Enn skal brýnt og skorið – Sunnlendingar aftastir á fjárlagamerinni

Það er ekki ofsögum sagt að fjárlagafrumvarpið sem nú er til umræðu í þinginu hafi valdið titringi víða: innibyrgðum gleðihristingi til sjávar, en ónotahrolli bæði í sollinum og til sveita. Töldu margir að eftir hin mögru ár í kjölfar tæknilegs gjaldþrots Seðlabankans og ríkissjóðs væri botninum náð og niðurskurðarhnífurinn yrði lagður á hilluna um sinn. En aldeilis ekki. Enn skal brýnt og skorið. Það vekur sérstaka athygli margra og óhug að undir hnífinn er leidd sjálf kýrin Velferð, sem þegar má telja í rifin af löngu færi, en tuddinn Stórútvegur, sem rorrar í þverhandarþykku spiklagi, fær a.m.k. næsta aldarfjórðunginn að graðga í sig kjarnfóðrinu, óáreittur í kálgarði kerlingar, sem á tyllidögum er víst kölluð fjallkona.

Reyndar eru Sunnlendingar orðnir þaultamdir í því að vera undirmálsfólk þegar kemur að fjárveitingum frá ríkisvaldinu til byggðaþróunarverkefna ýmiskonar, t.d. á sviði menningar- og fræðslu, að undanskildum Vestmannaeyingum sem ávallt tekst að koma ár sinni vel fyrir borð, og því ætti það kannski ekki að koma á óvart að ríkisstjórnin ráðist með fjárlagafrumvarpið að vopni þar að sem minnstrar mótstöðu er vænst: á hinn sunnlenska menntagarð.

Eftir áralanga baráttu tókst loks að knýja ríkisvaldið til að skrifa undir samninga um viðbyggingu við Hamar, verknámshús Fjölbrautaskóla Suðurlands. Öllum ætti að vera kunnugt um hvernig eigendur skólans, sveitarfélögin á Suðurlandi, hafa með framsýni og óbilandi trú á gildi öflugrar menntastofnunar í héraði tekið frumkvæðið aftur og aftur þegar nauðsyn hefur kallað á stækkun og viðbætur við skólann. Sú saga hefur verið margrakin hvernig safnað hefur verið í sjóði til að hefja framkvæmdir – og lána ríkinu fyrir sínum hlut – til að gera þennan skóla að því sem hann er orðinn. Það sama gildir um fyrirhugaða og löngu tímabæra stækkun verknámshússins.

Nú gerist það, undir langþreyttum eilífðarsöng sitjandi menntamálaráðherra um mikilvægi þess að efla verknám í landinu, að undirritaðir samningar um fjárveitingar til verknámshúss FSu. eru dregnir undir nýbrýnda niðurskurðarbredduna.

Á Suðurlandi eru fleiri öflugar menntastofnanir en FSu. Fræðslunetið – símenntun á Suðurlandi hefur starfað af krafti síðan 1999, og með síauknum umsvifum. Frá upphafi hefur Fræðslunetið boðið upp á símenntun og fullorðinsfræðslu, bæði nám í tengslum við skólakerfið og fjölbreytt tómstundanámskeið. Síðustu ár hefur sérstök áhersla verið lögð á að efla þann hóp fólks sem horfið hefur frá hefðbundnu námi án þess að ljúka viðurkenndum prófum. Í þessu sambandi má nefna námsleiðir eins og Grunnmenntaskólann, Aftur í nám og Raunfærnimat iðngreina, þar sem fólki sem unnið hefur lengi við iðn sína án tilskilinna réttinda gefst kostur á að fá reynslu sína og sérþekkingu metna til eininga í skólakerfinu. Fræðslunetið hefur nýlega tekið undir sinn væng Fjölmennt, símenntunar- og þekkingarmiðstöð fatlaðs fólks, og það miðlaði háskólanámi heim í hérað þar til sunnlensk sveitarfélög, önnur en Vestmannaeyjabær, stofnuðu formlega Háskólafélag Suðurlands þann 19. des. 2007. Háskólafélagið hefur gefið fjölda manns tækifæri til að stunda háskólanám í ýmsum greinum án þess að þurfa að rífa sig upp og flytja í önnur héruð. Mikilvægi þess verður seint fullmetið.

Á vegum Háskólafélagsins, og í samstarfi þess og Fræðslunetsins, hefur verið stofnað til metnaðarfullra verkefna til að efla þær sunnlensku byggðir sem staðið hafa höllustum fæti hvað varðar atvinnutækifæri og íbúaþróun. Þar má til dæmis nefna Kötlu-jarðvang , sem er þegar orðin alþjóðlega viðurkennd vísindastofnun, og nú síðast stofnun þekkingarseturs í Vík og á Kirkjubæjarklaustri, með starfsmanni sem ætlað er að meta menntunarþörf á svæðinu, skipuleggja námskeið og hvetja íbúa til að nýta sér ný tækifæri til menntunar. Þetta síðasttalda, bráðnauðsynlega verkefni er grundvallað á fjármunum í Sóknaráætlun Suðurlands, sem öllum að óvörum hefur verið þurrkuð út úr fjárlagafrumvarpinu og því er staða verkefnisstjórans, og verkefnið í heild sinni, í algjöru uppnámi.

