Heilmikil umfjöllun hefur verið í fjölmiðlum undanfarið um stöðu mála í fangelsum landsins. Þetta er allt frá vönduðum úttektum, viðtölum við fanga, starfsfólk fangelsanna og forstöðumenn, yfir í lítt rökstudda sleggjudóma, eins og gengur og gerist. Fagna ber áhuga á málefnum fanga, aukinni umræðu um aðstæður þeirra og leiðir til úrbóta.
Í þessu sem öðru þarf þó að stíga varlega til jarðar því afar auðvelt er að afvegaleiða umræðuna, öllum til tjóns. Fangelsisvistun er viðkvæmt alvörumál og margslungið sem varðar ekki aðeins viðkomandi einstakling heldur líka brotaþola, ef um hann er að ræða, fjölskyldur beggja og tengslanet. Málefni fanga varða okkur öll og við berum saman þá ábyrgð að reyna af mætti að styðja fanga aftur út í samfélagið og græða sárin. Alhæfingar og sleggjudómar gera lítið gagn en til að stuðla að upplýstri umræðu er ástæða til að fjalla í nokkrum orðum um skólahald í íslenskum fangelsum og menntun fanga.
Kennslu í fangelsinu á Litlahrauni má rekja allt aftur til 1970 þegar áhugasamir íbúar á Eyrarbakka hófu að leiðsegja föngum í föndri og trésmíði. Fljótlega, eða árið 1974, fékk þáverandi forstöðumaður „vinnuhælisins“, eins og fangelsið hét þá, kennara við Barnaskólann á Eyrarbakka til að taka að sér kennslu fanga. Þó upphafið hafi fyrst og fremst verið óformlega tilsögn var markmiðið þá þegar háleitara; að fangar gætu lokið iðnnámi eða öðru námi meðan á afplánun stæði.
Kennsla í log- og rafsuðu hófst 1978 í umsjá fangavarðar en strax þá um haustið var kennslan færð undir Iðnskólann á Selfossi með formlegri stofnun iðnskóladeildar á Litlahrauni 26. nóvember. Á fyrstu starfsönn deildarinnar innrituðust 14 nemendur. Árið eftir kom ríkisvaldið formlega að skólahaldinu og ráðinn var fastur kennari í bóklegum greinum til viðbótar verklegri kennslu iðnskólans.
Þegar Fjölbrautaskóli Suðurlands var stofnaður árið1981 tók hann yfir starfsemi iðnskólans – þar á meðal skólahaldið á Litlahrauni – og allar götur síðan hafa kennarar verið í stöðugum ferðum alla virka daga milli FSu og Litlahrauns. Fyrstu árin fengu nokkrir nemendur af Litlahrauni að stunda fullt nám í dagskóla og öldungadeild á Selfossi með öðrum nemendum. Eftir því sem námsframboð í skólanum á Litlahrauni óx minnkaði þörfin fyrir tímasókn fanga utan fangelsisins, en þeir lengra komnu í námi fengu þó áfram að sækja dagskólann, til að tryggja að þeir gætu útskrifast, í þeim tilfellum þegar ekki var kostur á að kenna ákveðna áfanga í fangelsinu.
Á vorönn 1993 voru kenndar 13 mismunandi námsgreinar og um aldamótin ukust möguleikarnir enn þegar tilraunir hófust með fjarkennslu. Sú þjónusta tók kipp með tilkomu ADSL tengingar í fangelsinu vorið 2004. Síðan þá hafa ekki verið miklar takmarkanir á námsframboði í bóklegum greinum til nemenda í fangelsum. Langflestir fangar eru þó á byrjunarreit í framhaldsskólanámi og þeim stendur til boða staðnám í öllum grunnáföngum sk. kjarnagreina, auk fleiri námsgreina.
Á síðasta skólaári voru nemendur skráðir í 31 mismunandi framhaldsskólaáfanga í 16 námsgreinum. Í takt við námsframboðið fjölgaði nemendum smám saman. Um miðjan 8. áratuginn voru þeir orðnir 20 og næstu tvo áratugina innrituðust að jafnaði 20-30 nemendur á önn. Mikil framför varð í þjónustunni þegar heimiluð var haustið 2007 ráðning náms- og starfsráðgjafa við FSu sem sinna skyldi ráðgjöf við nemendur í fangelsum.
Námsráðgjafinn tók til starfa vorið 2008 og strax um haustið það ár varð sprenging í aðsókn að skólanum á Litlahrauni. Á vorönn 2010 skráðu sig 56 nemendur, en þá hafði verði tekið í notkun fangelsi í Bitru í Flóahreppi sem einnig var þjónustað frá FSu og skóladeildinni á Litlahrauni. Fangelsið í Bitru var stuttu síðar flutt að Sogni í Ölfusi og skólahaldið fylgdi með. Toppi náði skráningin á haustönn 2015 þegar 71 nemandi í þessum tveimur fangelsum skráði sig í skóla, þar af voru 5 nemendur í háskólanámi. Ekki var allur þessi fjöldi við nám á sama tíma en við lok annar voru 42 nemendur á viðvistarskránni. Þess má geta að aðalskólastofan á Litlahrauni rúmar 15 nemendur í sæti en með tveimur öðrum minni kennslustofum í skólanum þar mætti tvöfalda þann nemendafjölda, ef þröngt er setið. Önnur af þessum minni stofum er tölvustofa og nýtt af nemendum sem stunda fjarnám en hin fyrir háskólanemendur eða sérkennslu, eftir aðstæðum hverju sinni.
Af ýmsum ástæðum hefur aðsókn í skólann minnkað aftur, m.a. vegna breytinga á lögum um fullnustu refsinga sem losuðu marga fanga úr prísundinni eða flýttu för þeirra í „opin úrræði“. Nú er nemendafjöldi á Litlahrauni aftur kominn í það jafnvægi sem lengst af hefur verið, milli 20 og 30 nemendur, og að Sogni eru að jafnaði við nám um 10 nemendur hverju sinni.
Kennslustjóri og náms- og starfsráðgjafi eru með sína aðal starfsaðstöðu á Litlahrauni en heimsækja báðir Sogn reglulega og halda auk þess tengslum við nemendur sem fluttir eru í önnur úrræði, ef þeir óska þess. Báðir aðilar eru í ágætu sambandi við heilbrigðisteymi, almenna starfsmenn og forstöðumenn fangelsanna og Fangelsismálastofnun. Að jafnaði sinna um 15 kennarar af ýmsum fræðasviðum nemendum í fangelsunum. Í skólann á Litlahrauni koma reglulega 6 kennarar frá FSu, ýmist einu sinni eða tvisvar í viku hver, og Sogn heimsækja þrír kennarar vikulega.
Stöðuhlutfall kennslustjóra FSu í fangelsum er 50%. Hann skipuleggur námið og skólastarfið, er tengiliður milli nemenda og kennara, heldur utan um skráningar, námsferla, viðvistarskráningu og þóknanir, sér um fjarnám og aðstoðar nemendur við það, og er í nánast daglegum samskiptum við nemendur.
Stöðuhlutfall náms- og starfsráðgjafar er 100%. Af því er meginhlutinn, eða 75%, nýttur á Litlahrauni og Sogni en 25% hefur verið útvistað til að sinna fangelsunum að Kvíabryggju og á Akureyri. Náms- og starfsráðgjafi hefur verið í reglulegu sambandi við önnur fangelsi og heimsótt þau og fór t.d. eftir þörf í fangelsin í Kópavogi og á Skólavörðustíg meðan þau voru starfrækt. Viðtölunum má gróflega skipta í persónuleg málefni, ráðgjöf við val á námi og áhugasviði, ráðgjöf við nemendur með sérþarfir og námstækni/skipulag. Hann styður við nemendur og liðsinnir þeim við námið og þá þætti sem áhrif hafa á námsframvindu þeirra. Aðstoðin beinist að því að auka þekkingu nemenda á sjálfum sér, viðhorfum sínum, áhuga og hæfileikum. Ráðgjöfin miðar að því að fræða nemendur um námsleiðir og störf til að auðvelda ákvörðun um hugsanlegt nám eða starf að afplánun lokinni.
Samkomulag var gert við Hljóðbókasafn Íslands um að veita nemendum í fangelsunum aðgang að námsefni á rafrænu formi óháð því hvort fyrir liggi greining eins og venja er. Fyrirhugað er að auka verknám, aðgengi að hugbúnaði fyrir lesblinda og auka almenna fræðslu er snýr að námi í formi fyrirlestra og/eða námskeiða.
Auk góðs aðgengis að kennslustjóra og náms- og starfsráðgjafa í einkaviðtölum hefur þjónustan nýlega verið bætt með fastri, vikulegri viðveru sérkennara á Litlahrauni og heimsóknum í fangelsið að Sogni eftir þörfum. Hann sér um greiningar og sérhæfða aðstoð við nemendur sem þess þurfa, en flestir nemendanna glíma við raskanir af einhverju tagi, lestrarerfiðleika, athyglisbrest, fíkn o.s.frv. Í því samhengi er rétt að fram komi að tekið er sérstakt tillit til þessara aðstæðna við skipulagningu skólastarfsins. Sveigjanleiki og þolinmæði gagnvart námsframvindu er mun meiri en í skólakerfinu almennt. Kemur það annars vegar til af námslegri stöðu og afstöðu nemendanna, sem hafa oftar en ekki neikvæða reynslu af skólagöngu, og hinsvegar af þeim ytri aðstæðum sem þeir ráða ekki við; upphaf afplánunar er ekki skipulögð með tilliti til skólaársins en mikilvægt er að fangar geti hafið nám sem allra fyrst eftir að afplánun hefst. Það getur verið á miðri önn, eða viku fyrir skólalok, og ekki raunhæft að ljúka áföngum með viðunandi námsmati á svo skömmum tíma. Nemendur fá því að skrá sig og hefja nám hvenær sem þeim hentar, og halda svo áfram þar sem frá var horfið á næstu önn ef ekki vinnst tími til að ljúka náminu fyrir annarlok.
Mjög margt í umhverfi fanga getur truflað einbeitingu þeirra að námi. Nægir að nefna fyrirtöku mála, dóma, flutning milli vistunarúrræða, fíkniefnaneyslu og einangrunarvistun vegna agabrota. Við slíkar aðstæður hverfur oftast öll einbeiting og hlé verður því á framvindu námsins um lengri eða skemmri tíma. Það er grunnstefna og leiðarljós í öllu skipulagi starfsins að skólinn sé nemendum ávallt opinn og þeir geti komið aftur eins og ekkert hafi í skorist þegar aðstæður þeirra hafa breyst til batnaðar.
En hvað með námsframboðið? Hafa fangar möguleika á því að ljúka námi með þeim réttindum sem því fylgir? Þetta er misjafnt eftir námsleiðum og brautum. Þó nokkur fjöldi nemenda hefur lokið stúdentsprófi af mismunandi bóknámsbrautum, jafnvel skilað metfjölda eininga og útskrifast af fleiri en einni braut. Fullyrða má að allt sé gert sem hægt er til að tryggja þeim sem komnir eru vel á veg í námi viðunandi þjónustu og tækifæri til að ljúka sínu námi, í fjarkennslu ef ekki er mögulegt að bjóða upp á staðkennslu í sérhæfðum áföngum. Fjarnámstilboð hafa ekki verið einskorðuð við FSu heldur eru nemendur aðstoðaðir við að finna hentugt nám við aðra skóla þegar þess er þörf.
Nú er hæsti hjallinn yfir að klífa verklegi hluti iðn- og starfsnáms. Þar strandar á tólum, tækjum og aðstöðu. Engin verknámsaðstaða er í íslenskum fangelsum, nema á Litlahrauni, og þar er hún af skornum skammti. Lengi hefur þar verið kennd raf- og logsuða, við aðstæður sem brýnt er þó að bæta sem fyrst. Einnig eru kenndir grunnáfangar í plötusmíði og stöku áfangar í grunnnámi bíliðna, en lengra nær það ekki.
Um þessar mundir er verið að stíga skref í rétta átt með lagfæringu og endurskipulagningu verkstæðis, þar sem verkleg málmiðngreinakennsla fer fram. Á Litlahrauni er líka „trésmíðaverkstæði“ sem deilir húsnæði með bílaþvotta- og bónstöð. Fangar hafa í gegnum tíðina smíðað þar margan nytjahlutinn, oft eftir eigin teikningum, auk persónulegs föndurs af ýmsu tagi. Aðstöðu til trésmíða mætti gjarnan afmarka betur og bæta, efla það góða starf sem þar er unnið og tengja betur skólastarfinu með formlegum hætti. Mikilvægasta framfaraskrefið varðar sennilega tæki og tól. Þau eru mörg lúin og úr sér gengin, þó enn séu flest brúkleg að kalla. Smíðavélar eru dýrar og kalla á sérstaka fjárveitingu, og almennt er verknám mun dýrarar en bóknám. Það skyldi þó ekki vera ástæðan fyrir því að svo lítil áhersla sem raun ber vitni er á verknám í skólakerfinu hér á landi?
Það er alveg ljóst að húsnæði er til staðar á Litlahrauni til að koma upp viðunandi aðstöðu fyrir ýmiskonar verknám og að ekki kostar mikla fjármuni að breyta því í þokkalegt kennsluhúsnæði. Vilji er fyrir hendi hjá skóla- og fangelsismálayfirvöldum og unnið er að endurbótum – en vélar og kennslubúnað skortir.
En hvað með nýja fangelsið á Hólmsheiði, sem einna mest hefur verið í umræðunni? Er það bara „letigarður“ með niðurbrjótandi aðgerðarleysi, eins og nýverið var haldið fram í fjölmiðlum? Forstjóri Fangelsismálastofnunar hefur svarað fyrir vinnu- og tómstundaframboð þar, og minnst hefur verið á nám þar í framhjáhlaupi.
Við hönnun Hólmsheiðarfangelsisins voru lagðar þær línur að þar yrði ekki um að ræða hefðbundið skólastarf og því ekki þörf fyrir venjulegar kennslustofur. Eitt rými er þar, sem skipta má í tvennt með draghurð, sem hugsað er sem námsver og bókasafn. Þar eru nokkrar nettengdar tölvur sem vistmenn hafa daglega aðgang að til að stunda nám.
Náms- og starfsráðgjafi FSu kemur þangað sem stendur vikulega og aðstoðaði strax eftir áramótin nokkra nemendur svo þeir gátu hafið fjarnám við FÁ. Almennt taka skólar ekki við nýjum nemendum nema í upphafi hverrar annar en FSu, móðurskóli fangelsiskennslu á Íslandi, hefur þróað þjónustu sína til móts við þarfir nemenda í fangelsum, eins og lýst var hér framar.
Kennslustjóri og sérkennari hófu því einnig nú í mars vikulegar heimsóknir til að veita viðtöl og aðstoð svo fleiri nemendur geti hafið nám. Meiningin er að halda þessu áfram til vors, þannig að nemendur á Hólmsheiði geti fengið persónulega aðstoð tvisvar sinnum í viku við sitt fjarnám. Framhaldið er háð því að meira fjármagn fáist til að sinna þessari auknu þjónustu til frambúðar, og að mótuð verði sú heildarstefna fyrir skólahald í fangelsum sem kallað hefur verið eftir.
Kennslustjóri og náms- og starfsráðgjafi FSu í fangelsum hafa ítrekað að eigin frumkvæði ýtt á stefnumótun í menntunarmálum fanga með margvíslegum hætti. Nú er t.d. unnið að undirbúningi þróunarverkefnis um rafrænt námsefni, sem hefði þann meginkost að nýtast í öllum fangelsum jafnt, og gagnast ekki síst nemendum með sérþarfir. Með þátttöku skólayfirvalda í FSu og fangelsismálayfirvalda var ráðuneytum mennta- og dómsmála sent erindi fyrir rúmi ári síðan þar sem óskað var eftir því að yfirvöld hlutuðust til um að koma á fót starfshópi þessara aðila allra til að móta heildarstefnu um málaflokkinn, áður en fangelsið á Hólmsheiði tæki til starfa, þannig að um leið og fyrstu fangarnir hæfu þar afplánun lægi ljóst fyrir hvaða nám þeim stæði til boða, hver ætti að sjá um það og hvernig. Til að gera langa sögu stutta hefur erindinu ekki enn verið svarað.
Mikill vilji er til þess meðal starfsmanna og skólayfirvalda FSu að bæta þjónustu við nemendur í fangelsum og að þjónusta fangelsið á Hólmsheiði með sambærilegum hætti og önnur fangelsi. Það ætti þó að vera augljóst að þjónusta við nýtt, stórt fangelsi rúmast ekki innan þess ramma sem fyrir er. Þörf er á auknu fjármagni og stöðugildum. Og, áður en meiri peningum verður ráðstafað úr ríkissjóði, þyrfti Alþingi helst að móta langtímastefnu um málið.
Til að loka hringnum og svara upphafsspurningunni er óhætt að fullyrða, þó umbóta og þróunar sé vissulega þörf, að í íslenskum fangelsum þarf enginn að vera aðgerðarlaus vegna skorts á tækifærum til náms.