Limrur úr dagbókinni

Limran er skemmtilegur bragarháttur, ættaður af Írlandi að því er talið er, frá bænum Limerick. Jóhann S. Hannesson, fyrrum skólameistari ML, tók hana upp á arma sína, orti og gaf út margar úrvals limrur. Nýverið komu út Gervilimrur Gísla Rúnars heitins, mikið  og skemmtilegt safn, og margir fleiri hafa svo sem gefið út limrusöfn.

Limran er 5 braglínur með endarími (AABBA/AAbbA), fyrsta, önnur og fimmta lína eru eins, þrír bragliðir, og þær ríma. Þriðja og fjórða lína brjóta upp hrynjandina, eru tveir bragliðir og þær ríma saman. Allur gangur er á ljóðstafasetningu í limrum og nokkurt frjálsræði ríkjandi. Íslendingar eru þó margir hverjir afar fastir í hefðbundinni stuðlasetningu og yfirfæra hana á limruna, gjarnan þannig að fyrstu tvær línurnar stuðla hefðbundið, næstu tvær stuðla saman, ýmist 2+1 eða 1+1 og síðasta línan sér um stuðla.

Meðfylgjandi eru limrur úr dagbókinni minni:

24.01.09

Ort skv. pöntun til Gussa á Melum í fimmtugsafmæli:

Í heyskapnum Hreppasauðum

hjálpar, og fleirum í nauðum.

Hans tungu vel mælist.

Hún fyrir samt þvælist

ef þefar af „karlakórsrauðum“.

 

Dæmalaus dugnaðarjálkur

drífur af stað letiálkur.

Friðsemdarmaður,

fyndinn og glaður,

en bölvaður hrakfallabálkur.

 

21.02.09

Á kórasamkomu á Flúðum var efnt til vísnaskemmtunar. Eitt yrkisefnið var: „Hvað er í Kerlingarfjöllum?“

Er kleif eitt sinn Kerlingarfjöll

kvensniftar- hitti þar –tröll

sem óðar sig tjáði

að heitast hún þráði

skagfirska sveiflu og böll.

 

22.02.09

Fía á Sandi kvartaði á Leir yfir því að aðeins tveir væru þar virkir þennan daginn og efaðist um að hausinn væri virkur á hinum. Svaraði henni svona:

Skeytið kom við kaunin.

Hvort mun virka baunin?

Mætti vinna

tefja minna.

Mörg er búmanns raunin.

 

22.04.09

Á hagyrðingakvöldi var eftirfarandi yrkisefni: Eva Jolly, sem líka er norsk að hluta til, ætlar að elta uppi peningana sem hurfu í bankahruninu? Hvernig heldur þú að það gangi?

Ef verkið skal vandað hjá Jolly

vinnu þarf setja mörg holl í.

Það skammt mun þó duga,

svo höfum í huga

klónun, og kindina Molly.

 

26.04.09

Jóhanna og Steingrímur hafa ekki verið alveg sammála um danssporin og því stigið á tærnar hvort á öðru.

Jóhanna við Steingrím:

Í samkvæmum alltaf, ég veit vel

að vangadans kýstu, en samt tel

að efli vort þor

ef lærum í vor

öll nýstjustu sporin frá Brussel.

 

Steingrímur við Jóhönnu.

Heyrðu, þú virðist í vímu!

Varpaðu Evrópugrímu.

Ég stend mína vakt.

Já, stígum í takt

hina þjóðlegu íslensku glímu.

 

06.06.09

Hið svokallaða hrun:

Frjálshyggjukrumlan er köld,

kyrkir nú borgara fjöld.

Allt er í hengslum

af krosseignatengslum

Guðsorðið: gróði og völd.

 

Ríkisstjórn og Seðlabankastjórn hrekjast burt og breytingar í stjórnmálunum:

Alþingi fengum í arf

þar íslenskir lúðar fá starf.

Nú íhaldið hrundi

og Guðjón, hann stundi

því Frjálslyndiflokkurinn hvarf.

 

21.06.09

Trailer með gálga fékk Gven-

dur. Glaður í Hvalfjörðinn renn-

di. Spikið af Báru

burtu þar skáru

hvatvísir hvalskurðarmenn.

 

10.02.10

Limran er ljómandi háttur,

léttur og taktfastur sláttur.

Það er þó best

þegar að sést

tungunnar tvíræði máttur.

 

01.03.10

Endatafl:

Tefldu við sólarlag saman,
Siggi og nýjasta daman.
Í endataflsæði
æptu þau bæði,
af æsingi eldrauð í framan.

 

12.03.10

Vernharður vísurnar stagaði
í vinnu, ef þannig til hagaði.
En hugsunin fraus
er höndin varð laus!
Viðutan sjálfan sig sagaði.

 

03.05.10

Seðlabankastjórinn átti yfir höfði sér tillögu frá formanni bankastjórnar um launahækkun upp á 400 þúsund!! Samkvæmt Mogga. Már var í Kastljósinu:

Þreyttur, svangur og sár
í Seðlabankanum, Már
sér starir í gaupnir
og strákarnir hlaupnir!
Til Íslands var ferð ei til fjár.

 

12.06.10

Gosið í Eyjafjallajökli. Töskutuddanna bíður ærinn starfi:

Undir Fjöllum er ósköp af ösku
sem utanlands selst víst á flösku.
Í lág er nú gosið
en langt þó í brosið.
Glotta þó tuddarnir tösku.

 

25.06.10.

Ólafur Áki Ragnarsson rekinn úr Sjálfstæðisflokknum degi fyrir landsfund:

Svo flokkinn ei beygli né bráki
eða boðorðum klíkunnar skáki,
Jónmundur sagði
í símann að bragði:
„Burt með þig, Ólafur Áki“!

 

09.08.10

Hitti Magnús Ólafsson frá Sveinsstöðum uppi á Auðkúluheiði. Báðir vorum við ríðandi með hóp af fólki:

Á ferð um húnvetnska heiði
-hrossið á tölti og skeiði-
ég Sveinsstaða-Manga
mildan á vanga

hitti. Þar vel bar í veiði.

 

02.10.10

Kyrrð er í heiðinnar heimi

undir heillandi norðljósageimi.

Þar lækurinn rennur

og lyngið –það brennur!

Við tætturnar svipir á sveimi.

 

Gerast nú góðviðrin klén,

gusturinn rífur í trén

gisin og hokin

-gullin öll fokin-

samt öspin fær alltaf í hnén!

 

Ort var um Hörpu, miður skarpa og heilalausa. Sneri því upp á nýbyggingu:

Fögur við höfnina Harpa,
heimili menningargarpa
með skuldirnar hreinar.
En skapandi greinar
munu okinu af henni varpa!

 

16.06.11

Prófessor Eiríkur Rögnvaldsson fann engin málfræðileg rök gegn orðalaginu „að fara erlendis“. Dæmi um það væri að finna allt frá 18. og 19. öld. Hann grínaðist svo með reiðareksstefnu sína. Mér komu í hug fleiri dæmi um vandræðagang við notkun móðurmálsins:

Hún veifað’ í hurðinni, hress

er hélt ég nú erlendis – Bless!

Það var sagt mér í gær

að vandinn sé ær.

Sér nú til Selfossar – Jess!

 

23.07.11

Var að koma heim af Kili. Undir Áfangafelli var stemmningin einhvernveginn svona:

Dillandi góðhross og dásemdartíð,

dýrðlegur söngur í móa og hlíð.

Í Áfanga kem

og algleymið nem.

Skínandi glaður í pokann ég skríð.

 

09.02.12

Lilja Mós. kynnti Samstöðu, nýja flokkinn sinn, og Sigga storm sem sína hægri hönd!

VG, með Steingrím í stafni,

stóð bara ekki’ undir nafni.

Þó samherja lasti

í samviskukasti,

það er lofsvert – svo Lilja ei kafni.

 

Þeir ofríkis ráðamenn bogni!

– það rýkur víst sjaldan í logni –

Stormurinn hrífur

og samstaðan blífur

þó samviskan teygist og togni.

 

2.12.12

Spenntur ég stekk upp úr stólnum!

Það er stórsýning úti á hólnum!

Á sviðið er díva,

hún Hundslappa-Drífa,

komin í mjallhvíta kjólnum.

 

20.12.12

Pétur Blöndal kom í Sunnlenska bókakaffið að lesa upp úr Limrubók sinni. Kvöldið áður hafði Kilju-Egill Helgason heimsótt hann heim til sín á Seltjarnarnes. Kvaddi Pétur í bókakaffinu með limru:

Pétur hann les og hann les,

limrurnar víst eru spes.

Hér stendur ‘ann hátt.

Stefnir þó lágt,

já, suður á Seltjarnarnes.

 

23.12.12

Jólakveðjan í ár:

Er skuggarnir skríða’ uppá hól

í skammdegi, norður við pól,

á ljósið má benda,

og með logunum senda

gæfu og gleðileg jól.

 

Enn sækja að freistingafól

með falsið og innantómt gól.

En lausnin er kær:

Líttu þér nær

um gæfu og gleðileg jól.

 

Hve Siggi er sætur í kjól!

Já, og Solla með tæki og tól!

Ef mót strauminum syndið

veitir umburðarlyndið

gæfu og gleðileg jól.

 

Í fjölskyldufaðmi er skjól.

Hann er friðar- og kærleikans ból.

Þar ávallt þú veist

að geturðu treyst

á gæfu og gleðileg jól.

 

23.01.13

Við bekkjarbræðurnir úr B-bekknum í KHÍ vorum að undirbúa 30 ára útskriftarafmæli í vor. Vangaveltur um matseðil voru þar á meðal, hvort ætti að velja fyrir allan hópinn og þá hvernig:

Svona mætti orða könnunina:

Hvað viltu dýrðlegt á disk?

Dugar ei lengur neitt gisk,

sút eða hik.

Settu þitt prik

við annaðhvort önd eða fisk.

 

25.06.13

Sigmundur Davíð var í heimsókn hjá danska forsætisráðherranum, og hafði það helst til frásagnar af fundinum að sú danska kynni ágæta dönsku!

Sigmundur Davíð, þeirri dönsku
drýldinn í íslenskan bröns ku
boðið nú hafa.
En bindin samt lafa
við þjóðrembukúrinn úr frönsku
(mmm!)

 

10.07.13

Miðvikudagur:

Ég kúri, en seilist til kökunnar

í kyrrð, milli svefnisins og vökunnar.

Hve mildur og fagur

er miðvikudagur

um sláttinn, ef nýttur til slökunar.

 

4.09.13

Ort í kjölfar eilífrar umræðu, m.a. þingmanna, um óþurft listamanna og listsköpunar:

Djöfull er djöfullinn góður!
Hann dansar í kringum oss, óður!
Og menningarlífi,
sem guð oss frá hlífi,
laumar í frummannsins fóður.

 

30.09.13

Prófessor Eiríkur Rögnvaldsson vakti athygli á því að „svá er“ rímar við „Wow air“:

Nútíminn rafknúið ráf er
en í rauntíma Framsókn í kláf er
á leið yfir álinn
með áherslumálin.
Við sjónbaug hvarf vélin frá Wow-air.

 

Ort út frá ljósmyndum teknum í Rómarferð Karlakórs Hreppamanna í okt. 2013:

Bílstjórar lævísir lómar

svo léttgeggjað kaosið ómar.

Hér færa þarf fórn!

Fín umferðarstjórn

hjá Edit, í öngstrætum Rómar!

 

Flekklaus hér múgurinn fetar,

jafnt Frakkar sem Rússar og Bretar.

Í annála set

að Elísabet

um páfagarð gekk með hann Grétar.

 

10.09.14

Í blöðunum var vitnað í fjárlagafrumvarpið, þar sem útgjöld til háskólanna voru sögð samkvæmt stefnumörkun ríkisstjórnarinnar:

Háleita markmiðið hækkar

ef háskólanemunum fækkar.

Best að múgurinn gorti

af menntunarskorti,

þá stuðningshópurinn stækkar.

 

18.09.14

Prestur í Selfosskirkju var kærður fyrir að sýndar voru kynfæramyndir í fermingarfræðslu. Hneikslunarvert hvað dregið er í fermingarfræðslunni inn í kirkjur landsins!!:

Séra minn! Sjáðu nú hér
syndugan unglingaher
með limi og píkur
við altarisbríkur!
Nánast við nefið á þér!

 

Þegar byrjað er á limrum, þá er stundum eins og skrúfað sé frá krana:

Um hádegi Vigga var vakin
til vinnu, því þurrkur var rakinn
Undir dalanna sól
fór úr sokkum og kjól
að snúa á Nallanum, nakin.

 

Kalla má Sigmundarsið

sannleik að velta á hlið.

Sá ég spóa

Suð’r í flóa

en það kemur því ekki við.

 

19.06.20

Margir fá gríðarlegt geðrið,

á gleðinni verður ei séð ryð.

Í sálinni pússað

allt silfrið, og stússað.

Því veldur að blessað er veðrið.

Glansinn fór alveg af Gunna

er ‘ann girti sig nið’rum í runna

og í nauðum þar skeit

en niður svo leit,

á unga, með uppglennta munna.

 

08.10.14

Til hamingju herramenn! Skál!

Hitnar senn nautnanna bál!

Eftir engu að bíða!

Dettum nú í’ða’!

(sko, meðferð er allt annað mál).

 

10.10.14

Ennþá ég Magnhildi man!

Í mörgu var of eða van

og í megrunarkasti

á trailer, í hasti,

var keyrð út á hvalskurðarplan!

 

13.10.14

Ekki’ er öll vitleysan eins!

Annað með liðið hans Sveins.

Af leiðindaböggi

það liggur við höggi

flatt, milli sleggju og steins.

 

15.10.14

Sjálfstæðismenn eru farnir að tala af auknum þunga enn á ný um einkavæðingu og ofkostnað við allt sem heitir „eftirlit“ í þjóðfélaginu:

Upptrekkti ránfuglinn ræstur,

rómurinn holur og æstur:

„Algeran skilnað

við eftirlitsiðnað

því hver er sjálfum sér næstur“.

 

06.10.14

Evrópumeistaramót í hópfimleikum var haldið í Laugardalshöll. Bein lýsing var í sjónvarpinu:

Fimleikadrottningar dansa,

dýfa sér, hoppa og glansa.

Útsending fín,

Einar og Hlín,

en ég sárlega saknaði Hansa.

 

23.10.14

Hestamenn deila hart um staðsetningu landsmóta, og þing LH leysist upp þegar formaður og stjórn segja af sér í kjölfar samþykktar tillögu sem gengur þvert gegn fyrirætlunum stjórnarinnar:

LH er gallalaus gripur,

ganglagin hryssa og pipur.

Á mótum nýr blær!

Hún bítur og slær!

Syndin er lævís og lipur.

 

Lögreglan tekur við hríðskotabyssum frá norska hernum, Alþingi veit ekkert af málinu fyrr en blöðin birta frétt. Deilt er um tilgang og afleiðingar vopnvæðingar löggunnar:

Gaddavír er til að girða.

Orð eru nýt til að yrða.

Markmið og gagn?

Hlutverk og magn?

„Með vopnum skal menn myrða“.

 

25.10.14

Á spíritísku laugardagskvöldi:

Eitthvað er óþekkt á sveimi,

undarlegt handanað streymi?

En ýlfrið nú þekki!

Kemur þar ekki

glaðasti hundur í heimi!

 

05.11.14.

Fyrirsögn á RUV.IS, undir gleiðbrosandi Seðlabankastjóranum: „Allir dauðöfunda okkur“:

Að vopni verður allt enn.

Veröldin lýtur þér senn.

Með titrandi tár

þig tilbiðja, Már,

Íslands öfundarmenn.

 

Svokölluð friðþæingarkenning er grundvöllur hins lútherska trúnaðar:

Brunar með glaumi og gleði
til glötunar fullhlaðinn sleði.
En lífið varð skák
með lundgóðan strák
er faðir hans fórnaði peði.

 

17.11.14

Eftirminnileg viðtöl í Kastljósi kvöldsins við systurnar Snædísi og Áslaugu Hjartardætur um aðstæður þeira og mikilvægi túlkasjóðs, sem er tómur, og túlkaþjónustu fyrir fatlað fólk:

Virðist hægt allt í heimi að gera,

fyrir heilbrigðan Jón – ef er séra!

Þegar fæst ekki túlkur

þar tjá sig um stúlkur:

„Engin hornkerling vil ég vera“.

 

04.12.14

Bjarni Ben. skipaði nýja innanríkisráðherra í stað Hönnu Birnu, loksins eftir langa mæðu. Ýmsir þóttust kallaðir, m.a. Pétur Blöndal og þingflokksformaðurinn Ragnheiður Ríkharðsdóttir, sem á sinn djöful að draga:

Bjarni um víðan fór völl
og varaðist þingmennin öll.
Fór um hann ótti
svo Ólöfu sótti
út yfir firnindi og fjöll.

 

Í Árvakursmóum var aftur
Evrópulöngunarkraftur
Ragnheiðar mældur.
Og Pétur er spældur.
En í þingflokknum klappar hver kjaftur.

 

12.01.15

Í fréttum var þetta helst.

Það herðir heldur á frosti.

Heimsbyggðin öll er í losti.

Á fötluðum brotið.

Fólkið er skotið.

Aðra smyr brauðsneið með osti.

 

04.01.15

Sóknarpresturinn í Vík kvaddi sér hljóðs á Fjasbók og tilkynnti að 29 ár væru frá því hann tók við kallinu. Hann fékk í kjölfarið fjölmargar heillakveðjur. Þess má geta að Gulla, kona hans, er bekkjarsystir mín úr menntaskóla:

Vinsæll er Víkurprestur

og varla því víkur prestur.

Haraldur Magnús

í messunum sagnfús

og hjá Guðlaugu aufúsugestur.

 

15.01.15

Í dag eru 20 ár frá því snjóflóð olli hörmulegu stórslysi á Súðavík. Í Kastljósi var viðtal við konu sem lifði af, bjargaðist eftir 14 tíma undir brakinu af húsi fjölskyldunnar, þá unglingur að aldri. Frásögn hennar var átakanleg:

Alltaf með sár á sálinni.

Snjóflóðagnýr undir nálinni.

Hugsanir stríðar

en höggið kom síðar.

Skelfing í minningaskálinni.

 

Nú er að hefjast enn eitt HM í handbolta, nú haldið í Katar. Íslendingar eru á meðal keppenda og þrátt fyrir skemmtanagildi handboltalandsliðsins fylgja ákveðin leiðindi:

Ennþá er vakin upp vofan.

Vonsvikinn þrýsti á rofann.

Kuldi og vetur

kvalið mig getur

og helvítis HM-stofan.

 

19.01.15.

Það er mikill lægðagangur þessi misserin og sér ekki fyrir endann á honum:

Endalaus vosbúð og væta,

í vindinn er ennþá að bæta,

svo blindöskubylur

er blotinn við skilur.

Er furða að þjóð vilji þræta?

 

21.01.15

Borgarfultrúar Framsóknarflokksins gera það ekki endasleppt. Eftir moskuhneykslið fyrir síðustu kosningar bæta þær um betur með því að skipa annálaðan og þjóðþekktan rasista og hommahatara sem varamann í Menningarráð Reykjavíkur:

„Dýrð sé oss, dætur og synir

drottins guðs. Burt skreiðist hinir.

Vora finnum vér línu

að frelsarans pínu“.

-Framsókn og flugvallarvinir.

 

30.01.15

Þó umgjörð HM í handbolta sem haldið er í Katar um þessar mundir sé slétt og felld ganga ásakanir um að dómgæslan hafi hjálpað heimaliðinu áfram í keppninni, jafnvel talað um mútur og dómarahneyksli:

Yfirborðsáferðin lygn

en alltaf er dómarinn skyggn.

Furstar í Katar,

kolspilltir snatar,

að kaupa sér meistaratign.

 

02.02.15

Mannlýsingar úr sveitinni:

Í afdalakoti bjó kall,
sem kúkaði‘ og hrækti í dall.
Japlandi roðið
og reykjandi moðið
reið hann svo fullur á fjall.

 

Og kellingin feiknmikið fall
sem forðaðist gesti og spjall.
Í myrkustu krókum
hún muldi úr brókum
í soðningu, saman við gall.

 

Syni var stillt upp á stall,
samt stundaði ónytjubrall.
Góða fylli úr nefi
fékk hann, í kvefi
svo allur varð grár eins og gjall.

 

Dóttirin iðaði öll
úti um móa og völl.
Í dagbækur skráði
að skemmtun hún þráði,
skagfirska sveiflu og böll.

 

03.02.15

Mannlýsingar af mölinni:

Í borginni lögmaður bjó
sem bergði af stressinu fró.
Keppti við grannann
í græðgi, og vann ´ann.
Frá dýrðinni ungur svo dó.

 

Frúin er fínasta snobb
sem faðmaði annan, hann Rob.
Hún aðeins fær unað
við allsnægt og munað,
á rándýran kobbidí kobb.

 

Dóttirin orðin er djörf,
af drykkju um helgar oft stjörf
og af afskiptaleysi
þessu ógissla pleisi
hugsar hún þegjandi þörf.

 

Sonurinn beinni á braut,
bráðger og sterkur sem naut.
Á kagganum fer um
fullur af sterum,
flottur, en geðið í graut.

 

05.02.15

Mannlýsingar úr þorpinu:

Þorparinn þrautgóður var,
á þakkir og hrósið ei spar.
Í orðfæri „linur“:
„Elskan“ og „vinur“,
og kleip svo í kellingarnar.

 

Konan hjá kunningjum sat
í kaffi, og bauð sér í mat,
til að þefa upp fréttir
og það var nú léttir
ef fásinnu fundið þar gat.

 

Strákur á þrítugu stóð,
staðarins uppháhalds jóð.
Að spóla í brekkum
á belgvíðum dekkjum
stundaði, miklum af móð.

 

Stelpan á liðinu lúin
fyrir löngu í huganum flúin.
Þá bar þar að Dana
sem barnaði hana-
og þar með var draumurinn búinn!

 

06.02.15

Eyðimerkuróráð:

Þrammandi’ í eyðimörk þrír,

af þorsta er hugur óskýr.

Svo líðanin batni

leita að vatni

en dropinn hjá guði er dýr!

 

Andinn í óráði dalar,

bara ímyndun þorstanum svalar.

Í sturlun þeir ná

stjörnur að sjá

og til þeirra himinninn talar!

 

Á kvöldgöngu kærustupar,

hún komin á steypirinn var.

Þau gönguleið breyta

og á gistihús leita

en vertinn þar veitir afsvar:

 

„Þið finnið í fjárhúsi hey.

Bara fyrningar reyndar, OK?“

Þar Jósef á ný

fer að jagast í því

að varla sé María mey:

 

„Ég hef aldrei hold þitt séð bert

og hitt höfum við aldrei gert.

Það er hlálegt að blanda

í þetta heilögum anda!

Hvað heldur þú að þú sért?“

 

Af tuðinu María mæddist,

upp í myglaða jötuna læddist

og myrkrið óp klauf.

Hennar meyjarhaft rauf

freslarinn þegar hann fæddist.

 

10.03.15

Á búslóðarböndin þeir skáru,
búkkinn þá hrundi. Með sáru
ópi við brást.
Í birtingu sást
að ennþá var borð fyrir Báru.

 

12.03.15

Ekki’ er öll vitleysan eins!
og eigi var hikið til neins
því í loftinu lá
löngun og þrá
milli Sleggju og Steins.

 

21.04.15

Ágætur flóa- er -friður
þar sem frjóan á jarðveg sá siður
að breiða út snakkið.
Og baktjaldamakkið!
Það sannlega segi ég yður.

 

26.04.15

Þið, sem við skjáina skrunið
og í skorti við brauðmola unið!
Eins og vel kveðin vísa
nú vísindin rísa:
-Hannes að rannsaka hrunið-

 

01.06.15

Utanlandsferð með eiginkonunni:

Hvern langar ei langt út í geim?
Nema lyndi og þjóðanna hreim?
En þegar atið er mest
er alltaf best
með henni að koma sér heim.

 

20.06.15

Úr fyrstu langferðinni með ferðmenn þetta sumarið:

Dálagleg Dyrhólaey
í dýrðlegum kvöldsólarþey.
Þetta mýrdælska svið
verð að sætta mig við
því allt er í harðindum hey!

 

21.06.15

Er sem fyr augum mér dökkni
og aðeins að rómurinn klökkni
er stend ég og gón-
i á Jökulsárlón?
Jæja, enginn er verri þó vökni.

 

23.06.15

Með leiðsögn, varkár og vökul
ef vafrið þann auruga hökul.
Á margt er að líta
(en hvorki míga né skíta)
um sumar við Sólheimajökul.

 

24.06.15

Heiðhvolfin himinblá,
hamrar og jökulgljá,
litfagrir balar,
lækurinn hjalar,
stansað við Stakkholtsgjá.

 

25.06.15

Höfum rambað um mel og í rásum
á rútubíl stynjandi hásum.
Þá er ómaksins vert
og engastund gert
að drífa upp búðir í Básum.

 

Af krafti sem kann enga vægð
er klettaborg jökulvatnsfægð,
gljúfrum öll sorfin
og Gígjökull horfinn
en lifir þó fornri á frægð.

 

Að ofan eins og rök ull
Eyjafjallajökull.
Sá nafnkunni, fríði
er náttúruprýði.
Dýrðarinnar djö…gull!

 

07.07.-18.07.15

Úr annarri hringferð:

Með Fróni við stöndum og föllum,
fögnum þess kostum og göllum:
Loftfærslan hröð
við Hrauneyjastöð
en alltaf er fagurt á fjöllum.

 

Brautin er þvottabretti
svo bílinn í fyrsta gír setti.
Í Landmannalaugum
er lið samt í haugum
og smælið á hverju smetti.

 

Hrauneyjar – Landeyjahöfn.
Fyrir hrynjandi ágætis nöfn.
Nú verð ég að þreyja.
Til Vestmannaeyja
klýfur dallurinn dröfn.

 

Sveittur nú sit ég á dollunni,
sjálfsagt að skila út rollunni
sem át af í gær
úrbeinað lær.
Næsta mál: Móka í mollunni.

 

Efalaust oft hafið keyrt
áleiðis framhjá og heyrt
þessar hlálegu sögur
um að Hlíðin sé fögur.
Já, sölumenn engu fá eirt.

 

Um Gunnar er togað og teygt,
t.d. heyrist því fleygt
að tauma- í -skaki
hann skylli af baki
– og aumingja bóndinn sá bleikt!

 

10.07.15

Hve fagurt í þurrki og þey!
Er því nú að heilsa? Ó nei!
Í hávaðaroki
mér er hætta á foki
ofan af Dyrhólaey.

 

Ef stuðlar ei v með v-i
í vandræðum lendir og straffi.
En burtséð frá því
mun ég borða á ný
silung á Systrakaffi.

 

12.07.15

Á Íslandi vítt er til veggja
og vandalaust farið bil beggja.
En á ákveðnum stöðum
þarf að standa í röðum
og bílnum ólöglega leggja.

 

Margt skrýtið til skoðunar vel,
mig skúbba samt þessu ég tel.
Að Hrúturinn Hreinn
fari hringveginn einn
og hvílist við Sænautasel!

 

Túrað í kulda og trekki
en tanað í sólskini ekki.
Ferðin því varð hröð
í funandi jarðböð.
Þannig ég landið mitt þekki.

 

Umhyggjan engu lík,
í anda og hjarta rík.
Sit ég og tsjilla
hjá Systu og Villa
í heimsókn á Húsavík.

 

25.07.15

Lífið ei lukkuna sparði
er laugardeginum varði
með Guðrúnu’ og Gunna.
Glampandi sunna
og skjól í Skallagrímsgarði.

 

08.11.15

Tíminn strýkur um strengi,
styrkum höndum – og lengi
órar mann síst
það eitt sem er víst:
-Valt er veraldar gengi-

 

26.11.15

Þorbjörg systir mín er sextug í dag:

Var skammaður, kjassaður, kysstur,
já, kærleikur innstur og ystur.
Þetta’er öryggisnetið
og aldrei fullmetið
að eiga svo ágæta systur.

 

01.12.15

Þessi í Erfðagreiningu situr ekki alltaf á friðarstóli:

Til eilífðar skemmtir með skvaldri
skrattanum. Ritar með galdri
svartagallsletur:
„Setjið á vetur
karl á áttræðisaldri“.

 

29.12.15

Virðist mér veröldin dormi
vær, bæði’ í efni og formi.
Kann líka ske
kyrrðin að sé
stilla á undan stormi?

 

16.03.16

„Krónan er gjaldmiðill góður“,
gjammar Sigmundur móður.
Auð sinn þó felur
sá óprúttni melur.
Á Tortólu svimandi sjóður!

 

Svo núna í fréttirnar fari,
fljótur, mér liggur á svari!
Úr klóm þarf að smjúga
svo hverju má ljúga
Jóhannes útskýrari?

 

25.03.16

„Bar ekki siðferðileg skylda til að segja frá“ Wintris-hneysunni var haft eftir SDG í fjölmiðlum:

„Sjái valdsmenn að sér“.
Svo orðum Hallgrímur fer
um siðferði þitt,
þvælt og marglitt.
Keisarinn kviknakinn er.

 

15.04.16

„Þetta er ógeðslegt samfélag“, er haft eftir ritstjóra nokkrum í Rannsóknarskýrslu Alþingis:

Fyrir skattaskjólum svag
og skófla undan þjóðarhag
allt frá stríðsgróðaflaum
að stórveisluglaum.
Hver bað um svona samfélag?

 

17.04.16

Sitt kvæðasafn Kári nú þylur,
og kaldhæðni sína ei dylur,
sem er helvíti svalt,
enda hljómar það allt
eins og blindöskuþreifandi bylur!

 

21.04.16

Kjaradeilur eru daglegt brauð og heilu stéttirnar samningslausar mánuðum saman:

BHM súran með svip
þó sannlega bjóðist uppgrip
(en vissir vankantar):
Háseta vantar
á kvalaskoðunarskip.

 

15.06.16

Christiano Ronaldo var beygður í viðtölum eftir jafntefli gegn Íslendingum í fyrsta leik á EM og fékk það óþvegið frá heimspressunni í kjölfarið:

Vill hann mjög greiðsluna vanda.
Fyrir virkni til fóta og handa
fyrstur oft valinn.
Um veröld nú talinn
„lítilla sæva og sanda“.

 

16.06.16

Einhver verður að taka upp hanskann fyrir vesalings drenginn frá Madeira sem á ekki sjö dagana sæla:

Mikill var framherjans feillinn
er fráhverfur laumaðist veill inn
með orðhengilshátt.
En þetta gaman er grátt.
Einelti heitir það, heillin!

 

02.07.16

Hera frá Þóroddsstöðum setti heimsmet í 250 m. skeiði á Landsmóti hestamanna að Hólum í Hjaltadal, með dyggri aðstoð Bjarna Bjarnasonar:

Heimsmetið fallið á Hólum!
Hera nú bjargaði jólum
hjá Vekurðar-Bjarna.
Vittu atarna!!
Þau snjöllustu byggðum á bólum!!

 

02.07.16

Lagður af stað í hringferð um landið með ástralska skólakrakka og nokkra kennara þeirra. Fyrsti áningarstaður Hvammstangi:

Eftir mæðu og mimru
og margþvælda orðhengilsimru
á Hvammstangabraut
heilann ég braut
niður í lélega limru.

 

23.07.16

Úr enn einni rútuferðinni:

Áði hjá Urriðafossi
(ekki þó ferðast á hrossi).
Þá spurn nú fram ber
sem brennur á mér:
Líður að kveðjukossi?

 

Vel haldinn, úr hungri ei dey
og á Hótel Dyrhólaey
engu ég kvíði
þó kvöldverðar bíði
því allt er í harðindum hey.

 

26.07.16

Enn á ferðinni akandi, nú til fjalla:

Heiðríkt! Nú út sér úr augum!
Og enginn er farinn á taugum!
Fjallabaksleið
furðu er greið
og fagurt í Landmannalaugum.

 

27.07.16

Frekari skýringar óþarfar:

Hérna eirum vér oss,
engan berum vér kross
nema túrhestanauð.
Mér sárabót bauð
sólin við Seljalandsfoss.

 

Eftir vílin og vomin
vindgang og kviðverki. Sko minn!
Fékk sér af mat
og vaskaði fat.
Nú dagur að kveldi er kominn.

 

Kvöldsólin er oft dásamlega falleg:

Dálitla, gula duggan
damlar á leið í skuggann.
Sólgullið fley
siglir í þey.
Útsýn um eldhúsgluggann.

 

03.08.16

Enn á ferðinni. Öræfajökull og Hvannadalshnjúkur blasa við á björtum degi:

Í sálinni mjög verð ég mjúkur
og máttlaus nánast minn búkur.
Deyfðin útskýrð
með náttúrudýrð
sem framleiðir Hvannadalshnjúkur.

 

06.08.16

Gist og etinn kvöldskattur á Hótel Önnu, Moldnúpi:

Ilmur nær áhugann kveikja
svo út um er farinn að sleikja.
Hótelið: Anna,
etin hin sanna
fyrirtaks Fagradalsbleikja.

 

Frá sama stað, út um herbergisgluggann:

Byrjað enn bílstjórarandið
og býsnagott er á mér standið.
Ég lít út um gluggann,
sé ljósið og skuggann
leika og glettast við landið.

 

07.08.16

Limruæfingar:

Mér svellþykkir sendir að gjöf ull-
arsokkar. Þeir reyndust ei gjöfull
vermir. Því míg
í skóna. Ei lýg.
Helvítis, andskotans djöfull.

 

Það ætlar að lát’ undan löngunum,
liggur hvers annars í föngunum,
læðist svo kímið
í lokaða rýmið
en graðhestamúsik á göngunum.

 

Slopp með hnöppum ei hneppi,
hnappaklappinu sleppi.
Slappur í tröppum.
Sveppir á löppum.
Úr leppum. Happið þá hreppi.

 

08.08.16

Horft upp í Öræfajökul neðan af Ingólfshöfða-söndum:

Á háborði hátíðardúkur
alhvítur úr fjarlægð, og mjúkur.
Fullhuginn skýri
við Fagurhólsmýri,
er reistur Rótarfellshnjúkur.

 

Og áfram er ekið til vesturs, heim á leið:

Nú er ég kominn að Klaustri,
keyrði þangað úr austri.
Setið í vaffi
Systra- í – kaffi
áfram svo farið í flaustri.

 

Varúð á vegunum mjóum
því vaggandi kerruna drógum.
Pínd áfram tík,
pissað í Vík
og anað svo áfram að Skógum.

 

Brunað frá Skógum í skyndi
(skæð Eyjafjöllin í vindi)
um Hvolsvöll og Hellu
á heimleið til kellu,
við Bitru allt leikur í lyndi.

 

05.09.16

Mannlýsingar:

Vammið við er spyrtur,
veruleikafirrtur,
í beinum eitur,
undirleitur,
til fárra fiska virtur.

 

Um háriđ vel er hirtur,
hálstau, sléttar skyrtur,
hjartaheitur,
í huga teitur,
vel af öllum virtur.

 

Blótandi og byrstur,
í brennivínið þyrstur,
einskis nýtur
augum gýtur,
flýr af hólmi fyrstur.

 

17.09.16

Stinga má höfði í stein,
stilla þar fókus og brain.
Sjá laftunguhunda
lúpast að Munda
og bítast um Panamabein.

 

22.09.16

Nú er ég léttur í lund
á leiðinni suður, á Grund.
Með mér það ber,
að mín núna er
ævi á elleftu stund.

 

17.11.16

Dagur íslenskrar tungu var í gær, og kórinn söng suður í Hafnarfirði með Kvennakór Hafnarfjarðar:

Hátíð, glaumur og gaman!
Gladdist hópurinn saman!
Allir þar sungu
á íslenskri tungu
og enginn var fúll í framan!

 

25.11.16

Enginn friður var í fjölmiðlum vegna einhvers sem kallað var „black friday“:

Föstudagur til fjár
fannst mér hljóma mun skár.
Vor ævitíð liðin
með íslenska kliðinn.
Dagurinn svartur – og sár.

 

30.11.16

Í kjölfar „Brúneggjamálsins“ beindist gagnrýni að Matvælastofnun fyrir slælegt eftirlit. Halldór teiknaði í Fréttablaðið um eftirlitsiðnaðinn, sem íhaldið vill skera burt. Gildir þá einu hvort er matvælaframleiðsla, fjármálakerfi, ferðamannaiðnaður, velferð eða vinnumarkaður:

Í sólþurrki jörð getur sviðnað
og sérpökkuð frostvara þiðnað.
Lofa skal frelsið,
losum því helsið
og skerum burt eftirlitsiðnað.

 

21.01.17

Ingi Björn Guðnason, Selfyssingur búsettur á Ísafirði, óskaði eftir limru:

Svo Inga Björns efli nú hag
ég ætla að stunda mitt fag.
Limru því yrki
og anda hans styrki.
Það er kjöldráttar dagur í dag.

 

31.01.17

„Kerfisbundin skattsvik með blessun stjórnvalda“ er fyrirsögn dagsins í Fréttatímanum:

Blessaður stóreignabokkinn
með bönd sín um stjórnmálarokkinn.
Spillingin lifi!
Landsmenn það skrifi
á íhald og framsóknarflokkinn.

 

01.02.17

Opinberun:

„I know that they like it a lot,
the ladies, so I give it a shot
and grab them by pussy.
Then I grab me some sushi.
Now, see all the power I’ve got!“

 

Í andliti karlinn er krumpinn,
í kerskni því oft líkt við rumpinn
á óþarfanauti
í flagi. Með tauti
verður þá hvekktur og hvumpinn.

 

8.02.17

Vetrarveðrið:

Eys úr koppum og kirnum
og klessir þessu, svo firnum
sætir, á glugga.
Nú glymur við skrugga
með rafhlöðnum, glóandi glyrnum.

 

13.02.17

Nú var hann Bubbi að byrja,
beljandi falskur, að kyrja
„Bíbí og blaka“.
Öll borgin mun vaka.
Ekki er aþþí að spyrja.

 

Nú er hann Bubbi að byggja,
að býsna mörgu’ er að hyggja.
Vinnuharður, en natinn,
og eftir hádegismatinn
finnst ljúft milli hluta að liggja.

 

Það var aldeilis kjaftur á kellunni
og karlgreyið varð fyrir dellunni
eins og romm út á skyr.
Svo rauk hann á dyr
er náði hún fjórtándu fellunni.

 

14.02.17

Það er hálftómt í helvítis glasinu
og hundaskítur í grasinu
hjá Guðmundi ríka
sem reynir víst líka
að lifa á borgarabrasinu.

 

15.02.17

Það þarf að einkavæða fyrir vinina:

Ekkert nú ætla að drolla
og enn síður leggja þeir bolla-
því einka skal væða
fyrir vini að græða
en við borgum vegatolla.

 

08.03.17

Hjá Lúlla var ljóður á ráði
að löngun af honum bráði
í félagsskap kvenna
og ei honum að kenna
hve Þjóðhildur ákaft hann þráði.

 

Systur hans Dags eru dökkar
í dúndrandi yfirvigt, klökkar
af innbyrgðri mildi
sem enginn þó skildi.
Þetta fordómasamfélag sökkar.

 

Stundum hangi heima
um helgar, læt mig dreyma
Kvasis um blóð,
svo Braga í slóð
„einn um nótt ég sveima“.

 

17.03.17

Það var dansað og drukkið á Hóli,
meðan dragspilið þandi hann Óli.
Úr söngbókum lunginn
til morguns var sunginn.
Í pásunum púaður njóli.

 

18.03.17

Veðrið á Íslandi fylgir sjaldan árstíðum:

Eftir vorblíðu’ í allan vetur,
sem vanann úr skorðum setur,
kemur vetur í vor
með vesöld og hor
svo ég þarf að búa mig betur.

 

14.04.17

Ríkisstjórnin svíkur öll loforð og „boðar fimm ára fjármálaáætlun sem gengur í berhögg við fyrri yfirlýsingar um endurreisn heilbrigðiskerfis og sókn í menntamálum“, skrifar Torfi Tulinius:

Ræningjaflokkar um Frón
fara sem veiðislyng ljón.
Stjórnin þá styður
og stelur, því miður.
Þýfið er þjóðfélagstjón.

 

15.04.17

Apríl er ekki alslæmur, alltaf. En stutt í kuldann:

Bylgjast nú sængur á snúru.
Sviðið með vorlegri flúru.
Himinfley siglir.
En svalinn sig ygglir:
,,Bragða skal svörður á súru!“

 

03.05.17

Vigdís nokkur tjáði sig, eftir nokkurt hlé, um ágæti mestu afturhaldsklíkunnar í Framsóknarflokknum:

Vigdís í kjaftinum kræf.
Guðfinnu gefur hún five
og Simma og Braga.
Ja, svei alla daga!
‘Bat out of hell’ is alive!

 

16.05.17

Það var skammt til þess skylli á þoka
svo Skammólfur ákvað að doka
því lítið var ljós.
Það var draumur í dós.
En kamrinum láðist að loka.

 

08.06.17

Rómantíkin ríður mér á slig
er reyni’ að taka hana’ á næsta stig.
Ég er latur og leiður,
ljótur og breiður
en Anna er alltaf söm við sig.

 

06.07.17

Í fréttum var að breskar unglingsstúlkur flykkist í skurðaðgerðir til að láta „fegra“ skapabarma sína:

Breskar í biðröðum standa
barnungar stúlkur í vanda.
Sárri, að vísu,
sjálfsmyndarkrísu
klámstöðlum heiður til handa.

 

14.07.17

Örlítil sjálfsupphafning:

Mætti ég biðj’ um það betra
en bráðgóða limru hér letra
sem dáðst verður að
og dreift svo með hrað-
i til mörlandans menningarsetra?

 

15.07.17

Nú líklegast legg ég mig bara
og lífsneistann reyni að spara,
leggst undir feld,
reyni svo eld
að skotsilfri mínu að skara.

 

16.07.17

Kvennalandsliðið í knattspyrnu stillti sér upp til myndatöku í uppgöngutröppur flugvélar, með þjálfarateymið fremst á myndinni:

Öll barátta blæs út í vind,
hér blasir við feðranna synd
sem gróflega ‘fokkar’
í stelpunum okkar
á karlamengaðri mynd!

 

Endurminningin merlar …

Rétt tæplega tuttugu vetra
og tveggja, ég svam lokametra
sem heimalningsfjandi.
Hún dró mig að landi
(og undir sig vandi).
Hvað getum við beðið um betra?

 

18.07.17

Íslenskt sumarveður?

Nú skal ei trylla og tæta
heldur trygglega heimilis gæta.
Svo andsjálfið finni
heldur mér inni
heiðarleg hásumarvæta.

 

Forseti lýðveldisins var í miðri áhorfendaþvögunni á fyrsta leik Íslands á EM í Hollandi:

Forsetinn var ekk’ í VIP stúku,
vaskur hann sat hjá þeim flippsjúku.
Við voðalegt stappið
og víkingaklappið
króníska fékk hann svo kipplúku.

 

10.08.17

Liðið er stefnulaust, starandi,
sturlun í augunum, farandi
gráðugra, graðara
hærra og hraðara,
hvergi sperringinn sparandi.

 

Í hreppnum varð héraðsbrestur,
hrakinn í burtu gestur.
Þar greip um sig ótti
því ‘onum þótti
sannleikur sagna bestur.

 

Karl er að smyrja og smúla
og smælar með uppglenntan túla.
Þó ákaft það reyni
og orku í beini
hann fer ekki’ í skóna hans Skúla.

 

11.08.17

Sigfinnur stekkur á stöng
um starmýrar vorkvöldin löng.
Þó alla hann toppi
í ónytjuhoppi
bresta þó svanir í söng.

 

Valur er fáséður fugl
sem flaug í sumar af BUGL.
Um mela og móa
mest er að dóa
þyljandi voðalegt þrugl.

 

Margt er í pípum hjá Páli,
pilturinn eins og á báli!
Í seglin fær byr
og Sigríði spyr:
,,Viltu kjúklingasalat með káli?“

 

Friðsamur búsmalinn bítur.
Bærinn er málaður hvítur.
Gælir við vangann
golunnar angan.
Við túngarðinn túristi skítur.

 

Nútíma kynhneigð er krísa
og hvötunum erfitt að lýsa.
Þó eikynhneigð geisi
og náttúruleysi,
faðmist nú, piltur og físa!

 

12.08.17

Bóthildur hvergi var bangin
og bónorðið dró ekki’ á langinn:
,,Ég brúðgumann el
og bragðast mun vel
Hólmfreður, reiktur og hanginn“.

 

Sigmundur Davíð er súr
því Sigríður And. er á túr
um Eimreiðarlendur
og honum ei stendur
á sama um sjálfseigin kúr.

 

Margt er í myrkrinu falið.
Að magna upp ótta er galið.
Kvalir og helsi.
Konan þarf frelsi.
Þar liggur vandinn og valið.

 

19.08.17

Hún Gréta Rós Grétars. frá Lundum
var grátlega fyndin á stundum.
Úr læðingi leysti
lof og háreisti.
Samt var hún ferleg á fundum.

 

Mynd birtist af Bandaríkjaforseta við stýri í bátkænu, blásandi í KluKluxKlan-seglið:

Heimsmyndin: Lok, lok og læs.
Lífsspekin: Enginn er næs.
Á kynþáttahyggju
ýtt er frá bryggju.
Í seglin bastarður blæs.

 

24.08.17

Nú verður að gæta að orðum sínum – og hugsunum!

Alveg var Eiríkur sleginn
því of þótti bolurinn fleginn
og máls á því ljáði.
Í myrkvuðu háði
karlinn var fljótlega fleginn.

 

Sjaldan það kemur að sök
ef á segli og vindi kann tök
og Týr hélt það slyppi
þó á Tinnu hann skryppi
en aldrei er ein Bára stök.

 

27.08.17

Jarðskjálftar í Bárðarbungu …

Í bríma sér byltu og óku
svo burtu gaflana tóku
Bárður og frú
og rétt fyrir 3
bunguna skjálftarnir skóku.

 

Við lækinn var Geir talinn latastur,
lá þar, í andanum flatastur,
langt fram á haust.
Þá brýndi hann raust:
,,Enginn er einna hvatastur“.

 

Margrét Guðmundsdóttir, íslenskan í forgang?

Það er maðkur í móðurmálstægjunum
svo af metnaði sá skal nú fræjunum
til afburðarmennsku
í ritlist, á ensku,
sunnlensku bóka- í bæjunum.

 

2.11.17

Við hjónin drifum okkur í óperuna og þar var hægt að gleyma svikum Vg um stund:

Með pörupiltanna þroska
í pólitíkinni froska
sit uppi með.
Mildar þó geð
tilþrifasöngur í Tosca.

 

21.11.17

Hallmundur Guðmundsson, hagyrðingur á Hvammstanga, birtir á Fjasbók stundum myndir af sér, og gjarnan vísur með, við störf hjá vegagerðinni, við sjnómokstur á vegum eða viðhald þeirra:

Hallmundur hreinsiskati
heiðina ruddi – í plati
en lokaði veginum
og sig lagði að deginum
í ríkisapparati.

 

22.11.17

Lárus Ágúst Bragason skrifar gjarnan athugasemdir við vísur mínar, eitthvað á þessa leið: ,,,,,,,,,,,,,,,, nú styttist í ljóðabókina ,,,,,,,,,,,,,,,

Styður mig, „stuðlafallsblókina“
þó „stefjahrun“ renni í brókina.
Hann er stopull og stirður
og „stórlítils“ virður
leirinn, í ljóðabókina.

 

Gæti loks stillt mína strengi
og staðið í blóma, mjög lengi,
ævintýr lifað
og ljóð um þau skrifað
ef að nú fimmeyring fengi.

 

27.11.17

Ásmundur Einar var ánægður með málefnasamning ríkisstjórnar sem hann var að setjast í, án þess að hafa fengið ítarlega kynningu á honum. Allir muna líka hvernig hann flúði á mettíma úr framsóknarflokki Steingríms J. yfir í framóknarflokk Sigmundar Davíðs:

Ásmundur Einar Daða
ekki nú telur skaða
að fordæmispretti
fyrrum hann setti
er flúði á hámarkshraða.

 

16.12.17

Að berjast með oddi og egg
ég ætla, en forsjáll þó legg
hugann í bleyti.
Einnig því heiti
að skerða ei hár mitt né skegg.

 

07.01.18

Veðurlýsing:

Vætan er lárétt og lemjandi.
Löðrandi stormurinn emjandi.
Rigning og rok!
Rennbleytufok!
Blautlega söngvana semjandi.

 

21.05.18

Oddviti Árneshrepps á Ströndum er einörð fylgiskona Hvalárvirkjunar og gerir ekkert, segir ekkert og ákveður ekkert í nafni hreppsins varðandi virkjunarmálin án þess að ráðgast við HS Orku og framkvæmdastjóra Vesturverks, verktakafyrirtækis sem hefur virkjanaframkvæmdir á sinni könnu:

Oddvitinn vestur- með verk
í vinstri mjöðm, en samt sterk.
Með stikkorðum lærðum
líkn veitir særðum
hreppsnefndin, mikil og merk.

 

28.06.18

Enn á ferðinni með túrista:

Á sig broddana binda
og belti með öryggislinda.
Samhæfð og vökul
á Sólheimajökul
sér um vegleysur vinda.

 

25.07.18

Staddur í svokölluðu Fontana á Laugarvatni:

Í gullnu minningaglufunni
geng nú að einni prufunni
að komast á legg
er klifr’ yfir vegg,
fullur, í Gömlu gufunni.

 

09.08.18

Er Úlfgrímur raknaði’ úr rotinu
í rykugu, dimmasta skotinu,
kom stuna og hósti,
hann stóð upp, með þjósti:
,,Fjandinn að neiti ég flotinu“.

 

14.09.18

Verjendur hinna dæmdu í Guðmundar- og Geirfinnsmálum, sem töluðu tæpitungulaust, voru sagðir hafa verið „myrkir í máli“.

Friðsælt í brandi og báli.
Bómullin gerð er úr stáli.
Sér Geirmundur breytir,
nú Guðfinnur heitir.
Verjendur myrkir í máli.

 

25.10.18

Bragginn er eilífur og danska melgresið. Og Gunnar Gunnarsson skrifaði Leik að stráum í Danmörku:

Víst er að sjaldan við sjáum
samhengið, þó að við gáum.
Burst eða braggi?
Í blíðunnar vaggi
ljúfur er „Leikur að stráum“.

 

Ef stóru nú mænum á myndina
við mígum í uppsprettulindina.
Á heildina litið
úr nál er ei bitið.
Þetta er neðan við þindina.

 

27.10.18

Ólafur Ragnar sagði frá því í útvarpsviðtali, með stolt í rómi, að Dorrit væri búin að láta taka sýni úr hundinum Sámi til varðveislu og síðari tíma klónunar:

Stöðugt á Dorrit má stóla.
Vor stórasta hugmyndaskjóla
„pund fyrir pund“.
Plís! Bara hund,
en klónaðu ekki hann Óla!

 

29.10.18

Listaverki var komið fyrir úti í Tjörninni í Reykjavík. Það var sagt vera „hafpulsa“ til heiðurs Hafmeyjunni frægu í Kaupmannahöfn. Mest minnti það þó á nábleikan mannstittling, og þótti fáum fagurt:

Hún er gefandi, listamannslundin
og í lífinu verðmæt hver stundin.
Með pulsu í Tjörninni,
hversdags í törninni,
andlegur friður er fundinn.

 

31.10.18

„Ég hef ekki verið og er ekki hlynnt þeirri afstöðu að smætta kerfislægan vanda í einstök siðferðileg álitamál sem eru afleiðing aukinnar einstaklingshyggju og einstaklingsvæðingar stjórnmálanna. Það eru mun langdrægari áhrif sem hljótast af því að breyta kerfinu sjálfu“, sagði Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra Íslands, aðspurð um afstöðu sína til ríkisstjórnarsamstarfs Vg og Sjálfstæðisflokksins í ljósi „fjármálagjörninga“ fjármálaráðherrans, Bjarna Benediktssonar:

Ef kvelur oss kerfislæg hætta

skal kerfinu breyta, og þvætta

einstaklingsglæpi

með orðhengils’hæpi’

þó siðferðið þurfi að smætta.

 

03.11.18

Ók starfsfólki (konum) á Dvalarheimilinu Lundi í óvissuferð um Rangárþing. Fyrsti viðkomustaður var Nauthúsagil. Meðan konurnar örkuðu upp í gil með leiðsögumönnum og ég beið eftir hópnum skall á með byl:

Ana í óvissuferð,

úti því sjálfsagt ég verð.

Við Nauthúsagil

norpa í byl.

Glætan að leit verði gerð!

 

14.11.18

„Sjálftökuliðið“ á Alþingi lætur ekki að sér hæða:

„Aukum í aðstoðarleðeð“
(alþinge leit efer sveðeð):
„17 hér vantar.
Sjúklingafantar
og örerkjar enn geta beðeð“.

 

15.11.18

Jón Gnarr fargaði eftirlíkingu af listaverki eftir götulistamanninn Banksy sem hann hafði fengið að gjöf í borgarstjóratíð sinni, þegar íhaldið ætlaði að hanka hann á því að hafa þegið „ósiðlega“ gjöf sem borgarstjóri. Vg verður trúlega fargað í næstu kosningum:

Viðutan eru og ‘vanksí’
vinstrigræn, já eitthvað ‘kranksí’.
Hver verður ei skrýtinn
síétandi skítinn?
Sömu örlaga bíða og Banksy.

 

19.11.18

Ævintýraþema:

Dýrið með fráhnepptan frakkann,
en Fríða þá reigð’ aftur hnakkann:
„Já, hvað vilt’ upp á dekk?“
Um jólin þó fékk
perrinn að kíkja í pakkann.

 

Mjallhvít var góðhjörtuð mey,
mælti víst aldregi: „Nei“!
Er kynnti hann vin sinn
hún sagði við prinsinn:
„Allt er í harðindum hey“!

 

Laumaðist strax út af leið
lagðist í grasið og beið
þolinmóð virtist
þegar hann birtist
Rauðhetta, úlfinum reið.

 

20.11.18

Framhald:

Svo greinir frá Hans og frá Grétu
að grimmir í ofninn þau létu.
Þau gátu loks platað.
(Vegna ríms nú er glatað
að Alþingi afnam hér z).

 

Þyrnirós svaf og hún svaf,
svo bæði missti hún af
Snappi og Tinder.
En á Fjasbók nú mynd er
í kommentum skotin í kaf.

 

Spurt er: Telst Andrés með öndum?
Þetta’ er umdeilt víða í löndum
og milli hópa rís veggur;
Duck eða steggur?
Er Donald brabra í böndum?

 

21.11.18

Meira ævintýraþema:

Það var ólga í Öskubusku
sem æddi um gólfin, með tusku:
„Alveg stein-djöfull-blindir
á staðalímyndir!!!“
hún æpti í morgunsins musku.

 

Kalla má bévítans bullu
blágráan úlf, sem á fullu
hafði korter í 2
étið kiðlinga 7.
Var þá dasaður orðinn, með drullu.

 

Stökk hann úr kerlingar klóm
svo klesstist þar ekki við góm.
„Þessi sætabrauðstæknir
verður trúlega læknir“,
sagði refurinn, skjálfandi róm.

 

Úlfurinn blés og hann blés,
með blóðhlaupin augun og fés.
Þá grísirnir hlógu
uns tveir þeirra dóu.
Já, þessi saga er svolítið spes.

 

Spjátrungur mikill og spaði,
spinnur upp sögur með hraði
og margar til meins,
öll vitleysan eins!
Kötturinn stígvélaði.

 

Loks varð henni mjög á í messunni,
mistök, við fjallið, hjá skessunni!
Hún átti krakka með hor
og kraftmikinn bor
EN LOFTIÐ VAR LEKIÐ AF PRESSUNNI!!!

 

9.11.8

Á Klausturbar tjáði sig eina konan í partíinu:

Af einlægni opnaði sig:
„Það allra versta við þig
er hve þú ert góður
og óljúgfróður!!
Sko, ég er að míga í mig“.

 

30.11.18

Guðmundur í Brimi var í sjónvarpsviðtali:

Glaður við góðverkið dó
er til Guðmundar arðgreiðslur dró
eins og ofalinn kálfur,
en átti sig sjálfur
fagur fiskur í sjó.

 

13.12.18

Sjá má nú Sjálfstæðisflokk
snúandi framsóknarrokk
í vinstri grænum,
hlýðnum og vænum.
Helvítis fokking fokk!

 

21.01.19

Starfsmaður krafðist þess að málverk Gunnlaugs Blöndal af nakinni konu yrði fjarlægt af veggjum Seðlabankans:

Berandi brjóstin þær grafa
bannhelgi feðranna. Krafa
um líkamlegt frelsi.
En er listin í helsi,
fyrst nekt má þar helst ekki hafa?

 

14.02.19

Að ‘drepi mann of mikill asinn’
er aðal nútímafrasinn.
Til að sporna við því
spái ég í
að liggja í bælinu, lasinn.

 

Nú er það náðugt hjá blókinni,
nýtur sín alveg á brókinni,
kannski svolítið spes
en af spenningi les
í Íslensku orðsifjabókinni.

 

Er það ekki aðalaðferðafræðin að gefa erlendum auðhringjum afslátt af öllu mögulegu hérlendis, í nafni atvinnuuppbyggingar og gott ef ekki byggðastefnu? Milljarðahundruð streyma nánast skattfrjáls úr landi fyrir nokkur störf. Og mengun. Nú eru það íslensku firðirnir sem gefa á norskum laxeldisauðhringjum:

Sannleikur helvíti harður!
Vor náttúruauðlindaarður
er útvöldum fáum
leikur að stráum
en vor skrælingjahlutur er skarður.

 

23.02.19

Ólafur Ís. og Karl Gauti gengu (loksins) í Miðflokkinn:

Af bullubulli ríkir.
Við blinda augað kíkir.
Ganga í takt.
Gildismat skakkt.
Sækjast sér um líkir.

 

18.03.19

„Börn fá pítsu að borða ef þau sleppa því að mæta á loftslagsmótmæli“:

Vitiði, þannig er það,
þvílíkt spennandi að
fá pizzu að borða
ef frá uppreisn skal forða.
Í heiminum brotið er blað.

 

25.05.19

Eykst með aldrinum vægi
andans, og frá mér því bægi
fánýtu prjáli.
Finn hverju máli
lausnir í sólarlagi.

 

08.07.19

Heilræðavísa:

Ef setur þig háan á hest,
hafandi mikið, þarft mest!
þá átta- ert villtur,
alveg gjörspilltur.
En batnandi manni er best.

 

„Stjórnmálaskörungur“ dagsins …

Talfærið ljómandi liðugt
við loforðin, jafnvel er sniðugt
hve margt frá í gær
nýja merkingu fær.
Og sumum finnst þetta siðugt!

 

Vísnagerðin …

Vísnagerð lokkar mig löngum
og ég laumast í slíkt eftir föngum.
Reyn’ að hitta í liðinn,
finna ljóðstafakliðinn,
en allt er þó tekið með töngum.

 

22.08.19

Trump ætlaði að kaupa Grænland, rétt sisvona í gegnum Twitter:

„The future there will be just fine and
our freedom and greatness will shine grand
for the right fee.
Folks, you’ll see!“
En það gefur á bátinn við Grænland.

 

05.09.19

„Mektarmenni“ víða um heim hrauna yfir Gretu Thunberg:

Á þekkingu engin er þurrð
er þekjuna skortir nú burð.
Í horn, milli veggja,
hólmsteina leggja.
„Knýr Hösmagi hurð …“.

 

Enn af framtíðarótta hólmsteina þessa heims:

Með frekju sýnir hún sig,
senn kemst á hamfarastig.
Mín heimsmynd er svert!
Já, hvað hefur gert
framtíðin fyrir mig?

 

09.01.20

Katrín forsætisráðherra og Bjarni fjármálaráðherra birtust saman á mynd í blöðunum og fram kom að þau væru samstíga í flestu:

Hún Kata var klárasta stúlka
sem kunni vel prufur að túlka
úr ónýtu heyi.
Í Engeyjarfleyi
situr nú brúður á búlka.

 

02.03.20

Við lestur skáldsögu Megasar, Björn og Sveinn, rakst ég á orðasambandið „fegurð í firðinni“. Prjónaði limru um það:

Bognar margur af byrðinni.
Blundar öskrið í kyrrðinni.
Með spakmælum rjálar
við spegilinn sálar
óræð fegurð í firðinni.

 

04.03.20

Margar vísur kvikna út frá málsháttum og orðtökum:

Oft koma bestu að bæjum

á bílum fullum af græjum,

vinsemdargreiða

til atkvæðaveiða.

Safnast hrafnar að hræjum.

 

10.05.20

Fagráð hrossaræktarinnar setti fram nýtt BLUP fyrir skeiðlausa hesta:

Tryggir reynsla og rótgróin festa

að ræktunarmark mun ei bresta.

Því fram á það fer

við fagráð, þ.e.

sér Blup fyrir hauslausa hesta.

 

03.06.20

Það var „hálfgaman að því“ í dag. Allt að trimmast til og ekki nema eitt andapar sem flaug upp úr skurði og fældi hæfilega undir mér, svo það var bara hálf gaman að því líka:

Nú er að teyma í trossunum,

til sín að finna, með hnossunum.

Hálf gaman að því,

að gangur er í

hreyfingu’ á langferðahrossunum.

 

25.06.20

Hjá Bínu var gangurinn blússandi

í blíðunni úti við stússandi.

Langt fram yfir mat

maðurinn sat

á gólfinu, teikningar tússandi.

 

Í löggunni Bibbi var latastur,

við leiðindin allra samt hvatastur.

Svo limran nú rími

ég neðan við lími:

Flóinn er héraða flatastur.

 

08.07.20

Vinirnir, Steini og Stjáni

stóðu á gati’ yfir … sotlu

frá honum Djeims.

Hins fallandi heims

fullur merlar nú máni.

 

Allskonar lögmálum lútum

sem lærum í heild eða bútum.

Ef veltum við steinum

ei staðreyndum leynum:

Falskur er margur í mútum.

 

11.07.20

Í fínustu taugar nú fékk

foráttuhrylling og skrekk

af galtyngi örgu

úr Gísla og Björgu.

Úr sófanum stend upp, og slekk.

 

13.07.20

Engu er yfir að væla,

aðeins við heiminum smæla.

Konan í fríi

og karlinn á skýi.

Sjö eigum dagana sæla.

 

Þó löngum laklega skaffi

lítt hefur verið í straffi.

Á spánnýjan pallinn

sporléttur kallinn

færir konunni kaffi

 

Á toppnum mun töluvert kalt

og talið að lánið sé valt,

hinn fegursti frami

framhaldið lami,

hverfult í heiminum allt.

 

16.08.20

Þorsteinn Már sagðist hafa verið sérlega óheppinn með strafsfólk þar suðrí Namibíu:

Óheyrileg sjávarseltan

og svakaleg starfsmannaveltan.

Er miður sín Mái,

manninn ég dái

en ólánið virðist elt’ann.

 

20.08.20

Það var allt í fári innan sýslumannsembættisins í Keflavík vegna eineltis- og ráðningamála, svo yfirlögfræðingurinn þurfti að fara í veikindaleyfi eftir að hafa ráðið eiginmann sinn í starf, fram yfir hæfari umsækjanda:

Von sínum manni hún veifi

og við hans framgangi hreyfi.

En fáirðu gest

gagnast oft best

að vera í veikindaleyfi.

 

30.08.20

Oftast í almannaróm

áfellis- birtum við dóm.

Dýr eru orðin.

Eldhús- við borðin

töluð er vitleysan tóm.

 

03.10.20

Stefá Ólafsson sagði að „með því að sleppa óþörfum styrkjum til stóreignafólks sem felast í fjárlagafrumvarpinu“ hefði mátt taka fastar á raunverulegum vanda samfélagsins í kreppunni:

Stuðninssveit Vg er virk

en verkalýðsglóðin almyrk.

Fékk sæti við borðið

en Bjarni með orðið:

„Stóreignafólkið fær styrk“.

 

06.10.20

Óþolinmæði fer vaxandi og margir eru farnir að amast verulega við sóttvarnateyminu og þeim tillögum sem það leggur fram, m.a. eru þar á ferðinni þingmenn Sjálfstæðisflokksins:

Ei skal við Þórólfi amast

þó allt sé nú þjóðlíf að lamast,

(né Ölmu og Víði

sem eru alveg til prýði)

heldur þeim sem er taumleysið tamast.

 

07.10.20

Það var dalalæða í morgun yfir Ölfusánni og fagurt yfir að líta neðan frá ströndinni:

Það lá marengs á marglaga kökunni

í morgun, því skaut ég fram hökunni

og einbeitti mér

að akstri. Nú er

uppleyst, með varma í vökunni.

 

Vinstri grænar konur misstu vatn af vandlætingu yfir því að Ágúst Ólafur vogaði sér að gagnrýna forsætisráðherra, kölluðu það botnlausa kvenfyrirlitningu, og fengu stuðning úr ýmsum áttum. Aðalheiður Ámundadóttir skrifaði leiðara í Fréttablaðið þar sem hún tók ákveðna femínistakreðsu í gegn. Sama dag birtist grein á Netinu með fyrirsögninni: „Við eigum að hlúa vel að píkunni okkar“:

Í stjórnmálum kemstu á klíkunni

að kötlunum – margur vel því kunni.

Ef sannleikann sér

mun heykvíslaher

passa að hlúa að píkunni.

 

19.10.20

Hauströkkrið yfir nú hangir,

herða að vetrarins tangir.

Í myrkri og þögn

metur þín gögn

hvort ei í grafgötur gangir?

 

Vex mér æ farsældarfimin,

ég finn vel að gamla rimin

sem hangi nú í

heldur, sem ný,

ef horfi í stjörnuhimin.

 

28.10.20

Kári Stefánsson var í Kastljósi, hjá Einari Þorsteinssyni sem þótti hafa farið offari gegn Páli Matthíassyni skömmu áður í sama þætti:

Veiran er rokin á ramb,

mót rótinu gagnast ei dramb.

Í Kastljósi Kári,

hinn afburðaklári,

svo Einar er ljúfur sem lamb.

03.11.20

Við lifum nú tímana tætta

og trauðla fáum þá bætta.

Trump gæti tapað,

tunglið vel hrapað

og Steingrímur, hann er að hætta.

 

Spakir nú bíða í spenníngi,

spáð ýmist yl eða renníngi.

Hvernig sem veltist

eða vonbrigðið meltist

eru hliðar tvær hverjum á penníngi.

 

07.11.20

„Make America great again“ er slagorð á derhúfum stuðningsmanna Trumps, með merkimiðanum „Made in China“:

Er innlendan iðnað vill styrkja,

amríska handaflið virkja

og múrana byggja

að mörgu’ er að hyggja

því Kvínverja verður að kyrkja.

 

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *