Austurleitarvísur

Fjallferð Austurleitar á Grímsnesafrétti

 

Austurleitin enn skal halda inn til fjalla,

um birkihlíðar, bratta stalla,

bunulæki, gil og hjalla.

 

Hófasláttinn herða má við háar brúnir

Hrossadals, í friðinn flúnir

fjallmenn, samt við öllu búnir.

 

Kætir geð að komast inn úr Klukkuskarði.

Um hvað rætt þó engan varði,

og eitthvað lækki pelans kvarði.

 

Leiðin síðan liggur norður Langadalinn.

Faðma allan fjallasalinn.

Fegurst þessi afrétt talin.

 

Undir kvöldið lenda Kerlingar við kofa.

Jafnan farið seint að sofa

og sungið eins og raddbönd lofa.

 

Kamarinn í Kerlingu er kúnst að nýta:

Þú berar úti bossann hvíta

og bakkar inn, til þess að skíta.

 

Aftur sama aðferð þegar út er farið;

á hækjum sér, með höfuð marið

og helgidæmið allt óvarið.

 

Héðan fjallmenn hálfan ríða hring um Breiðinn.

Kargaþýfð og löng er leiðin.

Já, lystug verður blóðmörssneiðin.

 

Fyrst skeiðið renna, skála undir Skriðuhnjúki.

Flæðir þaðan mosinn mjúki,

móðir jörð sem þakin dúki.

 

Höfuð ber og herðar yfir, Hlöðufellið.

Það augum kastar, ansi brellið,

yfir hraun og jökulsvellið.

 

Á feti ríður flokkurinn á Fífilvelli.

Tign er yfir Tjaldafelli

sem tekur undir smalans gelli.

 

Ei lokka Skersli. Lengra sér til Lambahlíða.

Þangað ekki þarf að ríða

þó að sjáist „kindur“ víða.

 

Skyggnst er um af Sköflungi og Skjaldbreið líka.

Spariklæðum fjöllin flíka.

Fegurð sem á enga líka.

 

En skelfing líkjast skítahraukum Skefilfjöllin!

Eins og hafi hægt sér tröllin

á harðaspretti suður völlinn.

 

Teygist líka töluvert úr Tindaskaga

enda tröllin oft að plaga

iðrakveisur, forðum daga.

 

Hrafnabjargahálsinn þykir hörmung sveitar

sem blá af kulda bráðum neitar

að bíða komu Vesturleitar.

 

Öræfanna úti brátt er ævintýri.

Kveður fjallaheimur hýri

er heilsar smölum Kringumýri.

 

Að lokum þarf að lóna suður Lyngdalsheiði.

Jafnan ber þar vel í veiði,

vænir dilkar á því skeiði.

 

Rökkurvökur, rómur hás og rassinn sári!

Þokkalegur, þessi fjári,

en þeginn vel á hverju ári.

 

Þó að smalar þvældir gerist, þverri kraftur,

í skinni brennur brátt hver kjaftur

og bíður þess að fara aftur.

 

Birtist áður í Hvatarblaðinu, málgagni Umf. Hvatar í Grímsnesi, sept. 2013

 

 

Himneskt haust?

Sumarið hefur verið heldur vætusamt, svo jafnvel sækir leiði að besta fólki. Undanfarnir septemberdagar hafa hins vegar verið með ágætum, og þá eru vonirnar fljótar að glæðast:

Sumar bauð það súran kost
að seint úr hug mun líða.
Náði hingað næturfrost.
Nú er sól og blíða.

Það er ei við leiða laust
af langri sumars vætu
en fáum við kannski himneskt haust
með hita og sólarglætu?

Lífs míns á vegi

Í dag eru 30 ár frá því ég hitti konuna mína fyrst. Ég var tæpra 22 ára gamall þennan apríldag þess dásamlega vors árið 1983, ekkert annað en unglingsgrey sem lítið vissi um það sem máli skiptir í lífsbaráttunni, þó ég þættist náttúrulega hafa svör á reiðum höndum við flestu, eins og gengur.

