Eins og nafnið bendir til, „Lifað með landi og sjó“, er bók Jóns Hjartarsonar óður til náttúrunnar. Hún fjallar um heimahaga höfundarins, Strandir æskunnar og fullorðinsár „milli sanda“. Ljóðin einkennast af næmri tilfinningu fyrir undrum náttúrunnar og umhyggju fyrir
„sögunni,
menningunni,
tungunni
og landinu.
Vættir
lands og þjóðar,
varðveita
fjöreggið,
augastein þjóðar,
og gæta þess
að það brotni ekki.“
(14)
Það er samhengi í öllu lífi jarðar en auðfundið á lestrinum að endalok nálgast:
„Ef ræturnar rofna
fýkur umhyggjan
út í veður og vind.“
(48)
„Einn morgunn
stendur amma
á miðju gólfi
og virðir fyrir sér
auðan stólinn.“
(42)
Jón er hápólitískur í sínum kveðskap. Þar er undirliggjandi kvíði fyrir framtíðinni og yfirvofandi endalokum:
„Bergbúinn
stendur vaktina,
undir svörtu hamrastálinu,
brúnaþungur
og langþreyttur
á daufingjahætti
landans.“
(25)
…
„Manneskjurnar
skríða í holur sínar,
bíða af sér storminn.
Of seint að iðrast.“
(23)
En þrátt fyrir váboðana, sem alls staðar eru sýnilegir í náttúrunni, er von, því vorvindurinn
„afísar mýrina
kveikir líf
í veikburða frjóöngum
stararinnar
á nýju vori.“
Þetta er fyrsta ljóðabók Jóns, sem skrifað hefur nokkrar bækur, flestar sögulegar. „Lifað með landi og sjó“ endurspeglar næman skilning á stóra samhengi lífs á Jörðinni, sem allt sprettur af sömu rótinni: Náttúran, sagan, menningin, landið.