Hálfsannleikur oftast er…

Þorlákur Helgason skrifaði fyrir svona hálfum mánuði í blað sitt, Selfoss – Suðurland, fréttaskýringu um stöðu Árborgar. Þar leitaðist hann við að skýra sveiflur í fjárhagsstöðu sveitarfélagsins. Hann benti á þær staðreyndir að á árunum 2002 til 2010 hafi skuldir vissulega aukist, en að augljósar skýringar á því væri að finna í gríðarlegum framkvæmdum og uppbyggingu. Að sama skapi væri núna hægt að lækka skuldir með auknum tekjum og samdrætti í framkvæmdum og uppbyggingu. Formúlan væri svona:

Miklar framkvæmdir og uppbygging = Auknar skuldir.

Takmarkaðar framkvæmdir og uppbygging = Möguleg skuldalækkun

 

Ástæðna fyrir þessari umfjöllun Þorláks er einkum að leita í framhlaupi tímans: Nú líður að sveitarstjórnarkosningum og nauðsynlegt er, að mati hans, að leiðrétta þá einhliða framsetningu á fjárhag og rekstri sveitarfélagsins sem núverandi meirihluti bæjarstjórnar hefur stundað.

Höfuðpaur núverandi meirihluta Sjálfstæðisflokks hefur skýrt sveiflur í fjárhagsstöðunni þannig að bæjarstjórnir áranna 2002-2010 hafi safnað skuldum en undir stjórn hans sjálfs hafi skuldir lækkað. Og þessa framsetningu hefur hann komist upp með, gagnrýnislítið. Formúla höfuðpaursins er svohljóðandi:

Bæjarstjórnarmeirihlutar 2002-2010 = Skuldaaukning

Bæjarstjórnarmeirihluti 2010-2014 = Skuldalækkun.

 

Fyrir sitt leyti er það rétt að skuldir fóru vaxandi 2002-2010 en hafa lækkað nokkuð frá 2010. En framsetning af þessu tagi er ekkert annað en blekkingarleikur. Nýjasta dæmið má lesa í Selfoss – Suðurlandi í dag.

Það sem máli skiptir er einmitt það sem Þorlákur Helgason reyndi að benda á í fyrra tölublaði (hann heldur svo áfram að klappa þann stein í því nýja) að skuldaaukning áranna 2002-2010 er ekki afleiðing þess að tekin hafi verið lán og peningunum hent út um gluggann. Peningunum sem teknir voru að láni var vel varið. Þeim var varið til uppbyggingar á skólum, leikskólum, íþróttamannvirkjum, fráveitumannvirkjum, vatnsveitumannvirkjum og almenningssamgöngum, svo eitthvað sé nefnt. Þetta er ekki glatað fé, heldur liggja sameiginlegir fjármunir íbúa sveitarfélagsins í varanlegum eignum, í þeim grunnstoðum sem nauðsynlegar eru til að þrifist geti gott samfélag.

Og sveitarfélagið tók algerum stakkaskiptum á árunum 2002-2010. Hér er nú nánast allt til alls. Þannig var það ekki vorið 2002. Íbúarnir munu njóta þess til framtíðar að hér var öllum aðstæðum fjölskyldna umbylt til að þær mættu blómstra. Þetta átak kostaði verulega skuldasöfnun en núverandi bæjarstjórn nýtur góðs af uppbyggingunni og getur sem betur fer slakað mikið á framkvæmdahraðanum, horft á síauknar skatttekjurnar renna í kassann og notað þær til þess að greiða niður skuldirnar, í stað þess að velta vöngum yfir því t.d. hversu hratt mögulegt væri með nokkru móti að auka framboð á leik- og grunnskólaplássum til að fylgja íbúafjölguninni. 

Á tímum sem nú, þegar íbúafjöldinn stendur nánast í stað og nauðsynleg þjónustumannvirki sinna þörfinni í stórum dráttum, væri ábyrgðarleysi að greiða ekki niður skuldir, það er í raun sjálfgefin ráðstöfun. Á uppgangstímunum 2002-2008, þegar íbúafjölgunin var um 30% og nauðsynleg þjónustumannvriki önnuðu ekki eftirspurninni nándar nærri, hefði verið ábyrgðarleysi að leysa ekki úr vandanum og fara í þá stórkostlegu uppbyggingu sem við blasir nú. Það kostaði tímabundna skuldaaukningu (jafnvel þó ekki hefði að auki komið til efnahagshrun og margfrægur „forsendubrestur“). Vonandi næst að lækka verulega skuldastabbann áður en næsta íbúafjölgunarhrina skellur á.

En það sem eftir stendur er að útskýringar höfuðpaurs Sjálfstæðismanna í Árborg á sveiflum í fjárhag sveitarfélagsins eru ekki nema hálf sagan, og tæplega það. Og allir vita það víst að…

„hálfsannleikur oftast er

óhrekjandi lygi.“

 

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *