Ég gerði mér ferð á laugardaginn í hrossarag. Ætlunin var að taka á hús eitt hross, leirljósa meri stjörnótta, ágætt hross á besta aldri, sem er geld þetta árið. Einnig stefndi ég að því að taka elstu klárana mína þrjá og færa þá á betri haga. Með mér í för var Jasmín, dótturdóttir á 13. ári sem er útsett fyrir hestabakteríunni – og dvaldi hjá ömmu og afa á Selfossi yfir helgina. Og hundtíkin Þula var aftur í skotti, gríðarlega spennt.
Við komum á staðinn og köllum í klárana, sem koma „med det samme“, þiggja brauðbita og múl, og elta viljugir upp á kerru. Þeir eru allir í gullfallegu standi. Þá er að færa sig í næsta hólf, þar sem eru nokkur hross í heyi, m.a. sú leirljósa og fylfull hryssa jarpnösótt, við Þóroddi, hvorki meira né minna. Einnig eru þar tveir klárar sem ég hef nýlega tekið á gjöf og ein þrjú hross önnur, í annarra eigu.
Við Jasmín veifum brauðpokanum og allt hópast í kringum okkur. Ljósbrá, sú leirljósa, lætur leggja við sig án vandræða og teyma upp á kerru viðstöðulaust. Allt er þetta nú alveg yndislegt!
En Galdurssynirnir og albræðurnir Freyr og Þeyr, tiltölulega nýkomnir í hópinn, halda sig í óeðlilegri fjarlægð. Af hverju koma þeir ekki í brauðið? Við röltum af stað til þeirra með plastpokann á lofti og þeir átta sig strax, reisa háls og sperra eyru. En koma ekki á móti okkur. Þegar við erum komin vel hálfa leið til þeirra, gerist það óvænta að þeir hörfa á brott, sveiflandi tagli. Ég botna ekkert í þessu!
En svo átta ég mig. Kemur ekki kvikindi brúnt á fullum spretti fram úr okkur, með hausinn teygðan fram og eyrun límd aftur og hjólar í blessaða klárana mína! Það er alveg eins og þetta illfygli hafi nýlega verið hrakið úr Seðlabankanum, svo illskeytt er það. Hefur auðvitað varið, bæði með kjafti og hófum, helstu gæðin – heyrúlluna – til einkanota fyrir sína nánustu klíku, og lagt á sig langa spretti til að bíta aðra og berja frá, halda þeim tryggilega „utangarðs“.
Ég sé að engra annarra kosta er völ en að forða reiðhestunum mínum úr þessu mötuneyti, en þarf fyrst að fara eina ferð með fulla kerruna. Þegar við Jasmín komum aftur þarf að hrekja þann brúna í örugga fjarlægð áður en klárarnir stillast, svo hægt sé að leggja við þá. Þar sem ég teymi þá í áttina að kerrunni, kemur þá ekki meinhornið einn ganginn enn á fullum spretti! Hvílík heift og langrækni!
Og ég ákveð að forða þeirri fylfullu burtu líka. Þó hún sé í náðinni í augnablikinu er aldrei að vita hvað gerist þegar hún kastar og ég kæri mig ekki um að eiga það á hættu að láta slasa eða drepa fyrir mér folaldið, þegar þar að kemur.