Skerðing lífeyrisréttinda: Eru undirskriftirnar pappírsins virði?

Einhverjar verstu hrakfarir kennarasambandsins í kjaramálum, alla vega á kennaratíð undirritaðs en sennilega fyrr og síðar, eru annars vegar samþykkt sk. vinnumats í framhaldsskólum 2014 og afsal ákv. lífeyrisréttinda með undirritun samnings þar um 2016. Það var þann 19. september 2016 sem forystumenn samtaka opinberra starfsmanna, BSRB, KÍ og  BHM, annars vegar, og vinnuveitendur þeirra hins vegar,  ríkið og Samband íslenskra sveitarfélaga, skrifuðu undir  samkomulag „um breytingar á skipan lífeyrismála opinberra starfsmanna“.

Undir skjalið rituðu f.h. ríkissjóðs Bjarni Benediktsson fjármála- og efnahagsráðherra og Sigurður Ingi Jóhannsson, forsætisráðherra, f.h. SÍS Halldór Halldórsson formaður og Karl Björnsson frkv.stj., f.h. opinberra starfsmanna Elín Björg Jónsdóttir, formaður BSRB, Þórunn Sveinbjarnardóttir, formaður BHM, og Þórður Hjaltested, formaður KÍ.

Tilgangurinn með samkomulaginu var að „koma á samræmdu lífeyriskerfi fyrir alla landsmenn“, þ.e. að samræma lífeyrisréttindi á annars vegar almennum og hins vegar opinberum vinnumarkaði, en lengi höfðu lífeyrisréttindi opinberra starfsmanna verið þyrnir í augum annarra, t.d. samtaka atvinnurekenda, forystusveitar ASÍ og ýmissa starfsstétta á almennum vinnumarkaði.

Samkomulagið fól auðvitað í sér að réttindi opinberra starfsmanna yrðu samræmd að lífeyrisréttindum launafólks á almennum vinnumarkaði, en alls ekki öfugt, þ.e. að réttindi fólks á almennum vinnumarkaði yrðu samræmd að réttindum opinberra starfmanna.

Það var sem sagt, svo það sé ítrekað, gert samkomulag um að skerða lífeyrisréttindi vinnandi fólks. Einhver gæti kannski sagt sem svo, að það væri nokkuð sérstakt, að forystumenn launþegahreyfinga skrifuðu undir samkomulag um að skerða réttindi umbjóðenda sinna.

Hins vegar er skylt að benda á, formönnunum til einhverra málsbóta, að í samkomulaginu stendur skýrum stöfum, svart á hvítu, að réttindi sjóðfélaga „verði jafn verðmæt fyrir og eftir þær breytingar á skipan lífeyrismála sem kveðið er á í samkomulagi þessu“, að við „jöfnun á tryggingafræðilegri stöðu og breytingar á réttindaávinnslu verði verðmæti núverandi sjóðfélaga sérstaklega tryggð“ og að útgjaldaskuldbindingar ríkis og sveitarfélaga „verði sambærilegar við það sem orðið hefði miðað við núverandi skipan“ (1. grein). Svo er það (í 7. grein) ítrekað, að skerðingar lífeyrisréttinda, yrðu bættar þannig að laun og önnur kjör hjá hinu opinbera yrðu samkeppnisfær og að unnið verði „sérstaklega að því að jafna laun einstakra hópa milli almenns og opinbers vinnumarkaðar“, enda sé það mikilvægt að „ekki sé kerfislægur og ómálefnalegur launamunur á milli markaða.“

„Til að ná þeim markmiðum að leiðrétta laun milli markaða skal settur á fót samráðshópur […] sem setja skal „fram tillögur að áætlun um hvernig markmiðum um jöfnun launa skuli náð“ […] og „fylgja eftir framkvæmdinni“.

Samandregið: Fulltrúar opinberra starfsmanna samþykkja breytingar á lífeyrisréttindum félagsmanna sinna gegn loforðum ríkis og sveitarfélaga í undirrituðum samningi um launaleiðréttingu; að launakjör opinberra starfsmanna verði jöfnuð við laun „sambærilegra stétta“ á almennum vinnumarkaði. Ríki og sveitarfélög hafi 6-10 ár til að fullgilda sín loforð, en opinberir starfsmenn gefi eftir sín réttindi á rúmum þremur mánuðum, strax 1. janúar 2017: að lífeyrisskerðingar opinberra starfsmanna yrðu bættar á næstu 6-10 árum með því að jafna laun þeirra við laun á almennum markaði.

En Adam var ekki lengi í paradís. Strax hálfum mánuði eftir undirritunina, 2. október 2016, tilkynnir stjórn KÍ að hún „treysti sér ekki til að styðja nýtt frumvarp um lífeyrissjóði opinberra starfsmanna […]  sem fram kom „í framhaldi af samkomulagi um að búa til nýtt samræmt lífeyriskerfi fyrir allt launafólk“. Raunar var frumvarpið lagt fram á Alþingi 20. september, daginn eftir undirritun samkomulagsins.

„„Af óskiljanlegum ástæðum og án málefnalegra sjónarmiða ætla fulltrúar ríkisins að snúa út úr samkomulaginu svo réttindi sjóðsfélaga verði í reynd ekki tryggð í frumvarpinu,“ segir í tilkynningunni“ frá KÍ, sem jafnframt fór fram á það að málinu yrði frestað svo hægt væri að vinna í því og „tryggja að markmið og forsendur samkomulagsins nái að fullu fram að ganga.“ Ríkið hafnaði þessu auðvitað umsvifalaust, enda búið, með bleki á blað, að ginna forystumenn stéttarfélaga opinberra starfsmanna til að samþykkja stórkostlega skerðingu á kjörum og réttindum félagsfólks. Stjórn KÍ fordæmdi þessi vinnubrögð og minntist á trúnaðarbrest í því sambandi (KÍ styður ekki lífeyrisfrumvarp (mbl.is)).

Skerðing lífeyrisréttinda í LSR er staðreynd. Frá 1. janúar 2023, fyrir tæpum tveimur árum, hefur árleg réttindaávinnsla lækkað að meðaltali um 11,5% og frá 1. júlí 2023 hafa áunnin réttindi fyrir iðgjöld greidd fyrir 1. janúar 2023 skerst um 9,9%. Á móti skertum lífeyrisréttindum hefur „ómálefnalegur launamunur milli markaða“ hins vegar ekki verið bættur. Í þessu samhengi er rétt að benda á að lægri laun opinberra starfsmanna kallaðist „málefnalegur launamunur“, meðan þeir nutu betri lífeyrisréttinda en aðrir. Þegar lífeyrisréttindin hafa verið jöfnuð er slíkur launamunur því ómálefnalegur.

Og launamunurinn er gríðarlegur, miðgildi reglulegra mánaðarlauna fullvinnandi sérfræðinga á almennum vinnumarkaði árið 2023 var 46% hærra en í fræðslustarfsemi (t.d. kennara), skv. gögnum frá Hagstofu Íslands. Lífeyrisréttindin voru skert og launamunurinn jókst. Kennarar, og aðrir opinberir starfsmenn, voru því „teknir í þurrt“ af þessum herramönnum sem skrifuðu undir samninginn f.h. ríkis og sveitarfélaga 2016.  

Nú eru kennarar samningslausir og hafa engum árangri náð í kjaraviðræðum, þó haldnir hafi verið fjórir fundir í vor og einn síðsumars, og fjölmargir árin þar á undan um 7. greinina. Samninganefnd KÍ leggur í núverandi kjaraviðræðum áherslu á fulla virkni þeirrar greinar í fyrrnefndu samkomulagi frá 2016, þ.e. að útfærð verði í kjarasamningi skýr áætlun um það hvernig markmiðum um jöfnun launa milli markaða verði náð.

Eins og oft áður talar samninganefnd KÍ við vegg.

Deilan er komin á borð ríkissáttasemjara og lítil von til þess að eitthvað gerist. Forvitnilegt verður að frétta af langlundargeði samninganefndar KÍ, áður en okkur kennurum verður gert að kjósa um verkfallsboðun.

Rifjum upp hverjir undirrituðu samkomulagið 2016 f.h. ríkisins: Bjarni Benediktsson, þá fjármálaráðherra, og Sigurður Ingi Jóhannsson, þá forsætisráðherra. Það mætti kalla kaldhæðnislegt að þessir menn eru einmitt núna í þessum sömu embættum, hafa bara skipt um stól. Þeim ætti því að vera í lófa lagið að efna eigin loforð og skriflega samninga. A.m.k. ef þeir vilja halda því fram að þeirra eigin undirskriftir séu pappírsins virði …

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *