Árið 2008 skilaði nefnd skipuð fulltrúum frá mennta- og dómsmálaráðuneytum, Fangelsismálastofnun og Fjölbrautaskóla Suðurlands (FSu) tillögum að stefnumótun í menntunarmálum fanga. Nefndinni var falið að huga sérstaklega að fjarkennslu gegnum Netið, verkmenntun, menntun erlendra fanga og þeim sem fallið hafa út úr skyldunámi. Halda áfram að lesa
Háæruverðug fyrsta persóna
„Á almennum vinnumarkaði er hægt að segja þér upp samdægurs án ástæðna. Við erum í raun að færa reksturinn nær almennum vinnumarkaði“, segir formaður fjárlaganefndar Alþingis Íslendinga í fjölmiðlum.
Það er sem sagt eðlilegt ástand og eftirsóknarvert að hægt sé að reka fólk samdægurs og án ástæðna úr vinnunni, í augum eins valdamesta þingmanns Framsóknarflokksins.
„Við erum í raun að…“. Alls ekki að eitthvað sé til umræðu eða að lögð verði fram tillaga á þingi. VIÐ ERUM AÐ. Allt æði er hér í fyrstu persónu og engum öðrum kemur það neitt við.
Þarna er rétt lýst mannfyrirlitningunni, hrokanum og yfirlætinu sem eru aðaleinkenni orða og æðis viðkomandi, og fleiri úr forystusveit ríkisstjórnarinnar.
Nú ætlar háæruverðug fyrsta persóna, í fleirtölu með skoðanabróður sínum í Sjálfstæðisflokknum, að innleiða þennan vinnumarkaðsfasisma í opinbera kerfið, undir kjörorðunum „að liðka fyrir starfslokum“.
Einhvern tímann hefði maður ekki trúað þessu upp á Framsóknarflokkinn.
… litast þessi tilvik nú rauð þegar vinnumat í dálkum Q og V fer upp fyrir starfshlutfall í dálki E
Eftir að verkfalli framhaldsskólakennara lauk fyrir bráðum einu og hálfu ári tók við smíð á fyrirbæri sem kallast „nýtt vinnumat“ – og var hluti af þeim kjarasamningi sem samþykktur var í apríl 2014. Kennararnir áttu svo að kjósa sérstaklega um þennan hluta kjarasamningsins í febrúar 2015. Þeir gerðu það – og kolfelldu bastarðinn. Hófst þá vinna við að „sníða af vinnumatinu gallana“ eins og það var látið heita. Halda áfram að lesa
Eitt lítið hornsíli
Velferðarkerfið er á heljarþröm. Það eru ekki nýjar fréttir. Á sk. „góðæristímum“ fyrir hrun, fyrsta áratuginn á 21. öldinni, var þetta stoðkerfi samfélagsins svelt markvisst í pólitískum tilgangi, skv. hugmyndafræði frjálshyggju og einkavinavæðingar Sjálfstæðisflokksins. Framsóknarflokkurinn spilaði með af fullum þunga.
Heilbrigðiskerfið fékk ekki nauðsynlegar fjárveitingar til að viðhalda sjálfu sér, endurnýja tæki og byggja yfir sig. Skorið var niður um a.m.k. tug milljarða í framhaldsskólakerfinu og skólarnir settir í þá stöðu að geta ekki rekið sig á fjárveitingunum. Þetta var ekki eitthvert athugunarleysi eða misskilin forgangsröðun þar sem peningarnir voru nýttir í aðra samfélagsþjónustu eins og t.d. vegakerfið og samgöngumál, nú eða almannatryggingar svo hægt væri að gera gangskör að því að hlúa að öryrkjum og fötluðum eða búa öldruðum áhyggjulaust ævikvöld.
Nei, þvert á móti voru framlög til þessara málaflokka skorin niður líka en gerðar skattkerfisbreytingar til að tryggja hinum efnuðu enn betri stöðu, útgerðinni sleppt lausri á sjávarauðlindina og eftirlit veiklað eða afnumið til að búa í haginn fyrir græðgisbrjálæðið sem heltók „margan góðan drenginn“ með þekktum og skelfilegum afleiðingum.
Þær afleiðingarnar eru arfleifð Davíðs Oddssonar og Halldórs Ásgrímssonar. Þjóðargjaldþrot.
Hrunflokkarnir fengu útreið í kosningum vorið 2009 og fyrsta vinstristjórnin á Íslandi fékk það í fangið að reisa samfélagið við á ný, grafa það upp úr dýpstu gröf efnahagshruns sem um getur á byggðu bóli. Það tókst, í stórum dráttum, á einu kjörtímabili. Á aðeins fjórum árum.
