatn.

Fyrir utan það sem hér hefur verið nefnt þarf að hafa í huga að Ölfusá og Hvítá eru „mestu flóðaár landsins“ og í þeim „urðu hlaup árin 1929, 1939, 1975, 1980 og 1999“ ef aðeins er litið til síðustu aldar. Enginn veit hver áhrif stíflu við Efri-Laugardælaeyju yrðu á marflatan Flóann í hamfara- eða krapaflóði. Erfitt er að meta hættuna þar sem allar hugmyndir bæjarstjórnarmeirihlutans um framkvæmdina eru þokukenndar og óljósar, það skal bara virkja! Helst virðist eiga að reiða sig á, til að bjarga fiskstofnum, „fiskivænar túrbínur“, sem hafa verið kjaftaðar upp í blöðum, en virðast reyndar ekki vera til nema sem líkön á teikniborðum tilraunastofa einhversstaðar úti í hinum stóra heimi.

Ekki einkamál meirihlutans

Til að réttlæta náttúruspjöllin hefur bæjarstjórnarmeirihlutanum tekist að reikna sig upp í hundruð milljóna hagnað og hundruð starfa. En þrátt fyrir öll reiknilíkön eru þessi ósköp ekki einkamál fimm meirihlutafulltrúa í bæjarstjórn Árborgar. Þetta var ekki stefnumál neins flokks fyrir síðustu kosningar í sveitarfélaginu og því hafa fulltrúar Sjálfstæðisflokksins um þetta ekkert umboð frá kjósendum sínum, né öðrum íbúum. Að ekki sé talað um aðra Árnesinga, sem málið varðar ekki síður en Selfyssinga. Hér eru nefnilega líka í hættu hundruð milljóna og hundruð starfa ef fiskistofnar hrynja.

Fordæmi Hvergerðinga

Bæjarstjórn Hveragerðis setti eftirtektarvert fordæmi með því að berjast samhent og einhuga gegn virkjunum í sínum bakgarði, og kom þannig í veg fyrir eyðileggingu ómetanlegra náttúruperla. Hvergerðingar mátu dýrgripi sína meira en allt það gull sem reiknimeistarar töldu sig geta borað upp úr iðrum jarðar. Hafi þeir þökk fyrir.

Geta ekki Ölfusá og Hvítá bara fengið að vera í friði fyrir virkjunum, eins og hinir fögru „reykja“dalir ofan Hveragerðis? Má ekki friða þetta vatnasvæði og einbeita sér að enn öflugri uppbyggingu veiðistofnanna, sem gætu skilað mun meiri arði en þeir nú gera, í stað þess að stefna þeim í voða?

Fordæmi Hvergerðinga hrópar á meirihlutafulltrúa í bæjarstjórn Árborgar, sem eru einangraðir í afstöðu sinni til málsins: „Hættið þessari vitleysu strax“.

(Pistillinn er að stofni til grein eftir undirritaðan sem birtist í Dagskránni – Fréttablaði Suðurlands 17. mars 2011).