Eftir að hafa lesið síðustu færslu hér á síðunni (Ljóð á vegg) urðu einhverjir forvitnir (reyndar bara tveir 😉 ) og spurðu um ljóð sem ég orti á fimmtugsafmæli Menntaskólans að Laugarvatni, hvort það væri aðgengilegt einhvers staðar á Netinu, sem það er ekki. Ég bæti bara úr því hér og nú:
Manngildi, þekking, atorka
Menntaskólinn að Laugarvatni fimmtugur
Tileinkað minningu Bjarna Bjarnasonar, skólastjóra.
Vorið hlær í vatnsins bláa fleti,
viðrar sig um nakið kjarr og grundir.
Um miðjan daginn blærinn leggst í leti,
lóan syngur, þrestir taka undir.
Hæst á fögru sviði, manngerð merki,
myndug tákn um heitar andans glóðir.
Þær hugsjónir sem voru hér að verki
varða mörgum leið á nýjar slóðir.
Alla tíð er þarft að skilja það
að þekking aðeins gilt er stefnumið
ef með í för er metnaður og natni.
Metum það sem hver fær áorkað.
Af vinarþeli mælt er manngildið
í Menntaskólanum að Laugarvatni.