Vigdís ársgömul – Kveðja frá afa

Liðið núna eitt er ár,
ævin varla hafin.
Bæði gefið bros og tár,
blíðu og kærleik vafin.
Lýsa upp heiminn ljósar brár,
ei lítið montinn afinn.

Vinna munt þú marga dáð,
málin stöðugt ræðir.
Yndi hefur um þig stráð,
ömmuhjörtun bræðir.
Um fingur þér, sem fínan þráð,
foreldrana þræðir.

Óskrifað er æviblað,
enn þarf vernda haginn
svo dembir þér ekki á dýpsta vað,
af dæmum lærist aginn.
Vigdís, þú töltir tign af stað!
Til hamingju með daginn!

Er ekkert að gera í fangelsum?

Heilmikil umfjöllun hefur verið í fjölmiðlum undanfarið um stöðu mála í fangelsum landsins. Þetta er allt frá vönduðum úttektum, viðtölum við fanga, starfsfólk fangelsanna og forstöðumenn, yfir í lítt rökstudda sleggjudóma, eins og gengur og gerist. Fagna ber áhuga á málefnum fanga, aukinni umræðu um aðstæður þeirra og leiðir til úrbóta.

Halda áfram að lesa

Menntun fanga

Líklega er óhætt að slá fram þeirri alhæfingu að nám í fangelsum gegni lykilhlutverki í endurhæfingu fanga og möguleikum þeirra á að feta sig aftur inn í samfélagið. „Nám er besta betrunin“ er frasi sem oft er gripið til á tyllidögum – og margir hafa líka fyrir satt hversdagslega. Í skýrslu nefndar frá 2008, á vegum Fjölbrautaskóla Suðurlands og dóms- og menntamálaráðuneyta, um stefnumótun í menntunarmálum fanga, var þetta ein meginniðurstaðan. Og líklega eru flestir í okkar samfélagi sammála því að mikilvægast sé að í fangelsum fái einstaklingar tækifæri til að bæta sig en séu þar ekki eingöngu til að taka út refsingu.

Halda áfram að lesa

„Farðu nú varlega, ástin mín“

Þegar börnin okkar fara akandi eitthvert, t.d. hér á milli Selfoss og Reykjavíkur, segjum við gjarnan: „Farðu svo varlega“. Það er eins og mig minni líka að við höfum varað þau við að fara upp í bíla með ókunnugum, þegar þau voru lítil. Og þegar elsta barnabarnið, stórglæsileg 17 ára kjarnakona, kom sl. sumar í fyrsta skipti akandi austur yfir Fjall í  heimsókn til ömmu og afa á Selfossi, nýkomin með bílpróf og með fullan bíl af jafnaldra vinkonum, sagði ég, miðaldra, hvítur karl, ábyggilega við hana áður en hún renndi úr hlaði: „Farðu nú varlega, ástin mín“.

Ég leyfi mér að fullyrða að þessi varúðarorð – og mörg, mörg, ótalmörg fleiri af sama toga í gegnum tíðina, voru ekki sögð í þeim tilgangi að „færa ábyrgðina frá gerandanum yfir á þolandann“, ef svo skelfilega myndi henda að eitthvað hörmulegt kæmi fyrir. Það er því miður ekki öllum treystandi í umferðinni – ekki heldur öllum þeim sem bjóða blessuðum börnunum far heim úr skólanum, nú eða ævarandi vináttu og ást. Við þetta verðum við manneskjur að búa og því ágæt almenn grundvallarregla „að fara varlega“.

Undanfarið hefur allt verið á hvolfi á miðlum yfir gráhærðum, hvítum geðlækni á efri árum sem vogaði sér að segja við konur að þær ættu að fara varlega í að treysta hverjum sem er fyrir nektar- og klámmyndum af sér, því súrnað geti í samböndum og myndirnar endað á Internetinu. Sem þær því miður stundum gera. Geðlæknir þessi skíðlogar nú á vandlætingarbáli fyrir að færa ábyrgðina á slíkum myndbirtingarglæpum frá gerandanum yfir á þolandann og gott ef ekki líka fyrir að rífa niður traust, sem sé eitt það mikilvægasta í mannlegum samskiptum.

Nú veit ég ekki hvenær eðlilegt er að treysta annarri manneskju fyrir nektar- og kynlífsmyndum af sjálfum sér. En almennt séð hljóta að vera á því einhver takmörk, varla t.d. á fyrsta stefnumóti eða öðru. Hvað fólk gerir í svefnherberginu er einkamál þess og ef einhverjir telja kvikmyndun nauðsynlegan þátt í eðlilegu sambandi elskenda, krydd í kynlífið o.s.frv., þá er engra annarra að dæma eða hafa skoðun á því.

Og þó traust sé óumdeilanlega grundvöllur að góðu sambandi, þá er ekki öllum treystandi. Kannski engum algerlega, ef út í það er farið, því haft er fyrir satt að engin manneskja sé fullkomin. Konur (og karlar) hafa fengið að kenna á þessu. Þær hafa verið beittar margskonar ofbeldi í samböndum síðan sögur hófust, jafnvel eftir langvarandi, „gegnheilt og traust“ samband.

Ofbeldi er aldrei réttlætanlegt og ábyrgðin á því verður ekki frá gerendum tekin – ekki einu sinni með því að biðja fólk að fara varlega.

Gengisfall

Það eru ekki bara bankarnir okkar sem rændir voru innan frá. Smá saman er verið að hola innan móðurmálið með einhæfni og merkingarlausum frösum. Þessu verður ekki betur lýst en með því að vitna í Andra Snæ Magnason, en í smásögunni Sofðu ást mín segir hann svo:

„Peningafölsurum er hent í steininn vegna þess að þeir offramleiða peninga sem eyðileggja hagkerfið þegar gjaldmiðillinn tapar gildi sínu. En hver á að spyrna við fótum þegar gengi dýrustu orða tungunnar lækkar? Setningar eins og  „ég elska þig“ þokast sífellt nær frösum eins og „I love you“ sem hafa fyrir löngu tapað allri merkingu. „I love you“ merkir ekki mikið meira en „mér líkar alveg sæmilega við þig“ eða jafnvel „bless“ og oft „ekki neitt“. Í hvert skipti sem maður elskar að borða ís, eða maður elskar Toyotur og pizzur, þá fellur gengið og menn þurfa sífellt fleiri og stærri lýsingarorð til að tjá hug sinn. Unglingar sóa orðinu á fyrsta stefnumóti og menn prenta það á boli og loks endar það sem klisja sem er ekki eyðandi á nokkurn mann. En hvernig á maður að orða sínar dýpstu tilfinningar þegar orðið sjáflt verður merkingarlaust? Ef það er búið að slíta það úr sambandi við hjartað og tengja það í staðinn við plasthjörtu og súkkulaði. […]

Hvað gerum við ef „ég elska þig“ verður jafn lítils virði og ágætt eða sæmilegt „I love you“? Þá hefur hjartað ekkert til að nota nema úrelta mynt. […]

Amma hefur aldrei sagt þetta orð svo ég viti. Samt veit ég að það býr í henni, hún geymir það eins og gimstein, orðið skín úr augum hennar.“

Sögnin „að elska“ er smám saman að missa gildi sitt í tungumálinu og það sama á við um fjöldamörg önnur innihaldsrík og lýsandi orð. Í hvert sinn sem fólk t.d. „gerir“ listaverk (ljóð, leikrit, málverk o.s.frv) forsmáir það sagnir eins og að yrkja, semja, mála – og fletur út málið.

Og í hvert skipti sem þjóðin velur til forystu spillta aflandsprinsa og svindlara gengisfellir hún falleg og nauðsynleg orð eins og „siðferði“ og „heiðarleiki“ og holar innan allan merkingargrunninn svo hann hrynur.

Á hverju eiga næstu kynslóðir að byggja siðferðisgrunn sinn ef orðin sjálf verða merkingarlaus? Ef búið er að slíta þau frá rótum með því að tengja þau við hvern sem er, hampa og lyfta í hæstu hæðir mönnum sem láta eins og það sé bara allt í lagi að vera siðlaus svindlari?

 

Við áramót 2016-2017

„Nú árið er liðið í aldanna skaut“
og aldrei það komi til baka
með Icehot, sem Borgun til skyldmenna skaut,
í skjólin þeir auðmagni raka,
og forsætisráðherrann flagsækið naut,
fnæsandi, siðspillt og gaga,
vort Alþingi, hæstvirt, er lægst núna laut,
samt ljóst að af miklu’ er að taka,
því lífeyrisfrumvarp á launþegum braut
sem lítt höfðu unnið til saka.

 

Nýtt ár er í vændum, og útlitið svart,
því afturhaldsstjórn er í pípum
sem gefa mun almenningseigurnar skart
til útvaldra’, í passlegum klípum,
og auðmönnum hleypa á fljúgandi fart,
þessum forhertu, siðlausu týpum,
en sjúklingur! fljóta til feigðar þú þarft
í fenjum með botnlausum dýpum.
Ég játa, mér finnst þetta helvíti hart.
Til heilbrigðra meðala grípum!

 

Jólakveðja 2016

Stríðs í heimi hrjáðum,
hungursneyðar, leiðum,
er fjöldi enn, sem um aldir,
óttasleginn á flótta.
Eins og Jósef Jesúm
úr jötu tók, um götur
hrakinn, úr landi sem hundur,
svo hlífa mætti lífi.

Þennan mæta manninn
myrtu valdsmenn kaldir
sem þelið ekki þoldu
þýða, og hylli lýðsins.
Nú á tímum „nýjum“
neglum á krossa, steglum,
þá sem valdi velgja
vel undir uggum, við stugga.

Augum lítum ætíð
Assange þannig og Manning.
Af lífi, og sögulegu,
lærum, vinir kærir.
Aðeins andófslundin
oki lyftir. Tyftir
illan bifur. Hjá öllum
til árs og friðar miði.

Hérna blessuð börnin
brosa sem sól um jólin.
Annars staðar þau stuðar
stríð með sprengjuhríðum.
Selja vesturveldi
vopnin. Huga opnum!
Innum oss að þessu:
Eru þau mannverur?

 

Hernaðurinn gegn kennarastéttinni

Anna Lára Pálsdóttir fór vel yfir það í pistli á visir.is hvernig veist hefur verið að kennarastéttinni frá því rekstur grunnskólanna var færður yfir til sveitarfélaganna. Nánast allt sem hún tínir til á við um framhaldsskólana líka, en þeir eru á ábyrgð ríkisins eins og flestir munu vita og því sama hvorum megin hryggjar kennarstéttin liggur hvað yfirstjórn varðar. Halda áfram að lesa

Þjóðarmeinin

ÉG HJÓ eftir því í útvarpsfréttunum í gær að haft var eftir Bandaríkjaforseta að Panamaskjölin hefðu flett ofan af miklu þjóðarmeini þar í landi. Hvorki skammaðist ég mín fyrir Bandaríkjaforseta að taka svo til orða, varð orðlaus né datt mér í hug að tala alvarleika málsins niður við eldhúsborðið mitt með því að fleiri ættu nú sitthvað á samviskunni en þeir sem nú eru í sviðsljósinu vegna skúffufélaga í skattaskjólum.

Í Stundinni birtist leiðari þar sem dregið var saman í hnotskurn hvers vegna rétt er að tala um þjóðarmein í þessu samhengi á Íslandi, rétt eins og í Bandaríkjunum og öðrum ríkjum veraldar. Ritstjórinn benti á…

…að „moldríkur minnihluti nýtti sér aðstöðumun sinn til að fá skuldbindingalaus lán, kaupa upp landið, auðlindirnar og fyrirtækin, taka yfir fjölmiðlana og umræðuna, lækka skattgreiðslur, fela slóðina og þegar allt um þraut fá lán sín afskrifuð“…

…að þessi sami minnihlutahópur er áhrifamikill í stjórnmálum, viðskiptum og fjölmiðlum hér á landi…

…að „Panama-skjölin leiddu í ljós að stór hluti efsta lags samfélagsins sótti í að losna við að borga skatta á Íslandi og ná fram leynd um viðskipti sín með því að stofna skúffufélög í frumskógarlöndum“ og hefur því sameiginlega hagsmuni með fyrrnefndum minnihlutahópi…

…að þjóðmálaumræðan á næstu mánuðum muni snúast um að vara við breytingum og að fullvissa íslenskan almenning um að honum stafi ógn af því að einhverjir aðrir en þeir sem stjórna núna taki ákvarðanir um hagsmuni hans…

…að þegar ríkjandi valdhafar hafi verið þátttakendur í því sem fór afvega muni þeir berjast við að réttlæta hið skaðlega…

…að formenn beggja ríkisstjórnarflokkanna og fjölskyldur þeirra, og eiginkona forsetans, hafi stundað skattaskjólsviðskipti á laun…

…að sitjandi forsætisráðherra hafi réttlætt það að stjórnmálamenn feldu leynilega hagsmuni sína í skattaskjólum, og með því tekið þátt í að grafa undan almennu siðferði…

…að birting lofgreinar um mikilfengleika fyrrverandi formanns Sjálfstæðisflokksins, forsætisráðherra og seðlabankastjóra, í blaðinu sem hann sjálfur ritstýrir, sé birtingarmynd þeirrar foringjadýrkunar sem alið er á til að réttlæta ríkjandi valdhafa….

Ljóst er að sumum finnst allt þetta sem ritstjóri Stundarinnar tínir til (og ég leyfi mér, líkt og Bandaríkjaforseti, að kalla samandregin í hnotskurn ‘helstu mein samfélagsins’) eðlilegt og sjálfsagt í lýðræðissamfélagi og fyrtast jafnvel við gagnrýninni; afneita ættingjum sínum af skömm, verða orðlausir eða normalisera ástandið með því að fullyrða að aðrir séu engu betri en þeir sem opinberaðir hafa verið – sem er vel að merkja algengasta varnarviðbragðið á samfélagsmiðlum.

Ég leyfi mér þó að fullyrða að slík viðbrögð við eðlilegri gagnrýni eru fyrst og fremst „birtingarmynd þeirrar foringjadýrkunar sem alið er á til að réttlæta ríkjandi valdhafa“. Of margt fólk hefur bundið trúss sitt með óleysanlegum rembihnútum á klakk stjórnmálaflokka og -foringja.

Slíkir attaníossar eru að mínu viti á meðal alvarlegustu meinsemda hvers samfélags – og lýðræðisins.

 

Íslensku hrægammarnir

Nú eru ódæmin komin fram í dagsljósið, með umfjöllun Kastljóss RÚV í gær, og koma svo sem ekki á óvart. Augljós en undirliggjandi meinin skriðin upp á yfirborðið, eins og graftarkýli sem brýst loks fram, þó roði á húð hafi löngu fyrr gefið ótvírætt í skyn hvers væri að vænta.

Siðferði þessa fólks er utan og neðan við þann samfélagsgrundvöll sem aðrir standa á, það skilur ekki líf og kjör þess „almennings“ sem þarf að vinna fyrir sér og hafa fyrir því sem það vill eignast eða áorka í lífinu. En mál forsætisráðherrahjónanna snýr ekki einungis að persónulegu siðrofi þeirra, eða firringu íslenskrar auðstéttar. Á því eru aðrar og alvarlegri hliðar.

Rétttrúnaðarsöfnuðurinn í kringum forsætisráðherrann hefur í heilögu varnarstríði sínu undanfarna daga tekið sér vígstöðu, annars vegar gegn „ómaklegum árásum á eiginkonu stjórnmálamanns“ og hins vegar „rógi og öfund út í fólk sem á peninga“. Ekkert er fjær sanni. Það snýst um að forsætisráðherrann er lygalaupur.

Að vísu má vel halda því til haga að það er bæði ósiðlegt og ljótt að eiga ofgnótt af peningum, því peningar verða ekki til í einhverri sápukúlu. Ef á einum stað er gnótt, þá er skortur annars staðar. Og ef einhvers staðar er ofgnótt þá er nauð annars staðar. Auðlindir jarðar eru nægar til að tryggja öllum mönnum næg gæði til að lifa sómasamlega, alveg burtséð frá hugmyndum um að allir skuli endilega eiga jafn mikið. Það er annar handleggur sem má liggja milli hluta.

En hvaðan kemur þá hinn stjarnfræðilegi auður sem safnast hefur í fang fjölskyldu forsætisráðherrans?

Annars vegar er um að ræða verðmæti í eigu ríkisins sem einstaklingur sölsaði undir sig í krafti flokkspólitískra tengsla og nýtir síðan til að mala gull í eigin þágu. Hins vegar er um að ræða peninga sem dregnir eru upp úr hafinu, úr okkar verðmætustu sameiginlegu auðlind, sem nýtt er til að mala gull í þágu einstaklinga í skjóli spilltra stjórnmálamanna.

Svona er nú farið með sameiginlegar eignir okkar og auðlindir. Þær eru muldar undir einstaklinga, lenda í klóm hinna eiginlegu hrægamma, sem fela þær svo í skattaskjólum til að geta þaðan, í friði fyrir „öfundsjúkum“, margfaldað stjarnfræðilega fjarlægð sína frá veruleika almennings.

Svona er þá farið með auðlindirnar okkar, sem annars gætu auðveldlega staðið undir velferð og ágætum lífsgæðum fyrir alla í samfélaginu.