Framkvæmdaglaðir Íslendingar hafa árum saman hæðst að þeim samborgurum sínum sem talað hafa gegn stöðugum stórvirkjanaframkvæmdum fyrir erlendan áliðnað og aðra stóriðju. Þeir sem hafa viljað meta einhvers náttúruna af sjálfri sér, en ekki aðeins út frá nýtingarhlutfalli eða hagtölum, eru umsvifalaust dæmdir sekir fyrir að vera á móti atvinnuuppbyggingu og framförum. Þeir eru beðnir um að benda á aðrar leiðir og ef þeim vefst tunga um tönn eða hafa ekki á takteinum fullmótaðar hugmyndir og exelskjöl stútfull af tölum um fjölda beinna starfa og afleiddra, útflutningstekjur, hagvöxt og auknar skatttekjur ríkisins, eru þeir léttvægir fundnir: Þeir eru í hæðnistón sagðir bara vilja gera „eitthvað annað“ – og svo er hlegið með öllum kjaftinum.
En það er styttra í þetta „eitthvað annað“ en sumir virðast kæra sig um að skilja.
Hörður Arnarson, forstjóri Landsvirkjunar, telur að á næstu 15-20 árum muni Íslendingar hafa yfirbugað alla óvirkjaða vatns- og varmaorku sem nýtanleg sé í landinu.
Einn og hálfur til tveir áratugir er ekki langur tími.
Jafnvel þó Hörður þessi sé hugsanlega óþarflega svartsýnn og við höfum enn 30-40-50 ár, þá er ekki langur tími til stefnu. Og jafnvel þó þessar 11 teravattstundir sem Hörður segir vera á 15 ára áætlun, til viðbótar við þær 17 sem þegar eru framleiddar af rafmagni, verði að 15 teravattstundum, öðrum 17 eða jafnvel enn meiru, þá fer ónýttum teravattstundum hratt fækkandi. Allir ættu að skilja að það kemur að þeirri stund að engar teravattstundir verða eftir, ekki einu sinni til að virkja á næsta ári, hvað þá áratugi fram í tímann. Skilja þetta ekki örugglega allir? Eða hvað?
Hvað ætla íslenskir jarðýtumenn að gera eftir örfáa áratugi, þegar jarð- og vatnsorkan er fullnýtt? Ætla þeir þá að kyngja hæðnishlátrinum og byrja að „gera eitthvað annað“? Eða ætla þeir kannski bara að berja hausnum áfram við steininn (eða stinga honum í steininn, eftir atvikum)?
Þurfum við sem nú lifum endilega að klára allar teravattstundirnar? Er það ábyrg afstaða að láta ófæddar kynslóðir alfarið um það að „gera eitthvað annað“? Alveg burtséð frá því að við tökum um alla eilífð frá ófæddum Íslendingum fegurð fossa og annarra náttúruvætta, þá held ég að það sé bæði hófsöm og sanngjörn fullyrðing að segja að svo sé ekki.
Getum við ekki öll sammælst um að hætta þessari vitleysu? Fara að selja dýrmæta orkuna okkar á sanngjörnu verði, í smærri skömmtum og á lengri tíma, en einbeita okkur fyrir alla muni að því strax að fara að „gera eitthvað annað“?