Aumingja forsetinn

Nú hefur kaleik verið troðið upp í andlitið á forseta vorum – kaleik sem hann kærir sig ekkert um að súpa af. Flokkur manna, með Guðna Ágústsson í broddi fylkingar, hefur safnað undirskriftum 30.000 kjósenda til að hvetja Ólaf Ragnar til að bjóða sig fram enn einn ganginn – í fimmta sinn.

Þrátt fyrir mjög afdráttarlausar yfirlýsingar í nýársræðu sinni um að hann ætlaði að láta staðar numið í þessu embætti, sér flokkur manna sér leik á borði að hvetja Ólaf til dáða – eingöngu til að þjóna þröngum pólitískum hagsmunum, þ.e.a.s. andstöðu gegn inngöngu í Evrópusambandið. Með þessu athæfi er forsetaembættið dregið fram á hið pólitíska svið sem aldrei fyrr – og fannst sumum þó orðið nóg komið af svo góðu.

Óskiljanlegur fjölmiðlafarsi hefur gengið fyrir fullu húsi sl. tvo mánuði um það hvort forsetinn hafi sagt í nýársávarpinu hvort hann hygðist hætta eða halda áfram í embætti – eða hvort hann hafi sagt þetta nógu skýrt – eða að hann hafi „skilið eftir glufu“ fyrir einn eða annan skilning á því hvað hann sagði.

Ræða forsetans um þetta efni var þegar allt kemur til alls alveg kýrskýr. Hann sagðist ætla að hætta.

Ég var sjálfur á tímabili ekki viss um það hvort Ólafur ætlaði að hætta eða halda áfram. Það var bara ein ástæða fyrir þessari óvissu minni: Ég nennti ekki að hlusta á nýársræðuna. Fjölmiðlafarsann komst ég ekki hjá því að heyra og sjá. En þegar betur var að gáð var engin leið að vera í nokkrum vafa um þetta.

Þeir sem fram á þennan dag hafa haldið því fram að vafi léki á fyrirætlunum forsetans hafa, eins og ég, greinilega ekkert hlustað á ræðuna, og gera honum því í skjóli fáfræði, misskilnings og pólitískra flokkadrátta þennan ógurlega óleik sem við blasti á Bessastöðum í dag. Ólafur Ragnar kunni ekki við það að gera allan þennan sjálfumglaða flokk afturreka fyrir framan myndavélarnar, af eintómri kurteisi og tillitssemi, enda þarna á ferðinni margir þungavigtarmenn.

Hann mun svo endurtaka fyrri yfirlýsingar sínar seinna í þessari viku, eða þeirri næstu, því fjölskyldan hefur þegar gert margskonar ráðstafanir og hafið undirbúning að nýju lífi.

Og þá verður Guðni Ágústsson bara að berjast gegn inngöngu í ESB með eigin verðleika að vopni, þó hann hafi ekki treyst þeim hingað til.

Normalísering siðblindunnar

Einhvern veginn stend ég í þeirri trú að í íslenskum lögum (jafnvel í stjórnarskránni, eða hvað?) séu greinar um jafnrétti: jafnrétti allra þegna þjóðfélagsins burtséð frá kyni, húðlit, kynhneigð, trú, heilsufari, skoðunum eða stöðu að öðru leyti. Ef þetta er misskilningur hjá mér ættu þar alla vega að vera slík ákvæði.

Í þessum pappírum trúi ég líka séu ákvæði um skoðana- og tjáningarfrelsi: að allir þegnar séu frjálsir að skoðunum sínum og að tjá sig um þær.

En jafnréttisákvæðin fela í sér fleira en bara það að þegnarnir hafi jafnan rétt til að vera karlar og konur, eða að vera svartir, gulir, hvítir, rauðir, bláir eða grænir á hörund, sam-, gagn- eða tvíkynhneigðir, haltir eða óhaltir, blindir eða sjáandi, heyrnarlausir eða heyrandi, sjúkir eða heilsuhraustir, kristnir, múslimar, ásatrúar, búddistar eða trúlausir, kommar, kratar, þjóðrembingar eða íhald, frjálslyndir eða afturhald, að þeir megi vera litlir eða stórir, feitir eða mjóir, ríkir eða fátækir, hærðir eða sköllóttir, dökkhærðir, rauðhærðir eða ljóshærðir.

Jafnréttisákvæðin, eins og ég skil þau, fela það í sér fyrst og fremst að fólk geti fengið að vera allt þetta, eins og það er skapað, í friði og spekt, geti lifað hamingjusömu lífi í sjálfu sér, hvernig svo sem það er saman sett af ofangreindum eiginleikum, eða óteljandi öðrum eiginleikum og einkennum hér ónefndum.

Jafnréttisákvæðin, eins og ég skil þau, fela það í sér að árásir og svívirðingar, meiðandi yfirlýsingar um fólk vegna einhverra eiginleika þess, eru lögbrot – og það sem verra er: siðrof.

Þeir sem ráðast að fólki með svívirðingum vegna húðlitar þess eða kynhneigðar, svo dæmi séu tekin, brjóta með hegðun sinni ekki bara lög, heldur þann siðferðisgrundvöll sem við hér (og víða annarsstaðar) höfum komið okkur saman um að byggja samfélagið á. Þetta samkomulag er skynsamlegt, því það stuðlar að friði og sátt en vinnur gegn árekstrum, átökum og ófriði. Stuðlar að velsæld og hamingju en vinnur gegn heift og vanlíðan. Andi þessa samkomulags hefur einna best verið orðaður á þenna hátt: „Öll dýrin í skóginum eiga að vera vinir“.

Sem sagt: Allir eiga skilyrðislausan rétt til þess að „vera þeir sjálfir“ og þroska hæfileika sína og hamingju á eigin forsendum. Þessi réttur gengur lengra en tjáningarfrelsið. Tjáningarfrelsið er nefnilega háð siðferðismörkum. Þeir sem misnota tjáningarfrelsið með því að svívirða fólk vegna húðlitar þess, kynhneigðar, fötlunar, trúar, útlits eða skoðana eru svíðingar.

Meira að segja í knattspyrnuheiminum, þar sem „frumskógarlögmálið“ og peningagræðgin er hvað mest áberandi í veröldinni, er tekið á kynþáttaníði með keppnisbanni og sektum. Dettur nú einhverjum í hug að þar ráði ferðinni árásir Samfylkingarinnar á tjáningarfrelsið?

Þegar við hugsum um og metum yfirlýsingar Snorra Óskarssonar (og skoðanasystkina hans) skulum við hafa þetta í huga. Þá er okkur einnig hollt að leita í þjóðararfinn og minnast visku Þorgeirs Ljósvetningagoða: „Svo líst mér sem málum vorum sé komið í ónýtt efni, ef eigi hafa ein lög allir, en ef sundur er skipt lögunum, þá mun sundur skipt friðinum, og mun eigi við það mega búa.“ Og Þorgeir felldi sinn úrskurð, eins og kunnugt er, en rak aftan við úrskurðinn þann varnagla, að „ef leynilega er með farið, þá skal vera vítislaust.“

Skoðanir sínar um samkynhneigð verður Snorri Óskarsson að fá að hafa í friði, og ef hann fer leynilega með þær „skal vera vítislaust“. En opinberar svívirðingar hans mega aldrei verða vítislausar, því með þeim er sundur skipt friðinum. Með þeim særir hann fjölda einstaklinga, veldur kvíða og vanlíðan, ekki síst meðal „umbjóðenda“ sinna, barna og óharðnaðra unglinga. Með yfirlýsingum sínum ofbýður Snorri samborgurum sínum og gerist svíðingur.

Ef þjóðfélagið ætlar að láta framferði af þessu tagi viðgangast þá er verið að normalisera svíðingshátt. Látum það ekki henda, því þetta mál hefur ekkert að gera með tjáningarfrelsið, heldur aðeins heilagan rétt hvers einstaklings til að vera sáttur í sjálfum sér, og laus við svívirðingar annarra.

Og yfirlýsingar Árna Johnsen um annað eru aðeins enn ein staðfestingin á því að kjósendur hans hafa normaliserað yfirgang, eiginhagsmunapot og siðblindu.

 

 

Af kabússi

Jón Hreggviðsson var á miðjum slætti boðaður til sýslumanns út á Skaga og dæmdur þar til að greiða þrjá ríkisdali, en þola húðstrýkingu ella, fyrir að hafa móðga kónginn með orðaspjátri, í eyru hans majestets bífalníngsmanns og prófoss, Sigurðar Snorrasonar, um að sú allrahæsta tign hefði tekið sér þrjár frillur utan hjónabands. Þar sem Jón hirti lítt um að lúka sekt sinni við kóng var hann hýddur á þingi í Kjalardal um haustið, 24 vandarhöggum.

Að þingi loknu fóru sýslumaður, böðull, sakborningur og þingvitnin saman heim á leið, en þar sem sumir áttu töluvert langt að fara, og mjög leið nú á dag, bauð þingvitnið signor Bendix Jónsson föruneytinu öllu heim til sín í Galtarholt. Á þessum tíma var ekki búið að finna upp kvikmyndatæknina, og því gátu þeir strákarnir ekki skroppið saman í bíó, en gripu til þess er nærtækara var: að detta íða saman. „Gleymdust mönnum fljótt dagleg mótgángsefni, en tókst alsherjar fóstbræðralag með mönnum, handsöl og faðmlög. Kóngsins böðull lagðist á gólfið og kysti fætur Jóns Hreggviðssonar grátandi meðan bóndinn sveiflaði bikarnum sýngjandi“.

Til að forðast allan misskilning, og forfeðrum okkar til afbötunar, er rétt að undirstrika það skilmerkilega að þetta „strákakvöld“ og hópefli átti sér stað EFTIR að bæði dómur féll og refsing var að fullu út tekin. Nú eru hins vegar breyttir tímar.

Gestirnir riðu ofurölvi úr gleðskapnum í næturmyrkinu, villtust í fúamýri og voru hætt komnir í torfgröfum – týndu hverjir öðrum og sofnuðu á víð og dreif fjötraðir fjöðrum óminnishegrans. Jón Hreggviðsson vakti upp í Galtarholti í dagrenningu, ríðandi hesti böðulsins og með kabúss hans á höfði, enda vaknaði Jón berhöfðaður og merin týnd. Við rannsókn kom í ljós að böðullinn hafði sofnað í mýrarsprænu, stíflað hana liggjandi á fjórum fótum í skorningnum og drukknað í uppistöðulóninu sem hinn umfangsmikli skrokkur hans myndaði.

En hattur böðulsins var sem sagt á röngu höfði – og varð eitt helsta sönnunargagnið þegar Jón bóndi var dæmdur fyrir morð.

Össur Skarphéðinsson vísaði í þessa frásögn Íslandsklukkunnar í svari sínu til Vigdísar Hauksdóttur, sem aldrei þreytist á að spyrja um hin mörgu og lævísu samsæri Evrópusambandsins. Össur sagði Vigdísi með fyrirspurn sinni setja rangan hatt á ráðuneytið, þ.e.a.s. hafa það fyrir rangri sök.

Væri það ekki guðsþakkarvert ef þingmenn gætu beitt vísunum og öðrum mælskubrögðum í umræðum á þingi, dýpkað þannig málflutning sinn og gert hann fyrir vikið að einhverju leyti bærilegan áheyrnar? Því miður eru bara örfáir þingmenn færir um þetta, flestir eru alveg sljóir þegar kemur að töfrum ræðumennsku og mælskulistar: einhverjir ná sér helst á strik í málþófi, með flissi og fábjánahætti, aðrir sitja allan sinn feril fastir í Morfís-stílnum. Enn aðrir reyna sitt besta – en það kemur bara allt öfugt út úr þeim, því miður.

Þegar Siv Friðleifsdóttir tekur þetta mál upp í þinginu, segir Össur með svari sínu gera bæði grín að Vigdísi og lítið úr henni, og vill meira að segja koma því á dagskrá forsætisnefndar, þá er ekki hægt að skilja Siv öðru vísi en að henni finnist það ósæmilegt að beita myndmáli eða tala í líkingum og vísunum við fólk sem er ófært um að skilja annan málflutning en þann sem liggur allur á yfirborðinu.

Þetta er auðvitað alveg rétt hjá Siv – vísanir koma að engu gagni nema þegar hvort tveggja er til staðar: annars vegar að vísað sé í sameiginlegan þekkingargrunn og hinsvegar að yfirfærsla eigi sér stað – að viðkomandi sjái hliðstæðurnar milli þess veruleika sem hann er staddur í og þeirra aðstæðna sem vísað er í. Og það er líka rétt hjá Siv að það er ekki beinlínis stórmannlegt að beita mælskubrögðum, þó einföld séu, í samræðum við fólk sem maður veit fyrirfram að hefur ekki nauðsynlegar forsendur til skilnings. Það er náttúrlega bara ljótt.

Ég verð að viðurkenna að mér finnst ótrúlegt að þetta eigi við Vigdísi Hauksdóttur, jafnvel þó bögglist uppi í henni orðatiltækin. En auðvitað er Siv dómbærari á þetta en ég. Hún hefði samt getað látið vera að draga þetta svona fram.

Hins vegar mætti alveg spyrja Össur – sem óneitanlega ber nokkuð hvolpana – varðandi opnun þessarar Evrópustofu, hvort hann hafi bréf upp á það?

Ég er nokkuð viss um að Össur myndi alveg skilja spurninguna – og líka sneiðina sem í henni er fólgin, án þess þó að fara að væla um lítillækkun í sinn garð.

Vafningsríma

Loks er varpað ljósi á
langa Vafningsfléttu.
Af sögu þeirri sjálfsagt fá
sumir hryllingsgrettu.

Sýna málsins sakargögn
að sagan, rétt ég vona,
er í stuttri endursögn
einhvernveginn svona:

Bræður tvennir bralla margt,
banka hyggjast kaupa.
Vilja gjarnan græða skart,
með gull í vösum raupa.

Saman eiga þessir Þátt,
þaðan mikinn vilja’ arð.
Morgan Stanleys góna’ á gátt
og grenja’ út tugamilljarð.

Kaupa’ í Glitni sjö prósent,
svífa’ á gróðavegi!
Óðar samt er lánið lent
á lokagreiðsludegi.

Uppgjör því til fjandans fer,
með félagssjóði blanka.
Til lausnar þrautalending er
lán frá keyptum banka!

Reglum samkvæmt meira má
Milestone ekki lána.
Forða Þáttur engan á,
útlit bjart að grána.

Til bjargar sjóða svikavef,
seint þó finnist vitni.
Annars tekin yrðu bréf
sem áttu þeir í Glitni!

Sveins- og Wernerssynirnir
sjá nú vonir dofna.
Leysa vandann, vinirnir,
Vafning nýjan stofna!

Skyldi lán til Vafnings veitt
en velt svo beint til Þáttar
svo milljarðana gætu greitt
og gleiðir lagst til náttar.

En Vafning þarf að veita fé
svo veð sé fyrir láni!
Lífsvon Sjóvar lét í té
lyfjakeðjubjáni.

Nú aðeins vantar undirskrift!
Er þá nokkur heima?
Ef enginn getur armi lyft
má öllu þessu gleyma!

Þó ekki verði öllu náð
sem enn mun talið hreinna.
Þeir hafa undir rifi ráð
og redda þessu seinna.

Til Milestone bara færa féð
úr fúnum Glitnis aski.
Þáttarskuldin þvegin með
þokkapiltabraski.

Lagaregluverkið var
með vilja þarna brotið
er lítilsigldir lúserar,
léku djarft og rotið?

Hið nýja félag fullgilt var
fjórum dögum síðar.
Með traustum Sjóvárbréfum bar
bankaskuldir fríðar.

Nú er loksins Vafnings veð
vottað, eftir baslið,
lánið hægt að möndla með
og millifæra draslið.

Hefst nú siðlaust sjónarspil,
samningurinn skráður,
(með falsi grófu færður til)
fjórum dögum áður!

Aðeins verður vandamál
ef vitnast þessi flétta:
Yrði drísildjöflum hál
dagsetningin rétta!

Fram þá stígur Bjarni Ben.
til bjargar, ættarsprotinn.
Pennann glaður grípur – en
gjörningurinn rotinn.

Skjalið virðist skíraglit,
skrautritað með „heading“!
Eðli þess með öðrum lit,
algjör skítaredding.

Bjarni nú sinn tíma tók
að tæma bankahólfin.
Veit að senn mun bankinn „broke“,
brostin hallargólfin.

Vafningsskuld að vonum greidd
með vænu láni’ í Glitni!!
Summan gegnum Svartháf reidd.
Sýnist púkinn fitni!

Greitt til baka bara smá
brot af lánsins virði:
Borgar þjóðin þaðan frá
þeirra skuldabyrði.

Útrás landið vefur vor
víkingsfrægðarljóma.
Í bankainnrás eðlisþor
æðstan veitir sóma.

Saga þessi aðeins er
almennt, lítið dæmi
um sigra þegar saman fer
snilld og íslenskt næmi.

Símaskráin og Narkissos

Nú berast af því fregnir að útgefendur símaskrárinnar hafi prentað límmiða, og bjóði hann hverjum sem er, til að hylja forsíðu nýjustu útgáfu þessa vinsælasta alþýðurits í sögu þjóðarinnar. Ég veit varla hvað mér á að finnast um þetta tiltæki – enda veit ég ekki hvaða mynd er á límmiðanum. Af fyrri reynslu af smekkleysi útgefandans ætla ég þó að leyfa mér að hafa allan varann á.

Ekki svo að skilja að þessi límmiði muni, eða gæti með nokkru móti prýtt forsíðu símaskrárinnar á mínu heimili. Því símaskráin okkar er forsíðulaus með öllu.

Þannig er nefnilega mál með vexti að þegar ég fór út á pósthús að sækja eitt eintak af þessu látlausa en nauðsynlega riti, eins og árvisst er að ég geri þegar sá tími rennur upp, blöskraði mér svo fullkomlega að um leið og ég kom inn úr dyrunum með óskapnaðinn reif ég forsíðuna af í einu handtaki og henti henni í ruslið – vel að merkja, í ruslið, ekki endurvinnslutunnuna.

Þegar sýndarmennskan og narcissisminn í þjóðfélaginu er kominn á það stig að símaskráin – segi og skrifa: SÍMASKRÁIN – er orðin vettvangur til að klæmast með sjálfsdýrkunarófögnuðinn og gerviútlitsdýrkunina sem öllu öðru tröllríður, þá er væntanlega síðasta vígið fallið.

Þegar ég sagði vinnufélögunum frá þessu voru þeir að vísu fljótir að finna skýringuna á þessu athæfi mínu: Ég þyldi bara ekki samkeppnina við forsíðumyndina um athygli eiginkonunnar. Og þegar ég hugsaði um það rifjaðist það upp fyrir mér að hún fyrtist nokkuð við þar sem hún horfði á mig tæta í spað glænýja símaskrá! En það var ekki nema örskotsstund sem tírði á glósum vinnufélaganna í huga mér, því mér er það löngu ljóst að hún er ekki, og hefur aldrei verið, ginnkeypt fyrir fábjánahætti af neinu tagi, síst af öllu þeim sem forsíða símaskrárinnar ber með sér.

Það er rétt að taka það fram að þessi gjörningur átti sér stað löngu fyrir tíma nauðganaákæra – og ekki var mér þá heldur kunnugt um hinn göfuga siðaboðskap fyrirmyndarinnar, sem nú hefur verið rifjaður upp ítrekað, um það hvernig eigi helst að koma fram við konur og kenna þeim að haga sér.

