Kosningaprófin

Það er gaman að þessum kosningaprófum. Væntanlega eru niðurstöðurnar fengnar með því að bera svör þátttakenda saman við stefnuskrár flokkanna. Við það er sá fyrirvari að lítið er að marka stefnuskrárnar; annars vegar er það sem þar stendur gleymt og grafið strax eftir kosningar og hins vegar er þar ýmislegt ósagt sem gert er. Í stefnuskránum er fyrst og fremst það sem flokkshestarnir telja að laði að kjósendur, en hitt sem er nær raunveruleika flokkanna látið ósagt.

Ég játa það að vera ólesinn í stefnuskrám, en ímynda mér að í stefnuskrá Sjálfstæðisflokksins sé t.d. ekkert um að flokkurinn hækki skatta ótæpilega á þá sem lægstar hafa tekjurnar, að í dómstólum og hjá lögregluembættum skuli Sjálfstæðismenn einir vera hæfir til starfa eða að formaðurinn skuli nýta sér innherjaupplýsingar til að lauma undan peningafúlgum.

Sömuleiðis efast ég um að Miðflokkurinn minnist í stefnuskrá sinni á að þingmenn flokksins skuli drekka sig fulla í vinnutíma og hrauna yfir konur og öryrkja eða að formaðurinn skuli geyma fé í skattaskjólum.

Einnig kæmi það verulega á óvart að Framsóknarflokkurinn hafi efnisgrein í stefnuskrá sinni um að eingöngu skuli skipa flokkshesta í opinber embætti og nefndir, hvað þá að einn og sami framsóknarmaðurinn skuli skipaður formaður í tugum nefnda og skólanefndir framhaldsskóla skuli eingöngu skipaðar framsóknarmönnum.

Vinstri grænir gætu haft það í sinni stefnuskrá að ekki skuli leggja sérstakan skatt á ofurríka og að alls ekki megi láta þjóðina njóta sanngjarns arðs af auðlindum sínum. Eða ekki.

Svo fáein dæmi séu tekin af fjölmörgum mögulegum.

Svona eru stefnuskrárnar nú með öllu ómarktækar og niðurstöður úr kosningaprófum því í besta falli til skemmtunar.

Sósíalistaflokkurinn 89%

Píratar 89%

Vinstri Græn 83%

Samfylkingin 82%

Flokkur Fólksins 77%

Frjálslyndi Lýðræðisflokkurinn 73%

Viðreisn 69%

Framsóknarflokkurinn 62%

Miðflokkurinn 54%

Sjálfstæðisflokkurinn 47%

Skrifað 13.09.21

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *