Brennuvargana í slökkviliðið!

Hér áður fyrr á árunum, meðan enn brann eldur í æðum íslenskra karlmanna og hrepparígurinn stóð undir nafni, voru ærleg hópslagsmál viðurkennd aðferð til að gera út um málin. Sveitaböll voru hvað frjóasti akurinn fyrir þessa árangursríku og kraftmiklu félagslegu samningaleið.

Í hverju plássi voru a.m.k. einn, tveir fílhraustir slagsmálahundar sem enginn átti roð í, létu sér fátt fyrir brjósti brenna og komu sínum sjónarmiðum milliliðalaust áleiðis með handafli. Þá var vissara að vera í réttu liði ef maður vildi forðast að snýta rauðu. Fámenn sveit laganna varða réði lítið við slíka beljaka, sem að auki höfðu um sig sveit minni spámanna, til að sendast og sinna ýmsum smáverkum, eins og t.d. að kynda undir ófriði meðal dela úr öðrum plássum. Hver hafði sinn Björn úr Mörk.

En þar sem vöðvaaflið þraut kom til hugkvæmnin. Og þó ótrúlegt megi virðast rann hugkvæmnin undan rifjum yfirvaldsins. Það varð þekkt aðferð og viðurkennd til árangurs að taka hörðustu slagsmálahundana og munstra þá í lögguna. Þegar þeir voru komnir í búning varð orkunni loks beint í réttan farveg.

Þorvaldur Gylfason lét hafa eftir sér í kosningaþætti í sjónvarpinu um daginn að það væri lítið vit í því að setja brennuvargana í slökkviliðið. Þarna er Þorvaldur auðvitað á algerum villigötum. Íslenskir kjósendur, sérstaklega í hinum dreifðu byggðum, vita af gamalli reynslu að besta betrunarráðið er að setja þá sem villast af hinum þrönga vegi dyggðanna til nokkurrar ábyrgðar.

Því hafa þeir nú munstrað brennuvargana í slökkviliðið.

 

Í forheimskunnar landi

Ekki verður sagt að úrslit kosninganna sl. laugardag hafi komið á óvart. Sífelldar skoðanakannanir hafa endanlega fjarlægt „óvissufaktorinn“ úr blessuðu lýðræðinu, þannig að nú er jafn fyrirframvitað hver úrslitin verða eins og í ýmsum þeim ríkjum heimsins sem við hér gerum óspart grín að – t.d. með bananalíkingum – og höfum einnig fléttað ódauðlega inn í tungumálið: „rússnesk kosning“.

Þó að alþingsikosningarnar hafi ekki verið „rússnesk kosning“ nema að því leytinu til að allir vissu fyrirfram hver meginúrslitin yrðu, þá eru þau jafn lygileg fyrir því.

Stjórnviska Sjálfstæðisflokksins og Framsóknarflokksins frá því snemma á 10. áratug 20. aldar og fram til 2007 keyrði íslensku þjóðina í gjaldþrot, hallinn á ríkissjóði var 216 milljarðar. Þessir flokkar ganga dagsdaglega undir heitinu „helmingaskiptaflokkarnir“ meðal landsmanna. Og menn kippa sér orðið ekkert upp við þá nafngift. Það er eiginlega búið að neutralisera orðið, eins og það sé bara sjálfsagt og eðlilegt að stjórnmálaflokkar séu helmingaskiptaflokkar. Inntakið virðist ekki skipta máli lengur, að kjarninn í því sé spilling, lýsing á því að flokkarnir hafi undanfarna áratugi, í skjóli pólitískra valda, skammtað „sínum mönnum“ samfélagsgæðin. Fólk kippir sér ekki upp við slík „aukaatriði“.

Helmingaskiptaflokkunum og gjallarhornum þeirra tókst í stjórnarandstöðu að sannfæra kjósendur um það að Samfylkingin og Vinstri græn „hefðu ekkert gert“ allt kjörtímabilið. Þetta keyptu kjósendur, þó það liggi fyrir að ríkisstjórninni hafi tekist að bæta skuldastöðu ríkissjóðs um rúma 212 milljarða á kjörtímabilinu, úr 216 milljarða halla í 3,6 milljarða halla í fjárlögum 2013. Til að ná þessu hefur þurft að herða sultarólina, bæði skera grunnþjónustu inn að beini og hækka skatta.

Við hrun helmingaskiptastefnunnar átti það að vera ljóst að erfiðir tímar væru framundan. Engum átti að geta komið það á óvart að það tæki mörg ár að ná jafnvægi. Engum átti að geta komið það á óvart að velferðarkerfið yrði ekki rekið nema með lágmarksafköstum meðan ríkissjóður skuldaði hundruð milljarða. Engum átti að geta komið það á óvart að á meðan verið væri að jaga niður þessa botnlausu skuldahít helmingaskiptastefnunnar, þá myndu ekki jafnhliða verða gerðar miklar rósir í heilbrigðismálum, menntamálum eða almannatryggingakerfinu. Enginn átti að geta vænst þess að á þessum erfiðu tímum yrðu teknar stórar fjárhæðir til skuldaleiðréttinga, burtséð frá því hversu óréttlátur forsendubresturinn var, sem lántakendur stóðu frammi fyrir við hrunið. Forsendubrestur í boði helmingaskiptastefnunnar, vel að merkja.

Eða hvað?

Það hefur nú komið í ljós að meirihluti kjósenda lét sér þetta allt koma á óvart. Kjósendur refsuðu grimmilega þeim flokkum sem komust á fjórum árum langleiðina með að stoppa í ginnungagapið sem helmingaskiptaflokkarnir höfðu rifið á klofbót þjóðbrókarinnar.

Sem betur fer hvikaði ríkisstjórnin ekki frá þessu markmiði. Fyrir vikið verður á næstu árum hægt að fara að byggja aftur upp þetta þjóðfélag. Ef stjórnvöld hefðu gert það sem kjósendur nú hafa refsað þeim fyrir að gera ekki – að nota lánsfé til að leiðrétta skuldir heimila og halda fullum dampi í velferðarkerfinu – þá værum við nú ekki í þeirri stöðu sem við þó erum komin í, með hagvöxt og lítið atvinnuleysi, stöðu sem hefur vakið mikla athygli víðast í heiminum – annars staðar en meðal íslenskra kjósenda. Þá værum við barasta ennþá á hausnum.

Og nú hefur altsvo meirihluti kjósenda (allt of margir sátu heima) kallað til hjúkrunarstarfa þá sem eftir botnlaust fylleríi hátt á annan áratug skildu við kroppinn í hjartastoppi, en hrakið burtu með skömm skyndihjálparsveitina, þá sem sannarlega blés og hnoðaði lífi í líkið.

Þetta er sem sagt aldeilis lygilegt, þrátt fyrir forspárvissu skoðanakannana. Þangað til það rifjast upp að maður er staddur í forheimskunnar landi.

 

Þú getur átt þinn tjakk sjálfur!

Á unglingsaldri heyrði ég fyrst brandarann um tjakkinn. Hegðun aðalpersónunnar í sögunni þótti svo absúrd að menn hlógu með öllum kjaftinum – veltust um í óstjórnlegum hlátursrokum. Ég minnist þess ekki að hafa heyrt betri brandara síðan. Enginn er jafn eftirminnilegur og „Tjakkurinn“.

Brandarinn er í stuttu máli á þá leið að maður nokkur er einsamall á ferð í bíl sínum yfir fáfarna heiði í myrkri og leiðindaveðri. Skyndilega springur á bílnum. Maðurinn stoppar úti í kanti og undirbýr dekkjaskipti, tekur út varadekkið og tínir til verkfærin. Þá áttar hann sig á því að það er enginn tjakkur í bílnum. Hann bölvar lánleysinu en hugsar með sér að fljótlega komi einhver akandi sem muni lána sér tjakk. Maðurinn bíður. Enginn kemur.

Nú ákveður maðurinn að ganga af stað, það geti ekki verið langt til næsta bæjar. Á göngunni fer hann að hugsa málin og í ljósi alþekktrar gestrisni Íslendinga og við brugðinni hjálpsemi fólks úti á landsbyggðinni sannfærir hann sig um að hann fái hlýjar móttökur, sjálfsagt mál að lána tjakk og trúlega verði honum líka skultað til baka og hjálpað við dekkjaskiptin.

En gangan er lengri en maðurinn hafði reiknað með, veðrið slæmt og myrkrið þétt. Hvergi grillir í ljóstýru frá sveitabýli. Smám saman fer efinn að sá fræjum í huga hans. Það eru nú víða furðufuglarnir, ekki síst á einangruðum bæjum lengst inn til dala. Og til að gera langa sögu stutta hefur manninum tekist að sannfæra sig um það, þegar hann loks greinir útiljósin á innsta bænum í dalnum, að bóndinn þar sé ekki aðeins furðufugl og sérvitringur, heldur hreinasta illmenni sem aldrei geri nokkrum gott. Hann fer því heim að bæ um miðja nótt og vekur upp með barsmíðum. Þegar heimamaður vaknar, skreiðist til dyra með stírurnar í augunum og opnar dyrnar til að kanna gestakomur, fær hann fyrirvaralaust framan í sig frá komumanni: „Þú getur átt þinn helvítis tjakk sjálfur“. Að svo búnu snýr „okkar maður“ sér á hæl og rýkur burt í fússi.

Ekki verður hjá því komist að setja þessa sögu í samhengi við stjórnmálaumræðu nútímans. Þarna eru lifandi komnir Framsóknarmennirnir í ýmsum flokkum sem vilja undir eins slíta viðræðum við ESB, án þess svo mikið að spyrja fyrst hvort á þeim bæ sé til tjakkur, hvort bóndi vilji lána tjakkinn, sé hann til, eða að láta svo lítið að kanna hvort tjakkurinn er í nothæfu ástandi, sé hann til láns.

Málefni Vísindasjóðs FF/FS

Á fulltrúafundi Félags framhaldsskólakennara föstudaginn 12. apríl sl. gerðu fulltrúar FF í stjórn Vísindasjóðs FF/FS grein fyrir fjárhagsstöðu sjóðsins. Endurskoðandi sjóðsins kynnti ársreikning 2012. Fram kom að þrátt fyrir töluverðan lögfræðikostnað á árinu og ýmsan stofnkostnað vegna flutnings sjóðsins út úr Kennarahúsi, er rekstrarkostnaðurinn síst hærri en þegar sjóðurinn var rekinn í samstarfi með öðrum sjóðum og skrifstofu KÍ. Það liggur því fyrir að Vísindasjóður mun spara fé með því að starfa og leigja eigin aðstöðu utan Kennarahúss.

Eins og fram hefur komið er ekki hægt að ganga frá ársreikningi Vísindasjóðs 2011, án fyrirvara og athugasemda endurskoðanda, vegna þess að nauðsynleg gögn liggja ekki fyrir; sjóðurinn hefur ekki fengið þau afhent hjá skrifstofu KÍ, þrátt fyrir ítrekaða eftirgangsmuni.

Að lokinni kynningu endurskoðanda á reikningum gerði lögmaður Vísindasjóðs grein fyrir niðurstöðu héraðsdóms vegna innsetningarkröfu sjóðsins út af þessu máli. Niðurstaða héraðsdóms var að hafna kröfu Vísindasjóðs.

Formaður sjóðsstjórnar, Þórey Hilmarsdóttir, reifaði málið lauslega og vitnaði í útsend bréf og skýrslur sjóðsstjórnar, sem hafa reglulega verið verið send öllum sjóðfélögum til upplýsingar um framvindu mála. Þórey svaraði og nokkrum fyrirspurnum frá fundarmönnum um einstök atriði í ársreikningi.

Skrifstofustjóri KÍ tók til máls og ræddi samskipti skrifstofu KÍ við sjóðsstjórnina. Hann kom nokkuð inn á það hver hefði óskað eftir fundi með hverjum, og hvenær, og bar af sér sakir um óheilindi eða að verið væri að fela eitthvað í reikningunum. Undir slíkum ásökunum hefði verið erfiðast að sitja. Hann sagði að umræddur BIK-reikningur KÍ, sem m.a. fjármunir Vísindasjóðs hefðu verið færðir á, væri í varðveislu Íslandsbanka og stjórn Vísindasjóðs fengi ekki aðgang að honum þar, vegna trúnaðarskyldu bankans. Meira að segja fengi starfsfólk á skrifstofu KÍ ekki aðgang að þessum reikningi.

Skrifstofustjórinn sagði einnig að ef hann væri að hefja þetta ferli (samskiptin við Vísindasjóð vegna krafna sjóðsins um aðgang að bókhaldsgögnum) nú upp á nýtt myndi hann vissulega gera margt öðruvísi en hann hefði gert. Ekki kom nánar fram í máli hans hvað hann hefði gert öðruvísi, né hvers vegna. Undirritaður gat þó ekki skilið þetta öðruvísi en svo að um væri að ræða viðurkenningu á því að framkoma skrifstofu KÍ gagnvart stjórn Vísindasjóðs hefði ekki verið eins og hún helst hefði átt að vera. Dýpri skilning var ekki hægt að leggja í orð hans, ekki var t.d. um að ræða ótvíræða afsökunarbeiðni, eða viðurkenningu á ámælisverðri framkomu.

Það athyglisverðasta í máli skrifstofustjórans, að mati undirritaðs, var tvímælalaust yfirlýsing þess efnis að hann hefði aldrei fyrr, í öllum samskiptum sínum við stjórnir allra þeirra sjóða sem starfa undir hatti KÍ, kynnst neinni kjörinni stjórn sem væri jafn áhugasöm og nákvæm í störfum sínum. Jafnan hefðu sjóðsstjórnir sýnt takmarkaðan áhuga á umsýslu eða málefnum sjóðanna og því hefði sú venja skapast að hann sæi sjálfur um málin, tæki ákvarðanir og hefði rekstur þeirra einn á sinni könnu.

Undirritaður skilur þetta svo að þegar allt í einu var komin stjórn í Vísindasjóði sem vann vinnuna sína og var ljós eigin ábyrgð, fór að spyrja spurninga og krefjast svara, þá brást skrifstofustjórinn stirðlega við, enda miklu þægilegra fyrir hann að gera þetta sjálfur að gömlum vana, heldur en að vera að tína til gögn og svara einhverjum spurningum „þriggja móðgaðra kvenna“, eins og einum sjóðfélaga finnst hæfa að kalla sjóðsstjórnina.

Linda Rós Michaelsdóttir, einn þriggja stjórnarmanna í Vísindasjóði, tók til máls og lýsti upplifun sinni af því að þurfa að sitja undir vantraustsbókun stjórnar KÍ á störf sín og stjórnar Vísindasjóðs. Hún hefði aldrei lent í því, hvorki fyrr né síðar að efast væri um heilindi sín. Formaður FF stóð upp og sagði að hún hefði hringt í þær allar í stjórn Vísindasjóðs og beðist afsökunar á því að hafa samþykkt vantraustsbókunina, sem hún hefði gert „undir gríðarlegum þýstingi“. Ekki kom fram í máli formanns FF frá hverjum sá þrýstingur kom eða nákvæmlega hvers eðlis hann var. Linda sagði að eðlilegt hefði verið að sú afsökunarbeiðni hefði birst á sama stað og vantraustið, á heimasíðu KÍ.

Þá upplýsti Linda Rós fundarmenn um það að þegar stjórn Vísindasjóðs fór að spyrja hvers vegna KÍ tæki sér það vald að millifæra fjármuni sjóðsins fram og til baka hefðu þau svör verið gefin að um það væri samningur milli aðila. Stjórn Vísindasjóðs óskaði í kjölfarið eftir því að fá að sjá þann samning. Ekki var orðið við því, enda enginn slíkur samningur til, heldur því svarað að gerður hefði verið munnlegur samningur. Linda kvaðst hafa haft samband við forvera sína og spurt þá hvort þeir hefðu gert slíkan munnlegan samning við KÍ. Viðkomandi brugðust ókvæða við spurningunni, að sögn Lindu, og spurðu á móti hvað hún héldi að þeir væru? Hvort henni dytti í hug að heiðvirt fólk gerði munnlegan samning um annað eins?

Þá stendur eftir að

    • enginn löglegur samningur er til um það að KÍ hafi haft heimild til að forfæra innistæður Vísindasjóðs út af reikningum sjóðsins og inn á reikninga KÍ, og hirða þar með vaxtatekjur sem sjóðurinn á. Er það ásættanlegt?
    • stjórn Vísindasjóðs ber ein ábyrgð á fjárreiðum sjóðsins og fær reikninga hans ekki endurskoðaða nema með fyrirvara meðan bókhaldsgögn vantar. Er það ásættanlegt?
    • skrifstofustjóri KÍ viðurkennir að hann hefði, í ljósi reynslunnar, gert margt öðruvísi en hann gerði, ef þetta mál væri að koma upp nú. Enn er tækifæri til að biðjast afsökunar.
    • skrifstofustjóri KÍ hefur aldrei á sínum starfsferli hjá sambandinu kynnst jafn áhugasamri, ábyrgri og nákvæmri stjórn í nokkrum sjóði innan vébanda KÍ eins og núverandi stjórn Vísindasjóðs FF/FS. Starfsmenn KÍ: Takið sjóðsstjórnina til fyrirmyndar.
    • stjórn KÍ, þar með talinn formaður FF, bókaði opinberlega vantraust á þessa áhugasömu, ábyrgu og nákvæmu stjórn Vísindasjóðs á fundi 25. mars 2011. Er það ásættanlegt?
    • stjórn KÍ „harmar þá gagnrýni á vinnubrögð stjórnar Vísindasjóðs“ á fundi 14. október 2011 og biður „velvirðingar á henni“ en hefur hvorki beðist afsökunar á frumhlaupi sínu, né dregið vantraustsbókun sína formlega til baka. Er það ásættanlegt?
    • stjórn KÍ hefur ekki gefið neinar skýringar á því hvað við vinnubrögð sjóðsstjórnar hún taldi svo ámælisvert að verðskuldaði opinbert vantraust, þrátt fyrir ítrekaðar beiðnir þar um. Er það ásættanlegt?
    • formaður FF segist hafa í einkasamtölum beðið stjórn Vísindasjóðs afsökunar á þætti sínum í málinu, en hefur ekki gert það með formlegum hætti opinberlega. Er það ásættanlegt?
    • rekstrarkostnaður Vísindasjóðs er lægri á eigin skrifstofu úti í bæ heldur en í samrekstri og samnýtingu starfsfólks í Kennarahúsinu. Er það ásættanleg niðurstaða fyrir skrifstofu KÍ?
    • stjórn Vísindasjóðs hefur sjálf unnið ómælda, í raun ótrúlega vinnu, við að halda sjóðnum gangandi og tryggja sjóðfélögum réttindi sín og óheftar greiðslur. Takk fyrir það.
    • þau vandkvæði sem upp hafa komið skýrast af ófullkomnu tölvukerfi, sem ræður ekki við það sem það á að gera. Unnið er að lagfæringum á kerfinu, en fyrir vikið hefur stjórn sjóðsins þurft að handvinna úr styrkumsóknum félagsmanna. Takk fyrir það.

Í þessu ljósi er það bæði ljúft og skylt, nú sem fyrr, að lýsa yfir óskoruðu trausti á stjórn Vísindasjóðs FF/FS og fullum stuðningi við hana í þessu máli til loka.

Selfossi, síðasta vetrardag 2013.
Gylfi Þorkelsson,
formaður Kennarafélags Fjölbrautaskóla Suðurlands

Lífs míns á vegi

Í dag eru 30 ár frá því ég hitti konuna mína fyrst. Ég var tæpra 22 ára gamall þennan apríldag þess dásamlega vors árið 1983, ekkert annað en unglingsgrey sem lítið vissi um það sem máli skiptir í lífsbaráttunni, þó ég þættist náttúrulega hafa svör á reiðum höndum við flestu, eins og gengur.

Þetta var sem sagt vorið þegar útskriftin úr Kennó var á næsta leiti og býsna margt að gerast – allt skemmtilegt. Við kynntumst fyrir algera tilviljun, í gegnum sameiginlega vini, á skemmtistað í Reykjavík sem þá var í móð og hét Hollywood. Við vorum samt alveg ábyggilega bæði ‘úr móð’ þarna inni, innan um diskóliðið. Vonandi bæði hallærisleg og sveitó í þeim samanburði. En náðum svona ljómandi vel saman, eitthvað.

Þeir sem þekkja Önnu Maríu vita hve yndisleg hún er í alla staði, svo ég þarf ekkert að útmála það hér, hún lýsir sér best sjálf. En í tilefni dagsins birti ég hér afmæliskvæði sem ég orti einu sinni til hennar:

Ástin mín

Lífs míns á vegi,
vakir enn minningin
frá örlagadegi
er dró stóra vinninginn.
Þá óvænt hitti
þig í fyrsta sinn.
Féll í stafi,
starði á þig hugfanginn.

Fór af mér glansinn
er góndi í augu þín.
Bauð samt í dansinn,
þú brosandi komst til mín.
Sveifstu um gólfið,
geislandi og hlý.
Meðan lifi
mun ég aldrei gleyma því.

Ég varð ástfanginn
það eina sinn.
Hélt um sólina og himininn!
Hvergi undur lífsins samt
ennþá  skil – þar duga skammt
skilningarvitin.

Dásemdir hreinar:
dillandi hláturinn,
tindrandi steinar,
treginn og gráturinn.
Allt sem þú gerir
innst við hjarta grær.
Sífellt betur
sé ég hve þú ert mér kær.

Af „sanngjörnum ábataskiptum“

Á fulltrúafundi Félags framhaldsskólakennara, sem haldinn var föstudaginn 12. apríl síðastliðinn, héldu erindi, undir liðnum Kjaramál, samningar og staða framhaldsskólans, þau Ingibjörg Guðmundsdóttir skólameistari Kvennaskólans, Oddur S. Jakobsson, hagfræðingur KÍ og Guðmundur H. Guðmundsson, frá starfsmannaskrifstofu fjármálaráðuneytis. Þetta fólk flutti okkur, óbreyttum „fulltrúunum“, tíðindin af stöðu mála í íslenska framhaldsskólakerfinu og launakjörum framhaldsskólakennara. Ekki verður sagt að neitt nýtt hafi komið fram, sem við vissum ekki fyrir, fremur tölfræðilegar staðfestingar á þeim nöturlega veruleika sem blasir við nemendum og starfsfólki í skólunum á hverjum degi. Meginniðurstaðan er sú að skólakerfið, alveg eins og heilbrigðiskerfið, verður rústir einar innan skamms ef ekki verður rækilega spyrnt við fótum.

Í máli Ingibjargar kom fram að dagvinnulaun í framhaldsskólunum hafa að meðaltali dregist saman um tæp 2% frá 2007, yfirvinna um 36,6% og ýmsar aukagreiðslur um 48%. Þrátt fyrir þennan gríðarlega sparnað í launakostnaði hafa launatengd gjöld hækkað um 7,6% á sama tíma! Rekstrarkostnaður skólanna (annar en laun) hefur verið skrúfaður niður um 64%.

Á meðan á þessu hefur gengið hefur ársnemendum fjölgað mikið, skólarnir þjóna nú 3982 fleiri nemendum en þeir gerðu árið 2007, en fjölgunin ein kostar 3,2 milljarða. Meðal annars hafa skólarnir tekið þátt í því átaki með stjórnvöldum að hvetja atvinnuleitendur til að drífa sig í skóla í atvinnuleysinu og bæta þannig stöðu sína. Til að tryggja þessum tæplega 4000 fleiri nemendum „besta atlæti“ hefur starfsfólki skólanna verið fækkað á sama tíma um 3,4% og heildarlaunakostnaður á hvert stöðugildi dreginn saman um 11%. Við allan þennan niðurskurð hefur rekstrarkostnaður hvers ársnemanda í framhaldsskólakerfinu lækkað um meira en 100 þúsund krónur, fjárheimildirnar úr 813 þúsund og niður fyrir 695 þúsund.

Samtals er sparnaðurinn 10,5 milljarðar í ríkisskólunum á fimm árum og með „einkaskólunum“ bætist við tæpur einn og hálfur milljarður: samtals 12 milljarða niðurskurður í framhaldsskólakerfinu. Til að bæta gráu ofan á svart verður að geta þess að inni í þessum tölum eru aðeins nemendur sem hafa skilað sér til prófs, ekki allir nemendurnir sem skólarnir hafa „þurft að kosta upp á“.

Til að ná þessum „árangri“ hefur þurft að „auka afköstin“ hjá hverjum kennara með því að stækka námshópana og skera grimmilega niður fámenna valáfanga, helst að bjóða upp á sem fæst annað en almenna kjarnaáfanga, þar sem hægt er að stappa inn sem næst 30 nemendum, helst fleiri.

Formúlan er þessi: Fleiri nemendur » færri störf » stærri hópar. Þá er bara spurningin hvort niðurstaðan sé betri námsárangur? En kannski er það ekki markmiðið með rekstri skólakerfis á landinu bláa? Kannski er einmitt meginmarkmiðið að minnka kostnaðinn, hvað sem það kostar?

Auðvitað vitum við kennarar allt um þetta, þ.e.a.s. hver áhrifin eru á daglegt starf í skólunum. Þar ríkir víða hörmungarástand og margir kennarar að bugast undan ómanneskjulegu álagi. Að ekki sé talað um nemendurna sem njóta ekki þeirrar þjónustu sem þeir eiga rétt á, lögum samkvæmt.

Niðurskurður í skólakerfinu er heldur engin nýlunda, eða fylgifiskur efnahagshrunsins. Jafnvel á árunum fyrir hrun, þegar tekjur ríkissjóðs voru í sögulegu hámarki, var markviss og grímulaus niðurskurður hafinn, jafnvel þegar á fyrstu árum 21. aldar. Að þessu leyti eru heilbrigðiskerfið og skólakerfið saman á báti.

Fulltrúi fjármálaráðuneytisins ræddi á fundinum m.a. tilgang og markmið þeirrar stefnu sem kölluð hefur verið Nýskipun í ríkisrekstri, eða New public management á erlendum tungum, og á rætur sínar í nýfrjálshyggju 10. áratugar 20. aldar. Ekki verður farið náið út í þá sálma hér, en þó hent á lofti orð hans um einn megintilgang svokallaðra „stofnanasamninga“ sem voru mikilvægur liður fyrrnefndar stefnu, með það að markmiði að auka sjálfstæði og ábyrgð einstakra stofnana. Grundvallarhugsunin var sú að ef stjórnendur næðu fram hagræðingu í rekstri átti stofnunin sjálf að njóta hluta ábatans. Þannig átti t.d. skólameistari að geta umbunað starfsmönnum sínum með auknum fríðindum eða hærri launum ef þeim tókst í sameiningu að lækka rekstrarkostnaðinn. Kennari væri þá (vonandi) tilbúinn til að leggja meira á sig í þeirri vissu að honum yrði umbunað með sanngjörnum hætti fyrir aukið álag. Þetta kallaði Guðmundur „sanngjörn ábataskipti“ og sagði vera eina af grunnforsendum stofnanasamninga.

Í praktíkinni hefur kennarinn aftur á móti ekki orðið var við nein ábataskipti, hvorki sanngjörn né ósanngjörn. Engum ábata hefur nefnilega verið skipt. Öll þau „vötn“ sem undin hafa verið af sífellt meira afli út úr hverjum kennara hafa fallið í eina átt – til Ríkisfjarðar. Þessa praktík, sem iðkuð hefur verið nánast alla tíð frá upphafi stofnanasamninga, kallaði fulltrúi fjármálaráðuneytisins réttilega forsendubrest, með vísan í tískuyrði samtímans. Hvaða stjórnmálaflokkar ætli hafi leiðréttingu vegna þessa forsendubrests á stefnuskrá sinni fyrir komandi kosningar?

Hagfræðingur KÍ gerði að umtalsefni misjafna „virðingu“ þjóða fyrir kennarastarfinu. Hann setti dæmið þannig upp að af vergri landsframleiðslu á mann fengi íslenskur meðalkennari aðeins 0,85%. Þetta þýðir að ef vergri landsframleiðslu væri skipt í jafnar kökusneiðar eftir íbúafjölda, miðað við að allir fengju eina sneið, þá duga kennaralaunin ekki fyrir einni meðalsneið, heldur aðeins 85%-um af henni. Það er því óhætt að segja að skorið sé við nögl handa kennurum og þeir séu í þessu tilliti undirmálsstétt í íslensku samfélagi. Til samanburðar fá kennarar í OECD-ríkjum eina heila sneið og 1/3 af annarri, í Danmörku eina heila sneið og næstum 2/3 af annarri, sem er hæsta hlutfallið á Norðurlöndunum, og í Tyrklandi munu kennarar metnir ríflega tvígildir (2,03 sneiðar), sem dugar víst fyrir svipuðum launum og kennarar fá á Íslandi. Þetta var býsna forvitnilegt sjónarhorn, þótti mér.