En viti menn. Viðreisnarflokkarnir fengu fyrir þetta afrek aðra eins útreið, eða verri, í næstu kosningum og hrunflokkarnir höfðu fengið fjórum árum fyrr. Kjósendur mátu jafnt annars vegar það afrek hrunflokkanna að koma landinu lóðbeint í versta þjóðargjaldþrot mannkynssögunnar og hins vegar viðreisnarafrek vinstriflokkanna. Segið þið svo að kjósendur láti að sér hæða!
Nú þegar kjörtímabil hrunflokkanna er hálfnað hefur þeim tekist að gera svo mörg risavaxin axarsköft að tær og fingur duga ekki til að telja allt saman – og það við kjöraðstæður. Hrunflokkarnir hófu kjörtímabilið með pálmann í höndunum, við þær aðstæður að boltinn var sjálfkrafa á uppleið eftir að hafa skollið í gólfið, og enn langt í hæsta punkt.
Ástæðan fyrir þessu ólánlega stjórnarfari er fyrst og síðast sá grunnur sem það er reist á. Grunnurinn er tóm froða og upploginn fagurgali og á slíkum grunni fær ekkert staðist, heldur fellur flatt um sjálft sig.
Skýrasta dæmið er svokölluð skuldaleiðrétting. Í því máli má líkja Sigmundi Davíð og Framsóknarflokknum við mann sem lofar sveltandi stjórfjölskyldu sinni að fara og veiða í matinn handa öllum ef hann fær lánaða veiðistöngina. Hann fer, er lengi í burtu en kemur loksins heim aftur í æpandi hungrið – með eitt lítið hornsíli – sem engan veginn dugar einu sinni til að seðja sárasta hungur neins. Uppi verður fótur og fit en „veiðimaðurinn“ rífur bara kjaft og segist víst hafa veitt í matinn og staðið við loforð sitt. Hinir sveltandi vita betur.
Nýjasta axarskaftið er framkoman gagnvart hjúkrunarfræðingum og félögum í BHM.
Heilbrigðiskerfið er á heljarþröm. Rót vandans liggur ekki í axarsköftum núverandi ríkisstjórnar, ekki heldur í efnahagshruninu eða viðreisnarárum vinstristjórnarinnar. Rót vandans liggur aftur í sk. góðæri fyrir hrun og úthugsaða, pólitíska skemmdarverkastarfsemi hrunflokkanna skv. þeirri hugmyndafræði Sjálfstæðisflokksins að koma sem mestu af opinberri þjónustu í hendurnar á sínu fólki.
Vandi heilbrigðiskerfisins er svo langvinnur, víðtækur og alvarlegur að þær auknu fjárveitingar sem Landspítalinn hefur fengið undanfarið eru eins og dropi í hafið. Kerfi með heilsuspillandi húsnæði, lokaðar deildir, aflóga lækninga- og rannsóknatæki og starfsfólk gengið upp að hnjám af álagi verður ekki bætt með neinum smáskammtalækningum.
Og það er alveg sama hvað stjórnarliðar hneykslast mikið á launakröfum hjúkrunarfræðinga og annarra heilbrigðisstarfsmanna eða hversu lengi þeir hanga eins og hundar á roði á því prinsippi að opinberir starfsmenn eigi ekki meira skilið en samið var um á almennum markaði, því óánægjan með launkjörin og starfsaðstæður er svo megn og gamalgróin að viðunandi heilbrigðisþjónusta verður ekki byggð upp aftur hér á landi nema bæta bæði laun og vinnuumhverfi þessara stétta verulega.
Hér dugar sem sagt ekki að bjóða aftur hornsíli – og mannréttindabrot er ekki skynsamlegasta leiðin til að ná sáttum við langþreytta og niðurlægða stétt. Hún mun ekki leggjast undir vöndinn heldur láta sig hverfa. Sama hvað stjórnarliðar jarma.
Að öllu þessu virtu er knýjandi sú spurning hvort Framsóknarflokkurinn ætlar sér enn að verða virkur þátttakandi með Sjálfstæðisflokknum í því að brjóta niður stoðkerfi samfélagsins til þess að koma því endanlega í hendur einkamarkaðarins?
Sameining, hagræðing og flutningur stofnana
Nú hefur heyrst að Illugi Gunnarsson, menntamálaráðherra, vilji sameina þrjá skóla á Norðurlandi, Menntaskólann á Akureyri, Menntaskólann á Tröllaskaga og Framhaldsskólann á Húsavík. Þá hefur kvisast út að hann hyggist sameina Menntaskólann á Ísafirði og Fjölbrautaskóla Norðurlands vestra á Sauðárkróki. Halda áfram að lesa
Mæðradagsvísan
Lífs á himni skærast skín
skips míns leiðarstjarna.
Elsku, besta mamma mín
merlar alltaf þarna.
Framkvæmd sópunar
Um daginn barst inn um póstlúguna hjá mér fréttabréf frá Sveitarfélaginu Árborg þar sem fram kom að sveitarfélagið hefði samið við ákveðið fyrirtæki um „framkvæmd sópunar“ gatna. Framkvæmdinni var síðan lýst nánar, sem er aukaatriði hér, en þó má geta þess að ekkert var minnst á framkvæmd útboðs vegna framkvæmdarinnar.
Framkvæmd sópunar er mikið þjóðþrifaverk, eins og alþjóð veit, en vandasamt. Oft vakna ég t.d. upp, horfandi niður á hendur mér í óvissu, með kústinn í einari en ryksugubarkann í hinari. Mér er ómögulegt að framkvæma ákvarðanatöku um það hvort ég eigi að ráðast í framkvæmd sópunar eða ryksugunar, þó ljóst sé að löngu tímabært sé að ráðast í slíkar framkvæmdir.
Við þessar aðstæður framkvæmir kona mín jafnan á mér niðurskurð úr snörunni, fljótt og vel, og ég framkvæmi þá vilja hennar.
Af almennum félagsfundi
Í gær var haldinn almennur félagsfundur í Félagi framhaldsskólakennara. Fundurinn var haldinn að kröfu um 200 félagsmanna sem undirrituðu skjal þess efnis en skv. lögum FF (11. grein) skal halda slíkan fund tafarlaust ef 10% félagsmanna biðja skriflega um það. Fundurinn var haldinn á sal MH og sendur út á Netinu fyrir þá sem ekki áttu heimangengt. Halda áfram að lesa
Dagskrárliðurinn: „Formannskosning“!
Það var beinlínis lygilegt að fylgjast með viðbrögðunum við framboði Sigríðar Ingibjargar Ingadóttur til formanns Samfylkingarinnar á landsfundi flokksins sem haldinn var um nýliðna helgi. Valdaklíka innan flokksins missti allt niðrum sig við það að sitjandi formaður fékk mótframboð þannig að dagskrárliðurinn „formannskosning“ á landsfundinum varð lýðræðisleg kosning en ekki einbert uppklapp.
Sigríður Ingibjörg þurfti að sitja undir skítkasti alla helgina fyrir þá óskammfeilni að bjóða sig fram á eigin forsendum en ekki á forsendum hofmóðugra flokkseigenda. Það er aumur stjórnmálaflokkur sem ekki getur kosið í helstu embætti án þess að allt fari á annan endann. Kannski ættu þeir sem framboð Sigríðar vakti af dvalanum að horfa í eigin barm í leit að skýringum á fylgishruni flokksins? Í ljósi almennrar þróunar fylgis stjórnmálaflokkanna í skoðanakönnunum undanfarið er morgunljóst að „gamla settið“, jafnt í Samfylkingunni og öðrum flokkum, þekkir ekki sinn vitjunartíma.
Sigríður Ingibjörg bendir á það í yfirlýsingu í morgun að áhrifa framboðs hennar „gætti þegar daginn eftir, þegar nýtt fólk hafi verið valið til ábyrgðarstarfa innan flokksins, margt af því ungt hugsjónafólk með skýrar áherslur og með samþykktum landsfundar á róttækum ályktunum um lífskjör, umhverfisvernd, mannréttindi og frjálslyndi“.
„Landsfundur Samfylkingarinnar varð allt í senn, snarpur, kröftugur og róttækur. Sú heift sem birst hefur vegna framboðs míns er í algjörri andstöðu við þann kraft sem kom fram á landsfundi. Ég kýs að túlka það sem svo að ásakanir áhrifafólks í Samfylkingunni vegna lýðræðislegs framboðs míns hafi verið settar fram í hita leiksins“ , segir Sigríður jafnframt.
Hvað sem segja má um kraft og róttækni ályktana landsfundar Samfylkingarinnar, er ljóst að fólk sem ekki þolir framboð og kosningar til embætta sem „kjósa“ á í, það ætti að finna sér einhvern annan vettvang en stjórnmál til að vasast í. Um það vitnar skýrast staða stjórnmálaflokkanna í skoðanakönnunum.
Vikan
Út er sofinn, orku með
sem eykur blundur fagur.
Ekkert meira gleður geð
en góður mánudagur.
Sýni bæði djörfung, dug,
svo dívan nýta megi.
Fátt eitt meira herðir hug
en hvíld á þriðjudegi.
Ég kúri, en seilist til kökunnar
í kyrrð, milli svefnsins og vökunnar.
Hve mildur og fagur
er miðvikudagur
um sláttinn, ef nýttur til slökunar.
Fluggreind tík og friðsamleg
til fyrirmyndar oft
svo fimmtudegi fagna ég
með fætur upp í loft.
Við grundun boðorðs guð oft sat,
sem gott er fram að draga:
„Eigðu náðugt eftir mat
alla föstudaga“.
Ávallt skaltu leita lags
að losna flest við störfin.
Besta lofgjörð laugardags
er lítil vinnuþörfin.
Víst má í því fróun fá,
og finna eflast haginn,
að liggja sínu liði á
langan sunnudaginn.