Englaryk
Guðrún Eva Mínervudóttir
JPV útgáfa
Reykjavík 2014
Ekki er ég fastur lesandi Guðrúnar Evu en gæti hugsað mér að kanna höfundarverk hennar betur.
Þetta er vel skrifað, það vantar ekki, ljúfur og fallegur texti, og sögunni vindur hnökralaust fram. Segir af unglingsstúlku í Hólminum og fjölskyldu hennar. Hvörf verða þegar hún hittir Jesú bróður besta á götu úti í sólarlandaferð.
Flækjan sem leysa þarf úr eru þau áhrif á fjölskyldu, vini og nærsamfélag sem það hefur að hún segir frá atburðinum og breytir hegðun sinni í samræmi við hina trúarlegu upplifun.
Persónur eru dregnar nokkuð skýrum dráttum, þær eru trúverðugt, „venjulegt millistéttarfólk“ og fremur viðkunnanlegt barasta.
Helst er að skorti meiri dýpt í þetta allt saman, fyrir minn smekk. Meiri andstæður og átök. Lesandanum er hvergi ögrað að ráði, honum er nokkurn veginn sama um þetta fólk, en söguefnið gefur vissulega tilefni til að kafa dýpra í sálarangist unglingsstúlku á kynþroskaaldri sem lendir upp á kant við fjölskyldu, vini og samfélagsnormin.
En mjög læsileg bók og ábyggilega mörgum að skapi. Því ekki vilja allir hart undir tönn, heldur kjósa fremur auðmeltari rétti.
Skrifað 09.11.21