Jólakveðja 2021

Glitvængja gullinn lit

gleypa sé skýjasveip,

dimm er nú gríma grimm,

greið því ei sólu leið,

birtan er varla virt

viðlits af jarðarsmið,

dugar vart hálfum hug

að hífa sig upp til lífs.

 

Árvakur eykið knár,

með Alsvinni, himinsal

dregur of varðan veg,

vel röðul settan tel

því hátt stefnir, eina átt

þó örlítið mjakist för

að lokum frá líður vok,

ljórar um sálarkór.

 

Veröldin vinur er,

veitum það sæmdarheit

af virðingu, visku, kyrrð  

vörð stöndum æ um jörð

er fóstrar við foldarbrjóst

og fegurðin guðdómleg.

Henni sem hýsir menn

hlýði þeir alla tíð.

 

Menningin undrar enn,

allt er í heimi falt,

víða er stress og stríð,

stöðugt fram æðum hröð.

Sér fleytir, án fyrirheits,

fordildargræðgi vor,

við lengjum ei stríðan streng,

stöðvum því neyslukvöð.

 

Viljir þú veita yl

vini í harmadyn

brestina í er best

að berja og gefa‘ af sér.

Forði hlý eru orð

sem endist og vekur kennd

friðar og gefur grið,

svo gangi ný von í fang.

 

Því má bæta við hér neðanmáls að þennan bragarhátt þefaði ég uppi hjá Guðrúnu Þórðardóttur frá Valshamri (og fékk að auki að láni hjá henni kenninguna „harmadyn“) í kvæðinu „Konan í dalnum“. Sjá: Guðrún Ingólfsdóttir. 2021. Skáldkona gengur laus. Bjartur, Reykjavík (bls. 64).

Þetta er allsnúinn bragarháttur að eiga við. Honum svipar um sumt til dróttkvæðs háttar; átta braglínur í erindi og innrím í hendingum, en ekki endarím. Hér eru þó aðeins aðalhendingar en ekki skothendingar og aðalhendingar til skiptis. Þá er hrynjandin ólík; þrátt fyrir að kveður séu þrjár í hverri braglínu eins og í dróttkvæðum hætti eru hér ekki þrír jafnir tvíliðir heldur þríliður, tvíliður og stýfður liður í lok hverrar línu. Má segja að stýfði liðurinn hafi verið einna mesta áskorunin, því hann er rímatkvæði. En alltaf gaman að reyna sig við nýja hætti. Vonandi bitnaði framandleiki bragarháttarins fyrir höfundinum ekki um of á flæði og efni, kliðmýkt kvæðisins.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *