Gildi fagþekkingar

Ég las á visir.is að „Lilja Mósesdóttir, stofnandi Samstöðu – flokks lýðræðis og velferðar, ætlar ekki að gefa kost á sér í embætti formanns flokksins á landsfundi flokksins í byrjun október…Hún segist ætla að axla þannig ábyrgð á fylgistapi flokksins undanfarna mánuði…Hún verður þó áfram félagsmaður í Samstöðu. Fram að næstu alþingiskosningum ætlar hún að einbeita sér að störfum sínum á þingi [þar] sem hún segist hafa leitast við að nýta fagþekkingu sína…“:

Hagfræðingur, hörð í skapi,
helsta vonin innan þings,
með fagþekkingu í fylgistapi
og forðast hylli almennings.

Af pólitískum væringum

Vangaveltur hafa verið í fjölmiðlum um breytingar á ríkisstjórn. RÚV segir t.d.: „Katrín í stað Oddnýjar-Líklegast þykir að Katrín Júlíusdóttir taki sæti Oddnýjar G. Harðardóttur…“

Jóku reynist blóðug ben,
broddur stingur svoddan.
Kötu skiptir inná, en
Odda leggst á koddann.

Þá var Guðmundur Rúnar Árnason ráðinn verkefnastjóri hjá Þróunarsamvinnustofnun. DV segist hafa heimildir fyrir því að Össur utanríksiráðherra hafi verið með puttana í málinu og Smugan slær því upp að ráðinn hafi verið „hæfasti Samfylkingarmaðurinn“. Framkvæmdastjóri stofnunarinnar þvertekur í DV fyrir pólitískan þrýsting:

Hlutlægt farið málið með,
matið faglegt hljómar þanninn:
Össur, jafnan röskur, réð
rétta Samfylkingarmanninn!

Kærleiksheimilið

Ef ég man rétt sagði vitur maður (HKL) eitt sinn eitthvað á þá leið að því ákafar sem sagnfræðingar reyndu að höndla sannleikann, því lengra hyrfu þeir inn í heim skáldskaparins. Þess vegna er sjálfsagt ástæðulaust að taka mikið mark á doktor Guðna Th. Jóhannessyni, sem lét hafa það eftir sér að forsetinn og forsætisráðherra ættu að geta rætt saman á vinsamlegum nótum um hefðir og skyldur handhafa forsetavalds þegar forsetinn yfirgefur landið. En á kærleiksheimili sagnfræðinnar gæti þetta verið einhvernveginn svona:

Núna forsetinn fyr oss
axlar kross: ástandið.
Jóka hossi, svo kærleikskoss
er kveður „posh-ið“ landið.

Að mála skrattann á vegginn

Öllum er í fersku minni áróðursstríð LÍÚ í málgagni sínu, Morgunblaðinu, ásamt auglýsingaherferð í öllum fjölmiðlum landsins, gegn breytingum á fiskveiðistjórnunarkerfinu hér á landi. Þó mesta auglýsingabruðlið virðist um garð gengið – í bili a.m.k. – þá er morgunljóst að sú falska einshljóðfærissynfónía hefst aftur um leið og þingið tekur til starfa í haust.

Lygaáróðurinn var sá að ef þær breytingar sem stjórnvöld boðuðu yrðu að veruleika, breytingar sem þó voru orðnar útvatnaðar af undanlátssemi við svokallaða hagsmunaaðila, þá færi hér allt á hausinn og helst var að skilja að ekki yrði framar dregið bein úr sjó við Íslandsstrendur. Reyndar er það merkilega lýsandi fyrir sjálfhverfuna og einkahagsmunahyggjuna hér á landi að einu hagsmunaaðilarnir sem LÍÚmenn koma auga á í þessu máli eru þeir sjálfir. Engum dettur í hug að eigendur auðlindarinnar, þjóðin sjálf, hafi eitthvað um málið að segja eða sé hagsmunaaðili yfirleitt.

Nú er hafið annað áróðursstríð. Ríkisstjórnin hefur boðað að virðisaukaskattur á þjónustu veitingahúsa og gististaða verði hækkaður úr 7%a afsláttarþrepi í almennt skattþrep. Fjármálaráðherra lýsti skattaafslættinum, sem hefur verið veittur frá árinu 2007, réttilega sem ríkisstyrk. Hún hefur hlotið bágt fyrir það, eins og ferðaþjónustan skammist sín alveg ógurlega fyrir að þiggja ríkisstyrki. Ferðaþjónustunni til huggunar má benda henni á að heilu atvinnugreinunum er haldið á floti á ríkisstyrkjum – og ekki er að sjá að nein skömm fylgi því. Að minnsta kosti vilja flestir meira – og sumir telja jafnvel að engum komi það við hvernig með styrkina er farið.

En það er önnur saga. Ferðaþjónustan berst nú um á hæl og hnakka, í anda stórútgerðarmanna, og reynir að telja þjóðinni trú um að öll ferðaþjónusta fari á hausinn, leggist hreinlega af og ferðamenn hætti að sækja landið heim. Megum við á næstunni búast við auglýsingum frá samtökum gistihúsaeigenda, þar sem starfsmenn og gestir verða látnir með dramatískum innslögum lýsa því að þeir muni missa vinnuna og hætta að gista, ef áform ríkisstjórnarinnar verða að veruleika? Svo komi kannski á skjáinn prófessor í sálfræði sem upplýsi þjóðina um afleiðingar þess ef ekkert verði sofið á Íslandi, til eilífðarnóns? Allt vegna ríkisstjórnarinnar, auðvitað.

„Nú á að slátra Gullgæsinni og draga úr ferðamannastraumi til Íslands“, lét hóteleigandi í Keflavík hafa eftir sér. Sami hóteleigandi upplýsir lesendur Víkurfrétta um það að ef hótel- og gistihúsaeigendur hefðu talið sig geta hækkað verð undanfarin ár, þá hefðu þeir gert það, enda ekki veitt af til að bæta afkomuna í „harðærinu“.

Þessar yfirlýsingar eru athygli verðar, ekki síst í því ljósi að umrædd þjónusta mun hafa snarhækkað undanfarin ár, þrátt fyrir stórfelldan virðisaukaafsláttinn frá 2007, ef marka má upplýsingar frá fjármálaráðuneytinu. Og þrátt fyrir stöðugar verðhækkanir hafa ferðamenn hópast inn á hótelin og gististaðina, sem aldrei fyrr. Og þeir hafa ekki heldur látið neitt stöðva sig, þegar kemur að því að kaupa vörur og aðra þjónustu. Og þeir munu ekki heldur láta það á sig fá þó þjónusta veitingahúsa og gististaða verði færð í almennt virðisaukaskattþrep. Vitið bara til.

Málflutningur af þessu tagi er engum til sóma, hvorki ferðaþjónustunni, útgerðinni, né öðrum „hagsmunahópum“. Trúverðugleiki þeirra gufar hreinlega upp með þessum eilífu heimsendaspám.

Því miður er þetta samt lenskan í opinberri umræðu hér á landi. Að mála skrattann á vegginn.

Fanna skautar faldi háum

Gönguferð Abbalabba (gönguhóps starfsfólks F.Su.) frá Skálpanesi, um Jarlhettur, að Einifelli, Hlöðuvöllum, á Skjaldbreið, að Kerlingu, um Klukkuskarð og Skillandsdal að Laugarvatni, lauk sl. föstudag. Skemmtileg ferð í stórbrotinni náttúru með stórbrotnum félögum. Ort á toppi Skjaldbreiðs:

Á toppi Skjaldbreiðs: „Fanna skautar faldi háum…“

Geng á háan Skjaldbreið, skoða
skíragullin fjallaranns.
Sköpun elds og ísa goða
ætíð greipt í huga manns.

Á göngu frá Kerlingu að Klukkuskarði varð til þessi vísnagáta. Um að gera að ráða hana og setja lausnina, sem er stakt orð, íslenskt nafn, í athugasemdakerfið:

Þessi einhver styðst við staf.
Stríðinn Óðinn svörin gaf.
Skjaldborg nafni í sælu svaf.
Sést á Neti vísnaskraf.

Og efst í Klukkuskarði, þegar hver á fætur öðrum brölti upp síðustu brekkuna, með einlægt bros á vör:

Síst á Abbalöbbu lát,
lokabrattann marði.
Upp sig glennti ofsakát
efst í Klukkuskarði.

Sama, gamla jukkið

Nú liggja fyrir úrslit í forsetakosningunum og ljóst að fimmta kjörtímabilið er framundan hjá Ólafi Ragnari Grímssyni. Það kemur svo sem ekki á óvart. Eins og bent hefur verið á er engin hefð fyrir því að fella sitjandi forseta í kosningum, hinir frambjóðendurnir voru reynslulausir, nánast eins og bláeyg börn, í samanburði við refinn Ólaf, í kosningaslag. Og hið táknræna tækifæri til að kveðja nú gamla tímann og byrja upp á nýtt er runnið þjóðinni úr greipum.

Ólafur Ragnar hlaut meira en 50% atkvæða, sem kom mér sjálfum á óvart, var búinn að sjá fyrir mér 40-45% og minni mun á honum og Þóru Arnórsdóttur.

Eins og fram kom í kosningasjónvarpi Ríkisútvarpsins sótti Ólafur mest fylgi til kjósenda Sjálfstæðis- og Framsóknarflokks eins og við var búist. Það var hinsvegar skemmtilega súrrealískt að skyggnast inn í Valhöll á kosningavöku ungra Sjálfstæðismanna þar sem kjöri þessa gamla hatursmanns var fagnað með húrrahrópum. „You aint seen nothing yet!“ kemur ósjálfrátt upp í hugann.

Í samræmi við þetta lá meginstraumurinn í fylgi Ólafs Ragnars í lítið menntuðum frekar en mikið menntuðum, hjá körlum fremur en konum og á landsbyggðinni fremur en á höfuðborgarsvæðinu. Og þar fór Suðurkjördæmi auðvitað fremst, hinn frjói akur Árna Johnsens. Einmitt að þessum hópum eiga fyrrnefndir flokkar greiðasta leið. Kosningabaráttu Ólafs var enda snúið þráðbeint þangað. Höfðað var til þjóðerniskenndar og nauðsynjar á „sterkum leiðtoga á óvissutímum“.

Ólafur Ragnar og hans menn beittu öllum þeim lævísu klækjabrögðum sem útsmognir bragðarefir í pólitík kunna og nota í kosningaslag. Slegið var fram einföldum frösum, og skipti þá engu máli hvort þeir stæðust skoðun, í trausti þess að þeir yrðu gripnir á lofti. Ef hentaði var svo þvertekið fyrir frasana daginn eftir, eins og t.d. þennan með óvissuna. Og Ólafur beit svo höfuðið af skömminni með því að líkja 12 milljóna kosningabaráttu Þóru við „2007 auglýsingaslag“, maðurinn sem sjálfur eyddi 90 milljónum í kosningabaráttu á sínum tíma. „Óforskammað“ var þetta uppátæki réttilega kallað í kosningavöku sjónvarpsins.

Það var einnig „snjöll“ smjörklípa hjá Bessastaðabóndanum, um leið og hann sló sjálfan sig til riddara fólksins gegn óvinsælli ríkisstjórn, að byrja á því allra fyrst að spinna sinn helsta keppinaut við stjórnmálaflokk, Samfylkinguna, og láta hann berjast við það alla kosningabaráttuna að reyna að losa sig úr þeim vef. Og vel að merkja, þetta kemur frá eina frambjóðandanum sem sannanlega hefur verið flokkspólkitískur – já, meira að segja komið víða við og látið vind ráða för hverju sinni. En þarna sló hann sem sagt tvær flugur í einu höggi. Hann kom bæði ríkisstjórninni og Evrópusambandinu á herðar keppinautarins, en sjálfum sér í mjúkinn hjá meirihluta þjóðarinnar, sem er á móti hvoru tveggja.

Öll kosningabarátta forseta vors ber skýr einkenni þeirra klækjastjórnmála sem hann hefur verið órjúfanlegur hluti af – virkur þátttakandi og gerandi í – alla sína tíð.

Í þessu ljósi er það þyngra en tárum taki að Ólafur Ragnar sækir fylgi sitt frekar til ungra kjósenda en þeirra sem eldri eru. Unga fólkið, af öllum, vill ekki breytingar, ekki nýtt Ísland, ekki ný vinnubrögð, heldur áfram um ókomna tíð sama, gamla jukkið. Forsetakosningarnar eru til vitnis um það.

 

„Álver bjargar ekki Austurlandi“

Í nýjasta helgarblaði DV er athyglivert viðtal við knattspyrnumanninn Ívar Ingimarsson. Eða réttara sagt fyrrverandi knattspyrnumanninn, því Ívar ákvað nýverið að leggja skóna á hilluna, hætta eftir farsælan feril atvinnuknattspyrnumanns í útlöndum og snúa heim. Og Ívar og eiginkona hans ákváðu að fara ekki hálfa leið, setjast að í margmenninu við Faxaflóann, eins og einhverjum gæti dottið í hug að væri eðlilegra skref eftir að hafa búið árum saman í stórborgum erlendis. Nei, þau vildu í friðsæld og frelsi heimahaganna á Austurlandi. „Heim í heiðardalinn“, eins og þar stendur.

Og þau hjónin eru uppfull af hugmyndum um það hvernig þau geti skapað sér og sínum tækifæri og grundvöll undir líf og hamingju. Ívar hefur skýra sýn á framtíð landshlutans. Hún felst í því að láta ekki staðar numið þrátt fyrir verksmiðju, sofna ekki værðarsvefni í kjöltu álvers í Reyðarfirði.

„Nú er búið að byggja hér álver og sama hvað hverjum finnst um það þá er um að gera að nýta tækifærið sem fylgir því til að byggja upp aðra atvinnumöguleika. Ef það er ekki hægt að nýta tekjurnar af álverinu til þess þá er það glatað tækifæri. Það væri mjög sorglegt ef það endaði þannig að það væri ekkert eftir nema verksmiðjan og það sem fylgir henni […]. Þá gæti sú stund runnið upp að menn spyrji af hverju við vorum að standa í þessu“.

Ívar segir Austurland eftirbát annarra landshluta í þróun ferðaþjónustu og telur að það gæti stafað af ruðningsáhrifum álversins – með því hafi atvinnumálum í landshlutanum „verið bjargað endanlega“ og menn hafi í kjölfarið sofnað á verðinum. Hann bendir á að þrátt fyrir yfirlýsingar ýmissa um að áhrifa álversins myndi gæta um allan landshlutann, styrkja allar sveitir og firði, og fullyrðingar um eitt atvinnusvæði, þá væri raunveruleikinn annar. Breiðdalsvík og Stöðvarfjörður, þar sem þau hjón ólust upp, eru staðir í tilvistarkreppu og á undanhaldi, þrátt fyrir álver Alcoa.

„„Það er kannski kaldhæðni örlagan[n]a að þegar göngin á milli Fáskrúðsfjarðar og Reyðarfjarðar voru opnuð þá lokaði Samherji frystihúsinu á Stöðvarfirði. Slæmar fréttir voru faldar í góðum fréttum. Sumir sögðu jafnvel að það væri allt í lagi að frystihúsið lokaði því þetta væri allt orðið eitt atvinnusvæði og það gætu allir keyrt yfir á Reyðarfjörð til að vinna í álverinu. Ég held að það hafi ekki verið hugsað til enda.““

Ívar bendir á að álver er ekkert endilega besti „þjónn samfélagsins“, það hafi ekki jafn sterkar og djúpar rætur í mannlífinu eins og umfangsminni starfsemi í eigu íbúanna. Þó álverið hafi skapað störf og laðað að fólk sem annars hefði ekki flutt á svæðið, þá hafi á móti tapast önnur störf vegna þeirrar værukærðar sem fylgdi þessum stóra vinnustað, sem öllu átti að bjarga. Það er ekki gæfulegt, segir Ívar, „að setja öll eggin í sömu körfuna“ eins og gert hefur verið, og nauðsynlegt að hugsa um það sem við tekur þegar álverið fer. „Það gerist á endanum, þótt það gerist ekki á næstu árum eða áratugum“ því álver er bara eins og önnur alþjóðleg stórfyrirtæki sem „eru þar sem þau græða og allt snýst um krónur og aura en ekki samfélagið í kring um þau“.

Ívar bendir einnig á að 12 tíma vaktavinna í verksmiðju henti ekki öllum og sé heldur ekki ákjósanleg fyrir mannlíf í litlum þorpum, því annar hluti bæjarbúa sé alltaf í vinnunni meðan hinn hlutinn sefur. „Það hefur auðvitað áhrif á samfélagið á Stöðvarfirði sem og annars staðar, það er ekki hægt að líta framhjá því. Þetta er langstærsti atvinnurekandinn á svæðinu og hann hefur lífið í þessum bæjum í höndum sér“.

Ívar og kona hans ákváðu að setjast að á Egilsstöðum, og þeim finnst eðlilegt að fólk íhugi hvort það kæri sig um að búa í næsta nágrenni við mengun frá verksmiðju. En þetta, og aðrar neikvæðar hliðar framkvæmdanna, má helst ekki tala um, segir Ívar, og bendir á miklivægi þess að skoða áhrif álversins heildstætt og með hlutlausum hætti, því þau koma ekki öll í ljós strax. „En þá finnst mér líka í lagi að staldra við og öðlast betri yfirsýn áður en það er ákveðið að byggja fleiri álver á Íslandi, en ég veit að það er verið að þrýsta á um það núna“.

Ætli þessi varnaðarorð Ívars eigi ekki við á fleiri sviðum í íslensku samfélagi?

Viðtalið við Ívar Ingimarsson er skólabókardæmi um það að auður hvers samfélags felst í fólkinu sem þar býr. Vissulega er Ívar ekki hver annar verkamaður á mölinni. Hann hefur í krafti hæfileika sinna lagt land undir fót og forframast. Þrátt fyrir áralanga dvöl úti í hinum stóra heimi ber hann einlæga virðingu fyrir litla þorpinu sínu og náttúrunni. Og það sem öllu skiptir er að hann vill koma heim aftur, leggja þar grunn fyrir fjölskyldu sína, en um leið þann grunn sem samfélaginu sem ól hann upp er nauðsynlegur til að eygja von um betri tíð.

Sú von festir nefnilega ekki frjóastar rætur í álverksmiðju.

 

Óhreinn meirihluti

Nú eru liðin tvö ár af yfirstandandi kjörtímabili sveitarstjórna. „Hreinn meirihluti“ Sjálfstæðisflokksins í Sveitarfélaginu Árborg hefur á þeim tíma staðið undir öllum þeim „væntingum“ sem til hans var hægt að gera, og virðist ljóst að á seinni hluta kjörtímabilsins muni meirihlutinn ekki heldur valda neinum manni vonbrigðum. Hér hjá okkur er sem sagt allt með hreinum endemum. Og endemin eru víst það eina sem hægt er að kalla „hreint“ í þessu samhengi.

Nú síðast fór í gang tragí-kómískur farsi í kjölfar þeirrar samþykktar fræðslunefndar að Árborg skyldi segja sig úr samstarfi við önnur sveitarfélög á starfssvæði SASS um rekstur Skólaskrifstofu Suðurlands. Elfa Dögg Þórðardóttir grét í fjölmiðlum yfir þeirri hjartaskerandi stöðu sem hún væri sett í: Hún væri formaður í SASS en félagar hennar í bæjarstjórnarflokki Sjálfstæðisflokksins væru einhuga um að segja skilið við samstarf sveitarfélaganna um skólaþjónustu. Orð Elfu var ekki hægt að skilja öðruvísi en svo að formennskan í SASS væri vandamálið sem setti hana í klípu, ekki úrsögnin úr skólaskrifstofunni.

Og úrsögnin var afráðin í bæjarráði, með steinþegjandi samþykki Eggerts Vals Guðmundssonar, fulltrúa Samfylkingarinnar. Arna Ír Gunnarsdóttir náði þó að koma málinu í nefnd, með tillögu þar um á næsta bæjarstjórnarfundi, og varð tillaga Örnu að hjartahnoði fyrir dauðan meirihlutann.

Nú fóru mýsnar á kreik, enda enginn köttur á svæðinu. Elfa Dögg kvaðst ekki njóta trausts félaga sinna og því væri samstarfi þeirra við hana sjálfhætt – og bæjarstjórnarmeirihlutinn þar með fallinn. Elfa vatt sér í viðræður við S, B og V lista um myndun nýs meirihluta. Það er reyndar árviss viðburður hjá henni.

