Sigurður Sigurðarson dýralæknir sendi félögum í Kvæðamannafélaginu Árgala nokkra fyrriparta, til að botna fyrir Einmánaðarfund félagsins. Tilgangurinn var ekki síst að æfa fjölbreytni í vísnagerðinni. Ég fór svona að:
Breiðhenda:
Einmánuður andar hlýju,
opnast brum á greinum trjánna.
Logar sól um land að nýju,
leikur glatt í straumi ánna.
Langhenda:
Einmánuður andar hlýju,
opnast brum á greinunum.
Í morgunsárið, eftir níu,
augun þorn’ á steinunum.
Draghenda:
Einmánuður andar hlýju,
opnast brum á greinum.
Andinn verður ör að nýju
öllum gleymir meinum.
Skammhenda:
Einmánuður andar hlýju,
opnast brum á grein,
hverja sólar gleypir glýju,
gleðin ríkir ein.
Úrkast:
Einmánuður andar hlýju,
opnast brumin.
Frjóin vori fagna nýju
frá sér numin.
Dverghenda:
Einmánuður andar hlýju,
opnast brum.
Dagsins sjá þau dýrð að nýju
en deyja sum.