Hálfguðaundrin

Nú stendur íslenska valdaklíkan fyrir harðvítugu áróðursstríði og stöðugum skæruhernaði til að fegra eigin hlut – og endurrita söguna sér í hag. Til þess hefur hún heilt dagblað og fleiri smámiðla, bæði net-, prent- og ljósvakamiðla. Þórður Snær Júlíusson fer ágætlega, í grein í Fréttablaðinu í dag, yfir áróðurstækni lögmanna „hinna miklu íslensku efnahagsundra“ sem eru til rannsóknar vegna ætlaðra efnahagsbrota og segir meðal annars: „Flestir þeirra hafa stórar hugmyndir um eigið ágæti, sumir virðast beinleiðis upplifa sig sem einhvers konar hálfguði, og sjálfsmynd þeirra er beintengd við það sem þeir gerðu á hinum fölsku uppgangstímum“. Þetta sama var tekið til umfjöllunar í pistli hér á síðunni á Þorláksmessu.

En þessar lýsingar eiga ekki aðeins við efnahagsundrin. Þær passa nákvæmlega við á öllum sviðum. Skýrast kemur þetta fram, annars vegar þar sem LÍÚ hamast við að verja hagsmuni stórútgerðarmanna og reynir að telja fólki trú um að allt fari á hausinn ef útgerðin greiddi sanngjarna rentu fyrir aðgang að fiskimiðunum, þyrfti að greiða fyrir hráefnið eins og aðrir atvinnurekendur. Hinsvegar í stjórnmálunum þar sem Sjálfstæðisflokkurinn hamast í fullkomnu æðiskasti við að breiða yfir eigin skít og velta eigin ábyrgð yfir á aðra.

Þetta er aðferðafræði sem flokkurinn hefur notað árum og áratugum saman. Ef þeir lenda í minnihluta einhvers staðar, á þingi, í sveitarstjórnum eða hvar sem er, haga fulltrúar hans sér eins og þeir einir séu réttbornir til valda. Þar er lifandi komin „hálfguðahugmyndin“ sem Þórður nefnir og eftirfarandi lýsing Þórðar á fullkomlega við atferli sjálfstæðismanna þegar þeir lenda í aftursætinu: „Oftast eyða þeir reyndar mestu púðri í að upplýsa hversu léleg rannsóknarskýrslan sé, hversu illa gefnir rannsakendur þeirra séu og hversu illa gefinn fréttamaðurinn sé…“. Ef skipt er út úr tilvitnuninni rannsóknarskýrslunni, rannsakendum og fréttamanninum fyrir það sem á við á hverjum stað og tíma, þá er þetta mynstrið.

Svona er haldið áfram og áfram og áfram endalaust. Allt þar til flokkurinn kemst aftur til valda. Þá er farið að tala fjálglega um siðareglur, heiðarlega umræðu, samstarf og samvinnu. Og hneykslast ógurlega á allri gagnrýni: íbúarnir eigi annað og betra skilið!

Það er alveg gargandi snilld að fylgjast með þessu kjaftæði.

 

 

 

 

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *