Kristín Steinarsdóttir er ein af þeim manneskjum sem tekur sér strax bólfestu í hjarta manns, og dvelur þar ætíð síðan. Kristínu, eða Stínu Steinars eins og hún var jafnan kölluð í vinahópnum, kynntist ég á námsárunum í Kennaraháskólanum 1980-1983. Í bekkjakerfinu í Kennó varð þegar mikill samgangur og samheldni innan bekkja en eftir því sem á leið bættust ný andlit smám saman í kunningjahópinn, ekki síst í kjölfar víðfrægra skólaballa og partýja sem þeim fylgdu. Stína var ekki ein af þeim sem var mest uppi á borðum og þar sem við vorum ekki í sama bekk var það ekki alveg strax sem ég kynntist henni náið.
En það fer ekki hjá því að í stórum hópi dregst hvert að öðru fólk sem finnur samhljóm og á skap saman. Á síðasta árinu okkar í skólanum hafði þannig orðið til vinahópur, þvert á bekkjamörkin, sem gekk kátur og samtaka út í útskriftarvorið og stóð þétt saman, fór t.d. í eftirminnilega helgarferð til Vestmannaeyja. Flest vorum við með B.Ed. gráðunni einmitt að hræra fjölskyldudeigið; að kynnast lífsförunautnum, og gott ef Stína var ekki töluvert upptekin í símanum þessa Eyjahelgi: við hin höfðum a.m.k. um það leyti fengið hugmyndir um einhvern náunga sem hét víst Sigurbjörn.
Eftir skólaárin fer hver í sína áttina, eins og gengur. Sumir verða nánir fjölskylduvinir, aðrir sjást aldrei aftur. Enn aðrir hittast að gefnu tilefni; á útskriftarafmælum eða við aðrar aðstæður. Þannig var því varið með okkur Stínu, þegar frá leið. Við hjónin hittum þau Sigurbjörn t.d. á Landsmótum hestamanna, bæði í Skagafirði og á Gaddstaðaflötum, og gerðum okkur þá glaðan dag saman eina kvöldstund á tjaldsvæðinu. Þrátt fyrir slitrótt samband og allt of fá slík tilefni á þessum bráðum þrjátíu árum sem liðin eru frá Kennóútskriftinni, þá voru vináttuböndin nógu sterk til að sú taug slitnaði aldrei. Okkur þótti einfaldlega svo vænt um hana Stínu.
Kristín var frumkvöðull og leiðtogi, eins og starf hennar að þróun tölvu- og upplýsingatækni í skólakerfinu og baráttan fyrir réttindum og velferð fatlaðra og langveikra barna bera skýrt vitni. Þó er sú mynd af henni ekki sú fyrsta sem kemur upp í hugann þegar maður horfir til baka og virðir hana fyrir sér, sitjandi með bekkjarfélögum sínum við eitt borðið á ganginum framan við kaffistofuna í Kennaraháskólanum. Þá finnur maður allra fyrst hlýjuna og umhyggjuna sem streymir frá henni – þá yfirvegun og ró sem henni var í blóð borin. En þrátt fyrir þessi traustvekjandi megineinkenni í fari hennar er líka áberandi í augnaráðinu sívakandi glettni. Þegar hún brosir, og það gerir hún oft, pírir hún augun svo fallega og gæti alveg átt það til að lauma stríðnislegri athugasemd inn í umræðurnar.
Kristín Steinarsdóttir dó langt um aldur fram þann 12. nóvember síðastliðinn. Hún er ein af þessum fágætu perlum, sem blessunarlega verða þó á vegi manns í lífinu, og mun áfram sindra í minninu.
Við Anna María sendum fjölskyldunni okkar dýpstu samúðarkveðjur.