Í dag var brautskráður frá Fjölbrautaskóla Suðurlands dágóður hópur af efnilegum ungmennum, af ýmsum brautum. Þetta er alltaf jafn gleðileg og hátíðleg athöfn, þarna taka á móti prófskírteinum sínum krakkar sem við kennarar höfum haft, mislengi auðvitað, undir handleiðslu okkar. Til hamingju með áfangann „klárar“ góðir.
En brautskráningardagurinn hafði einnig sérstaka þýðingu fyrir mig. Á áberandi stað framan við hátíðarsal skólans er nú búið að skrúfa upp á vegg plötu með áletruðu ljóði sem ég samdi í tilefni af þrjátíu ára afmæli hans þann 13. september 2011.
Ég er óneitanlega töluvert stoltur af því að eiga nú uppihangandi ljóð í báðum „skólunum mínum“, Menntaskólanum að Laugarvatni þar sem ég lauk stúdentsprófi árið 1980 og Fjölbrautaskóla Suðurlands, þar sem ég hef kennt síðan haustið 1993.
Í ML hangir á virðingarstað ljóð sem ég orti á 50 ára afmæli skólans, sonnettan Manngildi, þekking, atorka, óður til þessarar menntastofnunar tileinkaður minningu afa míns, Bjarna Bjarnasonar skólastjóra á Laugarvatni, upphafs- og aðalbaráttumanni fyrir stofnun hennar á sinni tíð. Í FSu er Fjallganga, þrítugsafmæliskveðja, eins og sjá má á meðfylgjandi mynd sem Maggi Tryggva var svo vinsamlegur að taka fyrir mig. Ljóðið er svo:
Fjallganga
Fjölbrautaskóli Suðurlands 30 ára 13. september 2011
Hér yfir vakir Ingólfsfjall
með urðarskriður, hamrastall
og lyng og tæra lind.
Á efstu brúnum orðlaus finn,
að á ég hafið, jökulinn
og háan Heklutind.
Við hraunið sveigir Ölfusá
með iðuköstum, flóðavá
og góða laxagengd.
Þó brúin tákni mannsins mátt
þá mótar áin stórt og smátt,
vort líf í bráð og lengd.
Get Suðurfjórðung faðmað hér,
á flug með hröfnum kominn er,
ef tylli mér á tær,
um sögufrægar sýslur þrjár
með sanda, hveri, jökulár
og byggðarbólin kær.
Nú grípur augað glæsihöll,
við gula litinn þekkjum öll,
þar fjöldinn allur fær
að þroska bæði hug og hönd
og hnýta lífsins vinabönd,
þar héraðshjartað slær.