Laus við allt stress

Það eru liðnir rúmir þrír mánuðir síðan ég skrifaði síðast pistil hér á síðuna.  Ekki svo að skilja að nokkur maður sakni þess, en ástæðurnar fyrir þessari löngu „þögn“ eru nokkrar. Í fyrsta lagi hefur verið afar mikið að gera. Vinnan vill þvælast fyrir manni, fram á kvöld og um helgar líka. Svo er nóg að gera í tamningunum. Karlakórinn, Árgali. Að ekki sé talað um alla körfuboltaleikina sem bæði er ljúft og skylt er að sækja.

Ég er búinn að skrifa svo mikið um mennta- og skólamál að ég nenni því ekki lengur, í bili a.m.k. Í annríkinu kemur svo andinn ekki almennilega yfir mann – alla vega lætur ekkert birtingarhæft á sér kræla.

Og pólitíkin, maður lifandi! Hún er með slíkum endemum að þyrmir alveg yfir mann. Best að hafa ekki orð um það meir.

Nú berast af því fréttir að Smugan sé að lokast. Þá er kannski best að geyspa einhverju frá sér, með golunni?

Það bar helst til tíðinda að við hjónin brugðum okkur í bústað í eigu stéttarfélagsins um liðna helgi.

Sælt er að leigja sumarhús,
saman þar má rækta
urtir fagrar í andans krús,
ást af brunni nægta.

Það er ágætt að hverfa af hversdagssviðinu, þó ekki sé nema í tvo daga,  stutt að fara upp í Hrunamannahrepp, svo ekki þarf að hafa áhyggjur af ferðaþreytu, sem gjarnan situr eftir þegar lengra er farið, að ekki sé talað um til útlanda í stuttum fríum. Og einn er meginkostur við Hreppana:

Frá vinnu gefst í Hreppum hlé,
hvíldar njóta skal.
Þar öllu bjargar að ég sé
upp í Laugardal.

Það má svo sem líka viðurkenna að víðar er fallegt heim að líta en í Laugardalinn. Reyndar er gjörvallur fjallahringur uppsveitanna óborganlegur. Ekki síst úr heita pottinum á heiðskíru vetrarkveldi. Þegar upp úr er komið er skrokkurinn líka alslakur:

Sæll ég niðr’ í sófann féll,
sá þá út um gluggann
að blasti við mér Bjarnarfell:
Breiddi sæng á muggan.

Í slíkum ferðum gerir maður sér dagamun í mat og drykk. Að þessu sinni var hvergi til sparað og hrossasteik í farangrinum, ásamt góðum veigum:

Bjór og hvítvín á kantinum.
Kjötið bráðnar í trantinum.
Laus við allt stress
vöknum við hress.
Svo funar kaffið í fantinum.

Þetta reyndist unaðsleg helgi. Og það besta við hana var að geta í bili látið fram hjá sér fara mestallt sigmundarlodderíið. Nóg verður víst samt á næstunni.

 

 

 

Jólakveðja 2012

Sendi ættingjum og vinum, og landsmönnum öllum, „hugheilar jólakveðjur“ og óskir um farsæld í bráð og lengd.

Er skuggarnir skríða’ upp á hól
í skammdegi, norður við pól,
þá á ljósið skal benda
og með logunum senda
gæfu og gleðileg jól.

Enn sækja að freistingafól,
með falsið og innantómt gól.
En lausnin er kær:
Líttu þér nær
um gæfu og gleðileg jól.

Hve Siggi er sætur í kjól!
Já, og Solla með tæki og tól!
Ef mót straumi þið syndið
veitir umburðarlyndið
gæfu og gleðileg jól.

Í fjölskyldufaðmi er skjól.
Hann er friðar og kærleikans ból.
Þar ávallt þú veist
að geturðu treyst
á gæfu og gleðileg jól.

Haust

Gulnuð blöðin
þéttskrifuð annálum,
undarlegum sögum
sem berast með vindinum
utan úr heimi.

Þau bíða örlaga sinna
í sagga
eða sólþurrki
en lenda flest að lokum
í öruggri geymslu
með nákvæmlega útreiknuðu
rakastigi.

Þannig er tryggð
varanleg geymd
hins markverðasta.

Því löngu seinna
verða þessi pergamenti
sprotar nýrra athugana

ný blöð verða þá dregin fram
og ritaðir á þau
nýir annálar
komandi kynslóða.

Af heimilisstörfum

Dagurinn í gær, sunnudagurinn 26. ágúst, var ágætur. Á meðan konan bograði í berjamó uppi í Grafningi hafði ég það notalegt heima við, þó ég hafi svo sem líka haft ýmislegt fyrir stafni, og sumt af því hægara um að tala en í að komast. Um það vitna margar misheppnaðar vísur. Sannarlega er ekki þrautalaust að kvelja sig gegnum allar bækur – og blöðin, maður lifandi, þarf að segja meira? En svona var dagurinn minn í stórum dráttum – þar til ég fór að gæða mér á berjum!

Framá settist, mig fetti, þvó,
át frókost, þó lýsið skorti.
Blaði fletti, blettinn sló,
bók las, vísur orti.

Kunningi minn gerði athugasemdir við þessa framsetningu, sagði að hann „hefði viljað fá sléttubönd“. Ég lét það auðvitað eftir honum, og raðaði upp sjálfsmynd af mér við heimilisstörfin:

Þjónar, stritar, sjaldan sér
sjálfum hampar maður.
Bónar, skúrar, aldrei er
argur, leiður, staður.

Ekki er samt loku fyrir það skotið að eftirfarandi mynd sé raunsærri en hin fyrri:

Staður, leiður, argur er,
aldrei skúrar, bónar.
Maður hampar sjálfum sér,
sjaldan stritar, þjónar.

Og fyrst ég er byrjaður er best að bæta við öðrum sléttuböndum, svona fyrir svefninn:

Fórnar sopa, þeigi þver
þrekið, veldur sjálfur.
Stjórnar drykkju, fráleitt fer
fullur eða hálfur.

Hálfur eða fullur fer,
fráleitt drykkju stjórnar.
Sjálfur veldur, þrekið þver,
þeigi sopa fórnar.

Gildi fagþekkingar

Ég las á visir.is að „Lilja Mósesdóttir, stofnandi Samstöðu – flokks lýðræðis og velferðar, ætlar ekki að gefa kost á sér í embætti formanns flokksins á landsfundi flokksins í byrjun október…Hún segist ætla að axla þannig ábyrgð á fylgistapi flokksins undanfarna mánuði…Hún verður þó áfram félagsmaður í Samstöðu. Fram að næstu alþingiskosningum ætlar hún að einbeita sér að störfum sínum á þingi [þar] sem hún segist hafa leitast við að nýta fagþekkingu sína…“:

Hagfræðingur, hörð í skapi,
helsta vonin innan þings,
með fagþekkingu í fylgistapi
og forðast hylli almennings.

Af pólitískum væringum

Vangaveltur hafa verið í fjölmiðlum um breytingar á ríkisstjórn. RÚV segir t.d.: „Katrín í stað Oddnýjar-Líklegast þykir að Katrín Júlíusdóttir taki sæti Oddnýjar G. Harðardóttur…“

Jóku reynist blóðug ben,
broddur stingur svoddan.
Kötu skiptir inná, en
Odda leggst á koddann.

Þá var Guðmundur Rúnar Árnason ráðinn verkefnastjóri hjá Þróunarsamvinnustofnun. DV segist hafa heimildir fyrir því að Össur utanríksiráðherra hafi verið með puttana í málinu og Smugan slær því upp að ráðinn hafi verið „hæfasti Samfylkingarmaðurinn“. Framkvæmdastjóri stofnunarinnar þvertekur í DV fyrir pólitískan þrýsting:

Hlutlægt farið málið með,
matið faglegt hljómar þanninn:
Össur, jafnan röskur, réð
rétta Samfylkingarmanninn!

Kærleiksheimilið

Ef ég man rétt sagði vitur maður (HKL) eitt sinn eitthvað á þá leið að því ákafar sem sagnfræðingar reyndu að höndla sannleikann, því lengra hyrfu þeir inn í heim skáldskaparins. Þess vegna er sjálfsagt ástæðulaust að taka mikið mark á doktor Guðna Th. Jóhannessyni, sem lét hafa það eftir sér að forsetinn og forsætisráðherra ættu að geta rætt saman á vinsamlegum nótum um hefðir og skyldur handhafa forsetavalds þegar forsetinn yfirgefur landið. En á kærleiksheimili sagnfræðinnar gæti þetta verið einhvernveginn svona:

Núna forsetinn fyr oss
axlar kross: ástandið.
Jóka hossi, svo kærleikskoss
er kveður „posh-ið“ landið.

Fanna skautar faldi háum

Gönguferð Abbalabba (gönguhóps starfsfólks F.Su.) frá Skálpanesi, um Jarlhettur, að Einifelli, Hlöðuvöllum, á Skjaldbreið, að Kerlingu, um Klukkuskarð og Skillandsdal að Laugarvatni, lauk sl. föstudag. Skemmtileg ferð í stórbrotinni náttúru með stórbrotnum félögum. Ort á toppi Skjaldbreiðs:

Á toppi Skjaldbreiðs: „Fanna skautar faldi háum…“

Geng á háan Skjaldbreið, skoða
skíragullin fjallaranns.
Sköpun elds og ísa goða
ætíð greipt í huga manns.

Á göngu frá Kerlingu að Klukkuskarði varð til þessi vísnagáta. Um að gera að ráða hana og setja lausnina, sem er stakt orð, íslenskt nafn, í athugasemdakerfið:

Þessi einhver styðst við staf.
Stríðinn Óðinn svörin gaf.
Skjaldborg nafni í sælu svaf.
Sést á Neti vísnaskraf.

Og efst í Klukkuskarði, þegar hver á fætur öðrum brölti upp síðustu brekkuna, með einlægt bros á vör:

Síst á Abbalöbbu lát,
lokabrattann marði.
Upp sig glennti ofsakát
efst í Klukkuskarði.