Eldur í höfði
Karl Ágúst Úlfsson
Benedikt bókaútgáfa
Reykjavík 2021
Karl Ágúst er vitaskuld landskunnur og dáður höfundur, já og hæfileikaríkur listamaður á mörgum sviðum, en þetta mun vera fyrsta skáldsagan, þó ótrúlegt megi virðast að ekki finnist annað slíkt verk í bólgnu safni hans.
Eldur í höfði fjallar um geðsjúkan mann, þráhyggju hans og veruleikafirringu, og kallast að því leyti á við verkið „Vertu úlfur“ (sem ég hef reyndar ekki lesið heldur „aðeins“ séð í Borgarleikhúsinu). En þetta átti ekki að vera um Unnsteinsson heldur Úlfsson.
Ég verð að segja að nákvæmar útlistanir á stærðfræðiformúlum, verkfræði- og tónfræðilegum úrlausnarefnum eru með miklum ólíkindum, a.m.k. fyrir leikmann á þeim sviðum, og ímynda ég mér, að því gefnu að ekki sé um helberan skáldskap að ræða, að höfundurinn hafi ekki hrist þau vísindi öll fram úr ermi náttsloppsins við kaffidrykkju einn gráan sunnudagsmorgun.
En þetta er býsna góð skáldsaga. Vel fléttuð og vel skrifuð. Og ekki 1000 blaðsíður af málalengingum, eins og nú eru nokkuð í tísku hjá „betri höfundum“. Hér er textinn markviss og á köflum meitlaður, en kemur á sama tíma vel til skila hugarórum og ímyndunarveiki bilaðs manns. Sögupersónunnar. Sem er ekki sjálfgefið að takist. Vel gert.
Ég bíð spenntur eftir næstu skáldsögu Karls Ágústs Úlfssonar.
Skrifað 2. okt. 21