Kona mín varð sextug 14. ágúst sl. og samdægurs var tíu ára brúðkaupsafmælið okkar. Þó liðnir séu rúmir þrír áratugir frá því við „byrjuðum saman“, eins og það er kallað, er hún samt alltaf þessi fallega kona á þrítugsaldri sem ég kynntist fyrir margt löngu og heillaðist af.
Við héldum upp á tímamótin með því að bregða okkur til Krítar í 10 daga og til að gera nú eitthvað til hátíðarbrigða samdi ég handa henni þetta litla ljóð:
Heitir dagar
Glóðheitir dagar
á Krít.
Hrifnæm kona
kemur til mín
með heillandi bros
og hreint.
Vakinn en orðlaus
á hana lít,
þessi fallegu,
tindrandi augu
sem engu
fá leynt;
það eru glóðheitir dagar
á Krít.