En þetta vitum við kennarar allt saman ósköp vel. Við höfum reynt það á eigin skinni.

Skólameistari Kvennaskólans lét svo um mælt að ekki yrði gengið lengra eftir braut afkastaaukningar með stækkun námshópa. Eitthvað annað yrði undan að láta.

Og þar stendur einmitt hnífurinn í kúnni.

Árum saman hefur dunið á kennurum og þjóðinni allri að engin þróun sé möguleg í skólakerfinu, þar standi allt fast og þversum – vegna vinnutímaskilgreininga í kjarasamningum kennara. Í þeim söng hafa sveitarfélögin sungið hæstu raddirnar, með Samband íslenskra sveitarfélaga sem forsöngvara, eftir að sveitarfélögin tóku yfir rekstur grunnskólanna. Ríkisvaldið, bæði ýmsir ráðherrar og alþingsmenn, hafa svo tekið hraustlega undir í dramatískum aríum.

En um hvað snýst þessi söngur? Hann snýst um það að í kjarasamningum er skilgreint hve margar kennslustundir kennari í fullu starfi skuli kenna í viku hverri. Þetta er kallað kennsluskylda. Með þessu fyrirkomulagi er það viðurkennt að kennarastarfið sé viðameira en bara að standa (eða sitja eftir atvikum) yfir nemendum inni í kennslustofu. Það að fjöldi stunda í kennsluskyldu sé ekki jafn og vikulegur vinnustundafjöldi flestra annarra stétta er viðurkenning á því að til þess að geta „kennt“ sómasamlega þurfi kennarinn bæði að undirbúa sig fyrir samveruna með nemendum og líka að „ganga frá“ á eftir (námsmat o.fl.).

Þetta virðist bæði eðlilegt og sjálfsagt fyrirkomulag. Allir hljóta að sjá það að kennari getur ekki „kennt“ látlaust frá átta til fjögur, fimm daga vikunnar. Fyrir utan að slíkt fyrirkomulag myndi bitna hvað harðast á nemendunum, þá myndi það fljótt gera út af við kennarana, því starfinu fylgir fyrst og fremst mikið andlegt álag, og framleiðsla á nýjum kennurum er ekki slík hér á landi að dygði til að fylla í skörðin. Fyrir nú utan það að geðheilbrigðisþjónustan réði alls ekki við vandann, eins og henni er ástatt.

Nýverið var vinnutímaboltinn enn hentur á lofti. Tilefnið var vinnudeila danskra kennara og sveitarfélaga. Í fréttum RÚV var vitnað í einhver danskan sem fullyrti að vinnutímaskilgreiningar kennara þar í landi væri hinn mesti dragbítur á allt skólastarf. Og í kjölfarið var bæjarstjórinn í Hveragerði dubbaður upp til að taka undir þennan söng fyrir hönd íslenskra skólarekenda. Boðskapur bæjarstjórans var ekki uppbyggilegur: í íslenskum skólum væri öll þróun í kaldakoli vegna þess að vinnutími kennara væri rígbundinn í kjarasamningum. Skilja mátti að ef tækist að leysa þá hörðu hnúta myndi allt horfa til betri vegar. Framþróun hæfist loks. Og bæjarstjórinn klykkti út með því í viðtalinu að auðvitað ætti að nýta starfskrafta kennara í það sem þeir gera best: að kenna!

Þetta verður ekki skilið öðruvísi en svo að því meira sem kennarar kenni, því betra verði skólastarf. Því þeir eru bestir í kennslu. Og best verður skólastarfið auðvitað með því að láta kennarana gera sem mest af því sem þeir eru bestir í.

Vonandi sjá allir heilvita menn rökleysurnar og öfugmælin í þessu viðhorfi. Hvernig þrælpíning kennara leiðir til betra skólastarfs er nefnilega vandséð.

Bæjarstjórinn gat þess ekkert í viðtalinu að með því að láta kennarana gera meira af því sem þeir eru bestir í, kenna meira – fleiri tíma á viku, þá geta sveitarfélögin, og ríkið í sínum hluta skólakerfisins, fækkað kennurum umtalsvert og sparað stórar fjárhæðir.

Ætli refirnir séu ekki til þess skornir?

Hér er sem sagt kominn nýr afleggjari af þeim vegi sem skólameistari Kvennaskólans fullyrti að væri til enda genginn. Það er ekki hægt að stækka bekkina meira. En það er einlæg ósk og ásetningur íslenskra skólayfirvalda að láta kennarana kenna meira innan dagvinnumarka. Miklu meira. Til þess þarf að brjóta niður vinnutímaskilgreiningarnar í kjarasamningum þeirra.

Og svo þarf líka að stytta nám til stúdentsprófs. Skera burt dálítið af stærðfræði, tungumálum og öðrum óþarfa. Já, alveg rétt. Styttingin á m.a. að vinna bug á hinu mikla og eilífa brottfalli, sem er helsti höfuðverkur íslenskra stjórnmálamanna. Stundum virðist hlutfallstala brottfallinna í samanburði við „viðmiðunarlöndin“ vera það eina sem þeim hefur tekist að festa hönd á í umræðu um íslenska skólakerfið. Flóknari breytur í þeim samanburði virðast þeim oftast huldar þokumóðu.

Staðreyndin er auðvitað sú að það eru ekki vinnutímaskilgreiningar kennara sem standa í vegi fyrir þróun skólakerfisins. Í fyrsta lagi er stöðug og öflug þróun víða í skólakerfinu, þökk sé hugsjónaeldi kennara, og það er orðið fjári þreytandi að hlusta á stjórnmálamenn ómerkja það starf allt með stöðugu tali sínu um annað. Í öðru lagi er nægur sveigjanleiki í kjarasamningum kennara til að kaupa meiri vinnu af þeim sem kæra sig um að vinna meira.

Það sem skortir hins vegar er aukið fjármagn inn í skólakerfið. „Það vantar fóður í stofnanasamningana“, sagði skólameistari Kvennó. Skólameistarar fá ekki fé til að reka skólana. Fjármagnið sem þeir fá til að greiða kennurum laun er 16% lægra en meðalkennaralaunin sannanlega eru, þó lág séu! Alþingi hefur verið duglegt undanfarin 40 ár að setja ný lög, á öllum skólastigum. Alþingi hefur hins vegar ALDREI látið nýjum lögum fylgja þær fjárveitingar sem það sjálft hefur þó látið reikna út að innleiðing nýrra laga kosti. Þarna liggur meginvandi íslenska skólakerfisins. Og sveitarfélögin eru ekkert skárri en ríkið þegar kemur að rekstri skóla, nema síður sé.

Á undanförnum fimm árum hefur verið skorið niður í framhaldsskólunum um 12 milljarða. Þegar búið er að skila þeim til baka, og bæta svo einhverjum milljörðum við, þá skulum við fara að tala saman.

Laus við allt stress

Það eru liðnir rúmir þrír mánuðir síðan ég skrifaði síðast pistil hér á síðuna.  Ekki svo að skilja að nokkur maður sakni þess, en ástæðurnar fyrir þessari löngu „þögn“ eru nokkrar. Í fyrsta lagi hefur verið afar mikið að gera. Vinnan vill þvælast fyrir manni, fram á kvöld og um helgar líka. Svo er nóg að gera í tamningunum. Karlakórinn, Árgali. Að ekki sé talað um alla körfuboltaleikina sem bæði er ljúft og skylt er að sækja.

Ég er búinn að skrifa svo mikið um mennta- og skólamál að ég nenni því ekki lengur, í bili a.m.k. Í annríkinu kemur svo andinn ekki almennilega yfir mann – alla vega lætur ekkert birtingarhæft á sér kræla.

Og pólitíkin, maður lifandi! Hún er með slíkum endemum að þyrmir alveg yfir mann. Best að hafa ekki orð um það meir.

Nú berast af því fréttir að Smugan sé að lokast. Þá er kannski best að geyspa einhverju frá sér, með golunni?

Það bar helst til tíðinda að við hjónin brugðum okkur í bústað í eigu stéttarfélagsins um liðna helgi.

Sælt er að leigja sumarhús,
saman þar má rækta
urtir fagrar í andans krús,
ást af brunni nægta.

Það er ágætt að hverfa af hversdagssviðinu, þó ekki sé nema í tvo daga,  stutt að fara upp í Hrunamannahrepp, svo ekki þarf að hafa áhyggjur af ferðaþreytu, sem gjarnan situr eftir þegar lengra er farið, að ekki sé talað um til útlanda í stuttum fríum. Og einn er meginkostur við Hreppana:

Frá vinnu gefst í Hreppum hlé,
hvíldar njóta skal.
Þar öllu bjargar að ég sé
upp í Laugardal.

Það má svo sem líka viðurkenna að víðar er fallegt heim að líta en í Laugardalinn. Reyndar er gjörvallur fjallahringur uppsveitanna óborganlegur. Ekki síst úr heita pottinum á heiðskíru vetrarkveldi. Þegar upp úr er komið er skrokkurinn líka alslakur:

Sæll ég niðr’ í sófann féll,
sá þá út um gluggann
að blasti við mér Bjarnarfell:
Breiddi sæng á muggan.

Í slíkum ferðum gerir maður sér dagamun í mat og drykk. Að þessu sinni var hvergi til sparað og hrossasteik í farangrinum, ásamt góðum veigum:

Bjór og hvítvín á kantinum.
Kjötið bráðnar í trantinum.
Laus við allt stress
vöknum við hress.
Svo funar kaffið í fantinum.

Þetta reyndist unaðsleg helgi. Og það besta við hana var að geta í bili látið fram hjá sér fara mestallt sigmundarlodderíið. Nóg verður víst samt á næstunni.

 

 

 

Þetta er allt á uppleið

Fyrir 15 mánuðum skrifaði ég pistil hér á síðuna um brunaútsölu á húsnæðisskuldum íslenskra heimila úr gömlu, föllnu bönkunum til þeirra „nýju“ – auðvitað útsölu „án auglýsingar“ enda slík skuldakjör ekki fyrir meðalflónin, heldur einungis alvöru stórskuldara, eins og dæmin hafa sannað æ síðan.

Í pistlinum rakti ég hvernig efnahagsstefna og pólitík Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks, á tveggja áratuga samfelldri valdatíð fyrir hrun, færði húsnæðisskuld okkar hjóna upp um heil 40% á einni nóttu, án þess að við getum með nokkrum rétti eignað okkur neinn hlut í þeirri hækkun, því miður.

Skuldin á litla raðhúsinu okkar hækkaði sem sagt úr 18,4 milljónum í 25,3 milljónir og um leið minnkaði eignarhluturinn úr 25% og niður fyrir núll. Nýi bankinn fékk 25,3 milljóna skuldina okkar á hálfvirði en rukkar okkur auðvitað um hverja krónu. Það er ekki afskrifað nema hjá alvöru stórskuldurum og þeim sem sannanlega eru farnir á hausinn.

Og hvað hefur gerst á þessum 15 mánuðum sem liðnir eru frá því ég skrifaði þennan pistil, með nokkuð súrt bragð í munni.

Ríkisstjórnin og talsmenn hennar þreytast ekki á því að tilkynna okkur veslingunum sem þó borgum skatta og skyldur með rentum mánaðarlega að nú sé allt á uppleið í þjóðfélaginu. Best ég fari nú aftur í heimabankann minn og tékki á stöðunni.

Hún er í stuttu máli sú að upphaflegu 18,4 milljóna lánin frá 2005 sem höfðu endurfæðst eftir hrun í 25,3 milljónum standa nú í 26.823.209 krónum, þar af rúmlega 970 þúsund á svokölluðum jöfnunarreikningi vegna „greiðsludreifingar“ sem við urðum náðarsamlegast að þiggja svo mánaðarlaunin dygðu fyrir húsnæðisskuldunum. Vel að merkja: þarna eru lifandi komin úrræðin við „skuldavanda heimilanna“.

Á 15 mánuðum hafa húsnæðisskuldir heimilisins því hækkað um 1,5 milljónir, þrátt fyrir að borgað hafi verið samviskusamlega samkvæmt útreikningi bankans, nú síðast mánaðargreiðsla upp á kr. 165.342,-. Á 15 mánuðum gerir það kr. 2.480.130 krónur.

Við erum sem sagt búin að borga tæpar 2,5 milljónir síðustu 15 mánuðina til að hækka húsnæðislánið okkar um 1,5 milljónir. Það eina sem ég skil ekki í þessum reikningum er hvað varð um þessa u.þ.b. einu milljón sem upp á vantar? Sem sagt: Ef ég borga 2,5 milljónir inn á lánið mitt – hvers vegna hækkar það þá ekki um sömu upphæð?

Það er víst algengur misskilningur víða í útlöndum að þegar menn borga af skuldum þá eigi þær að lækka. En þetta vita flestir venjulegir Íslendingar að er helber blekking. Því meira sem þú borgar, því meira skuldar þú. Það eru ekki nema örfáir eðalmálmar frá eyjunni fögru, sem eru hagvanir í útlöndum, sem vita að skuldir er einfalt að láta hverfa með hókus-pókus trixum.

En boðskapur stjórnvalda er sem sagt hárréttur – þetta er allt á uppleið. Og af þessu litla dæmi úr heimabankanum mínum, þar sem heilli milljón króna munar á innborgun minni og hækkun lánsins, bankanum í óhag, má glöggt sjá að heilmiklir fjármunir, sem vel gætu nýst til enn frekari hækkana, fara í raun forgörðum.

Ríkisstjórnin getur því gert mun betur.

 

Jólakveðja 2012

Sendi ættingjum og vinum, og landsmönnum öllum, „hugheilar jólakveðjur“ og óskir um farsæld í bráð og lengd.

Er skuggarnir skríða’ upp á hól
í skammdegi, norður við pól,
þá á ljósið skal benda
og með logunum senda
gæfu og gleðileg jól.

Enn sækja að freistingafól,
með falsið og innantómt gól.
En lausnin er kær:
Líttu þér nær
um gæfu og gleðileg jól.

Hve Siggi er sætur í kjól!
Já, og Solla með tæki og tól!
Ef mót straumi þið syndið
veitir umburðarlyndið
gæfu og gleðileg jól.

Í fjölskyldufaðmi er skjól.
Hann er friðar og kærleikans ból.
Þar ávallt þú veist
að geturðu treyst
á gæfu og gleðileg jól.

Metnaðarfullt menningarverkefni

Þrátt fyrir ungan aldur er Karlakór Hreppamanna fjölmennur og öflugur og óhætt að fullyrða að hann hafi afrekað margt. Eftirminnilegir eru tónleikar til heiðurs Sigurði Ágústssyni á aldarafmæli hans og annar hápunktur í starfi kórsins er tvímælalaust mögnuð tónleikaröð til heiðurs Franz Liszt á 200 ára afmæli snillingsins haustið 2011.

Menningarráð Suðurlands hefur nú í þriðja sinn ákveðið að veita kórnum menningarstyrk, sem sýnir best hve metnaðarfullt starf hans er. Styrkurinn í ár er veittur kórnum til að takast á við óperutónlist, með tónskáldin Verdi og Wagner í forgrunni, en árið 2013 eru 200 ár frá fæðingu beggja þessara meistara. Æft verður af krafti í vetur og síðan eru fyrirhugaðir fernir tónleikar næsta vor, tvennir á Suðurlandi og tvennir á höfuðborgarsvæðinu.

Kórinn hefur í þessu verkefni fengið til liðs við sig tvo þekkta einsöngvara til að túlka allt litróf óperutónlistarinnar. Það eru þau Gissur Páll Gissurarson og Elsa Waage sem slegið hafa í gegn undanfarið, Elsa nú síðast á sviði Hörpu í magnaðri uppfærslu á óperu Verdis, Il Trovatore, sem hópur kórfélagar sá saman fyrr í haust.

Auk tónleika hér á landi mun kórinn halda til Ítalíu næsta haust og syngja á tónleikum á vegum FENIARCO (Federazione Nazionale Italiana Associazioni Corali Regionali), sem eru kórasamtök þar í landi. Því er ekki að leyna að töluverður spenningur er innan kórsins fyrir því verkefni að syngja í föðurlandi óperunnar og anda að sér tónlistarmenningunni með ítölskum söngbræðrum og systrum.

Það er von okkar í Karlakór Hreppamanna að Sunnlendingar, og landsmenn allir ef út í það er farið, taki þessu menningarbrölti öllu saman vel. Það er ekki sjálfgefið að kór af þessu tagi, skipaður áhugamönnum, flestum alls ómenntuðum í söng og tónlistarfræðum, ráðist í slík stórvirki.

Heiðurinn að listrænum metnaði kórsins á stjórnandinn, Edit Molnár, sem hefur árum saman unnið ötullega að því markmiði að færa Sunnlendingum helstu tónlistarperlur heimsins og víkka um leið listrænan sjónhring þeirra. Heimslistin er nefnilega ekki bara fyrir einhverja elítu „fyrir sunnan“. Henni til fulltingis í starfi sínu er svo afburða píanóleikari, Miklós Dalmay, sem setur sterkan svip á kórstarfið með sinni leiftrandi glettni, fyrir utan að taka sjálfum sér sífellt fram með snilldarleik á flygilinn.

Þann 21. nóvember sl. var Karlakór Hreppamanna í útvarpi allra landsmanna. Á Rás 1 er þátturinn Raddir, sem þennan dag var helgaður kórnum. Þáttinn, með söng kórsins og viðtölum við stjórnanda hans og nokkra kórfélaga, er hægt að hlusta á með því að smella á þennan tengil.