En víkjum nú að upphafi þessa máls og langlundargeði sunnlenskra gagnvart grófri mismunun þegar kemur að útdeilingu byggðaþróunarframlaga ríkisins til landshlutanna. Aðilar að Kvasi, samtökum fræðslu- og símenntunarmiðstöðva, eru alls 11 á landinu öllu. Að auki eru starfandi staðbundnir háskólar á Vestfjörðum (á Ísafirði), Vesturlandi (á Bifröst og Hvanneyri), Norðurlandi vestra (að Hólum í Hjaltadal) og í Eyjafirði (Háskólinn á Akureyri) og svo þekkingarsetur sem hafa með háskólanám að gera í Þingeyjarsýslum, á Austurlandi, á Suðurlandi, Suðurnesjum og í Vestmannaeyjum.

Þessi fimm síðasttöldu svæði má segja að búi við sambærilegar aðstæður, að því leyti að þar eru bæði símenntunarmiðstöð og þekkingarsetur um háskólanám. Hugtakið „sambærilegar aðstæður“ nær þó ekki nema til hinna ytri aðstæðna og þjónustunnar sem veitt er; þegar kemur að fjárveitingum verður þetta hugtak, eins og sum önnur, heldur en ekki teygjanlegt. Í eftirfarandi töflu kemur þetta vel fram:

Stofnanir í viðkomandi
fimm landshlutum
Fjárlagafrv.
2014
Samtals
(milljónir)
Þekkingarnet Þingeyinga
38,5
38,5
Þekkingarnet Austurlands
Fræða- og þekkingarsetur á Vopnafirði
56,5
8,8
65,3
Fræðslunetið – símenntun á Suðurlandi
Háskólafélag Suðurlands
18,8
15,5
34,3
Miðstöð símenntunar á Suðurnesjum
Þekkingarsetur Suðurnesja
21,5
16,0
37,5
Fræðslu- og símenntunarmiðst. Vestm.
Þekkingarsetur Vestmannaeyja
21,5
25,4
 46,9

Af þessum samanburði má glöggt sjá að Sunnlendingar eru aftastir á merinni. Rökin um nálægð við Reykjavík halda ekki, því þó álíka langt sé til höfuðborgarinnar frá t.d. Keflavík, Selfossi og Borgarnesi, þá vandast málið nokkuð fyrir þá röksemdafærslu þegar komið er í uppsveitir Árnessýslu, Rangárvallasýslu, að ekki sé talað um Skaftafellssýslurnar eða Hornafjörð, sem sótt hefur um aðild að Fræðslunetinu- símenntun á Suðurlandi frá og með næstu áramótum. Til að setja fjárveitingar skv. fjárlagafrumvarpi 2014 í samhengi við íbúafjölda og landfræðilegan veruleika (stærð í km2 og lengd vegakerfis) er gagnlegt að skoða næstu töflu:

Svæði
Fjárv. / íbúa
Fjárv. / km2
Fjárv. / km
Vestmannaeyjar
11.111
2.710.983
6.700.000
Þingeyjarsýslur
7.986
2.085
39.007
Austurland
5.252
2.940
27.681
Suðurnes
1.768
45.181
176.056
Suðurland
1.749
1.393
11.437

Af þessum samanburði ætti enginn að velkjast í vafa um það hverjir bera skarðan hlut frá borði. Rétt er að taka fram að í þessum útreikningum er Hornafjörður hluti Austurlands. Ef áætlanir ganga eftir munu Hornfirðingar hins vegar starfa með Sunnlendingum frá og með næstu áramótum, og mun þá halla enn frekar á Suðurland, þar sem ekki er í fjárlagafrumvarpinu tekið neitt tillit til þeirrar gríðarlegu stækkunar þjónustusvæðis Sunnlendinga sem yfirvofandi er og menntamálaráðuneytinu er fullkunnugt um. Allt tal um jafnræði íbúa í þessu landi til menntunar verður í ljósi þessa í besta falli hlægilegt.

Það er þó huggun harmi gegn að á fundi sem þingmenn Suðurlands héldu nýverið með sveitarstjórnarfólki og fleirum í Ráðhúsi Árborgar, sóru nær allir stjórnarþingmennirnir af sér ábyrgð á þessum nöturlegu tölum. Við getum þá treyst því að þeir muni ekki samþykkja fyrirliggjandi fjárlagafrumvarp óbreytt?

Það sem er þó ekki síður mikilvægt fyrir þingmennina, annað en að koma skikki á fjárlög 2014, er að tryggja að þar til bært fólk setjist yfir það nú þegar að útbúa vitræna reiknireglu sem tryggi til frambúðar jafnræði milli landshlutanna hvað varðar fjárframlög til símenntunarstöðva og þekkingarsetra.

Greinin birtist í blaðinu Selfoss – Suðurland (21.tlb. 2. árg.) 7. nóvember 2013

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *