„Sum skáld fylla margar ljóðabækur, og öldin gerir orð þeirra og hugmyndir að sínum; en svo getur alteins farið að fáar einar línur úr æviverki þeirra lifi þá, og í mörgu falli ekki ein. Ágætur bókmentafrömuður hefur komist svo að orði útaf Söknuði Jóhanns: „Jóhann er eins kvæðis maður og það er honum nóg, margur má una við minna.“ Ég held næstum að óhætt væri að taka meira af: flest skáld verða að láta sér nægja ekki einusinni það. Því þótt þeir hafi ritað þúsund kvæða á þolinmóðan pappírinn, hafa þeir ekki fundið í brjósti þjóðarinnar hið endíngargóða efni er geyma kunni um aldur letur þeirra. Fæst skáld ná því nokkru sinni að skrá letur kvæða sinna í þann stað einn þar sem kvæði eiga heima.
Jóhann yrkir kvæðið Söknuð á þeim misserum er hann hefur öðru sinni kent sjúkdóms þess er dró hann til dauða. Í þessu kvæði eru rakin öll fyrri kvæði hans og svo ævi; og þannig er kvæði þetta að sínum hætti andlátskvæði einsog mörg fegurstu kvæði túngunnar, ort í þann mund er höfundur kveður líf sitt, helgað þeirri stundu þegar ekki er frammundan nema skuggsjá liðinnar ævi manns spegluð í andartaki hans hinstu. Sjálft kvæðið er aðeins bergmál spurnarorðsins: „hvar?“
HKL. 1955. „Formáli að kvæðum og ritgerðum Jóhanns Jónssonar“. Dagur í senn, bls. 77-78. Helgafell, Rvk.
Söknuður
Jóhann Jónsson (1896-1932)
Hvar hafa dagar lífs þíns lit sínum glatað,
og ljóðin, er þutu um þitt blóð frá draumi til draums,
hvar urðu þau veðrinu að bráð, ó barn, er þig hugðir
borið með undursamleikans
eigin þrotlausan brunn þér í brjósti,
vinur?
Við svofelld annarleg orð,
sem einhver rödd lætur falla
á vorn veg ? eða að því er virðist
vindurinn blæs gegnum strætin,
dettur oss, svefngöngum vanans, oft drykklanga stund
dofinn úr stirðnuðum linum.
Og spunahljóð tómleikans lætur í eyrum vor lægra.
Og leiðindin virðast í úrvinda hug vorum sefast.
Og eitthvað, er svefnrofum líkist, á augnlok vor andar,
vér áttum oss snöggvast til hálfs, og skilningi lostin
hrópar í allsgáðri vitund
vor sál:
Hvar!
Ó hvar? Er glatað ei glatað?
Gildir ei einu um hið liðna, hvort grófu það ár eða eilífð?
Unn þú mér heldur um stund, að megi ég muna,
minning, hrópandi rödd,
ó dvel!
En æ, hver má þér með höndum halda,
heilaga blekking!
Sem vængjablik svífandi engla
í augum vaknandi barna
ert þú hverful oss, hversdagsins þrælum,
og óðar en sé oss það ljóst, er undur þitt drukknað
í æði múgsins og glaumsins.
Svo höldum vér leið vorri áfram, hver sína villigötu,
hver í sínu eigin lífi vegvilltur, framandi maður;
og augu vor eru haldin og hjörtu vor trufluð
af hefð og löggrónum vana, að ljúga sjálfan sig dauðan. . .
En þei, þei, þei, – svo djúpt er vor samvizka sefur,
oss sönglar þó allan þann dag
við eirðarlaus eyrun
eitthvað þvílíkt sem komið sé hausthljóð í vindinn,
eitthvað þvílíkt sem syngi vor sálaða móðir
úr sjávarhljóðinu í fjarska.
Og eyðileik þrungið
hvíslar vort hjarta
hljótt út í bláinn:
Hvar? . . . Ó hvar?