Þetta var sem sagt vorið þegar útskriftin úr Kennó var á næsta leiti og býsna margt að gerast – allt skemmtilegt. Við kynntumst fyrir algera tilviljun, í gegnum sameiginlega vini, á skemmtistað í Reykjavík sem þá var í móð og hét Hollywood. Við vorum samt alveg ábyggilega bæði ‘úr móð’ þarna inni, innan um diskóliðið. Vonandi bæði hallærisleg og sveitó í þeim samanburði. En náðum svona ljómandi vel saman, eitthvað.

Þeir sem þekkja Önnu Maríu vita hve yndisleg hún er í alla staði, svo ég þarf ekkert að útmála það hér, hún lýsir sér best sjálf. En í tilefni dagsins birti ég hér afmæliskvæði sem ég orti einu sinni til hennar:

Ástin mín

Lífs míns á vegi,
vakir enn minningin
frá örlagadegi
er dró stóra vinninginn.
Þá óvænt hitti
þig í fyrsta sinn.
Féll í stafi,
starði á þig hugfanginn.

Fór af mér glansinn
er góndi í augu þín.
Bauð samt í dansinn,
þú brosandi komst til mín.
Sveifstu um gólfið,
geislandi og hlý.
Meðan lifi
mun ég aldrei gleyma því.

Ég varð ástfanginn
það eina sinn.
Hélt um sólina og himininn!
Hvergi undur lífsins samt
ennþá  skil – þar duga skammt
skilningarvitin.

Dásemdir hreinar:
dillandi hláturinn,
tindrandi steinar,
treginn og gráturinn.
Allt sem þú gerir
innst við hjarta grær.
Sífellt betur
sé ég hve þú ert mér kær.

Laus við allt stress

Það eru liðnir rúmir þrír mánuðir síðan ég skrifaði síðast pistil hér á síðuna.  Ekki svo að skilja að nokkur maður sakni þess, en ástæðurnar fyrir þessari löngu „þögn“ eru nokkrar. Í fyrsta lagi hefur verið afar mikið að gera. Vinnan vill þvælast fyrir manni, fram á kvöld og um helgar líka. Svo er nóg að gera í tamningunum. Karlakórinn, Árgali. Að ekki sé talað um alla körfuboltaleikina sem bæði er ljúft og skylt er að sækja.

Ég er búinn að skrifa svo mikið um mennta- og skólamál að ég nenni því ekki lengur, í bili a.m.k. Í annríkinu kemur svo andinn ekki almennilega yfir mann – alla vega lætur ekkert birtingarhæft á sér kræla.

Og pólitíkin, maður lifandi! Hún er með slíkum endemum að þyrmir alveg yfir mann. Best að hafa ekki orð um það meir.

Nú berast af því fréttir að Smugan sé að lokast. Þá er kannski best að geyspa einhverju frá sér, með golunni?

Það bar helst til tíðinda að við hjónin brugðum okkur í bústað í eigu stéttarfélagsins um liðna helgi.

Sælt er að leigja sumarhús,
saman þar má rækta
urtir fagrar í andans krús,
ást af brunni nægta.

Það er ágætt að hverfa af hversdagssviðinu, þó ekki sé nema í tvo daga,  stutt að fara upp í Hrunamannahrepp, svo ekki þarf að hafa áhyggjur af ferðaþreytu, sem gjarnan situr eftir þegar lengra er farið, að ekki sé talað um til útlanda í stuttum fríum. Og einn er meginkostur við Hreppana:

Frá vinnu gefst í Hreppum hlé,
hvíldar njóta skal.
Þar öllu bjargar að ég sé
upp í Laugardal.

Það má svo sem líka viðurkenna að víðar er fallegt heim að líta en í Laugardalinn. Reyndar er gjörvallur fjallahringur uppsveitanna óborganlegur. Ekki síst úr heita pottinum á heiðskíru vetrarkveldi. Þegar upp úr er komið er skrokkurinn líka alslakur:

Sæll ég niðr’ í sófann féll,
sá þá út um gluggann
að blasti við mér Bjarnarfell:
Breiddi sæng á muggan.

Í slíkum ferðum gerir maður sér dagamun í mat og drykk. Að þessu sinni var hvergi til sparað og hrossasteik í farangrinum, ásamt góðum veigum:

Bjór og hvítvín á kantinum.
Kjötið bráðnar í trantinum.
Laus við allt stress
vöknum við hress.
Svo funar kaffið í fantinum.

Þetta reyndist unaðsleg helgi. Og það besta við hana var að geta í bili látið fram hjá sér fara mestallt sigmundarlodderíið. Nóg verður víst samt á næstunni.

 

 

 

Jólakveðja 2012

Sendi ættingjum og vinum, og landsmönnum öllum, „hugheilar jólakveðjur“ og óskir um farsæld í bráð og lengd.

Er skuggarnir skríða’ upp á hól
í skammdegi, norður við pól,
þá á ljósið skal benda
og með logunum senda
gæfu og gleðileg jól.

Enn sækja að freistingafól,
með falsið og innantómt gól.
En lausnin er kær:
Líttu þér nær
um gæfu og gleðileg jól.

Hve Siggi er sætur í kjól!
Já, og Solla með tæki og tól!
Ef mót straumi þið syndið
veitir umburðarlyndið
gæfu og gleðileg jól.

Í fjölskyldufaðmi er skjól.
Hann er friðar og kærleikans ból.
Þar ávallt þú veist
að geturðu treyst
á gæfu og gleðileg jól.

Haust

Gulnuð blöðin
þéttskrifuð annálum,
undarlegum sögum
sem berast með vindinum
utan úr heimi.

Þau bíða örlaga sinna
í sagga
eða sólþurrki
en lenda flest að lokum
í öruggri geymslu
með nákvæmlega útreiknuðu
rakastigi.

Þannig er tryggð
varanleg geymd
hins markverðasta.

Því löngu seinna
verða þessi pergamenti
sprotar nýrra athugana

ný blöð verða þá dregin fram
og ritaðir á þau
nýir annálar
komandi kynslóða.

Af heimilisstörfum

Dagurinn í gær, sunnudagurinn 26. ágúst, var ágætur. Á meðan konan bograði í berjamó uppi í Grafningi hafði ég það notalegt heima við, þó ég hafi svo sem líka haft ýmislegt fyrir stafni, og sumt af því hægara um að tala en í að komast. Um það vitna margar misheppnaðar vísur. Sannarlega er ekki þrautalaust að kvelja sig gegnum allar bækur – og blöðin, maður lifandi, þarf að segja meira? En svona var dagurinn minn í stórum dráttum – þar til ég fór að gæða mér á berjum!

Framá settist, mig fetti, þvó,
át frókost, þó lýsið skorti.
Blaði fletti, blettinn sló,
bók las, vísur orti.

Kunningi minn gerði athugasemdir við þessa framsetningu, sagði að hann „hefði viljað fá sléttubönd“. Ég lét það auðvitað eftir honum, og raðaði upp sjálfsmynd af mér við heimilisstörfin:

Þjónar, stritar, sjaldan sér
sjálfum hampar maður.
Bónar, skúrar, aldrei er
argur, leiður, staður.

Ekki er samt loku fyrir það skotið að eftirfarandi mynd sé raunsærri en hin fyrri:

Staður, leiður, argur er,
aldrei skúrar, bónar.
Maður hampar sjálfum sér,
sjaldan stritar, þjónar.

Og fyrst ég er byrjaður er best að bæta við öðrum sléttuböndum, svona fyrir svefninn:

Fórnar sopa, þeigi þver
þrekið, veldur sjálfur.
Stjórnar drykkju, fráleitt fer
fullur eða hálfur.

Hálfur eða fullur fer,
fráleitt drykkju stjórnar.
Sjálfur veldur, þrekið þver,
þeigi sopa fórnar.

Gildi fagþekkingar

Ég las á visir.is að „Lilja Mósesdóttir, stofnandi Samstöðu – flokks lýðræðis og velferðar, ætlar ekki að gefa kost á sér í embætti formanns flokksins á landsfundi flokksins í byrjun október…Hún segist ætla að axla þannig ábyrgð á fylgistapi flokksins undanfarna mánuði…Hún verður þó áfram félagsmaður í Samstöðu. Fram að næstu alþingiskosningum ætlar hún að einbeita sér að störfum sínum á þingi [þar] sem hún segist hafa leitast við að nýta fagþekkingu sína…“:

Hagfræðingur, hörð í skapi,
helsta vonin innan þings,
með fagþekkingu í fylgistapi
og forðast hylli almennings.