En ég bendi sem sagt fólki á það að símaskráin kemur að fullum notum án forsíðu og engin rök eru fyrir þvílíkum aukakostnaði og umhverfisspjöllum eins og prentun og dreifingu þessara límmiða – til að hylja skömmina sem útgefandinn óneitanlega situr uppi með.

 

One way ticket to the pole

Bessastaðabóndinn kvað vera á leið á Suðurpólinn, í boði helstu héraðshöfðingja westan hafs. Ekki sjá allir þá utanlandsför sömu augum:

Á Bessastöðum björt er sól,
þar á Brúnastaðaundrið skjól
því Ólaf vill á veldisstól.
Jóka draum um annan ól,
í orðum draum sinn þannig  fól:
„One way ticket to the pole“!

Í þykkum sveimi

Vigdís Hauksdóttir hefur oft glatt landsmenn með gjammi sínu. Nýjasta yfirlýsingin var um að daun legði af Samfylkingunni:

Vigdís í þykkum sveimi sést,
súrnar gamla brýnið.
Er finnur eigin fýlupest
hún fitjar upp á trýnið.

Viðbrögð Framsóknar- og Sjálfstæðismanna við ráðningu Jóhanns Haukssonar í starf upplýsingafulltrúa í forsætisráðuneytinu hafa verið á þann veg að mætur maður sagði að halda mætti að þeir sjálfir væru „saklaus, krullhærð lömb“ að vori:

Íhald og Framsókn lömbin ljúf
sem leika frjáls um börðin.
Er saklaus dilla dindilstúf,
detta aldinspörðin.

Alþingistíðindi

Sigmundur Ernir var í útlöndum og varamaðurinn mættur um langan veg til að leysa hann af á meðan, í atkvæðagreiðslu um frávísunartillögu á afturköllunartillögu Bjarna V. Benediktssonar:

Sætt er heimsins ljúfa líf
og lag að Ernir þetta kanni
á meðan Ásta stendur stíf
og stuggar burtu varamanni.

Fleiri voru í útlöndum. Össur flýtti sér heim til að greiða atkvæði, einhverjir (illar tungur?) segja að það hafi ekki eingöngu verið til að gæta Geirs, bróður síns:

Út í heimi styttir starf
því stefnu vill hann eyða.
Yfir gamlan, Össur þarf,
eigin skít að breiða.

Uppnám í grasrót VG vegna umpólunar Ögmundar, manns réttlætisins. Því er haldið fram að hann vilji íhaldið, já raunar allt, frekar en Steingrím:

Hí á Steingrím! Hefnt sín gat,
hugann litar sorti.
Orku fyrir endurmat
Ögmund hvergi skorti.

Mjög er innra eðlið hreint:
Yndið himnafeðra
ekki lengur getur greint
Grím frá þeim í neðra.

Einhverjir voru handvissir um að ákæra Geir Haarde á sínum tíma, en virðist nú hafa snúist hugur, m.a. sumir þeirra sem sátu í Atlanefndinni og lögðu ákæruna sjálfir til að lokinni ítarlegri skoðun málsins:

Áður höfðu ákært Geir
-einhver von á þingi-.
Núna settu niður þeir
Nonni, lambið, Ingi.

Nefndarformaðurinn sjálfur, fyrrum meintur „pólitískur galdrabrennuforingi“ er einn þeirra sem snúist hefur á sveif með fyrrum óvinum sínum og óvægnum gagnrýnendum á Morgunblaðinu og víðar:

Villiköttur vill í hark,
vissu fyrri selur.
Um það höfum órækt mark:
Atli þrisvar gelur.

Nú er svo komið að kjósendum er ómögulegt að átta sig á því hver er hvað á Alþingi og fyrir hvað þingmenn standa, ef þeir standa þá fyrir nokkuð?

Þingmenn frábær fyrirmynd,
fræg er þeirra kynngi!
Um sali, eins og sóttarkind,
snúast þeir í hringi.