Maður og hestur

Strengur veðrar vanga,
vítisélin bíta,
kæfa vill mig kófið
hvíta, fyllir vitin.
Vel þó gengur, viljug
vindinn klýfur, yndið.
Megnar hreti móti
merin heim mig bera.

 

Í lofti ilmur, aftur

ess og maður hressast,

grey í varpa glóir,

gleymd er vetrareymdin.

Við fótum glymur gata,

grófu skyrpt úr hófum,

ganga vel og viljug

á vorin, létt í spori.

 

Enn við taka annir,

við undirbúning fundar

ferðahesta og firða

því fjalladýrðin kallar.

Riðið hægt úr hlaði,

í hvammi æjum, gammur!

Kapp er kastar toppi,

kveðjum teitir sveitir.

 

Jörðu stikla, jökla

jóar, milli og flóa,

klungur, víðan vanginn

sig vökuleygir teygja

og æðrulausir ása

yfrið bratta klifra.

Snerta hestar hjarta,

heila sálarveilu.

 

Að ferðalokum frækinn

færleik hvíld skal næra.

Gæði sér á góðum

grösum, skjól af hólum,

leiki sér við lækinn,

lýsi eldi af feldi.

Þá haustar, herðir frostið,

að hagaljóma er sómi.

 

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *