Af „eflingu landsbyggðarinnar“

Burtséð frá því hvað mönnum finnst um flutning mikilvægra ríkisstofnana frá höfuðborgarsvæðinu, þá geta allir verið sammála um það að ferlið, ef ferli skyldi kalla, við ákvörðun um flutning Fiskistofu úr Hafnarfirði til Akureyrar er með öllu óboðleg stjórnsýsla.

Meiriháttar inngrip af þessu tagi í líf og velferð fjölda fjölskyldna hlýtur að krefjast vandaðs undirbúnings, samráðs og aðlögunar en ekki eins pennastriks í bakherbergjum og tilkynningar um lokaákvörðun á einum starfsmannafundi. Og alls ekki aulalegra tilsvara frá forsætisráðherra þjóðarinnar um að fólk geti alveg látið sér líða vel einhvers staðar annars staðar en það á heima.

Flestir eru held ég sammála því að æskilegt sé að umsvif ríkisins efli byggðir sem víðast um land með staðbundnum starfsstöðvum. Hefðbundnar slíkar stofnanir eru framhaldsskólar, heilbrigðis- og öldrunarstofnanir af ýmsu tagi, löggæsla o.fl. sem sinna sk. „nærþjónustu“. Slíkar stofnanir, sem gegna lykilhlutverki í daglegu lífi landsmanna á hverjum stað, hafa sætt niðurskurði áratugum saman. Sjúkrahús, heilsugæslur, lögreglustöðvar, sýslumannsembætti svo eitthvað sé nefnt, hafa verið sameinuð eða aflögð, með öllu eða að hluta, svo þjónustan stendur víða ekki undir nafni, þjónusta sem varðar daglegt líf hvers og eins og þarf af þeim sökum að vera í heimabyggð, við hendina. Undantekning frá þessu eru framhaldsskólar, sem hefur fjölgað mjög og víða um land og skipta sköpum hvað byggðaþróun varðar, ekki síður en hið augljósa: jafnari tækifæri til menntunar.

Á meðan t.d. sífellt fleiri landsmenn þurfa að „fara suður“ til að leita sér lækninga og gamalmenni eru flutt hreppaflutningum milli héraða vegna niðurskurðar og sparnaðar, þá er apparat eins og Fiskistofa rifið upp með rótum og flutt norður í land. Væri kannski nær að efla atvinnu og uppbyggingu utan stórreykjavíkursvæðisins á vegum ríkisins með því að halda úti sjálfsagðri grunnþjónustu á byggðum bólum hringinn í kringum landið, þannig að helst sé ekki meira en í mesta lagi klukkutíma akstur í bíl fyrir þá afskekktustu? Skilar það ekki til lengri tíma meiru og víðar, meira öryggi, fleiri og fjölbreyttari atvinnutækifærum, hærri tekjum – meiri lífsgæðum?

Flutningur stofnana sem ekki varða daglegt líf sk. almennings í landinu með beinum hætti hlýtur að vera umhugsunarefni. Hverjir þurfa á þjónustu stofnunarinnar að halda? Hvernig er hægast fyrir þá að nálgast þjónustuna? Hvar og hvernig er ódýrast fyrir þá að sækja þjónustuna? Hvar er hagkvæmast að reka þjónustustofnunina? Og síðast en ekki síst: veitir hún sérhæfða eða almenna þjónustu?

Hvernig gagnast flutningur Fiskistofu svokallaðri landsbyggð? Jú, gott fyrir Akureyri og nágrenni að fá 40 góð störf. En hvað með aðra landshluta? Vestfirðinga, Hornfirðinga, Suðurnesjamenn? Þurfa þeir að koma sér fyrst til Reykjavíkur og þaðan norður í Eyjafjörð? Eða þarf kannski enginn að sækja Fiskistofu heim?

Það jákvæðasta í þessu máli er trúlega það að Framsóknarmenn og flugvallarvinir ættu að geta hætt að fjargviðrast út af staðsetningu miðstöðvar innanlandsflugs í Vatnsmýrinni í Reykjavík. Það ætti ekki að skipta höfuðmáli hvar landsmenn millilenda til að ná flugi í þann landshluta þar sem þjónustunni sem þá vantar hefur verið plantað. Það eina sem þarf að tryggja eru góð upplýsingaskilti í flugstöðinni um ríkisstofnanir á hverjum áfangastað.

Rauðan belg fyrir gráan

Það veldur nokkrum áhyggjum að rasismi skuli aðeins valda fjármálaráðherranum þrýstingi í hné. Í því samhengi er rétt að rifja upp aðra sögu af þrýstingi við hné.

Við uppgröft líkanna kom í ljós að í Njálsbrennu hafði Skarphéðinn aðeins brunnið upp að knjám. Allt annað var óbrunnið á honum, utan krossmörk á brjósti og milli herðablaða. Ætluðu menn að þau hefði hann brennt á sig sjálfur, e.t.v. til að biðjast fyrirgefningar og öðlast eilíft líf, enda orðinn kristinn maður, og þá hafi guð stöðvað brunann því hann er miskunnsamur og lætur fólk ekki brenna bæði þessa heims og annars, samkvæmt orðum hins (mis)vitra Njáls.

Bjarni Ben. reynir að ganga í smiðju Skarphéðins með glotti og kaldhæðnum tilsvörum um silfrað hár og rauðan klút, og verk í hné. Skarphéðinn talaði um að gjalda ‘rauðan belg fyrir gráan’, og þóttist meira að segja vera að fara í laxveiði þegar hann dró fram öxi sína, Rimmugýgi, fyrir vígaferli. Ekki var þá  þó um að ræða boðsferð á kostnað annarra, og skilur þar á milli þeirra Bjarna og Skarphéðins, auk hetjuskaparins.

Hvenær kemur að því að Bjarni, eins og Skarphéðinn, þurfi að láta af oflæti sínu og mikilmennsku, og biðjast auðmjúklega fyrirgefningar á orðum sínum og gjörðum, er óljóst. En þeir tímar munu koma.

 

 

Manngildi, þekking, atorka

Eftir að hafa lesið síðustu færslu hér á síðunni (Ljóð á vegg) urðu einhverjir forvitnir (reyndar bara tveir 😉 ) og spurðu um ljóð sem ég orti á fimmtugsafmæli Menntaskólans að Laugarvatni, hvort það væri aðgengilegt einhvers staðar á Netinu, sem það er ekki. Ég bæti bara úr því hér og nú:

Manngildi, þekking, atorka

Menntaskólinn að Laugarvatni fimmtugur

Tileinkað minningu Bjarna Bjarnasonar, skólastjóra.

 

Vorið hlær í vatnsins bláa fleti,

viðrar sig um nakið kjarr og grundir.

Um miðjan daginn blærinn leggst í leti,

lóan syngur, þrestir taka undir.

 

Hæst á fögru sviði, manngerð merki,

myndug tákn um heitar andans glóðir.

Þær hugsjónir sem voru hér að verki

varða mörgum leið á nýjar slóðir.

 

Alla tíð er þarft að skilja það

að þekking aðeins gilt er stefnumið

ef með í för er metnaður og natni.

 

Metum það sem hver fær áorkað.

Af vinarþeli mælt er manngildið

í Menntaskólanum að Laugarvatni.

 

 

Ljóð á vegg

Í dag var brautskráður frá Fjölbrautaskóla Suðurlands dágóður hópur af efnilegum ungmennum, af ýmsum brautum. Þetta er alltaf jafn gleðileg og hátíðleg athöfn, þarna taka á móti prófskírteinum sínum krakkar sem við kennarar höfum haft, mislengi auðvitað, undir handleiðslu okkar. Til hamingju með áfangann „klárar“ góðir.

En brautskráningardagurinn hafði einnig sérstaka þýðingu fyrir mig. Á áberandi VLUU L100, M100  / Samsung L100, M100stað framan við hátíðarsal skólans er nú búið að skrúfa upp á vegg plötu með áletruðu ljóði sem ég samdi í tilefni af þrjátíu ára afmæli hans þann 13. september 2011. 

Ég er óneitanlega töluvert stoltur af því að eiga nú uppihangandi ljóð í báðum „skólunum mínum“, Menntaskólanum að Laugarvatni þar sem ég lauk stúdentsprófi árið 1980 og Fjölbrautaskóla Suðurlands, þar sem ég hef kennt síðan haustið 1993.

Í ML hangir á virðingarstað ljóð sem ég orti á 50 ára afmæli skólans, sonnettan Manngildi, þekking, atorka, óður til þessarar menntastofnunar tileinkaður minningu afa míns, Bjarna Bjarnasonar skólastjóra á Laugarvatni, upphafs- og aðalbaráttumanni fyrir stofnun hennar á sinni tíð. Í FSu er Fjallganga, þrítugsafmæliskveðja, eins og sjá má á meðfylgjandi mynd sem Maggi Tryggva var svo vinsamlegur að taka fyrir mig. Ljóðið er svo:

Fjallganga

Fjölbrautaskóli Suðurlands 30 ára 13. september 2011

 

Hér yfir vakir Ingólfsfjall

með urðarskriður, hamrastall

og lyng og tæra lind.

Á efstu brúnum orðlaus finn,

að á ég hafið, jökulinn

og háan Heklutind.

 

Við hraunið sveigir Ölfusá

með iðuköstum, flóðavá

og góða laxagengd.

Þó brúin tákni mannsins mátt

þá mótar áin stórt og smátt,

vort líf í bráð og lengd.

 

Get Suðurfjórðung faðmað hér,

á flug með hröfnum kominn er,

ef tylli mér á tær,

um sögufrægar sýslur þrjár

með sanda, hveri, jökulár

og byggðarbólin kær.

 

Nú grípur augað glæsihöll,

við gula litinn þekkjum öll,

þar fjöldinn allur fær

að þroska bæði hug og hönd

og hnýta lífsins vinabönd,

þar héraðshjartað slær.

 

 

 

Hörpuvísur

Sigurður dýralæknir sendi Árgalafélögum líka, fyrirfram, efni í Hörpuvísur, fyrriparta undir nokkrum mismunandi rímnaháttum. Þegar ég var að hnoða saman botnunum var „vorhret á glugga“ sem hafði augljós áhrif á innihald þeirra:

Ferskeytt
Harpa nálgast, hlýnar geð,
þá hækkar sól á lofti
en vetur ennþá virðist með
vorið upp’ í hvofti!
 
Stefjahrun
Harpa nálgast, hlýnar geð,
þá hækkar sólin för.
Lítið hef þó hana séð,
á hitann virðist spör.
 
Gagaraljóð
Harpa nálgast, hlýnar geð,
þá hækkar sólin ganginn sinn.
Ef gengi úti faldprútt féð,
fljótt það myndi setja inn.
 
Nýhent
Harpa nálgast, hlýnar geð,
þá hækkar sólin göngu sína.
Glæstar vonir geng ég með:
„Góða besta, farð’ að skína!“
 
Stafhent
Harpa nálgast, hlýnar geð,
þá hækkar sólin blíðu með
en Vetur kóngur fer ei fet,
færir okkur páskahret.
 
Samhent
Harpa nálgast, hlýnar geð,
þá hækkar sól frá vetrarbeð.
Nú er aumt og nakið tréð,
í náttúrunni lítið peð.
 
Stikluvik
Harpa nálgast, hlýnar geð,
þá hækkar sólin göngu,
en þó verður varla séð
að vorið komi henni með.
 
Valstýft
Harpa nálgast, hlýnar geð,
þá hækkar sól.
„Út að ganga! Allir með!
Upp á hól“.

 

 

Einmánaðarvísur

Sigurður Sigurðarson dýralæknir sendi félögum í Kvæðamannafélaginu Árgala nokkra fyrriparta, til að botna fyrir Einmánaðarfund félagsins. Tilgangurinn var ekki síst að æfa fjölbreytni í vísnagerðinni. Ég fór svona að:

Breiðhenda:
Einmánuður andar hlýju,
opnast brum á greinum trjánna.
Logar sól um land að nýju,
leikur glatt í straumi ánna.
 
Langhenda:
Einmánuður andar hlýju,
opnast brum á greinunum.
Í morgunsárið, eftir níu,
augun þorn’ á steinunum.
 
Draghenda:
Einmánuður andar hlýju,
opnast brum á greinum.
Andinn verður ör að nýju
öllum gleymir meinum.
 
Skammhenda:
Einmánuður andar hlýju,
opnast brum á grein,
hverja sólar gleypir glýju,
gleðin ríkir ein.
 
Úrkast:
Einmánuður andar hlýju,
opnast brumin.
Frjóin vori fagna nýju
frá sér numin.
 
Dverghenda:
Einmánuður andar hlýju,
opnast brum.
Dagsins sjá þau dýrð að nýju
en deyja sum.

 

Lýðræðið flækist fyrir

Í fréttum var um daginn greint frá nýafstöðnum kosningum í Norður-Kóreu. Þetta virtust hafa verið góðar og friðsamlegar kosningar og úrslitin ánægjuleg, alla vega var fólkið á sjónvarpsskjánum hið brosmildasta. Ekki er verið að flækja málin að óþörfu þarna austur frá, það er einn í kjöri í hverju kjördæmi og leiðtoginn sömuleiðis. Enda ríkir gríðarleg ánægja með hann, eins og sést á því að hann fékk glimrandi kosningu, 100%, og því engin ástæða til að hafa fleiri í kjöri. Það myndi bara auka kostnað og valda óþarfa argaþrasi. Nei, það er miklu skilvirkara, ódýrara og þægilegra að sem fæstir séu að vafstra í ákvarðanatöku fyrir fjöldann, sem venjulega hefur heldur ekki kynnt sér málin nægilega vel til að taka réttar og skynsamlegar ákvarðanir.

Út af þessu fallega fordæmi Norður-Kóreumanna varð ég svo kátur þegar ég fór að kynna mér tillögur stjórnar FF að lagabreytingum sem liggja fyrir aðalfundi Félags framhaldsskólakennara 20.-21. mars nk. og tillögur um breytingar á lögum Kennarasambands Íslands og breytingar á vinnureglum Orlofssjóðs, Sjúkrasjóðs og Vinnudeilusjóðs sem lagðar eru fyrir KÍ-þingið í næsta mánuði: KÍ stefnir öruggum skrefum í rétta átt, frá þessu dýra, óhagkvæma þátttökulýðræði að einfaldara og skilvirkara fulltrúaræði.

Í fyrsta lagi er lagt til að aðalfundir FF og þing KÍ verði fjórða hvert ár í stað þriðja hvers eins og nú er. Þetta sparar töluverða fjármuni, heilt þing á 12 ára fresti, og minnkar líka allt ónæði, bæði fyrir skrifstofu KÍ sem getur þá einbeitt sér að brýnni verkefnum og losnar við heilmikla nauð af almennum félagsmönnum og misgáfulegum þingfulltrúum utan af landi sem borga þarf undir bíl eða flug og gistingu, en ekki síður sparar þetta félagsmönnum sjálfum mikla fyrirhöfn og tíma við að kynna sér leiðinleg og flókin mál sem þeir geta í staðinn nýtt til afslöppunar heima fyrir framan sjónvarpið.

Í öðru lagi er lagt til að fækka þingfulltrúum úr hópi almennra félagsmanna verulega en fjölga á móti þingfulltrúum úr yfirstjórn aðildarfélaganna. Allir sjá hve guðsþakkarverð þessi breyting yrði fyrir hinn almenna félagsmann og yfirstjórnin á heiður skilinn fyrir að bjóðast til að taka á sig allt ónæðið, leiðindin og erfiðið sem því fylgir að sitja slík þing.

Í þriðja lagi er lagt til að sjóðir (Vinnudeilusjóður, Sjúkrasjóður, Orlofssjóður) verði eign aðildarfélaga en ekki félagsmanna í kennarasambandinu. Þetta er löngu tímabær lagabreyting. Allir sjá það að félagsstjórnirnar eru miklu betur inni í málum og skilja betur þarfir og hagsmuni sjóðanna en óbreyttir félagsmenn, auk þess sem stjórnir aðildarfélaganna eiga hægara um vik að hafa samráð um hagsmuni sín í milli og greiðari aðgang að reikningum og réttum upplýsingum á skrifstofu sambandsins. Til enn frekara hagræðis er lagt til að stjórn KÍ velji sjálf endurskoðendur til að sinna eftirliti. Því eru sjóðirnir auðvitað miklu betur komnir í eigu félaganna en félagsmanna, sem gætu hugsanlega tekið upp á alls kyns vitleysum, eins og t.d. að leita úti í bæ að hagkvæmara rekstrarumhverfi en býðst í Kennarafélagshúsinu, eða að fara að spyrja undarlegra spurninga um reikninga og bókhald, sem þeir hafa náttúrulega takmarkað vit á.

Í beinu framhaldi af þessu er í fjórða lagi lagt til að stjórnir sjóða verði skipaðar beint af stjórnum aðildarfélaganna, í stað þess að stjórnarmenn séu kosnir á aðalfundum og þingum. Þetta er líka eðlileg breyting, því það er alltaf hætta á því að á þessi fjölmennu þing slæðist fulltrúar með undarlegar skoðanir, sem jafnvel skapa starfsfólki sambandsins óþarfa vinnu og fyrirhöfn, eða besserwisserar sem telja sig vita betur en okkar góða fólk sem hrærist í hagsmunagæslunni dags daglega. Gríðarlegt óhagræði yrði af því ef slíkt fólk hlyti kosningu í sjóðsstjórnirnar, sem alltaf getur þó gerst fyrir slysni, eins og dæmin sanna, í þessu ófullkomna skipulagi sem lýðræði óneitanlega er.

Í fimmta lagi er lagt til að stjórn KÍ velji formann sjóðsstjórna úr þeim hópi sem stjórnir aðildarfélaga tilnefna og að hinn handvaldi formaður hafi alræðisvald við þær núverandi en óheppilegu aðstæður sem upp geta komið að mál falli á jöfnum atkvæðum innan stjórna sjóðanna. Þetta er nauðsynleg baktrygging fyrir KÍ, ef stjórnum aðildarfélaganna verða á mistök við val á hæfum stjórnarmönnum.

Í sjötta lagi er lagt til að reikningar aðildarfélaga verði aðeins lagðir fram til kynningar á ársfundum milli aðalfunda og, eins og komið hefur fram, að stjórn KÍ skipi skoðunarmenn reikninga úr hópi fulltrúa sem aðildarfélög tilnefna, í stað þess að þeir séu kjörnir á aðalfundum. Það sama gildir vitaskuld um kjörstjórn, sem lagt er til að stjórn KÍ kjósi, og framboðsnefnd, sem stjórnir aðildarfélaganna skipi, í stað þess að setja á svið eitthvert kosningaleikrit á fundum.

Þetta er í allt fullu samræmi við þá tillögu að engar kosningar muni fara fram á aðalfundum aðildarfélaga og þingum KÍ í framtíðinni. Það felur í sér mikinn tímasparnað, sem hægt verður að nýta í ítarlegri og lengri glærusýningar og fyrirlestra formanna og yfirstjórna, auk þess sem allir vita að misvitrir þingfulltrúar eru þekktir að því að rétta bara upp hönd eins og næsti maður, en spyrja svo: „Hvað var aftur verið að kjósa um núna“? Með þessari breytingu yrði því traustri loku skotið fyrir vitlausar niðurstöður í kosningum.

Í sjöunda lagi er eftirfarandi lagt til: „Skrifstofa KÍ sér um þjónustu fyrir sjóði samkvæmt þjónustusamningi.“ Allir sjóðir skulu undantekningalaust þjónustaðir innanhúss, þar sem rétt þekking er til staðar og um leið trygging fyrir því að meginhagsmuna verði gætt, hagsmuna sem vafasamir aðilar á frjálsum markaði þekkja því miður ekki nógu vel. Og þó ódýrari þjónusta gæti fundist utanhúss, þá skiptir það ekki máli, því svo mikill sparnaður hefur verið lagður til með hinum fyrri tillögunum (um fækkun funda og þingfulltrúa, skilvirkar aðferðir við skipun stjórnarmanna og afnám kosninga) að kennarasambandið hefur vel efni á því að bæta vel í skrifstofukostnaðinn. Enda borga almennir félagsmenn hann með bros á vör, þó þeim sé meinilla við allan þennan óþarfa kostnað sem hlýst af þátttöku þeirra sjálfra í starfi stéttarfélagsins.

Í áttunda lagi er lagt til um örlög sjóðanna að verði sjóður lagður niður „færast eignir sjóðsins í félagssjóð KÍ“ í stað þess að þing ráðstafi eignunum, enda verða sjóðirnir ekki í eigu þingfulltrúa ef þessar breytingar ná fram að ganga, svo þeir hafa hvort eð er ekkert með það að gera að ráðstafa annarra líkum.

Fleira má tína til, en það er þó ein lagabreytingatillaga sem ég sakna, þess efnis að formanna- og stjórnarkjör í aðildarfélögunum og KÍ verði aflagt, en stjórnunum sjálfum falið að skipa nýjar stjórnir í stað sjálfra sín á fjögurra, helst fimm ára fresti. Það veldur óþarfa álagi á skrifstofu KÍ, er gríðarlega dýrt, seinlegt og óhagkvæmt að stemma af kjörskrána og senda út alla þessa kjörseðla, mikil vinna fyrir trúnaðarmenn að eltast við félagsmenn til að fá þá til að greiða atkvæði, auk þess hve tilbreytingalaust og ömurlega leiðinlegt það er að telja atkvæðin. Ákvarðanir um eftirmenn sína eru engir hæfari að taka en formennirnir sjálfir og stjórnirnar, eins og Norður-Kórea er lifandi fyrirmynd um.

Svo mörg voru þau orð og aðeins komið að lokaspurningunni, til væntanlegra fulltrúa á aðalfundi FF og fulltrúa á þingi KÍ: 

Verður þetta síðasta þingið ykkar með atkvæðisrétti?

Greinin birtist á heimasíðu KÍ 14. mars 2014

 

Kennarar krefjast engra ofurlauna

Kjarasamningar framhaldsskólakennara runnu út í lok janúar sl. og stéttin er því samningslaus. Samninganefnd ríkisins hefur ekkert að bjóða, og hefur greinilega ekki umboð stjórnvalda til að gera það sem menntamálaráðherra og fleiri stjórnmálamenn hafa sagt opinberlega að þurfi að gera: að hækka laun kennara. Halda áfram að lesa

Til varnar framhaldsskólunum

Tilvitnun

Kjarasamningar framhaldsskólakennara eru runnir út. Stéttin er því samningslaus. Samningaviðræður hafa engum árangri skilað og deilunni hefur verið vísað til ríkissáttasemjara. Hann hefur ekki náð neinum árangri enn. Kennarar funduðu í gær í öllum skólum og mikil samstaða ríkir meðal þeirra um grundvallaratriðin. Launin eru óboðleg og hafa þegar valdið því að fjöldi umsókna í kennaranám hefur hrunið og nýliðun í kennarastéttinni er léleg. Meðalaldur framhaldsskólakennara er 56 ár. Framhaldsskólanemendur munu ekki velja kennaranám að loknu stúdentsprófi þegar þeir sjá að byrjunarlaunin sem nýliðum bjóðast eftir 5 ára háskólanám og masterspróf eru 300.000 krónur. Þeir velja sér annað starfsnám. Yngstu kennararnir munu flýja skólana. Fjöldi kennara fer á eftirlaun á næsta áratug. Engir koma í staðinn og skólarnir standa auðir. Halda áfram að lesa