En bragðarefurinn Eyþór Arnalds lét ekki snúa svo einfaldlega á sig. Hann kallaði með sér þá þrjá bæjarfulltrúa sem fylgja honum blindandi að málum og bankaði upp á hjá framsóknarmanninum Helga Haraldssyni, sem enn var funheitur eftir nýafstaðinn fund með Elfu Dögg. Helgi og Eyþór náðu svona skínandi vel saman og var strax í gadda slegið að mynda meirihluta hluta Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks. Þetta gekk hratt fyrir sig hjá þeim félögum, enda Framsóknarflokkurinn með tiltölulega nýfengna og ánægjulega reynslu í bæjarstjórn af samstarfi við Sjálfstæðisflokkinn undir stjórn Eyþórs Arnalds, og nánast hægt að taka orðrétt blessunar- og vinarkveðjurnar úr því samstarfi frá haustdögum 2006, inn í nýjan sáttmála milli flokkanna.

Þegar hinn mikli leiðtogi, Eyþór Arnalds, mætti hinsvegar á fund í fulltrúaráði Sjálfstæðisflokksins með tíðindin, eftir kvöldkaffið hjá Helga, kom í ljós að hann réði í raun og veru engu um það hvaða meirihluta hann myndaði. Og það tók fulltrúaráðið aðeins fjóra klukkutíma að siða bæði Eyþór litla og Elfu Dögg til, og kenna þeim að „ganga í takt“. Með fylgdu yfirlýsingar um að nýjar samskiptaaðferðir yrðu teknar upp. Það þýðir í reyndinni að samskipti yrðu tekin upp innan bæjarstjórnarflokks Sjálfstæðismanna. Og Eyþór klykkti svo út með því að hann kærði sig ekki lengur um að leika við Helga.

Af þessu öllu má ráða að Helgi Haraldsson treystir Eyþóri Arnalds mun betur en samanlögðum bæjarfulltrúum VG, Samfylkingar og Elfu Dögg. Það eru tíðindi í sjálfu sér. Helgi grípur óhikað það tækifærið sem opið er hverju sinni. Og hann veit auðvitað líka að Elfa Dögg mætti á fundi, til að kanna jarðveginn fyrir eigin framgang, hjá bæði Framsóknarflokknum og Samfylkingunni þegar dró að kosningaundirbúningi og listauppstillingum vorið 2006, áður en hún ákvað að fara í prófkjör hjá Sjálfstæðisflokknum – þar sem hún hreppti 4. sætið – vegna þess sem rógtungur höfðu á hraðbergi um fulltrúa hinna flokkanna. Það er því ekki hægt að álasa Helga fyrir að efast um langlífi meirihluta þriggja flokka, sem þyrftu alfarið að treysta á staðfestu hennar.

Það hefur því í bili, að því er virðist, verið myndaður nýr meirihluti Sjálfstæðisflokksins í Árborg. En að kalla meirihlutann „hreinan“, hvort sem er þann nýja eða hinn gamla, er beinlínis afskræming á því orði.

Góður er volgur sopinn

Nú er sá tími þegar ungviðið skilar sér í heiminn. Sauðburður víðast langt kominn og hryssur margar kastaðar. Þó hér sunnan heiða hafi ekki gert áhlaupaveður með stórhríð hafa ekki verið nein hlýindi og gróður í biðstöðu, úthagi víðast sinugrár, enda hörku næturfrost undanfarna viku eða svo og himinn kuldablár. Hætt er við því að „fegurð himinsins“ megi sín lítils í lífi nýfædds folalds gagnvart napurri norðangjólunni. En alltaf má leita huggunar í volgan sopann!

Nýfædd Þóroddsdóttir. Móðirin Spurning u. Loga frá Skarði og Kotru, dóttur Galdurs og Eirar frá Laugarvatni

Himinn blár, en horfinn snjár,
hagans grár er feldur.
Nóttin ári nú er sár,
Norðan-Kári veldur.

Allar heimsins mæður

Mæðradagurinn er í dag. Fæstir eiga öðrum en mæðrum sínum meira að þakka og óbreyttir jafnt sem andans jöfrar hafa hyllt þær í verkum og orðum, sumir ódauðlega. Ég legg þetta í púkkið og læt fylgja með mynd af móður minni, sem ég á allt að þakka.

Mamma

Aldrei gleymist ástarþel,
æsku- dreymir glæður.
Innri geyma eldinn vel
allar heimsins mæður.