Það var rétt fyrstu áratugina eftir að goðaveldinu hafði verið komið á fót á Íslandi sem hægt var að tala um einhverskonar valdajafnvægi í landinu. Fljótlega fóru menn að sölsa undir sig goðorð hægri vinstri og smám saman heilu og hálfu landshlutana. Fyrstu áratugina drápu menn hverjir aðra sem sagt í „friði og spekt“ hér á landi, alveg í anda þeirra félagslegu norma sem þá voru í gildi.
En þegar komið var fram á 12. öld, að ekki sé talað um þá 13. – sjálfa Sturlungaöldina – var valdastéttin, höfðingjarnir, farin að drösla fátækum bændum og friðsömum hundruðum saman með sér yfir fjöll og firnindi út í dauða eða örkuml, frá búum sínum og lífsbjörg, til að fyrirkoma með grjótkasti, ryðjárni eða eldi einhverju fólki í öðrum landshlutum, langflestu alsaklausu, í stjórnlausri valdagræðgi sinni. Skipti þá engu hver fyrir varð.
Þetta voru athafnamenn þeirra tíma og sýnist eðli þeirra og innræti lítið hafa breyst – eiginleg mannvíg hafa að vísu lagst af að mestu með „nútímalegri“ siðferðisgildum og félagslegum normum, en óeiginleg aukist að sama skapi.
Eins og öllum er kunnugt leiddi græðgi íslenskra athafnamanna til valdatöku Noregskonungs á Íslandi á síðari hluta 13. aldar, enda kunnu Íslendingar ekki fótum sínum forráð, þeir sáust ekki fyrir og voru ófærir um að búa hjálparlausir í eigin landi. Valdastéttin var þá, eins og nú, algerlega stjórnlaus í græðgi sinni og siðblindu. Er það nokkuð kunnuglegt nútímamönnum?
Næst dregur til tíðinda hér á landi við siðaskiptin um miðja 16. öld. Þá hefur Danakóngur tekið við af þeim norska og sér leik á borði, eins og konungsvaldið víðast um norðan- og vestanverða Evrópu, að efla völd sín með því að yfirtaka eignir og auð kirkjunnar.
Þeirri söguskoðun hefur verið haldið á lofti æ síðan að Danir hafi verið hinir verstu óþokkar, hafi kúgað Íslendinga öldum saman og nánast murkað úr þjóðinni lífið á tímabili. Auðvitað má tilfæra dæmi um skepnuskap einhverra danskra kaupmanna gagnvart „viðskiptavinum“ sínum úr hópi íslenskra alþýðumanna – og engin ástæða til að fegra þá sögu.
Hins vegar vita það líka allir sem vita vilja að umfangsmikilli og skipulegri sögufölsun hefur verið beitt allar götur síðan þegar fjallað er um nýlendutímann. Staðreyndin er sú að a.m.k. tvennt annað hafði afdrifaríkari afleiðingar fyrir örlög íslensku þjóðarinnar en dönsk nýlendukúgun.
Í fyrsta lagi náttúruleg óáran. Á 17. og 18. öld snarkólnaði nefnilega í veðri svo allar aðstæður til þess sjálfsþurftarbúskapar til lands og sjávar sem hér var stundaður versnuðu mjög, urðu næstum óbærilegar. Á sama tíma, í kjölfar hungurs og vosbúðar, riðu yfir farsóttir, t.d. stóra-bóla í upphafi 18. aldar sem lagði heilu sveitirnar í gröfina, aðallega yngra, vinnufært fólk en hlífði frekar örvasa gamalmennum. Ofan á þetta bættust náttúruhamfarir, stórkostlegustu náttúruhamfarir á sögulegum tíma, sem eru Skaftáreldar og meðfylgjandi móðuharðindi. Að öllu þessu yfirgengnu tírði varla nokkur logi á örmjóu og veikburða þjóðarskarinu – og minnstu mátti muna að tíran slokknaði fyrir fullt og fast.
Í öðru lagi reyndist íslenska valdastéttin landslýð mun skeinuhættari en danskir yfirboðarar. Heimilislausum örvæntingarlýð var fyrir litlar eða engar sakir smalað, eins og sauðfé til slátrunar, ýmist til brennslu, drekkingar, hýðingar, afhausunar eða um borð í haustskip á Brimarhólm – hvaðan enginn sem inn fór kom út aftur öðruvísi en í láréttri stöðu. Svívirðileg og grimmúðleg meðferð þessarar fámennu íslensku valdaklíku á sárafátækum og bjargarlausum löndum sínum hefur markvisst verið þögguð í gegnum aldirnar – en Dönum kennt um allt saman.
Í stuttu máli hefur ekkert breyst á Íslandi síðan. Tiltölulega fámenn valdaklíka ræður enn og gín hér yfir öllu, og eftir að hafa tryggt einkaafnot sín af helstu auðlindum og gæðum landsins með aðstoð stjórnmálaflokka og valdamikilla stjórnmálamanna sem hún hefur á sínum snærum, virðist henni líka ætla að takast að koma í veg fyrir það með yfirgangi og fjölmiðlaofbeldi að réttkjörin stjórnvöld þori að gera alvöru úr þeim loforðum sínum, sem þau voru kosin út á, að tryggja þjóðinni, eigendum ríkissjóðs, yfirráð og arðinn af eigin auðlindum sem ætti með réttu að leggja grunninn að því velferðarsamfélagi sem við flest viljum búa í.
Íslensku valdaklíkunni hefur tekist að senda lungann úr eigin þjóð, með haustskipi árið 2008, á fjárhagslegan Brimarhólm, í ævilangt skuldafangelsi, og eru helst áhöld um það hvort einhverjum tekst að bjarga börnum sínum og afkomendum frá því að taka við byrðunum þegar þrælavistinni hérna megin grafar lýkur. „Vont er þeirra ranglæti, verra er þeirra réttlæti“.
Það kemur engum á óvart að fulltrúar valdaklíkunnar skuli berjast fyrir eigin völdum, og beita til þess öllum meðulum. En það er sorglegt að enn skuli finnast fólk – jafnvel ungt, menntað fólk – sem finnst sér það skyldast að taka upp hanskann fyrir þennan ömurlega málstað, heldur jafnvel bláeygt að með því sé það að verja „frelsi einstaklingsins“, eins mikil öfugmæli og það nú eru. Frelsi einstaklingsins er að finna einhvers staðar allt annars staðar en í stjórnmálaflokkum sem eru fyrst og fremst hagsmunasamtök íslenskrar valdaklíku. Það væri t.d. miklu nær að leita að því í eigin huga.
Og enn sorglegra er að þeir sem sjálfir telja sig jafnaðarmenn skuli ætla að láta kúga sig til að gefast upp á verkefni sínu, að skapa hér réttlátara samfélag, og hreyfa hvorki legg né lið til að aflétta drápsklyfjunum af fólki.
Að ekki sé talað um þá sem engin leið er að hafa neitt samstarf við, en þykjast standa lengst til vinstri í stjórnmálum, og uppblásnir af gamalli, misskilinni hugsjónabaráttu syngja Internationalinn, „Alþjóðasöng verkalýðsins“, sem mun, samkvæmt textanum, „tengja strönd við strönd“. Ekkert er fjær þessum íslensku vinstrimönnum, þó þeir syngi það fullum hálsi á tyllidögum, en að tengja strönd við strönd. Þeir munu halda áfram að „sá í akur óvinar síns“ um ókomna tíð, þar til gamla valdaklíkan er aftur komin á „sinn stað“, og una svo til eilífðar undir hennar kúgun, í fullkominni einangrun frá öðrum ströndum.
„Guð blessi Ísland“.